Vera - 01.10.1983, Blaðsíða 24

Vera - 01.10.1983, Blaðsíða 24
Borgarmálaráðstefna Borgarmálaráðstefna Kvennaframboðsins. Helgina 7-8. maí s.l. hélt Kvennaframboðið borgar- málaráðstefnu i Norræna húsinu. Um það leyti var liðið eitt ár frá borgarstjórnarkosningum og ætlunin var að setjast niður og meta starfið eftir fyrsta árið. Á dagskrá voru umræður um störfin að borgarmálun- um, bæði í borgarstjórn, ráðum og nefndum, og eins innra starf, þ.e. störf bakhópanna og borgarmálaráðsins. Stefna og starfshættir voru einnig á dagskrá, og hvernig mætti bæta þá. Við spurðum okkur þeirra spurninga hverju við hefðum áorkað á þessu ári og hvort seta tveggja kver.na í borgarstjórn og fjölmargra annarra í ráðum og nefndum Reykjavíkurborgar hefði einhverju breytt. Hvaða stefnu hefur Kvennaframboðið mótað og hvernig hefur okkur tekist að framfylgja þeirri stefnu? Borgarfulltrúarnir höfðu stutta framsögu og þá fluttu nefndarkonur stuttar skýrslur. Síðan urðu almennar um- ræður og urðu helstu niðurstöður okkur kannski þær, að þótt mörgum þætti hægt miða og að illa gengi stundum að fá málum okkar framgengt þá hefði okkur aðeins þok- að. í málflutningi sínum hefðu kvennaframboðskonur haft frumkvæðið að ýmsum málum, lagt áherslu á breytta for- gangsröð og haldið uppi andófi. Hvað félagsmálin snerti þá hefðum við lagt áherslu á að auka félagslega þjónustu við borgarbúa, en í störfum að umhverfis- og skipulags- málum hefði meira borið á andófinu, við höfum t.d. mót- mælt byggingu stórhýsa í gamla bænum. í öllum málefn- um höfum við reynt að taka fyllsta tillit til hins mannlega þáttar. Þá hafa fulltrúar Kvennaframboðsins flutt tillögur um aukin áhrif íbúa á stjórn borgarinnar og síðast en ekki síst tekið upp mál er snerta konur sérstaklega, bæði ungar og gamlar. I umræðum um starf bakhópann þá vorum við flestar sammála um að stuðningur væri að starfinu, þó ýmislegt mætti betur gera svo starfið verði markvissara. Töluvert var rætt um stærð og samsetningu bakhópanna og ekki voru nú allar á einu máli um hvernig væri best að skipu- leggja þá. Fáir stórir hópar, eða fleiri minni? Báðir mögu- leikar hafa sína kosti og galla en þó voru heldur fleiri á því að kostir stórra hópa væru fleiri. Síður væri hætta á að málefnin slitnuðu úr samhengi og auðveldara væri því að halda þeirri heildaryfirsýn, sem allar töldu nauðsynlega. Umræða um stefnu og starfshætti fór fram í tveimur starfshópum seinni daginn. Rætt var um hvernig stefnu- mótum gæti best farið fram og hvernig við gætum bætt starfshættina. Eins og komið hafði fram á fyrra degi voru margar sem töldu stefnu Kvennaframboðsins ekki nógu Ijósa en töldu að með skýrari stefnumörkun yrði auð- veldarar að vinna markvisst að borgarmálunum. Rætt var unr hvort stefnumótun ætti að fara fram í bak- hópunum, eða hvort þær konur sem sætu í nefndunum ættu að vinna drög að stefnu sem bakhópar og borgar- málaráð ynnu síðan. í báðum hópum hafði komið upp sú hugmynd að settir yrðu á laggirnar sérhópar sem ynnu að stefnumótunn. Þetta yrði um leið endurskoðun á stefnu- skránni frá því fyrir kosningar, því hana væri þörf á að dýpka og útvíkka í ljósi fenginnar reynslu. Hver hópur tæki afmarkaðan málaflokk og ynni aðeins í stuttan tíma, en það væri leið til að virkja fleiri konur í starfið og jafn- framt fengju þær sem sætu „í súpunni" þann stuðning sem margar söknuðu. Hugmynd sem einnig hafði komið fram fyrri daginn, um að hægt væri að halda opna fundi um einstaka málaflokka, skaut aftur upp kollinum og var talað um að slíka fundi gætu hóparnir haldið þegar þeir lykju störfum. Þegar farið var að ræða vinnubrögðin í bakhópunum og í borgarmálaráði voru allar sammála um að hægt væri að bæta þau. Við þyrftum að beita sjálfar okkur meiri aga, aðallega meiri stundvísi og betri fundarstjórn, og undirbúa fundina betur. Sú skoðun kom fram að það þyrfti að halda borgarmálaráðsfundina oftar, fyrir hvern borgarstjórnarfund. Útgáfumálin bar einnig á góma, það er bagalegt að eiga ekki málgagn, dagblað eða vikublað, sérstaklega þegar blöðin sjá ekki ástæðu til að geta Kvennaframboðsins nema ef þeim þykir okkur hafa tekist illa. En blaðaútgáfa er viðamikið fyrirtæki og fjárfrekt og ekki fundum við lausn á blaðaleysinu á þessari ráðstefnu. Það þyrfti því að reyna aðrar leiðir til að ná út fyrir Víkina, því allar voru sammála um að mikilvægt væri að koma upplýsingum og fréttum úr borgarstjórn til borgarbúa. Þegar ráðstefnunni lauk, þá fannst öllum að gagnlegt hefði verið og gaman að setjast niður og ræða málin og þó ekki væri alltaf skemmtun að sitja fundi í ráðum og nefndum borgarinnar og oft værum við í hlutverki Davíðs sem glímdi við Golíar (já þess Davíðs, ekki hins) þá voru allar tilbúnar til, að halda áfram. Guðný Gerður. 24

x

Vera

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vera
https://timarit.is/publication/858

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.