Árbók VFÍ/TFÍ - 01.06.2008, Page 196
Undirbúningur
Fyrstu skrefin í því að fara í framkvæmd sem þessa eru að velja upphafs- og endapunkt
og svo leiðina þar á milli. Á íslandi var lagt upp með það að næsti sæstrengur kæmi á
land mun nær höfuðborgarsvæðinu en FARICE-1 sæstrengurinn, meðal annars til þess
að auka líkur á því að sambönd hér innanlands myndu ekki rofna til beggja sæstrengja
í sömu andránni (þá sérstaklega ef um einhverjar náttúruhamfarir væri að ræða). Eftir
viðræður við þá sem þekkingu hafa, m.a. jarðfræðinga, var lagt upp með að strengurinn
kæmi á land á suðurströndinni, frá Vestmannaeyjum í austri og að Þorlákshöfn í vestri.
I beinu framhaldi var þá farið í viðræður við sjómenn á þessu svæði þar sem að lagning
sæstrengs getur haft gríðarleg áhrif á þeirra hagsmuni. Þær viðræður skiluðu
niðurstöðu sem allir málsaðilar eru sáttir við og er sú leið notuð í dag við lagningu
strengsins.
Öllu meira mál var að velja hvert strengurinn skyldi fara. í upphafi var unnið út frá því
að strengurinn færi til Bretlands eða Irlands þar sem tengjast mætti ýmsum kerfum sem
gætu flutt fyrirhugaða umferð til London. En um það leyti sem skoðun á þessum
möguleikum var í fullum gangi fór áhugi manna á því að hefja rekstur gagnavera á fulla
ferð og lýstu þeir aðilar sem við var rætt allir yfir þeirri skoðun sinni að ekki kæmi til
greina að byggja upp gagnaver hér á landi ef báðir sæstrengirnir færu til Bretlands með
London sem endapunkt. Það var því ekki um annað að ræða en að víkka út sjóndeildar-
hringinn og líta til annarra landa heldur lengra í austri. Skoðaðir voru möguleikar á að
fara með strenginn til Noregs, Danmerkur, Þýskalands og Hollands og eftir vel ígrund-
aða kosti varð Danmörk fyrir valinu. Ástæður þess eru þó nokkrar, en meðal annars þær
að botninn sunnar í Norðursjónum er talinn erfiðari til lagningar vegna olíuiðnaðarins.
Einnig er mikil hreyfing á botninum þegar komið er nálægt norðurströnd Þýskalands og
Hollands. Einnig opnar þetta möguleika á styttri leiðum yfir til Eystrasaltslandanna og
annarra landa í Austur-Evrópu, en þar eru mjög vaxandi markaðir og gætu gagnaver
hér á landi þjónað þeim markaði að einhverju leyti.
Það eru þó margar hindranir á leið sem þessari og ýmsir kostir sem varð að velja á milli
og í sumum tilfellum var enginn þeirra góður. Til dæmis var val á milli þess að taka
strenginn yfir Íslands-Færeyjahrygginn þar sem töluverðar veiðar eru á ákveðnum
svæðum og hins vegar að fara suður fyrir Færeyjar og á milli Hjaltlandseyja og Orkneyja,
en þar eru stór svæði þar sem ekki er nokkur leið að plægja strenginn niður. Vitað er að
aðrir strengir hafa verið slitnir á þessum stöðum þó nokkuð oft.
Það er líka töluvert mikið mál að að leggja streng suður eftir Norðursjónum þar sem
gríðarlega mikið er af olíuleiðslum og olíuborpöllum sem þarf ýmist að sneiða hjá eða
þvera.
Leiðin sem valin var er frá landi Hallgeirseyjar í Landeyjum og djúpt suður af íslandi yfir
Islands-Færeyjahrygginn, suður með vesturströnd Noregs yfir mikil olíusvæði og endar
svo í Blábjerg á vesturströnd Jótlands (sjá mynd 1).
Áður en byrjað er að leggja strenginn þarf að rannsaka botninn á allri leiðinni og var
norskt fyrirtæki, DOF, fengið í það verk. Það krefst mikillar nákvæmni að kortleggja leið
sem þessa, sérstaklega þar sem á að plægja strenginn niður (gert er ráð fyrir að plægja
strenginn alls staðar niður í botninn niður á 1500 m sjávardýpi). Leiðin fyrir plóginn þarf
að vera greið og án allra hindrana; sem dæmi eru klettar eða steinar sem eru lxlm og
stærri merktir inn á kortin. Einnig er harka botnlaganna mæld ásamt þrívíddarmódeli af
botninum. Reynt er að taka mið af niðurstöðum botnrannsóknanna við hönnun og fram-
leiðslu á strengnum og er hann hannaður miðað við aðstæður á hverjum stað.
194 i Árbók VFÍ/TFl 2008