Bændablaðið - 10.03.2011, Blaðsíða 20

Bændablaðið - 10.03.2011, Blaðsíða 20
20 Bændablaðið | fimmtudagur 10. mars 2011 Hjá Leiðbeiningamiðstöðinni á Sauðárkróki er unnið fjölþætt starf varðandi aðstoð við bændur á svæðinu. Eiríkur Loftsson, framkvæmdastjóri og ráðunautur í nautgriparækt og jarðrækt, segir ráðunautastarfið snúist mikið í kringum, skýrsluhald og kynbóta- starf. „Þá er gerð fóðuráætlana og áburðaráætlana mikilvæg.“ Eiríkur segir að vegna sam- dráttar í fjárveitingum samkvæmt búnaðarlagssamningi þá þurfi Leiðbeiningastöðin að fara að huga að því að rukka bændur í auknu mæli beint fyrir veitta þjónustu. Lítið sé þó farið að reyna á það enn. „Okkar þjónustusvæði er Skagafjarðarsýsla. Auk þess höfum við þjónustað Siglufjörð fram að þessu en nokkur breyting hefur orðið á því með tilkomu Héðinsfjarðarganga. Ég sinni naut- griparækt og jarðrækt auk þess að gera eitthvað af búrekstaráætl- unum. Við erum þrír ráðunautar hér í fullri vinnu en einn Steinunn Anna Halldórsdóttir, sauðfjár- og hrossaræktarráðunautur, er í fæð- ingarorlofi eins og er. Við réðum Sigríði Ólafsdóttur frá Víðidalstungu í hálft starf á meðan. Auk mín og Sigríðar er svo Eyþór Einarsson, hrossa- og sauðfjárræktarráðu- nautur. Þá er fjórði ráðunauturinn, Einar E. Einarsson landsráðunautur í loðdýrarækt sem þjónar landinu öllu. Hann er einnig með aðsetur á Sauðárkróki en er þó aðeins í 10% starfi hjá Leiðbeiningarmiðstöðinni og 90% starfi hjá Bændasamtökum Íslands.“ Hjá okkur er svo rekin bókhaldsþjónusta og þar eru Fjóla Viktorsdóttir og Sigríður Magnúsdóttir við störf ásamt Brynju Ingimundardóttur sem sér um að svara í símann og vinna fjölmörg verkefni við skráningar og fleira sem til fellur. Jarðræktarvefurinn jörð.is tekinn í gagnið Sigríður er að vinna með okkur í átaki varðandi jarðræktarvefinn jord.is. Hún er að reyna að koma honum notkun hjá bændum og gera viðeigandi lagfæringar á loft- myndagrunni svo túnkortin verði rétt. Þannig eiga menn að geta farið að nota jörð.is til að gera áburðar- áætlanir og halda utan um áburðar- notkun og uppskeru ein og þeim vef er ætlað. Þetta er miðlægur gagna- grunnur sem getur haldið utan um áburðarnotkun, bæði búfjáráburð og tilbúin áburð. Ræktunarsögu túnanna og hvað þau eru í raun að gefa af sér og í gegnum þetta er síðan hægt að gera áburðaráætlanir. Allar þessar upplýsingar hafa menn verið að skrá í gegnum tíðina en það hefur ekki verið aðgengilegt í miðlægum gagnagrunni. Sumir hafa þó verið með mjög gott bókahald yfir þetta en aðrir lakara eins og gengur. Ég á kannski ekki von á að það muni margir lesa þarna inn sínar gömlu upplýsingar en auðvitað er það hægt. Við erum að reyna að koma þessu sem fyrst í gagnið hjá þeim sem við vitum að muni sinna þessu vel. Til viðbótar geta menn skrifað út úr þessu kerfi eyðublöð fyrir gæða- handbók sem menn þurfa að skila varðandi áburðarnotkun og upp- skeru.Í jörð.is hafa menn aðgang að sínum túnkortum til að skoða þau og gera mælingar á vegalengdum og flatarmáli. Bændur geta þar haft aðgang að þessum jarðræktarvef. Þá geta kúabændur haft aðgang að Huppu, sauðfjárbændur að Fjarvis og hrossabændur að World Feng. Gagnvirkt kerfi á vefnum „Við munum gera áburðaráætlanir núna í þessu kerfi en við byrjuðum aðeins á því í fyrra. Þetta er eitt af þeim forritum sem verða til staðar á Bændatorginu svokallaða hjá Bændasamtökunum. Ég get því gert áætlun í kerfinu og bóndinn síðan skoðað hana hjá sér. Bóndinn getur því líka gert sína eigin áætlun í kerf- inu og óskað eftir því að ég geri athugasemd við áburðaráætlunina. Þá get ég farið inn í kerfið mínu lykilorði og skoðað hvað hann er búinn að gera og gert athugasemdir við það. Þetta opnar því heilmikla möguleika.“ Meiri skilningur á áburðarstýringu en áður Er vaxandi skilningur á gildi stýr- ingar í áburðargjöf hvað varðar hlutföll lífræns áburðar og tilbúins áburðar? „Já, það mun meira hugsað um þessa hluti núna en áður. Eftir að áburðarverð hækkaði fóru menn að hugsa um að nýta áburðinn betur. Bæði hvað varðar tímasetningu dreifingar og betri skipulagningu á hvar áburðurinn er borinn á. Á móti kemur að bændur eru farnir að nota meira af hálmi sem undirburði undir skepnur og þá er það ekki eitthvað sem menn bera á tún strax. Slíkum áburði moka menn þá út og láta ann standa og brjóta sig í kannski eitt ár og dreifa honum þá frekar í flög þar sem hann er plægður niður.“ Sumir farnir að óttast kal Kal í túnum í Skagafirði hefur að sögn Eiríks ekki verið vandamál svo neinu nemi síðan 1999. Það ár var kal reyndar vandamál víða allt land. „Ég á ekki von á kali í ár nema hugsan- lega á stöku stað þar sem snjóinn frá í haust hefur ekki tekið upp. Ef svell liggja á túnum fram í mars, apríl þá má búast við að þau verði farin að valda skemmdum og gróðurinn að skaðast vegna súrefnisskorts.“ Kvarta ekki undan verkefnaleysi Eiríkur segir að á haustin sé jafnan mikil törn í sauðfjárskoðun. Þar eru lömbin metin og bændur aðstoð- aðir við að velja lömb til ásetnings. „Framundan er svo landsmót hjá hestamönnum og örugglega mikil spenna varðandi kynbótadóma í vor.“ Sem kunnugt er var landsmótið slegið af í fyrra vegna hrossapestar- innar. Eiríkur segir að staðan eigi að vera orðin þolanleg hvað það varðar og hóstapestin að mestu yfirstaðin. Að öðru leyti segir Eiríkur að mikið sé jafnan að gera hjá ráðu- nautunum í Skagafirði. Ekki þurfi að kvarta undan verkefnaleysi. Bankakreppan hafi aukið skuldir bænda mikið og staðan sé mjög slæm hjá sumum þeirra. Þá hafi úrlausn þeirra mál miðað afar hægt eins og öðrum uppgjörsmálum sem snerta bankana í landinu. Búfjáreftirlit getur verið viðkvæmt Í sumum búnaðarsamböndunum hafa menn tekið að sér búfjár- eftirlit fyrir sveitarfélögin sem annars hafa það lögformlega á sinni könnu. Slík verkefni hefur Leiðbeiningastöðin á Sauðárkróki m.a. tekið að sér. Segir Eiríkur að sérstakir menn starfi við það búfjár- eftirlit en haustskýrslum sé öllum skilað til Leiðbeiningastöðvarinnar. Búfjáreftirlitsmenn fara seinni hluta vetrar til allra búfjáreigenda og athuga með aðbúnað og fóðrun dýra. „Ef þeir sjá eitthvað ábótavant ber þeim að gera héraðsdýralækni við- vart. Þar með er málið úr þeirra hönd- um og er þeim ekki ætlað sjálfum að taka beint á málum. Vitanlega er það þó þannig að minni háttar mál fara ekki lengra ef búfjáreigandi fer að athugasemdum búfjáreftirlitsmanna. Ef það er eitthvað stærra þá vísa þeir málinu áfram til héraðsdýralæknis.“ Matsatriði hvar fína línan liggur Eiríkur segir að það geti vissulega orkað tvímælis að blanda saman ráðgjöf og eftirliti þegar ráðunautur sinni búfjáreftirlitinu. Slíkt geti kallað á árekstra og óþægindi. „Þetta fyrirkomulag gefur ráðu- nautunum hinsvegar færi á að ráð- leggja bændum sem ella leita sjaldan eða aldrei til þeirra. Þegar mál eru komin í hendur héraðsdýralæknis kallar hann jafnan til ráðunaut sem fagaðila til að fara með sér í eftirlits- heimsóknir. Ef málin eru komin svo langt er mikilvægt að sömu menn- irnir komi ekki að málinu á fleiri en einu stigi þess. Alhæfingar varasamar Eiríkur segir það ekki algengt að gera þurfi ábendingar um eitthvað sem betur megi fara hjá bændum varðandi aðbúnað og fóðrun. Sumir taki því vel en öðrum þyki jafnvel að sér vegið eins og gengur. Síðan hefur oft reynst erfitt að ljúka málum sem kærð hafa verið og koma þeim í eðlilegan farveg eins og forsíðufrétt í síðasta Bændablaði bendir til. „Sá hópur bænda sem leitar þjónustu hjá og ráðgjafar hjá okkur er nokkuð breytilegur eftir því um hvaða þjónustu er að ræða. Yngri bændur eru áberandi í þeim hópi sem leitar til okkar og eins er ákveð- inn hópur sem nýtir sér þjónustuna stöðugt og reglulega. Þar er oft um mjög reynslumikla og góða bændur að ræða og stundum ekki síður þannig að við ráðunautarnir sækjum aðferðir og reynslu í smiðju til þeirra bænda sem við teljum til fyrirmyndar. Í okkar starfi fellst m.a. að miðla upplýsingum frá þeim sem eru að ná góðum árangri til þeirra sem gætu haft gagn af því. Mikilvægt er einnig hjá okkur að halda fræðslufundi og námskeið. Okkur hefur lánast í samstarfi við búgreinarfélögin eða vera með áhugaverða stutta fræðslufundi. Okkar reynsla er að mæting hefur verið góð á þá fundi og námskeið sem við höfum haldið. Einkum þau styttri,“ segir Eiríkur Loftsson. /HKr. Leiðbeiningamiðstöðin á Sauðárkróki sinnir víðtækum verkefnum: Vaxandi skilningur á gildi stýringar í áburðargjöf Eiríkur Loftsson, framkvæmdastjóri Leiðbeiningamiðstöðvarinnar á Sauðárkróki. Mynd | HKr. Bjarni Arason, sem nú er fallinn frá, skilur í mínum huga eftir mikið af björtum minningum. Hann hafði ég þekkt lengur en nokkurn annan samstarfsmann úr leiðbeiningaþjónustu land- búnaðarins. Fyrst man ég hann sem dugmikinn ráðunaut norður í Eyjafirði þar sem hann vakti áhuga strákpatta á þeim mikla mun sem var að sjá hjá kúnum á bænum, hlut sem við áttum oft eftir að skiptast á skoðunum um, áratugum síðar, víða um sveitir landsins. Á þessum árum leið- beindi Bjarni eyfirskum bændum fyrst og fremst um nautgriparækt. Hann var einn hinna kraftmiklu leiðbeinenda sem um miðja öldina komu til starfa fyrir íslenska land- búnað við það nýja landnám, sem þá fór fram í sveitum landsins. Bjarni var í fyrsta hópnum sem vorið 1949 lauk prófi frá fram- haldsdeildinni á Hvanneyri. Bjarna minnist ég líka frá þeim árum úr forystuliði þjóð- málaumræðu. Hann var af þeirri kynslóð, sem kom til starfa með íslenska lýðveldinu, og á þeim árum skipaði hann sér því í forustusveit þess fólks sem tók til varnar sjálf- stæði þjóðarinnar undir merkjum Þjóðvarnarflokksins. Síðan liggja leiðir okkar Bjarna næst saman árið 1970 þegar hann er í námsdvöl í Noregi. Þá var honum fyllilega ljóst að framtíð sveitanna væri háð því að þar mætti skapa fjöl- breyttari starfsvettvang en þar hafði verið til þess tíma. Nauðsynlegt var að finna ný störf fyrir það fólk, sem tækniframfarir höfðu leyst af hólmi í hefðbundnum búgreinum. Hann var því þarna kominn til að kynna sér möguleika ferðamennsku og hlunnindanýtingar í sveitum. Þar eins og svo oft var hann í forustu breytinganna. Þegar ég kem til starfa hér á landi verður Bjarni síðan einn nánasti sam- starfsmaður minn um langt árabil í nautgriparæktinni. Til hans var hægt að sækja mikla fræðslu um starfsemi í greininni undangengin ár og ætíð var Bjarni einn öflugasti talsmaður nauðsynlegra breytinga í framkvæmd og vinnubrögðum. Mest er samt birtan um minningar frá ógleyman- legum ferðalögum um grónar sveitir Borgarfjarðar á björtum vordögum um árabil til að skoða þar föngulegar kýrnar og meta árangur starfsins. Auk þess að stýra daglegri starfsemi Búnaðarsambands Borgarfjarðar var Bjarni í forustusveit samvinnu- manna í Borgarfirði og hafði af mikilli þekkingu á mönnum og mál- efnum að miðla. Í öllu samstarfi var Bjarni einstakur samstarfsmaður. Hann var með afbrigðum réttsýnn og greindur og fljótur að greina aðalatriði hvers máls. Um leið hafði hann mjög mikla hæfileika til að leiða sem flest mál til farsælla lausna í sátt og samlyndi. Hann var mikill röskleikamaður í starfi og gaman að vinna með honum vegna þess hve ætíð var gengið fumlaust og skipulega til starfa. Bjarni var mikill frásagnarmaður og átti létt með að greina spaugilegu hliðarn- arnar á hverju máli. Umbreytingarnar í landbúnaðinum hér á landi undir lok síðustu aldar voru greinilega mörgum hinum eldri leiðbeinendum þungbær- ar, þar sem þeim fannst sem þeir væru að snúast að vissu leyti gegn lífsstarfi sínu. Bjarni fannst mér takast á við þessi mál af meira raunsæi og festu en aðrir af hans kynslóð úr þessum hópi. Auk margháttaðra forustustarfa í héraði sinnti hann einnig mörgum málum bænda á landsvísu. Þannig var hann um langt árabil formaður stjórnar RALA og var þar eins og á öðrum sviðum gott að leita reynslu hans síðar. Með þessum fátæklegu orðum eru Bjarna Arasyni að leiðarlokum þökkuð ómetanleg kynni, sem aldrei bar skugga á, en færðu mér mikla þekkingu og víkkuðu sjóndeildar- hringinn. Kristínu og börnunum eru færðar innilegar samúðaróskir við fráfall þessa góða drengs. /Jón Viðar Jónmundsson Bjarni Arason – minningarorð

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.