Fréttatíminn - 13.01.2012, Blaðsíða 38
Ég geri ekki öllu meiri kröfur til sveitar-
félagsins míns en að þokkalega fært sé
heim og önnur smáósk, sem ég veit að
breytir ekki gangi himintungla, er að
kallarnir í áhaldahúsinu sæki til mín
jólatréð eftir þrettándann. Í þeim efnum
hefur Kópavogur staðið sig eftir atvikum
þokkalega.
Í hálkunni og manndrápsklakanum,
sem verið hefur á götum og gangstétt-
um að undanförnu, kom sandbíll heim
götuna þegar verst lét um liðna helgi.
Fært varð þar með hverri fólksbílspútu
og hægt var að stíga út úr slíkri án þess
að hætta væri á falli með beinbrotum
eða öðru verra. Áður hafði gatan verið
bærilega rudd enda snjóalög meiri á
höfuðborgarsvæðinu en verið hefur lengi
þótt Norðlendingar og ýmsir aðrir brosi
eflaust í kampinn þegar þeir heyra af
vandræðum fólks sunnan heiða í 20-30
sentimetra snjó eða afleiddum klaka. Ég
er ekki jafn viss um göngustígana í því
sæla sveitarfélagi. Áramótaheiti um dag-
legar göngur var nefnilega frestað fram
yfir klaka. Það verður að hafa það þótt
fitulag aukist þangað til. Betri er bumba
en brot, eins og máltækið segir.
Kópavogsstjórar létu þau boð út ganga
að fyrrverandi jólatré yrðu sótt svo fremi
að íbúar drösluðu þeim út fyrir lóða-
mörk. Það gerði ég samviskusamlega
og fjarlægði meira að segja seríurnar og
jólakúlurnar áður en ég kom trénu fyrir
á lóðarhorninu. Fyrir klóka stjórnmála-
menn er þetta afar skynsamleg aðgerð
og tryggir jafnvel endurkjör þegar þar
að kemur. Litlu hlutirnir skipta nefnilega
máli. Óreyndir stjórnendur bæjarfélaga
geta flaskað á þessu.
Auðvitað veit ég að þjónusta sveitar-
félaga snýst um margt annað en þetta
tvennt, heitt og kalt vatn, frárennsli, leik-
og grunnskóla, gatnalýsingu, menningar-
starfsemi, félagsþjónustu og almennings-
samgöngur svo eitthvað sé nefnt. Fyrir
það borgum við með útsvarinu og treyst-
um því að þeir sem kosnir eru til þjónustu
á fjögurra ára fresti fari bærilega með þá
aura.
En meginatriðið er þó að við komust að
heiman og heim. Við búum norður undir
heimskautsbaug og því má búast við því
að það snjói annað slagið að vetrarlagi
og jafnvel að klaki myndist. Bifreiðaeig-
endur eru góðfúslega beðnir að búa bíla
sína vel til vetraraksturs en þó er fremur
mælst til þess að þeir sleppi dekkjanögl-
um. Þeir fara illa með malbik. Þess í stað
hafa sveitarstjórnir á höfuðborgarsvæð-
inu heitið því að fært sé. Auðvitað getur
tekið tíma að ryðja, salta og sandbera
en ef snjórinn og klakinn er viðvarandi
í margar vikur ætti að gefast tími til að
sinna vörnum.
Um síðustu helgi var talsvert kvartað
undan því í höfuðborginni sjálfri að
hálkuvörnum væri lítt sinnt. Asahláku
gerði og akvegir og gangbrautir þar voru
sem gler. Lífshættulegt var að fara um.
Ofsagt er að borgaryfirvöld hafi rokið til
þegar ástandið var sem verst. Hvorki var
saltað né sandborið. Þörfin var ekki talin
knýjandi, það var jú helgi. Ekki er víst að
allir hafi haft skilning á rólegheitunum,
að minnsta kosti ekki þeir sem spólandi
sátu í vögnum sínum og þorðu ekki út
á glerið – svo ekki sé minnst á þá sem
reyndu göngu og brutu bein.
En það var ekki bara skortur á hálku-
vörn í Reykjavík sem gerði íbúunum lífið
leitt. Yfirvöld í því stóra sveitarfélagi
vildu heldur ekki sækja jólatré þeirra.
Sjálfsagt þykir það dýrt en varla dýrara á
haus en í Kópavogi eða Hafnarfirði. Þjóð-
hagslega, svo gripið sé til þess frasa, má
líka draga í efa að gáfulegt sé að beina 50
þúsund fólksbílum í Sorpu með eitt tré í
hverjum í stað þess að borgarstarfsmenn
sæki stertina á vörubíl heim í hverfin.
Það er því gott að búa í Kópavogi, eins
og Gunnar I. Birgisson veit manna best,
jafnvel þótt aðrir hafi tekið við meirihluta-
keflinu af honum. Þar með er ekki sagt
að klaki á akbrautum og gangstéttum
hafi ekki angrað þessa næstu nágranna
höfuðborgarbúa í tíðinni undanfarið en
sandbílar sáust að minnsta kosti í Kópa-
vogshverfum um síðustu helgi. Bæjar-
kallarnir sýndu lit. Svo hirtu þeir jólatrén,
því má ekki gleyma.
Þetta er rétt að hafa í huga detti ein-
hverjum í hug að sameina þessi tvö
stærstu sveitarfélög landsins. Sennilega
myndu Kópavogsbúar fella slíka hug-
mynd þótt ekki væri nema fyrir tregðu
stóra grannans í norðri að sækja brúkuð
jólatré. Eins falleg og þau eru við upp-
setningu er ekkert aðlaðandi við þurr tré
á þrettánda.
Hvernig á venjulegt fólk að koma
notuðu jólatré í Sorpu? Ekki er hægt að
ætlast til þess að fjöldinn eigi pikköppa
eða kerrur. Notað jólatré af meðalstærð
kemst ekki fyrir í skotti fólksbíls. Það er
ekki hægt að pakka því saman eins og
við kaup þegar það heldur barrinu. Fáum
dettur heldur í hug að troða því í aftur-
sæti heimilisbílsins og flytja það þannig
á áfangastað. Hætt er við að gumpur far-
þega verði þá aumur af barrnálastungum
fram á vorjafndægur.
Mín vegna mega kosningaloforðin vera
aðeins tvö og þau má syngja svo þau setj-
ist í minni líkt og herstöðvaandstæðingar
sungu á árum áður: „Ísland úr Nató – her-
inn burt!“ Þess í stað komi: „Sandburð á
klakann – tré-in burt!“
Betri er bumba en brot
Jónas
Haraldsson
jonas@
frettatiminn.is
HELGARPISTILL
É
AFSLÁTTUR
Útsala!
Allt á að seljast!
30%
Lioness: Hidden Treasures
Amy Winehouse
21
Adele
Haglél
Mugison
Meira en 6.500.000 lög!
My Head Is An Animal
Of Monsters And Men
Te
ik
ni
ng
/H
ar
i
38 viðhorf Helgin 13.-15. janúar 2012