Fréttatíminn


Fréttatíminn - 27.04.2012, Blaðsíða 38

Fréttatíminn - 27.04.2012, Blaðsíða 38
B yrjum á höfuðatriðinu, að minna á hið sjálfsagða, sem við samt gleymum svo óþarflega oft, eða horfum framhjá, sem týnist eða er hreinlega ekki nefnt í um- ræðunni, veit ekki afhverju, þykir kannski ekki nógu spennandi – en ágætu gestir, höfuð- atriðið, hin sjálfsögðu sannindi: Án þýðenda væru ekki til neinar heimsbókmenntir. Vanskilningur á heimsmælikvarða Án þýðenda væru allar bókmenntir lokaðar inni í sínu tungumáli, án þýðenda gæti eng- inn lesið íslenskar bókmenntir nema að læra íslensku. Enginn hefði lesið staf eftir Snorra Sturluson, Laxness, Guðberg, Steinunni Sigurðar, Hallgrím Helgason, Auði Övu Ólafs- dóttur, Gyrði, og svo framvegis. Ekkert gerist án þýðenda, það er svo einfalt, blasir við. Þýðandi er brúasmiður sem tengir lönd og menningarsvæði, flytur nýjar hugmyndir, nýja heima á milli fólks, og mörgum þeirra tekst að auki það sem á að vera vonlaust – að flytja mikinn, djúpvaxinn skáldskap milli tungu- mála, og þannig gleðja manneskjur, þannig bæta heiminn, stuðla að aukinni þekkingu og skilningi milli þjóða. En ef maður leiðir hugann að umræðunni – hér heima sem og annarstaðar – hugsar um veröld bókaútgáfunnar, suðandi tilveru bóka- messa, þá liggur við að maður geti gengið svo langt að tala um fjarveru þýðenda. Og geti þar af leiðandi um vanskilning á heims- mælikvarða. Vanskilning, undarlegt vanmat á ómissandi, ómetanlegu starfi þeirra. Það er margt í mörgu Umræðan um íslenskar bókmenntir erlendis verður hol ef við horfum ekki líka til þýðenda, stöðu þeirra, og spyrjum jafnframt hvernig við finnum þessar manneskjur úti í hinum stóra heimi, fólk sem er tilbúið að læra tungumál sem örfáir tala, og gera það að starfi sínu, lífs- starfi þessvegna, að þýða íslenskar bókmennt- ir. Eða erum við kannski svo stórfengleg og sérstök, bókmenntir okkar svo yfirþyrmandi góðar, að við þurfum ekkert að leiða hugann að þessu; fólk heimsins hefur ávalt sogast og mun áfram sogast að birtu íslenskunnar og mikilfengleika þjóðarinnar? Ég er ekki alveg viss um það. Ég er heldur ekki viss um að íslenskar bók- menntir, og við sjálf, séum svo yfirmáta sér- stök að bókaútgáfur heimsins bíði í ofvæni eftir nýjasta skáldverkinu ofan af Íslandi. Við erum undarlega samansett þjóð. Í senn útbólgin af sjálfstrausti, ef ekki sjálfbirgingi, og haldin svíðandi minnimáttarkennd – þver- sögn sem endurrómar í þeirri fyrstu spurn- ingu sem margur útlendingurinn fær á sig hérlendis, nefnilega, how do you like Iceland? Í spurningunni felst bæði kvíði og vissa; minnimáttakennd og mont. Kannski er það vegna legu landsins. Við liggjum svo fjarri heiminum, fámenn, einsleit eyþjóð, og horfum frekar í eigin spegilmynd en á aðrar þjóðir, skortir því samanburðinn, með öðrum orðum, mælum ekki stærð okkar við aðra heldur eigin spegilmynd, erum þessvegna átakanlega sjálf- miðuð og yfirleitt sannfærð um eigið ágæti. Sannfærð en þó með murrandi minnimáttar- kenndina undir og spyrjum því gesti okkar í sí- fellu, how do you like Iceland? Það má kannski orða það á þann veg, að það sé óvissan sem spyr, en sannfæringin gengur hinsvegar útfrá því að svarið eigi eftir að lýsa mikilli hrifn- ingu. Sumsé, við spyrjum ekki til að öðlast nýja sýn, bæta við okkur víddum, heldur til að staðfesta það sem við teljum okkur vita. Þegar Íslendingar voru hryðjuverkamenn Þessi sýn, sannfæring yfir því hversu sér- stæð við erum, áhugaverð og svo heillandi, endurómaði í ófáum ræðum forseta okkar, herra Ólafs Ragnars, þar sem hann útmálaði aðdáunarverða hæfileika Íslendinga og ein- stakan, óstöðvandi frumkraft þjóðarinnar. Það var líka hann sem var hvað ófeimnastur að minna á að við værum komin af víkingum sem, í hans skilningi, sigruðu heiminn svo glæsilega á sínum tíma – forsetinn kaus að gleyma því að forfeður okkar og formæður voru fyrst og síðast norskir bændur og írskir þrælar, kaus líka að gleyma því að víkingar voru einskonar hryðjuverkamenn síns tíma, ribbaldar sem eyðilögðu, rændu, drápu, nauðguðu, og því varla heppilegt að stæra sig af slíkum forfeðrum – hvað þá að reyna að draga dám af þeim. Blessunarlega flaug forsetinn ekki um heiminn á einkaþotum hetja sinna til að út- breiða íslenska menningu, hann hélt ekki ræður í London um gæði íslenskra nútíma- bókmennta, að heimurinn hefði eitthvað í þær að sækja, og forsetinn hefur lítið sinnt því að verðlauna úrvals þýðendur með fálkaorðu, var líklega of einbeittur að hengja þær á útrásar- víkinga sína. Stjórnvöld og meistrarar útrásarævintýris- ins höfðu, eins og forsetinn, heldur lítinn áhuga á menningu okkar, þeir fylgdu bara möntru frjálshyggjunnar: að græða á daginn, grilla á kvöldin. Og það getum við líklega þakkað fyrir, enda bendir flest til þess að áhugi þeirra á menningu hefði falist í því að virkja hana sem gjallarhorn, áróðustæki, fyrir það sem skipti máli að þeirra mati, samanber ímyndarskýrslu forsætisráðuneytis sem kom út í mars árið 2008, þar sem skýrsluhöfundar dásömuðu einstakan kraft þjóðarinnar, og bentu á mikilvægi þess að íslenskir listamenn verði virkjaðir til að: „búa til jákvæðar sögur af árangri íslenskra fyrirtækja.“ Vel feit og dekruð þjóð? Þetta leiðir okkur að því sem ætti að vera velþekkt staðreynd, að opinberir aðilar, hvað þá ef þeir eru beintengdir viðskiptalífinu, eins og þarna háttaði, eiga og mega alls ekki koma nálægt kynningu á íslenskri list erlendis. Hið opinbera á vissulega að leggja til fjármagn, en láta síðan fagfólkið alfarið um að ráðstafa því. Og þótt við getum sannarlega glaðst yfir skiln- ingi núverandi menntamálaráðherra á menn- ingu og listum, getum við fjarri því treyst á það að sá næsti verði jafn skilningsríkur. Nýjasta dæmi um bein afskipti Alþingis af listsköpun, er portettmálverkið sem það lét mála af fyrrverandi forseta alþingis, og fyrr- verandi dómsmálaráðherra, Sólveigu Péturs- dóttur – í málverkinu kristallast skilningur hins háa Alþingis, skilningur valdsins, á list. Enda var áhugi Alþingis á Frankfurt ævintýr- inu, þegar Ísland var heiðursgestur á Frank- furt bókamessunni í október í fyrra, alla tíð tempraður, þaðan bárust raddir um að óþarfi væri að leggja 300 milljónir í verkefnið, fjár- magn sem var skilgreint sem styrkur (sóun að sumra mati) – en fjárfesting hefði náttúrlega verið réttnefni. Ef sambærileg sýning hefði til að mynda verið á íslenskum landbúnaðavör- um, ég á við, sýning sem hefði orðið til þess að í það minnsta 100 þýskir blaðamenn kæmu til landsins, heimsóknir sem skiluðu sér síðan í óteljandi greinum og viðtölum þarlendra fjöl- miðla, þá er ég hræddur um að þessar 300 milljónir hefðu þótt alltof rýr upphæð. Það er nefnilega ekki svo ýkja bratt að full- yrða að hér á landi ríki landlægur vanskilning- ur og vanmat á mikilvægi menningar og listar. Það má tína eitt og annað því til vitnis, læt hér nægja að minna á áðurnefndan tempraðan áhuga stjórnvalda og alþingis á Frankfurt ævintýrinu, hversu sparlega það var styrkt, en að vissu leyti mátti upplifa svipað áhugaleysi íslenskra fjölmiðla, eða eins og Gauti Krist- mannsson, dósent í þýðingafræðum við Há- skóla Íslands, sem var úti, í sjálfri hringiðunni, skrifaði heimkominn: „Það sem mína furðu vekur eftir á að hyggja er hversu litla athygli það vakti í fjölmiðlum hér á landi. Ef við berum það saman við það fé og athygli sem veitt er t.d. í íþróttalands- lið (karla n.b.) þegar þau leika á stórmótum erlendis, þá er þetta neyðarlegt, en speglar kannski betur hið raunverulega menningar- ástand vel feitrar og dekraðrar þjóðar.“ Og Gauti kemur með prýðis dæmi um hversu einstakt þetta var, hversu mikill heið- ur, og mikið tækifæri gafst þarna úti. Hann hittir á messunni egypskan góðvin sinn frá námsárunum: „… sem er blaðamaður og starfar bæði fyrir Deutsche Welle í Þýskalandi og dag- blaðið Al Hayat sem er eitt það víðlesnasta yfir landamærin í arabaheiminum. Við hittumst fyrir tilviljun og eftir að við höfðum heilsast spurði hann hvort hann gæti tekið við mig snöggt viðtal. Ég skildi ekki alveg hvers vegna, en það skýrðist þegar hann spurði lykilspurningarinnar: „Menn velta því fyrir sér í arabaheiminum hvernig á því standi að Ísland, með rétt rúmlega 300 þúsund íbúa, hafi verið boðinn heiðurssess á bókastefnunni í Frankfurt á meðan arabaríkin 22 með hundruð millj- óna íbúa þurftu að vera öll saman?“ Það varð fátt um svör hjá mér, annað en að vísa til bókmennta- sögu okkar, en það er kannski ekkert sérlega sannfærandi; Arabar skrifuðu ekki aðeins Kóraninn og Þúsund og eina nótt, heldur má segja að þýðingastarf þeirra á miðöldum hafi hreinlega bjargað stórum hluta fornmenningar Vesturlanda frá glatkistunni. Spurningunni var þannig í raun ósvarað, en hún sýnir í hnotskurn hversu mikils heiðurs íslenskar bókmenntir urðu aðnjótandi eina viku í október 2011.“ Sigur fjármagnsafla? Áhugaleysi íslenskra fjölmiðla hefði þó ekki átt að koma á óvart; umfjöllun um listir í ís- lenskum dagblöðum er í skötulíki, og hefur verið þannig eftir hrun. Það var eins og botn- inn færi úr umfjöllun prentmiðla þegar Les- bók Morgunblaðsins - sem hafði blómstrað í nokkur ár undir stjórn Þrastar Helgasonar - var lögð niður sem sjálfstæður menningar- kálfur, og hefur síðan verið í frjálsu falli. Það er áhugavert, og segir áreiðanlega sitthvað um íslenskt samfélag, að þegar hrun verður vegna of mikillar græðgi, ofuráherslu á efnisleg gæði og viðhorf, og svo augljóst að sem þjóð þurfum við að fara í gegnum harða sjálfsskoðun, að þá leggja fjármálaaöfl Morgunblaðsins Lesbók- ina niður, þennan sterka og eina menningar- kálf landsins - þessa sterku og gagnrýnu rödd sem Matthías Johannessen hafði ævinlega þurft að verja af hörku gegn sömu öflum, sem aldrei skildu tilganginn með því að halda úti öflugum menningarblaði - og þegar Ólafur Stephensen, núverandi ritstjóri Fréttablaðs- ins, varð um skeið ritstjóri Morgunblaðsins, skorti hann augljóslega magn til að standa gegn þessum öflum, og því fór sem fór. Og nú má því tala um eyðu í prentmiðlum. Þeir sem skrifa um menningu reyna sannarlega sitt, en blöðin eru svo undirmönnuð að það næst í besta falli að sinna líðandi stund, greiningar- þátturinn er hinsvegar nánast horfinn - og það er háskaleg fjarvera. Eins og fyrrum er Morgunblaðið sá prent- miðill sem leggur mest í menninguna, en það sama er upp á tengingnum þar; fáliðuð menn- ingardeildin nær að kynna en ekki greina menninguna. Og þótt blóðugt sé, þá hljóta menningarskrif blaðsins að líða á einn eða annan hátt fyrir ofstæki ritstjórans og harða auðmagnsstefnu eigenda, sem eru reiðubúnir að tapa stórum upphæðum í áróður fyrir hags- muni sína, en kæra sig ekki um að leggja, þótt ekki nema væri brot, af þeirri upphæð til að styrkja menningarskrifin. Sjálfsagt óttast þau broddinn sem ævinlega býr menningarrýni, óttast hinar ágengu spurningar. Ég dvel við þessa sögu vegna þess að hún endurspeglar svo margt í okkar smáa samfélagi, þar sem fjármagnsöflin takast á við menningaröflin, og hafa á síðustu fjórum árum haft greinilegan sigur – sem er auðvitað kaldhæðnislegt og öfugsnúið því það voru jú fjármagnsöflin sem settu hér allt á hliðina – og tekist beint og óbeint að snúa niður gagnrýna umfjöllun í flestum prentmiðlum. Gleymum því ekki að list, í huga fjármagnsaflanna, í hugum valdsins, er portrettmálverkið af Sól- veigu, fyrrverandi forseta alþingis og dóms- málaráðherra, sem afhjúpað var í Alþingis- húsinu í síðustu viku; sumsé, þægur, meinlaus þjónn, klisja. Ef við ætlum að ná viðvarandi árangri, raunverulega nýta þann mikla kraft og miklu möguleika sem Frankfurt gaf okkur á að kynna og breiða út íslenska menningu, ég á við, hina raunverulegu menningu og á hennar forsendum en ekki forsendum smíðuðum af fjármálaöflunum, forsendum sem ímyndar- skýrsla forsætisráðuneytis Geirs H Haarde stóð fyrir, þá verðum við að öðlast viðvarandi frelsi frá skammsýnum valdamönnum og jafnframt búa okkur undir það að innan fárra ára gætum við setið uppi með stjórn sem stýrist af fjár- málaöflunum, stjórn sem lætur semja nýja ímyndarskýrslu og hefur kannski í viðbót tíma til að hrinda henni í framkvæmd – með öðrum orðum, freista þess að nota listina sem þjón sinn, sem fallega hesta fyrir vagn auðmagnsins. Við verðum að tryggja okkur örugga úthlutun frá ríkinu, og jafnframt algert sjálfstæði. Verkefnin eru næg, til að mynda verðum við að huga stórum betur að íslenskukennslu erlendis, sýna þar snöggt- um meiri áhuga á hryðjuverkalögum en við höfum gert fram að þessu – því úr hópi þeirra sem leggja stund á íslensku erlendis, koma ekki einvörðungu framtíðar þýðendur okkar, heldur er hver og einn nemandi einskonar gangandi auglýsing fyrir íslenska menningu, tungumál, fyrir Ísland – ef við viljum fara inn á þær landkynningabrautir í réttlætingunni. En fyrst og síðast eigum við að sýna þessari kennslu áhuga, styrkja hana svo miklu betur en við gerum í dag, einfaldlega vegna þess að það er alls ekki sjálfsagt að ungt fólk niður í Evrópu, vestur í Bandaríkjanum, hvað þá enn fjarri, sýni tungumáli okkar og menningu svo mikinn áhuga að það sé tilbúið leggja mörg ár af ævi sinni til að læra tungumálið. Það er augljós skylda okkar gagnvart eigin menn- ingu að hlúa sem allra allra best að þessum námsmönnum, þessum háskóladeildum víða um heim, og kennurunum. Það er segja, ef við erum í raun og veru menningarþjóð en ekki komin af blóðþyrstum víkingum – sem hafa með breyttum breytanda orðið að útrásarvík- ingum í jakkafötum. Er Sólveig Pétursdóttir íslensk list? Ef við viljum að íslensk menning breiðist út í heiminn – og gefum okkur það að hún eigi erindi – viljum nýta kraftinn og möguleikana úr Frankfurt-ævintýrinu, og ávaxta það mikla, óeigingjarna starf sem bókmenntasjóður, sa- genhaftes og fleiri hafa unnið, þá þurfum við að sýna stórhug. Það er öllum þjóðum nauð- syn, líklega lífsnauðsyn, að hlúa vel að eigin menningu, og kannski aldrei eins og á okkar dögum, þegar tæknin hefur afnumið landa- mærin. Öllum þjóðum, ekki síst þeim smáu, því heimurinn og gleymskan hafa gleypt stærri bita en íslenska menningu. Við verðum því að vera stór í smæð okkar, verðum að vera metnaðarfull, staðföst, frjó. En við þurfum líklega að byrja á að gera stjórnvöldum grein fyrir því að forsetinn, og ýmsir fleiri, höfðu alrangt fyrir sér – við erum ekki svo einstök og frábær og miklu betri en aðrar þjóðir. Þess- vegna – ef það á að nýta Frankfurt, þetta ein- staka tækifæri sem gefst aldrei aftur, verður að leggja til fjármagn, þolinmótt fjármagn. Það er ófyrirgefanlegt ef okkur mistekst að nýta það sem við höfum í dag. Það er að segja, ef íslensk menning skiptir okkur máli, og vegna þess að við trúum því að íslensk menn- ing sé eitthvað annað og meira en portrett af Sólveigu Pétursdóttur, með öðrum orðum; að tilvera okkar, fortíð og framtíð, skipti máli, að við höfum eitthvað að segja við heiminn. Og við þurfum að fá þessa fjármuni meðan skilningur á menningunni er til staðar hjá stjórnvöldum, áður en bókmenntasjóður og arfleifð sagenhaftes verða soðin niður í nýja ímyndarskýrslu. Og góða fólk, við hljótum jafnframt – og nú er ég kominn aftur að upp- hafspunktinum, hér í lokaorðunum – að reyna að styrkja þýðendur okkar betur, bjóða þeim til ókeypis dvalar, verðlauna þá með áhuga, þakklæti, og hafa hugsun á því að rækta upp nýjar kynslóðir. Eða ég spyr – er til, eða hefur hún einhverntíma verið til, áætlun að fóstra fleiri þýðendur, því ef hún er til, sem ég leyfi mér að efast um, þá hefur hún ekki gengið upp; okkur vantar þýðendur á flest tungumál önnur en þýsku. Íslenskar bækur komast ekki lengra en til Vestmannaeyja ef ekki eru til þýðendur – og Frankfurt ævintýrið til lítils ef enginn getur þýtt bækurnar. Jón Kalman Stefánsson, rithöfundur Íslensk menning Gleymskan hefur gleypt stærri bita en íslenska menningu 38 viðhorf Helgin 27.-29. apríl 2012
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60
Blaðsíða 61
Blaðsíða 62
Blaðsíða 63
Blaðsíða 64

x

Fréttatíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttatíminn
https://timarit.is/publication/944

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.