Læknablaðið

Volume

Læknablaðið - 15.04.1988, Page 32

Læknablaðið - 15.04.1988, Page 32
142 LÆKNABLAÐIÐ UMRÆÐA Ýmsar ástæður kunna að liggja til þess að svarhlutfallið í póstkönnuninni var svo lágt 1984 sem raun ber vitni. Meiri hluti þeirra, sem leitað var til, höfðu fengið sömu spurningalistana einu sinni eða tvisvar áður og mátti því búast við þreytu hjá einhverjum þeirra. Raunin var enda sú, að af þeim 13%, sem neituðu að svara, voru hlutfallslega helmingi fleiri í þessum hópi en í hópnum, sem fékk listana í fyrsta sinn 1984. En einnig þarf að taka tillit til þess að síðastnefndi hópurinn er yngri og því e.t.v. fúsari til svars. Ástæðurnar fyrir neitun geta verið ýmsar, svo sem tortryggni eða almenn varkárni gagnvart skoðanakönnunum, eða fólki þykja spurningalistarnir of langir og spurningarnar of margar og of flóknar. Á síðustu 10 árum hefur fjöldi alls kyns kannana með spurningalistum eða símtölum aukist mjög mikið og væri því ekki óeðlilegt að farið væri að gæta almennrar þreytu á slíkum könnunum. Vegna þess að meiri hlutinn í úrtakinu 1984 var valinn fyrir 10 árum voru fleiri látnir en ella hefði verið, eða 2%, og einnig voru fleiri erlendis eða óstaðsettir, eða 5%. Þá eru eftir 20% sem ekki tókst að ná til. Aðeins er hægt að geta sér til um ástæður þeirra til að svara ekki. Sumir kunna að vera veikir og ekki svara þess vegna, aðrir hirða ekki um að svara af almennu áhugaleysi, timaleysi eða öðrum ástæðum. Loks eru einhverjir í þessum hópi sem ekki vilja svara af sömu ástæðum og áður eru nefndar. Einnig er vitað úr fyrri rannsóknum (14) að í hópnum sem ekki svarar, eru fleiri misnotendur og stórdrykkjumenn en í hópnum sem svarar. Árið 1979 var aðeins leitað til þeirra sem höfðu svarað spurningalistanum einu sinni áður. Þá neituðu 7,5% að svara aftur, en ekki náðist til 6%. Brottfluttir og látnir voru 7,7%, svo að alls var brottfallið rúmlega 21% (7). í fyrstu könnuninni voru tæp 20% sem ekki svöruðu, þar með taldir þeir sem neituðu og ekki náðist til. Það er því ljóst, að fjöldi þeirra sem neita þátttöku eða hirða ekki um að svara spurningalistunum, hefur aukist mjög verulega. Þetta kallar á aðrar aðferðir til samanburðar svo að hægara sé að meta réttmæti niðurstaðnanna. Því var gripið til símakönnunar. Meginmunurinn á símakönnuninni og póstkönnuninni felst fyrst og fremst í því að svarhlutfallið í póstkönnuninni er mun lægra en í símakönnuninni og innra brottfallið i póstkönnuninni er í flestum tilvikum mun meira heldur en í símakönnuninni. í póstkönnuninni er raunúrtakið að vísu heldur minna en talið er í töflu I vegna þeirra sem látist höfðu úr elsta hluta úrtaksins. Svarhlutfallið er því í raun heldur hærra en kemur fram í töflunni. Þegar af þessu mætti ætla, að réttmæti niðurstaðna sem fengnar eru með símakönnun sé meira en þeirra sem fengnar eru með póstkönnun, en um áreiðanleika niðurstaðnanna og einstakra svara er erfitt að segja. Póstkönnunin gefur fólki möguleika á að hugsa um hvert einstakt svar og kannski til þess að vera ærlegra í svörum um það sem er viðkvæmt eða er talið neikvætt heldur en símakannanir og beinar viðtalskannanir gera. í þeim síðarnefndu hefur fólk e.t.v. meiri tilhneigingu til að fegra sig í augum viðmælanda og til þess að svara fljótfærnislega og með meiri ágiskunum heldur en í póstkönnununum. Nokkrar ábendingar í þessa veru má sjá af samanburði niðurstaðna þar sem mun færri segjast drekka fleiri en eina tegund í hvert skipti og áberandi fáir í símakönnuninni segjast fá sér afréttara en áberandi fleiri sem segjast drekka hálfa eða heila flösku af sterku áfengi eða meira í hvert skipti. Slík svör gefa til kynna að svarendur vilji annars vegar gera lítið úr drykkju sinni og hins vegar að þeir hafi ekki fyrir að telja saman nákvæmlega það sem þeir drekka og giska á eitthvað sem er fljótlegt. í hugum flestra er neikvætt að þurfa afréttara daginn eftir mikla drykkju og því hugsanlegt að menn neiti því frekar í óvæntu símtali við einhvern spyril. Þó að munurinn á tíðni annarra einkenna sé ekki tölfræðilega marktækur, er hann í sömu átt, þ.e. lægri í símakönnunum. Hugsanlegt er að skýra meiri neyslu svarenda i símakönnuninni með því að náðst hafi til fleiri stórdrykkjumanna, sem ekki mundu hafa hirt um að svara bréfi. Ekki er marktækur munur á þeim fjölda sem segist hafa leitað aðstoðar vegna drykkju skv. þessum tveim aðferðum. Hins vegar gefa báðar aðferðir heldur lægri tölu en fram kemur samkvæmt innlagnaskrám (15). Verulegur hluti þeirra, sem segjast hafa leitað aðstoðar í póstkönnuninni geta aðeins um að þeir hafi leitað til AA samtakanna eða göngudeildar. Ef símakönnunin er notuð til að meta réttmæti þeirra upplýsinga sem fengust með póstkönnuninni sést að í heild er samræmið milli niðurstaðna nokkuð gott. Þó má ætla að hærra svarhlutfall í símakönnuninni 1985 gefi réttmætari upplýsingar um heildarneysluna.

x

Læknablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.