Læknablaðið - 15.04.1988, Qupperneq 41
LÆKNABLAÐIÐ
151
móti 6-7% í hinum löndunum. Árlega eru um 1%
þjóðarinnar kærð fyrir meintan ölvunarakstur,
sem eru þrisvar til fjórum sinnum fleiri en annars
staðar á Norðurlöndum (5, 6). Athyglisvert er, að
í næstum helmingi blóðsýna frá árunum
1973-1982, sem tekin voru til ákvörðunar á
áfengismagni í blóði, er blóðþéttni áfengis meiri
en l,5%o (7). íslendingar virðast oftar aka bíl
undir áhrifum en nágrannaþjóðirnar, þrátt fyrir
það að eftirlit lögreglu er ekki minna hér á landi
en annars staðar. Ekki er ljóst hvað veldur þessu
en ein skýringin kann að vera sú að landið er
strjálbýlt og samgöngur strjálar. Það eru þó
hlutfallslega fleiri teknir af lögreglu grunaðir um
ölvunarakstur í Reykjavík en utan hennar.
Þrír mælikvarðar voru búnir til á grundvelli
spurninganna um óæskileg áhrif áfengisneyslu.
Sá fyrsti mælir hvernig fólki tekst að hafa
taumhald á áfengisneyslu sinni og byggist á
atriðunum sem talin eru upp í töflu VIII. Annar
felur í sér atriðin sem tengjast timburmönnum og
eru tilgreind í töflu IX. Sá þriðji er búinn til út frá
spurningunum i töflu X um breytt atferli. Á
öllum þessum mælikvörðum fær ísland flest stig,
Finnland næstflest, þá Noregur og Svíþjóð þau
lægstu.
Ef óæskileg áhrif neyslunnar eins og svarendur
greina frá þeim eru borin saman við heildarneyslu
er gott samræmi á milli þessara tveggja þátta í
Finnlandi, þar er heildarneysla áfengis mest í
samanburði við hin löndin. En þetta á ekki við
um ísland. Þar er heildarneysla áfengis lægst en
afleiðingar nar virðast meiri en í Finnlandi. í
Svíþjóð er heildarneysla áfengis meiri en í Noregi
og því hefði mátt búast við að mælitölurnar
sýndu verri afleiðingar í Svíþjóð en í Noregi. En
þetta var alveg öfugt.
Þegar athugað var hvort áfengisneysla og
afleiðingar væru háð kyni eða aldri kom í ljós að
svo var ekki. Það gilti bæði um karla og konur og
alla aldurshópa þegar löndin voru borin saman að
sama árlegt áfengismagn veldur mestum vanda á
íslandi, þá í Finnlandi svo í Noregi og Svíþjóð.
Gagn áfengisneyslunnar. í kaflanum hér á undan
mátti lesa að margir höfðu orðið fyrir skaðlegum
afleiðingum áfengisneyslu. Þrátt fyrir þetta halda
flestir áfram að neyta þess. Ástæðan fyrir þessu
er ótvírætt sú, að áfengisneyslan er ekki eingöngu
talin skaðleg heldur er fólk að sækjast eftir
vissum hliðum hennar sem það telur vega upp
hinar skaðlegu afleiðingar. Því var spurt um það
hvort fólk hefði haft gagn af áfengisneyslu. í ljós
kom að bæði karlar og konur töldu sig hafa gagn
af neyslunni. Þetta átti einkum við í umgengni við
aðra. Helmingur til þrír fjórðu hlutar
áfengisneytenda í öllum löndunum töldu að
áfengi hefði hjálpað þeim til að láta tilfinningar
sínar betur í ljós og verða skemmtilegri og komast
betur að orði í viðræðum. Nokkru færri, en
hlutfallslega margir, sögðu að áfengisneyslan
hefði hjálpað þeim til að kynnast öðru fólki betur
og dregið úr kvíða fyrir því að vera meðal fólks og
komast í betra samband við einhvern af
gagnstæðu kyni. Fjórði til fimmti hluti
neytendanna taldi að áfengi hefði fengið þá til að
líta bjartari augum á tilveruna. Hins vegar töldu
fáir að áfengi væri til þess fallið að leysa
vandamál, hvorki í tengslum við sína nánustu eða
atvinnu.
Tiltölulega fleiri karlar en konur töldu sig hafa
haft gagn af áfengi. Að hluta til er skýringin sú,
að karlar drekka miklu meira áfengi en konur.
Það kom einmitt í ljós, að þeir sem drukku mest
töldu sig hafa mest gagn af að drekka. En þegar
karlar og konur sem drekka jafn mikið voru borin
saman með tilliti til hinna jákvæðu afleiðinga
áfengisneyslu var enginn munur.
UMRÆÐA
Norræna áfengiskönnunin hefur nokkra sérstöðu
þar sem það mun vera einstakt í
samanburðarrannsóknum á áfengisneyslu að
nákvæmlega sami spurningalistinn sé lagður fyrir
fjórar mismunandi þjóðir samtímis. Slík
samvinna um rannsóknir er óvenjuleg, þar sem
flestar samanburðarrannsóknir byggja á
mismunandi gögnum og samanburðurinn er oft
gerður eftir að gagnasöfnun er lokið.
Þrátt fyrir það að norrænu þjóðirnar fjórar sem
tóku þátt í rannsókninni hafi hliðstæða menningu
voru mörg vandamál, bæði við framkvæmd
rannsóknarinnar og fræðilegs eðlis, sem þurfti að
leysa, áður en hún gat orðið að veruleika. Hefðir
fyrir faraldsfræðilegum rannsóknum á
áfengisneyslu eru ólíkar í löndunum. í öllum
löndunum var áhugi á því að spurningalistinn
væri þannig úr garði gerður að það mætti nota
hann til að gera samanburð við fyrri rannsóknir í
hverju landi. Ólík viðhorf til áfengis og
áfengismálastefnu í löndunum sköpuðu líka
vandamál. Öll þessi atriði þurfti því að samræma.
Þá eru ákveðin vandamál samfara því að leggja
spurningalista fyrir á fjórum tungumálum. Þó að
þeir eigi að vera þýddir og endurþýddir þannig að
orðalag spurninganna skiljist á sama hátt í öllum