Læknablaðið - 15.10.1996, Blaðsíða 11
LÆKNABLAÐIÐ 1996; 82
691
jákvæðra berklaprófa sama aldurs mismunandi
árganga í Reykjavík sýndi að fyrir hvern aldur
frá sjö til 16 ára voru jákvæð próf langalgengust
í byrjun tímabilsins en fækkaði þar til í byrjun
áttunda áratugarins. Frá 1976 til 1991 var al-
gengi jákvæðra prófa næstum óbreytt og lágt
það er frá 0-1,6 tilfelli á 1000 prófuð skólabörn
á ári meðal sjö til átta ára, 0-2,9 meðal 11-12
ára og frá 0-3,8 tilfelli meðal 15-16 ára.
Ályktun: Síðasta áratuginn hefur lítill afrakstur
orðið af skólaberklaprófum sem tæki til að
finna nýsmitaða eða smitbera. Virðist okkur
sem niðurstöður venjubundinna berklaprófa í
skólum réttlæti ekki próf á öllum skólabörnum
heldur eigi að auka áherslu á prófin meðal
áhættuhópa eins og innflytjenda þaðan sem
berklar eru landlægir. Nýleg smitun af völdum
M. tuberculosis er sterkur áhættuþáttur fyrir
berklaveiki. Leit að nýsmituðum í næsta um-
hverfi berklaveikra smitbera á að hafa forgang,
næst á eftir greiningu og meðferð berklaveikra.
Berklapróf meðal þeirra sem hyggjast setjast
að hérlendis afmarka annan áhættuhóp, þar
sem unnt er að stemma stigu við berklum.
Inngangur
Nýgengi og algengi smitunar og sjúkdóms
hafa mikið verið notaðar til að fylgjast með
gangi berkla (1). Eftir að berklafaraldurinn
rénaði héldu jákvæð berklapróf betur gildi sínu
en nýgengi sjúkdóms sem merki um ferli
berklabakteríu milli manna, enda smitun al-
gengari en berklaveiki. Forspárgildi berkla-
prófs við greiningu berklabakteríusýkingar
hefur þó lækkað vegna minnkandi algengis
smitunar.
Til eru berklaprófunargögn frá 1958 til 1991
um næstum alla einstaklinga viðkomandi fæð-
ingarárganga í Reykjavík. A árunum 1958-1991
voru skólabörn á aldrinum sex til 16 ára lengst
af prófuð árlega. Slík langskurðarkönnun á
sama árgangi byggist á mikilli vinnu en er
traustari en úrtak í þverskurðarkönnun þar
sem viðkomandi er aðeins prófaður á til dæmis
fimm ára fresti. Finna má nýgengi smitunar
með því að taka saman þá sem verða jákvæðir á
gefnu tímabili og algengi með því að meta
heildarfjölda jákvæðra hverju sinni.
Tilgangur rannsóknarinnar var að skoða
nýgengi og algengi jákvæðra berklaprófa hjá
skólabörnum í Reykjavík og fá þannig hug-
mynd um smitáhættu og útbreiðslu smits á
tímabilinu frá 1958 til 1991.
Efniviður og aðferðir
Notuð voru gögn frá Heilsuverndarstöð
Reykjavíkur, en þar er að finna upplýsingar
um niðurstöður berklaprófa á reykvískum
skólabörnum frá árunum 1958-1991. Prófin
voru framkvæmd árlega til 1984 en eftir það var
dregið úr þeim. í grunnskólum voru prófin
gerð af einum hjúkrunarfræðingi í hverjum
skóla. í framhaldsskólum (eftir 12 ára aldur) sá
sami hjúkrunarfræðingur um berklaprófin á
hverju ári. Tegund berklaprófs fram til 1985
var Moro (1) hjá þeim sem voru á aldrinum sex
til 12 ára en Mantoux próf (2,3) með prófunar-
efninu RT23 1 TU (tuberculin unit) hjá eldri
börnum. Nú er eingöngu notað Mantoux próf.
Eftir 1984 var farið að nota 2TU við berkla-
prófin.
í skýrslum koma fram upplýsingar um hve-
nær prófið var gert, fæðingarár, kyn, tegund
berklaprófs og aflestur þrota í millimetrum.
Einnig kemur fram hversu mörgum var sleppt
við prófið vegna fyrri sögu um jákvæða svörun
(8 mm) hvort heldur sem það var vegna fyrri
bólusetningar (BCG) eða sýkingar. Nefna má
að hérlendis hefur berklabólusetningu aldrei
verið beitt kerfisbundið.
Fjöldi þeirra sem taldist nýsmitaður var
skráður sérstaklega í skýrslunum, það er já-
kvæðir við prófun, neikvæðir árið áður.
Þátttakendur höfðu verið útsettir fyrir smit í
mislangan tíma og þeir sem tóku smit höfðu
gert það á árinu fyrir prófun nema þau börn
sem prófuð voru í fyrsta sinn sex eða sjö ára
gömul. Þar gat smitun hafa átt sér stað ein-
hvern tímann frá fæðingu til fyrsta berklaprófs.
Með þessum fyrirvara sýna gögnin um nýgengi
þá sem urðu jákvæðir frá næsta prófunarári á
undan. Gögnin um algengi sýna summu þeirra
sem áður voru jákvæð og þeirra sem urðu já-
kvæð á prófunarárinu og eru sett fram þannig
að sami aldur í árum er borinn saman á mis-
munandi almanaksárum.
Við tölfræðilega greiningu er gert ráð fyrir,
sem nálgun, að fjöldi jákvæðra á hverjum tíma
fylgi Poisson dreifingu (4). Öryggisbil (95%)
fyrir fjölda jákvæðra á hverja 1000 var reiknað
samkvæmt þeirri dreifingu. Þar sem við átti var
kí-kvaðrats leitniprófi beitt.
Niðurstöður
Heildargögnin eru sýnd í töflu I og II. Tafla I
sýnir nýgengi jákvæðra berklaprófa barna á
aldrinum sex til 16 ára, frá 1958 til 1991. Ný-