Fréttatíminn - 05.11.2010, Page 34

Fréttatíminn - 05.11.2010, Page 34
slæmt, heldur standa sig vel í lífinu. Sama ár fór ég að vinna sem flugfreyja hjá Icelandair og sá vinnu- staður gaf mér mjög mikið. Starfsmennirnir voru eins og ein fjölskylda. Þar kynntist ég fólki sem ég hef ennþá samband við. Ég veit ekki hvað ég hefði annars tekið til bragðs.“ Mamma ætlaði að hætta í söfnuðinum Fyrir tveimur árum svipti móðir Malínar sig lífi. „Hún hafði brugðið sér í ferðalag til Færeyja, sem var ekki óvenjulegt þegar mamma átti í hlut. Þegar hún kom ekki til baka var farið að leita að henni. Þá hófst viðamikil leit, sem tók þrjá sólarhringa. Í minningunni eru þessir þrír sólarhringar eins og þrjú ár. Loks fannst hún úti í sjó á stað sem heitir Vestmanna. Það var mikil mildi að hún skyldi finn- ast. Þú getur ímyndað þér þær spurningar sem það hefði skilið eftir, hefði hún aldrei fundist.“ Stuttu áður hafði hún greint Malínu frá því að hún hygðist hætta í söfnuðinum. „Ég held að söfn- uðurinn sé stór þáttur í því að mamma fyrirfór sér. Undir lokin sagði hún mér að hún hefði fengið sig fullsadda á þessu. Sagðist vita að þetta væri ekki sannleikurinn. Hún hafði einangrað sig og var að íhuga að hætta. Var hætt að sækja samkomur. Það var líka endalaust verið að ávíta hana fyrir að umgangast mig! Hún var ekki vitlaus. Hún var einmitt mjög vel gefin. Það var bara eins og hún hefði, á einhverjum stað í lífinu, ákveðið að fara inn í geymslu og gleypa lykilinn. Að fara inn í svona staðnað samfélag er hálfgerð uppgjöf. Mamma hafði verið í söfnuðinum síðan árið 1972 og ég get ímyndað mér að hún hafi verið orðin þreytt á að hlusta á sama biblíuþusið í næstum fjörutíu ár. Þetta var mjög viðkvæmt umræðuefni fyrir hana. Síðasta sumarið hennar, árið 2008, var hún orðin sextug og á leið að hætta í söfnuðinum. Hún spurði mig, í þessu samtali okkar sem ég mun aldrei gleyma: „Hvað á ég að gera núna? Á ég að fara að halda upp á afmæli og halda jól? Hvaða fólk þekki ég? Ég þekki enga!“ Mamma var litríkur karakter og hafði mörgu að miðla. Hún átti magnaða ævi þangað til hún ýtti á pásutakkann í lífi sínu og gekk í söfnuðinn. Hún var mikill heimsborgari, fór tvítug til Mið-Austur- landa og vann fyrir Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna í Beirút. Hún var mjög glæsileg kona, með sítt, ljósrautt hár. Í raun passaði hún ekkert inn í söfnuðinn. Hún var mikil tungumálamann- eskja, hafði áhuga á sagnfræði og bjó yfir fróðleik um allt milli himins og jarðar. Meira að segja hafði hún áhuga á bílum, eins og ég. Þetta var skrýtin leið sem hún ákvað að fara í lífinu.“ Hún hefur væntanlega tekið andlát föður þíns nærri sér? „Já, hún var mjög einmana eftir að hann dó. Tal- aði mikið um að enginn vissi hvað átt hefði fyrr en misst hefði. Það hefur líka haft sitt að segja.“ Gleði og sorg Háskólanám er litið hornauga af Vottum Jehóva og hefði Malín ekki skráð sig úr söfnuðinum hefði hún mögulega látið slíkt nám lönd og leið. En eftir brotthvarfið úr söfnuðinum skráði hún sig í mann- fræði í Háskóla Íslands, þar sem hún lauk þriggja ára námi. Að því búnu settist hún á skólabekk í Há- skólanum í Reykjavík til að nema lögfræði. Af hverju fórstu í lögfræði eftir mannfræðina? „Mér finnst lögfræði ofboðslega skemmtilegt fag. Mér datt líka í hug að þannig gæti ég kannski látið gott af mér leiða. Gert eitthvert gagn í hinu stóra samhengi. Mannfræðin er góður grunnur. Ef til vill er upplifun mín af þöggun kynferðisbrota- mála innan safnaðarins líka tengd því að ég valdi að fara í lögfræði.“ Fyrir utan vinahópinn sem Malín hefur eignast er hún hálf ein í heiminum. „Það eru fáir eftir í fjölskyldunni. Við systurnar eigum einn afa og tvær móðursystur. Svo átti pabbi systur en það hefur ekki verið jafnmikið samband þeim megin. En það stendur til bóta. Vinir mínir eru fjölskylda mín. Svo á ég lítinn, tveggja ára, rauðhærðan gaur sem heitir Óðinn. Ég eignaðist hann með manni sem ég kynntist í fluginu en við skildum í sumar. Óðinn var bara mánaðar gamall þegar mamma dó. Það var skrýtið.“ UM VOTTA JEHÓVA STAÐA KVENNA Kvenkyns meðlimur getur aldrei flutt fyrirlestra innan safnaðarins, né heldur orðið einhvers konar umsjónarmaður. Þar af leiðandi fara konur ekki með ábyrgðarhlutverk. Þeim er þó heimilt að tjá sig á samkomum, að því gefnu að sá karlmaður sem stýrir dagskrá samkomunnar gefi þeim orðið. MENNTUN Háskólanám er litið hornauga. Rökin á bak við það eru þau að einstaklingur sem fer í háskólanám gæti sett söfnuðinn í annað sæti og farið að keppa að veraldlegum markmiðum í stað andlegra. BLÓÐGJÖF Blátt bann er lagt við blóðgjöf. Slíkt er ekki talið Guði þóknanlegt. ÓSKRÁÐAR REGLUR Reglur varðandi samskipti við fólk utan safnaðar, makaval, lífshætti o.fl. eru mjög niðurnjörvaðar. Til dæmis er bann við samskiptum við fyrrum safn- aðarmeðlimi, bann við reykingum, of- drykkju og fjárhættuspili. Blátt bann er lagt við jólahaldi, afmælishaldi og þátt- töku í fermingar- og skírnarveislum. Konur mega ekki mæta á samkomur í buxum, heldur skulu þær klæðast síðum pilsum eða kjólum. Karlar skulu vera í jakkafötum og með bindi. MAKAVAL Hjónaefni skulu bæði vera í söfnuð- inum og ekki skal samneyti þeirra vera náið fyrr en eftir hjónaband. BROTTREKSTUR OG ÚRSÖGN Skrái manneskja sig úr söfnuðinum eða sé hún rekin úr honum er til- kynning lesin upp fyrir söfnuðinn og mælst til þess að enginn af safnaðar- meðlimum hafi nokkurt samband við þá manneskju. Hafi safnaðarmeðlimur ítrekað samband eða eigi samskipti við fráhvarfsmanneskju má hinn sami eiga von á opinberri áminningu. Ætlast er til þess að þessum samskiptum sé slitið, annars má búast við brott- rekstri. Vottarnir líta svo á að fólk sem hefur sagt sig úr söfnuðinum eða verið gert brottrækt sé „dáið Guði“. FJÖLDI Um 330 manns tilheyra söfnuði Votta Jehóva á Íslandi. Hjálpaði það þér í sorginni að hafa hann til að annast um? „Já. Kannski er kjánalegt að segja það en mér finnst ég vera að uppgötva lífið í gegnum hann. Hann átti afmæli um daginn og fékk kórónu á leikskólanum. Mér fannst það æðislegt. Ég er að skoða heiminn með hans augum núna. Við erum að tryllast af eftirvæntingu yfir jólunum saman. Ég veit að það er bara nóvember ennþá en ég er byrjuð að kaupa jólaskraut. Við Óðinn ætlum að hafa það rosa jólalegt!“ Hvernig hefur lífið verið að öðru leyti eftir að þú gekkst úr söfnuðinum? „Fyrst eftir að ég fór út úr söfnuðinum var ég reið. Reið út í söfnuðinn og allt sem hét trú og kirkja. Svo hefur það lagast. Fyrst kunni ég ekki á leikreglurnar hérna úti í dýragarðinum. Lífið utan safnaðarins var eins og dýragarður fyrir mér. Ég fer ekkert ofan af því að ég var heila- þvegin í söfnuðinum. Ég finn að það eru enn ein- hverjar agnir af „heilaþvottaefni“ eftir í höfðinu á mér. Stundum hugsa ég ósjálfrátt „nei, þetta má ekki“ og svo nokkrum sekúndum síðar „jú, þetta má!“. Þetta er ríkt í manni.“ Geturðu nefnt dæmi um þetta? „Vottarnir þiggja t.d. ekki blóð. Þegar ég átti son minn var hann tekinn með bráðakeisara- skurði og ég missti mikið blóð. Fyrst hugsaði ég: Ó, nei, ég má ekki þiggja blóð. Þetta var bara augnabliksbrenglun. Svo spólaði ég til baka í huganum og hugsaði: Jú, auðvitað má ég þiggja blóð. Það kom reyndar ekki til þess en ég man eftir þessari hugsun. Svo eru það jólin. Núna hef ég haldið jól þrisvar sinnum á minni stuttu ævi. Mér finnst ég vera nýfædd. Miðað við að hafa fæðst árið 2004 er ég bara sex ára! Mér finnst um að gera að hafa svolítið gaman af þessu. Mér er alveg sama hvaðan þetta kemur, hvort jólin eru heiðin eða kristin. Þetta er bara skemmtilegt.“ Hvar stendur þú í trúmálum í dag? „Ég segi að ég sé guðleysingi. Ég hef mikinn áhuga á heiðna siðnum og víkingaarfinum. Ég hef kynnt mér norræna og germanska goðafræði. Svo gekk ég í Ásatrúarfélagið. Það var svona „statement“. Þótt ég segist vera guðleysingi finn ég bæði og sé að það er eitthvað meira. Einhver æðri máttur, þótt ég vilji ekki kalla hann Guð.“ Nú er í umræðunni að banna trúboð og jafnvel trúarlegar tilvísanir í grunnskólum í Reykjavík. Hvað finnst þér um það? „Ég hef hreinlega ekki myndað mér skoðun á því. En af því að ég var alin svona upp og af því að það voru teknar stórar ákvarðanir fyrir mig, eins og hverju ég ætti að trúa, þá ákvað ég að sonur minn fengi að velja sjálfur. Ég lét skíra hann inn í Fríkirkjuna til þess að hann ætti möguleikann á því að fermast, ef hann langaði til þess þegar þar að kæmi. Ég vildi ekki taka þann möguleika af honum þótt ég vildi heldur ekki ýta honum út í neitt.“ Það má skipta um skoðun! Af hverju samþykktirðu að koma í viðtal við Fréttatímann? „Af því að kannski hjálpar það einhverjum að lesa það. Til dæmis krökkum sem eru í söfnuð- inum og vilja komast út úr honum. Því að þá er annað hvort að duga eða drepast. Mér fannst allt- af skrýtið að ég mætti ekki heilsa fólki sem væri hætt í söfnuðinum. Að það mætti ekki skipta um skoðun. En mér finnst töff að skipta um skoðun. Það má! Því miður hafa nokkrir sem ég þekkti tekið líf sitt af því að þeir gátu ekki tekið þetta skref. Vottakrakkar fyrirfara sér því þeir sjá ekki hvaða skref þeir geta stigið. Eiga þeir að yfir- gefa fjölskylduna sína? Og hvað þá? Fara út í eitt ginnungagap? Ég vil hjálpa. Ef einhverjir eru í þessum sporum þá vil ég „kenna þeim á strætó“. Sýna þeim að það sé eitthvað þarna fyrir utan.“ Kenna þeim á strætó? Hvað áttu við? „Að hætta í söfnuði sem þessum er á vissan hátt eins og að stimpla sig út úr samfélagi manna. Maður slítur á það eina tengslanet og félagsnet sem maður hefur átt í gegnum lífið. Það er stór ákvörðun og heilmikil breyting út af fyrir sig. Ég tel mig vita um mjög marga sem ekki hafa lagt út í þetta af hræðslu við að missa fjölskylduna sína. Ef einhver hættir í söfnuðinum er honum útskúfað. Einstaklingurinn þarf að fóta sig algjör- lega upp á nýtt í hinum ytri, veraldlega heimi þar sem hann hefur sjaldnast nokkra reynslu af að fóta sig. Hann er eins og geimvera send til jarðar. Það tekur dálítinn tíma að aðlaga sig og byggja upp nýtt net, félagslegt og almennt net. Maður er eins og belja á svelli fyrst um sinn. Kann ekkert á neitt, hvorki hefðir, almenn félagsleg samskipti, kærustuparamál eða nokkuð annað. Jafnvel ekki á fjármál, því almennt er það hlutverk karlmanns- ins að annast fjárhagslegu hliðina. Sjálf er ég enn að aðlagast, sex árum síðar, en er nú orðin nokkuð góð. Þetta hlýtur að jafnaði að taka ein- hver ár. Alla vega að læra jólalögin! Kannski getur þetta viðtal líka hjálpað að- standendum ástvina sem hafa fyrirfarið sér. Það að svipta sig lífi var ákvörðun móður minnar. Þannig vildi hún ljúka þessari jarðvist og ég virði þá ákvörðun. Ég myndi aldrei dæma hana fyrir það sem hún gerði. Ég vil bara opna umræðuna. Þetta er tabú og ég vil ekki að það sé þannig. Ég vil geta talað um þetta. Ég veit að hún fyrirfór sér ekki af því að ég var svo ömurleg dóttir eða eitt- hvað slíkt. Þannig er það ekki.“ Er hægt að draga einhvern lærdóm af þessu öllu saman? „Í fyrsta lagi getur maður dregið þann lærdóm af sjálfum sér að maður kemst í gegnum ótrú- legustu hluti. Einnig hvað það er nauðsynlegt að geta séð skoplegu hliðarnar á öllu. Ég held að það sé dálítil list.“ Húmorinn er þín leið til að lifa af? „Já. Ég er ekki að segja að ég sé brjálæðislega fyndin. En það eru sex hliðar á hverjum teningi. Það er gott að muna það. Árin eftir að ég sagði mig úr söfnuðinum hafa verið skemmtilegur tími. Jafnvel þótt áföll hafi dunið yfir. Lífið hefur verið skrýtið. Ég held að þetta eigi bara eftir að verða skemmtilegra!“ Heiðdís Lilja Magnúsdóttir hlm@frettatiminn.is Vottakrakkar fyrirfara sér því þeir sjá ekki hvaða skref þeir geta stigið. Eiga þeir að yfirgefa fjölskylduna sína? Og hvað þá? Það er engin tilviljun að vottur rímar við þvottur! Þetta er heila- þvottastöð en ekki staður þar sem kærleikurinn blómstrar. 34 viðtal Helgin 5.-7. nóvember 2010

x

Fréttatíminn

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Fréttatíminn
https://timarit.is/publication/944

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.