Fréttatíminn - 05.11.2010, Síða 40
Umræður og fréttir af meintri stöðutöku
gegn íslensku krónunni undanfarnar vikur
eru dæmigerðar fyrir hvernig aukaatriði
eru gerð að aðalatriðum. Vissulega er
fréttnæmt ef einhverjir hákarlar viðskipta-
lífsins, hvort sem þeir eru innlendir eða
útlendir, hafa verið að spila með gjaldmiðil
landsins.
Aðalatriðið í þeirri frétt er þó ekki spila-
mennskan, heldur af hverju í ósköpunum
íslenska krónan var komin í þá stöðu að
allir helstu vogunarsjóðir heims tóku sig
til og urðu sérfræðingar um hana.
Þessi menntaþorsti vogunarsjóð-
anna og stöðutökur, sem
sannarlega fóru fram,
gegn krónunni, voru afleið-
ing. Hver var orsökin?
Í raun er það sérstakt
rannsóknarefni að skoða af
hverju þeir, sem fóru með
stjórn efnahagsmála lands-
ins, leyfðu gengi krónunn-
ar að ná þeim ógnarstyrk
sem hún hafði, sérstaklega
á árunum 2005 til 2007,
áður en óhjákvæmilegt fall hófst í árs-
byrjun 2008.
Sannleikurinn er sá að fjármálakerfi
okkar hvíldi á agnarsmáum og viðkvæm-
um gjaldmiðli. Undirstaðan var sem sagt
mjög ótraust. Strax síðla árs 2005 höfðu
fulltrúar ýmissa vogunarsjóða áttað sig á
þessari stöðu.
Gengi krónunnar féll hraustlega í byrjun
árs 2006 en um vorið tókst að hrinda því
sem kallað var árás vogunarsjóða á gjald-
miðilinn. Seðlabankinn, bankarnir, líf-
eyrissjóðirnir og stjórnvöld tóku höndum
saman til að hrinda árásinni, eins og fyrst
var lýst í bók Ásgeirs Jónssonar hag-
fræðings, Why Iceland?, og síðar í skýrslu
rannsóknarnefndar Alþingis.
Framhaldið er þekkt. Í stað þess að
staldra við og taka áhuga vogunarsjóð-
anna á krónunni og íslensku efnahagslífi
alvarlega, slógu bankarnir í klárinn og
tvöfölduðu umfang sitt á næstu tveimur
árum. Á hliðarlínunni stóðu þáverandi
stjórnendur Seðlabankans, ánægðir svo
lengi sem gengi hinnar ástkæru íslensku
krónu hjálpaði þeim við að vera ekki alltof
fjarri verðbólgumarkmiðum bankans, sem
reyndar gekk ekkert sérstaklega vel hjá
þeim.
Afleiðingin varð enn meira tjón en hefði
þurft að verða þegar bankarnir sprungu
loks á limminu haustið 2008. Það fall varð
ekki vegna vondra spákaupmanna. Og þeir
orsökuðu ekki heldur hrun krónunnar.
Það er bláeygur barnaskapur að halda
að íslensk króna eigi erindi aftur óstudd út
á hinn opna alþjóðlega fjármagnsmarkað,
án þess að því fylgi miklar sveiflur á gengi.
Við komumst ekkert fram veginn með
því að kvarta yfir vondum kapítalistum
sem nýta sér veikleika krónunnar, eins og
til dæmis fyrrverandi stjórnendur Seðla-
bankans gerðu ítrekað.
Kapítalistarnir munu ekki kveðja mark-
aðinn, það er gjaldmiðill landsins sem þarf
að breytast. Það liggur á að komast að því
með hvaða hætti það verður gert.
40 viðhorf Helgin 5.-7. nóvember 2010
Orsök og afleiðing
Aukaatriði í aðalhlutverkum
Sætúni 8, 105 Reykjavík. Sími: 531 3300. ritstjórn@frettatiminn.is Ritstjóri:
Jón Kaldal kaldal@frettatiminn.is Framkvæmdastjóri: Teitur Jónasson teitur@frettatiminn.is Fréttastjóri:
Óskar Hrafn Þorvaldsson oskar@frettatiminn.is Ritstjórnarfulltrúi: Jónas Haraldsson jonas@frettatiminn.is.
Auglýsingastjóri: Valdimar Birgisson valdimar@frettatiminn.is. Fréttatíminn er gefinn út af Miðopnu ehf. og
er prentaður í 82.000 eintökum í Landsprenti.
Jón Kaldal
kaldal@frettatiminn.is
Fært til bókar
Loks kallaður til yfirheyrslu
Tölvuhakkarinn sem grunaður er um að
hafa stolið trúnaðargögnum frá Gunn-
ari Gunnarssyni lögfræðingi er vörðuðu
fyrirtæki og einstaklinga sem hann hafði
unnið fyrir, þar á meðal Milestone, var
loks kallaður á fund lögreglu nú í nýliðn-
um október, eftir að Fréttatíminn greindi
frá kæru hans. Í kærunni óskaði pilturinn
m.a. eftir því að fá tölvur og fleiri gögn sem
tekin voru af honum við húsrannsókn og
benti um leið á að þótt liðnir væru átta
mánuðir (í september) frá því að gögnin
voru tekin, hefði hann ekki verið kallaður
til yfirheyrslu. Það fer væntanlega eftir
gangi rannsóknar málsins hvenær tölvum
og gögnum verður skilað en Jón H. B.
Snorrason aðstoðarlögreglustjóri sagði
við Fréttatímann að gögnum sem þessum
ætti ekki að halda að nauðsynjalausu.
Tafið af list
Vart er ofmælt að rússnesku Sukhoi SU-30
herþoturnar sem Kristján Möller leyfði á
síðustu metrum samgönguráðherratíðar
sinnar vefjist fyrir arftakanum Ögmundi
Jónassyni. Nokkuð er um liðið síðan fyr-
irtækið E.C.A. Program kynnti fyrst hug-
myndir sínar um að skrá og starfrækja þot-
urnar á Keflavíkurflugvelli til þjálfunar og
æfinga. Forráðamenn fyrirtækisins segja
starfsemina skapa 150 störf auk þeirrar
þjónustu sem fylgir. Það freistar manna
á Suðurnesjum þar sem atvinnuleysi er
mest á landinu. Vandinn er hins vegar sá
að þetta eru hertól og trauðla að skapi Ög-
mundar, jafnvel þótt vopnlaus séu. Málið er
því tafið snilldarlega með „kerfislægum“
hætti, án þess að því sé beinlínis hafn-
að. Það má lesa í niðurlagi tilkynningar
ráðuneytisins vegna málsins en þar segir:
„Ráðuneytið hefur, eins og áður er fram
komið, haft þessi mál til skoðunar. Ljóst
má vera að allnokkur undirbúningur, sem
gæti tekið langan tíma, þyrfti að eiga sér
stað ef setja á reglur hér að lútandi sem
eru í samræmi við íslensk lög á þessu sviði
og alþjóðaskuldbindingar. Einnig má ljóst
vera að mikill kostnaður fylgir þeim undir-
búningi og fjárveitingar eru ekki fyrirliggj-
andi. Ráðuneytið tekur undir með Flug-
málastjórn að verkefni þetta samræmist
illa hefðbundnum verkefnum borgaralegra
flugmálayfirvalda.“ Betur verður máli varla
ýtt út af borði en svona.
Nei
Heimssýn, hreyfing sjálfstæðissinna í Evr-
ópumálum, eru samtök þeirra sem telja
hagsmunum Íslendinga best borgið utan
Evrópusambandsins. Markmið hreyfingar-
innar er að stuðla að opinni umræðu um
Evrópu- og alþjóðasamstarf. Sagan segir
að forráðamenn Heimssýnar hafi í þessu
skyni, þ.e. að stuðla að Evrópuumræðu,
sótt um styrk til Evrópusambandsins.
Sömu heimildir greina hins vegar að svar
ESB hafi verið pent nei. Kannski kemur það
ekki alveg á óvart.
Biskup á leik
Varla una Íslendingar því að skreyta
kirkjur sínar stolnum munum. Í heimildar-
mynd Hjálmtýs Heiðdal og Karls Smára
Hreinssonar í Ríkissjónvarpinu á dögun-
um kom fram að steindir gluggar í Akur-
eyrarkirkju og Áskirkju eru þýfi, komnir úr
dómkirkjunni í Coventry á Englandi. Glugg-
arnir eru breskar þjóðargersemar og eiga
væntanlega hvergi heima annars staðar
en í Coventry. Nú á Karl Sigurbjörnsson
biskup leik. Hvorki hann né þjóðkirkjan
hafa átt sjö dagana sæla að undanförnu.
Biskupinn getur bætt prikastöðuna með
því að beita húsbóndavaldi og sjá til þess
að gluggunum verði komið til réttra eig-
enda hið bráðasta.
A ð minnst a kosti móður-mál ið, svo
mikið er víst, en
aldrei skulu menn
samt gleyma því
að eitt er að kenna,
annað er að læra.
Lítið dæmi um það
er sagan um menn-
ina sem voru úti að
ganga með hundana
sína og annar þeirra
sagði: „Ég er búinn
að kenna hundinum
mínum að syngja.“
„Hvað segirðu,“ sagði
hinn, „hvaða lag
syngur hann?“ „Ég
sagðist vera búinn að kenna honum
að syngja,“ svaraði hann, „ég sagði
ekki að hann gæti sungið.“ Síðan
er það svo að börnin læra með sínu
móti hvert það sem fyrir þeim er
haft. Gott dæmi um það er ljóð eftir
Önnu Akhmatovu sem Vilborg Dag-
bjartsdóttir þýddi og heitir Napó-
leon:
Börn, hvenær var
Napóleon Bonaparte
fæddur? spyr kennarinn.
Fyrir þúsund árum, segja börnin.
Fyrir hundrað árum, segja börnin.
Enginn veit það.
Börn, hvað var það sem
Napóleon Bonaparte
gerði? spyr kennarinn.
Hann vann stríð, segja börnin.
Hann tapaði stríði, segja börnin.
Enginn veit það.
Slátrarinn okkar átti hund
segir Frankí
og hann hét Napóleon
og slátrarinn okkar var vanur
að berja hann
og hundurinn dó
úr hungri
fyrir ári.
Og nú vorkenna öll börnin
Napóleon
Hér fór umræðan
sem sé eitthvað á
svig við það sem
lagt var upp með
og allir kennarar
þekkja úr starf i
sínu. Það er líka
miklu nærtækari
raunveruleiki að
vorkenna einum
hundi heldur en að
læra um einhvern
karl sem dó fyrir
löngu! Hér má líka
taka dæmi af vís-
unni sem ágætur
bóndi austur á Hér-
aði orti um prest-
inn sinn:
Merkilegt er hvað margir lof ´ann
menn sem aldrei hafa séð´ann
skrýddan kápu Krists að ofan,
klæddan skollabuxum neðan.
Nú er þetta að vísu heldur ófögur
mannlýsing og er þá frá því að segja
að öðrum bónda í sveitinni var jafn-
illa við prestinn og vildi læra þessa
vísu. Hermt er að það hafi tekið
hann þrjú ár og var kveðskapurinn
þá svona í huga bónda:
Merkilegt er hvað margir lof ´ann
að ofan
menn sem aldrei hafa séð´ann
að neðan.
Eiginlega eru báðar þessar vísur
snilld og kannski segir seinni vísan
okkur að enginn lærdómur eigi sér
stað í kennslustofunni nema börn-
in tileinki sér eitthvað af því sem
kennarinn hefur fyrir þeim, en sá
lærdómur verður ekki inngróinn og
marktækur fyrr en börnin gefa hon-
um persónulegt yfirbragð og laga
hann að skilningi sínum og áhuga.
Skóli og þjóðfélag
Læra börn það sem
fyrir þeim er haft?
Sölvi Sveinsson
skólastjóri Landakotsskóla
Rau›arárstígur 14 · sími 551 0400 · www.myndlist.is
Listmunauppboð
í Galleríi Fold
Gallerí Fold · þekkt fyrir trausta þjónustu
fer fram mánudaginn 8. nóvember,
kl. 18 í Galleríi Fold, á Rauðarárstíg
Á uppboðinu er úrval góðra verka,
meðal annars fjölmörg verk gömlu meistaranna
Verkin verða sýnd:
í dag föstudag 10–18, laugardag 11–17,
sunnudag 12–17, mánudag 10–17
Hægt er að skoða uppboðsskrána á myndlist.is
Eggert M
agnússon