Dagblaðið Vísir - DV - 21.09.2007, Page 8
föstudagur 21. september 20078 Fréttir DV
Fjórir og hálfur mánuður er liðinn
frá því hin fjögurra ára Madeleine
McCann hvarf í Portúgal. Þar hafði
hún verið í sumarleyfi ásamt fjöl-
skyldu sinni, foreldrum og yngri
systkinum. Kvöldið sem hún hvarf
sátu foreldrar hennar á veitingastað
skammt frá, en börnin ku hafa verið
sofandi í íbúð foreldranna. Að sögn
þeirra litu þau til barnanna á hálf-
tíma fresti. Fljótlega eftir hvarf Mad-
eleine var haft samband við lögregl-
una og í gang fór viðamikil leit og
enn viðameira fjölmiðlafár sem ekki
enn sér fyrir endann á. DV hefur
hingað til haldið sig til hlés í umfjöll-
un um hvarf Madeleine McCann,
ekki síst vegna þess að „fréttir“ af
því einkenndust af upphrópun-
um, órökstuddum fullyrðingum og
vangaveltum, sem voru sem olía á
eld fyrir bloggara sem töldu sig vita
það sem enginn veit; hver gerði það.
Og í fjölmiðlafárinu miðju grillti í
sundurlyndi lögreglunnar í Portú-
gal og á Bretlandi. Í þessari hring-
iðu urðu foreldrarnir, Kate og Gerry
McCann, miðpunktur athyglinnar.
Madeleine McCann varð aukaatriði.
Pressan og netheimar tóku að sér
hlutverk dómara og böðuls.
Dagblöð í Bretlandi virðast nú um
stundir vera farin að gera sér grein
fyrir afleiðingum umfjöllunar sinn-
ar sem oft og tíðum var afsprengi
kröfu almennings um fréttir allan
sólarhringinn alla daga vikunnar.
Ekki er langt síðan Tony Blair, fyrr-
verandi forsætisráðherra Bretlands,
líkti fjölmiðlum við „úlfahóp“ og nú
hefur þessum „úlfum“ bæst liðsauki
sem birtist í umsögn almennings á
spjallþráðum netsins.
Almannatengsl
Í upphafi rannsóknarinnar gátu
McCann-hjónin að einhverju leyti
haft áhrif á fréttaflutning vegna
hvarfsins. Það var ekki síst því að
þakka að ferðaskrifstofan sem þau
skiptu við var með samning við al-
mannatengslafyrirtækið Bell Pott-
inger og strax daginn eftir hvarf
Madeleine var Alex Woolfall, starfs-
maður þess, mættur á svæðið. Hann
tók að sér hlutverk fjölmiðlafulltrúa
fyrir McCann-hjónin og þegar hann
hvarf af vettvangi tíu dögum síð-
ar tók breska utanríkisráðuneytið
við kyndlinum og til Portúgal komu
tveir reyndir fréttamenn, Sher-
ee Dodd, sem hafði verið hjá Daily
Mirror, og fyrrverandi BBC-maður,
Clarence Mitchell.
Síðla júnímánaðar hurfu þau
á braut og veiðitímabilið hófst hjá
portúgölskum fjölmiðlum. Almenn-
ingur í Portúgal bar þá von í brjósti
að sökudólgarnir væru breskir og
fjölmiðlar beindu athygli sinni að
foreldrunum því upplýsingar sem
lekið var í fjölmiðla um rannsókn
lögreglunnar voru misvísandi og
jafnvel ábyrgðarlausar.
Gnægtarborð fjölmiðla
Samkvæmt portúgölskum lög-
um eru allir sem koma að málinu
bundnir þagnarskyldu, það eru lög-
reglan, lögfræðingar, McCann-hjón-
in og næstum allir sem hafa borið
vitni. Engu að síður hafa fjölmiðlar
boðið upp á hlaðborð smáatriða um
rannsóknina og málið í heild. Í opin-
berum yfirlýsingum af hálfu portú-
gölsku lögreglunnar hefur sjaldan
borið nýtt á góma og því er hægt
að velta fyrir sér í hvaða gnægtar-
brunn fjölmiðlar hafa sótt veislu-
föngin. Ættingjar og vinir hjónanna
hafa ekki látið sitt eftir liggja og sér-
staklega hefur Philomena McCann,
systir föðurins, verið áberandi í
fjölmiðlum, ekki síst fyrir gagnrýni
hennar á rannsókn lögreglunnar í
Portúgal. Og reyndar hefur lögregl-
an í Bretlandi tekið undir gagnrýn-
ina og portúgalska lögreglan hefur
viðurkennt að margt hafi misfarist
í rannsókninni, sérstaklega á fyrstu
stigum hennar.
Stóðu í sviðsljósinu
McCann-hjónin eru komin heim
til Englands og hafa réttarstöðu
grunaðra. Almenningsálitið virðist
ekki vera þeim hliðhollt og engin
takmörk virðast vera fyrir því hvað
talið er þeim til lasts. Í sumu tilliti
má horfa til þeirra sjálfra með hvern-
ig komið er fyrir þeim í fjölmiðlum.
Strax í upphafi máls var umfjöllun
um þau stjórnað á þann máta sem
hæfði kvikmynda- eða tónlistar-
stjörnum. Andlit Kate McCann birt-
ist oftar á síðum dagblaða en andlit
dóttur hennar. Til að bæta um bet-
ur fóru foreldrar Madeleine í Evr-
ópuferð til að vekja athygli á hvarfi
dóttur sinnar og óhjákvæmilegt var
að þau fengju meiri athygli en mál-
efnið sem þau stóðu fyrir. Mál þeirra
er án efa mál aldarinnar og fjölmiðl-
ar gerðu sér snemma grein fyrir gildi
þess. Sem dæmi má nefna að þegar
foreldrarnir fengu réttarstöðu grun-
aðra kallaði AP-fréttastofan í Banda-
ríkjunum fréttamann sinn af vett-
vangi þar sem utanríkisráðherrar
Evrópusambandsins funduðu, svo
þeir gætu skrifað um þróun mála á
lögreglustöðinni í Portimao. Sú frétt
var ein mest lesna frétt á netfrétta-
miðlum vestanhafs þann dag.
Dómstóll netheima
Þrátt fyrir að fjölmiðlar í bæði
Portúgal og Bretlandi séu nú í
mörgum tilfellum farnir að sjá villu
síns vegar, er ekki hægt að segja
það sama um almenning. Þess er
skemmst að minnast þegar ung-
ur Íslendingur sætti rógburði og
ásökunum í netheimum Íslands.
Þar kvað svo rammt að, að honum
var hótað lífláti og limlestingum og
var svo komið fyrir honum að hann
þorði varla út fyrir hússins dyr. Allt
var það vegna atburðar sem aldrei
hafði átt sér stað, eins og síðar var
ljóst. Öll kurl þar að lútandi eru ekki
enn komin til grafar.
Eftirfarandi eru örfá dæmi um
ástandið í netheimum vegna hvarfs
Madeleine og óhætt er að fullyrða
að dómstóll netheima lætur ekki að
sér hæða.
FORELDRARNIR MIÐPUNKTUR MÁLSINS
Madeleine McCann sem hvarf fyrir fjórum og hálfum
mánuði í Portúgal, fær sífellt minni umfjöllun í fjölmiðlum.
Allra augu hafa undanfarið beinst að foreldrum stúlkunnar
og óhætt er að segja að sitt sýnist hverjum. Aðstæður þeirra
einkennast að sumu leyti af kröfu almennings um nýjar
fréttir og vilja fjölmiðla til að verða við þeirri kröfu.
Atburðarás í máli
Madeleine McCann
3. maí – Hin þriggja ára gamla
madeleine mcCann hverfur úr íbúð
fjölskyldu sinnar í praia da Luz í
portúgal
5. maí – Á meðan leit stendur yfir
gefa foreldrarnir út yfirlýsingu þar
sem þau segja frá ólýsanlegum ótta
sínum og örvæntingu
12. maí – afmælisdagur madeleine
15. maí – grunsemdir um aðild
roberts murat vakna. Hann er af
bresku bergi brotinn og lögreglan
rannsakar heimili móður hans þar
sem hann býr. Heimilið er skammt
frá íbúð mcCann-hjónanna
26. maí – Lögreglan í portúgal gefur
út lýsingu á manni sem sást „halda á
barni eða einhverju sem líktist barni“
kvöldið sem madeleine hvarf
30. maí – mcCann-hjónin hitta
páfann í róm í upphafi evrópuferðar
til að vekja athygli á hvarfi madeleine
6. júní – Á blaðamannafundi í berlín
eru foreldrar madeleine spurðir af
einum þýskum blaðamanni hvað
þeim finnist um að sífellt fleiri virðist
benda á þau í málinu
12. júní – Hjónin koma aftur til
portúgal í lok evrópuferðar sinnar
17. júní – Olegario sousa, yfirmaður
rannsóknarlögreglunnar viðurkennir
að mikilvæg sönnunargögn gætu
hafa eyðilagst á fyrstu klukkustund-
unum eftir hvarf madeleine
10. júlí – robert murat er tekinn til
yfirheyrslu á ný
Síðla í júlí – flogið er með breska
lögregluhunda til portúgal. Þeir eru
notaðir við rannsókn á íbúð mcCann-
hjónanna og nokkrum bifreiðum,
þar á meðal bifreið sem hjónin tóku
á leigu tuttugu og fimm dögum eftir
hvarf dóttur þeirra
6. ágúst – engin ný sönnunargögn
finnast við endurtekna leit á heimili
roberts murat
7. ágúst – sýni sem fundust með
hjálp hundanna í íbúð mcCann-
hjónanna eru rannsökuð í birming-
ham á englandi
11. ágúst – Lögregluyfirvöld í
portúgal viðurkenna í fyrsta skipti í
ljósi nýrra vísbendinga að madeleine
sé hugsanlega dáin. Olegario sousa
segir foreldra hennar ekki grunaða
um aðild að hvarfinu, eins og
portúgalskt dagblað hafði haldið
fram
12. ágúst – Lögreglan segist hafa
efasemdir um með hvaða hætti
hvarf madeleine bar að
31. ágúst – mcCann-hjónin fara í
mál við portúgalsaka dagblaðið tal &
Qual sem hélt því fram að „lögreglan
grunaði“ þau um að hafa myrt dóttur
sína. Hjónin segjast afar sár vegna
ásakananna
6. september – Lögreglan í
portúgal yfirheyrir Kate mcCann,
móður madeleine, í ellefu klukku-
stundir í nærveru lögfræðings
hennar. Hún hafði stöðu vitnis.
Lögreglan gefur einnig út að hún
hafi undir höndum hluta niður-
staðna úr þeim rannsóknum sem
gerðar voru á bretlandi
7. september – móðir madeleine er
opinberlega grunuð um aðild að
hvarfinu og eiginmaður hennar,
gerry mcCann, fær einnig stöðu
grunaðs eftir að hafa verið
yfirheyrður. Orðrómur kviknar þess
efnis að lögreglan hafi fundið leifar
af blóði madeleine í bifreið sem
hjónin tóku á leigu tuttugu og fimm
dögum eftir hvarf hennar
9. september – mcCann-hjónin
snúa heim til bretlands
10. september – saksóknari í algar-
ve í portúgal fær afhent gögn
lögreglu vegna rannsóknar á hvarfi
madeleine. Í Leicester-skíri á
englandi funda bresk lögregluyfir-
völd um málið
11. september – gerry mcCann
bloggar á netinu og segir að þau
hjónin horfist í augu við „óhugsan-
legar“ aðstæður. portúgalska
lögreglan dregur úr fréttum þess
efnis að erfðaefni sem samsvari
erfðaefni madeleine hafi fundist í
bílaleigubíl mcCann-hjónanna.
saksóknari upplýsir að hann hafi
undir höndum rannsóknargögn
vegna málsins og hafi ákveðið að
senda þau til dómara til ákvörðunar-
töku
Kolbeinn þorSteinSSon
blaðamaður skrifar: kolbeinn@dv.is
Kate og Gerry McCann
foreldrar madeleine hafa
réttarstöðu grunaðra.
Madeleine McCann foreldrarnir
settu í gang mikla herferð vegna
hvarfs hennar.