Helgafell - 02.12.1943, Blaðsíða 48
SIGURÐUR EINARSSON:
Seiður Jarðar
Elskhugi minn!
Kom þú í sal minn heill og hugarglaður
og þiggðu fagnaðskoss af feginsvörum
og vittu, að hér má ekkert okkar ró
né unaðsdraumum raska.
Um þetta hægindi, sem þér er búið
er vafið allra óska þinna voðum.
Og svo þú fáir kyrrð frá heimsins kallsi,
ég hef byggt úr brimi af organtónum
svo bjarta hvelfing um þig, vinur minn,
að hérna má þig ekkert framar angra.
Kom heill og glaður, hjartans vinur minn.
Elskhugi minn!
Sjá, eg á annan sal,
og fyrst þú eirir ekki hérna inni,
þá hverfum innar, hefjum annað tal.
í þessum sal er þynnra hljóð og hlýrra,
svo kærleiks míns þú kennir orðalaust.
Þar hef ég lagt úr lækjarniði og smára
— ómi og ilmi æsku þinnar daga
í Fljótshlíð austur, — fagurbúna rekkju.
Hvíl þig nú, vinur, hér er líknarbeður.
Og brekkulækir syngja silfurklukkum
þann svefn, er allir þrá.