Kjarninn - 17.07.2014, Blaðsíða 16
06/06 Efnahagsmál
þýðir að með vöxtum skuldi Argentína sjóðnum 1,3 milljarða
dala, jafnvirði um 150 milljarða íslenskra króna. Hinn 17. júní
síðastliðinn neitaði Hæstiréttur Bandaríkjanna að taka fyrir
áfrýjunarmál Argentínustjórnar og henni var þar af leiðandi
gert að greiða upphæðina, eða semja um hana, fyrir 30. júní.
Argentína borgaði ekki fyrir þann dag og landið er því byrjað
að draga á 30 daga sem það hefur til að lýsa yfir gjaldþroti í
kjölfar þess að það stendur ekki við gjalddaga. Eða semja.
NML veit mætavel að það eru nánast engar líkur á því að
Argentína borgi skuldabréfin að fullu. Og Argentína hefur
ekki efni á því, enda myndi slíkt gera það að verkum að aðrir
kröfuhafar sem sömdu um niðursettar kröfur myndu fara
í mál, og nær örugglega vinna, til að fá upphaflegar kröfur
sínar greiddar. Fjármálaráðherra Argentínu, Axel Kicillof,
heldur því fram að kostnaður vegna þess yrði allt að 120
milljarðar dala, um 13.680 milljarðar króna.
Og samningar eru ekki bara efnahagslega blóðugir
fyrir Argentínu. Þeir eru líka pólitískt erfiðir fyrir Cristinu
Kirchner forseta, sem hefur ítrekað lýst yfir harðlínustefnu
gagnvart kröfum vogunarsjóðanna. Hún ætli ekki að láta
undan kröfum þeirra.
Tíundi stærsti sjóður bandaríkjanna
Það er ekki hægt að segja að sú strategía sem Elliott-
sjóðurinn valdi sér hafi ekki skilað árangri. Í árslok 2011 var
umfang eigna í stýringu Elliott 19,2 milljarðar dala, um 2.200
milljarðar króna. Það er tæpum 500 milljörðum krónum
meira en árleg þjóðarframleiðsla Íslendinga og gerði Elliott
að tíunda stærsta vogunarsjóði Bandaríkjanna á þeim tíma.
Miðað við árangur hans á síðustu árum verður að teljast afar
líklegt að umfang eignanna hafi aukist síðan þá.
Elliott er því nokkuð stærri en Davidson Kempner
Capital Management, sem á Burlington Loan Management,
langstærsta erlenda kröfuhafa fallinna íslenskra fjármála-
fyrirtækja. Davidson Kempner sat í 13. sæti á listanum yfir
stærstu vogunarsjóði Bandaríkjanna í lok árs 2012.