Morgunblaðið - 04.08.2012, Page 14
VIÐTAL
Stefán Gunnar Sveinsson
sgs@mbl.is
„Sælgæti, sígarettur, og vindlar,“
hrópuðu sölustrákar á Melavellinum
gamla um miðja síðustu öld. Einn af
þeim sem gengu þar um með vörur
var Gunnar Snorrason, kaupmaður
og síðar formaður Kaupmanna-
samtakanna, sem þá var á ferming-
araldri að stíga sín fyrstu spor í
verslun, en samhliða sölustörfunum
á knattspyrnuvellinum vann Gunnar
í búð á Njálsgötu.
Í kjölfarið byrjaði Gunnar, fimm-
tán ára gamall, að vinna í Teigabúð-
inni í Laugarneshverfinu hjá Jó-
hanni Jónssyni kaupmanni. Fjórum
árum síðar keypti hann verslunina
og var þá orðinn að verslunareig-
anda, aðeins nítján ára gamall, sem
þótti ungur aldur. „Ég keypti hana
þess vegna í félagi með Stefáni Run-
ólfssyni, formanni Ungmennafélags
Reykjavíkur, en ég æfði frjáls-
íþróttir á þeim árum. Tveimur árum
síðar mátti ég eiga hana einn og
keypti hana því. Ég rak síðan búðina
til ársins 1960.“
Úr Teigunum lá leið Gunnars í
Vogana þar sem hann keypti búðina
Vogaver ásamt meðeiganda sínum
Árna Kjartanssyni, en Valdimar
Gíslason átti húsnæðið með þeim.
Gunnar og Árni ráku síðan versl-
unina þar fram til ársins 1975 þegar
Gunnar færði sig um set upp í Breið-
holt, sem þá var verið að byggja
upp.
Efldi verslun í efra-Breiðholti
Gunnar fékk úthlutaða lóð í Hóla-
hverfi í Breiðholtinu árið 1973, þar
sem hann lét reisa stórmarkaðinn
Hólagarð sem var opnaður 8. júní
1975. Hverfið var þá að slíta barns-
skónum. Gunnar segir að ekki hafi
allir verið sáttir við það að hann fékk
úthlutaða lóð og fór Þjóðviljinn mjög
geyst gegn henni. „Þetta varð að
pólitísku moldviðri,“ segir Gunnar,
en viðskiptavinirnir tóku versluninni
opnum örmum þrátt fyrir það.
Fjölskylda Gunnars tók slaginn
með honum í Hólagarði, en öll fjögur
börn hans og Jónu Valdimarsdóttur
eiginkonu hans, unnu á einum tíma
eða öðrum í versluninni. Elst er
Anna Lilja, en hún er í dag hjúkr-
unarfræðingur og doktor í stjórnun
og starfar sem ráðuneytisstjóri í vel-
ferðarráðuneytinu. Næstur er Sig-
urður, sem á í dag Kjötsmiðjuna, en
hann varð hægri hönd Gunnars í
Hólagarði. Brynja Björk er hjúkr-
unarfræðingur og deildarstjóri á
Landspítalanum, eins og yngsta
barn Gunnars og Jónu, Ásta. Gunn-
ar og Jóna eiga nú 12 barnabörn og
3 barnabarnabörn. „Án fjölskyld-
unnar hefði mér varla tekist þetta,
því að þetta var ekki létt verk að
reisa verslun frá grunni í nýju hverfi
og vera á sama tíma formaður
Kaupmannasamtakanna,“ segir
Gunnar, en hann tók við formennsku
í þeim árið 1973, sama ár og honum
var úthlutað lóðinni.
Gunnar og Hólagarður settu
mark sitt á verslun í Breiðholtinu
næstu fimmtán árin, eða til ársins
1990. Gunnar leigði svo kjörbúðina
út til Hagkaupa þangað til hann
seldi alla fasteignina árið 1998.
Líkt og fyrr sagði varð Gunnar
formaður kaupmannasamtakanna
1973 og gegndi hann því embætti
næstu tíu árin, til 1983.
„Á þessum árum voru samtökin
virk og mjög áberandi í fjölmiðlum,
þar sem mörg baráttumál kaup-
manna voru tekin upp. Verðlags-
málin voru stærst þar, en einnig
þurfti að sinna ýmsum öðrum mál-
um, skattamálum, tollamálum,
samningamálum og barátta til þess
að losna við ýmiskonar höft.“
Á þessum tíma voru höft á verð-
lagi, og hið opinbera ákvað verðlag á
flestum vörum. Þessu vildu kaup-
menn breyta. „Í þeirri baráttu vís-
uðum við gjarnan í fleyg orð Jóns
Sigurðssonar forseta, „Verslunin er
undirrót velmegunar lands og lýðs
þegar hún er frjáls,“ segir Gunnar,
en hann vill ekki eigna sér einum
þann árangur að höftin voru afnum-
in um 1983.
Mjólkurmálið kostaði baráttu
Þá er enn ótalið mjólkurmálið.
Mjólk var þá ekki seld í almennum
verslunum, heldur í sérstökum
mjólkurbúðum í eigu Mjólkursam-
sölunnar. Gunnar segir að það hafi
kostað mikla baráttu að breyta því
en sérstök nefnd innan Kaupmanna-
samtakanna vann að því máli.
„Þá var ekki spáð góðu ef kaup-
mennirnir færu að selja mjólkina.
Það voru skrifaðar greinar um það í
blöðin að heilbrigðiseftirlitið þyrfti
að vera vakandi yfir sölu mjólkur í
almennum verslunum. En ætli ein-
hver myndi vilja hverfa til baka til
þessa tíma?“
Gunnar heldur áfram í vinnu þrátt
fyrir að vera kominn á níræðisald-
urinn, en hann hjálpar syni sínum á
skrifstofu Kjötsmiðjunnar.
„Þegar menn hafa verið í „action“
alla ævi þá er betra að hafa eitthvað
til að starfa við meðan heilsan leyf-
ir.“ Hann sinnir einnig félagslífinu.
„Við hittumst enn nokkrir af gömlu
kaupmönnunum mánaðarlega í kaffi
og köllum okkur þá lávarðadeild-
ina.“
Verslunarmaður frá fermingu
Gunnar Snorrason, fyrrverandi formaður Kaupmannasamtaka Íslands, varð áttræður í byrjun júlí
Reisti Hólagarð og rak í fimmtán ár Barðist fyrir frjálsu verðlagi og mjólk í almennar verslanir
Morgunblaðið/RAX
Verslun, mál og vog Gunnar Snorrason, fyrrverandi formaður Kaupmannasamtaka Íslands, á skrifstofu sinni í Kjötsmiðjunni.
Ljósmynd/Kaupmannasamtök Íslands
Opnun Hólagarðs í júní 1975 Frá vinstri: Gunnar og Jóna, Sigurður sonur
þeirra, Gyða Björnsdóttir, Einar Ólafsson og Anna Lilja dóttir þeirra.
14 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 4. ÁGÚST 2012
„Kaupmönnum á horninu hefur
farið fækkandi. Það er miður,
því þetta voru nokkurs konar fé-
lagsmiðstöðvar á sínum tíma,“
segir Gunnar og bætir við að
sótt hafi verið að hverfabúð-
unum úr ýmsum áttum. „Í fram-
haldi af þeim komu sjálfs-
afgreiðsluverslanir og þar á
eftir stórmarkaðir, sem er
ákveðin þróun,“ segir Gunnar.
„Það er sjónarsviptir að kaup-
manninum á horninu og hverfa-
búðunum og það mætti vera
meira í bland við stærri versl-
anir, því það komast ekki allir
sem vilja í stórmarkaðina.
Hverfabúðir eru reyndar að
koma aftur núna, sem er jákvæð
þróun.“ Gunnar segir að annars
staðar á Norðurlöndunum sé
verslun blandaðri en hér og fólk
tali þar gjarnan um kaupmann-
inn sinn. Það hafi raunar verið
svipað á fyrri tíð á Íslandi.
„Maður kynntist fjölskyldunum
vel. Persónuleg samskipti voru
meiri í þá daga.“
Hefur farið
fækkandi
HVERFABÚÐIR
Laus íbúð í Eirhömrum, öryggisíbúðum Eirar í mosfellsbæ
Í Eirhömrum eru 53 öryggisíbúðir, þar sem veitt er heima- og
hjúkrunarþjónusta
Í Eirhömrum er matsalur og félagsmiðstöð
Öryggisvakt er allan sólahringinn
30 manna hjúkrunarheimili er í byggingu sem tengt verður
öryggisíbúðunum
Upplýsingar veittar hjá Eir hjúkrunarheimili í síma 522-5700 á
skrifstofutíma
•
•
•
•
•
Eirhamrar - Öryggisíbúð