Morgunblaðið - 19.10.2012, Blaðsíða 32

Morgunblaðið - 19.10.2012, Blaðsíða 32
32 MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 19. OKTÓBER 2012 ✝ Ingveldur(Inga) Einars- dóttir fæddist í Reykjavík 23. jan- úar 1950. Hún lést á gjörgæsludeild Landspítalans við Hringbraut 9. októ- ber sl. Foreldrar henn- ar voru Einar Ög- mundsson bifreiða- stjóri, f. 23.10. 1916, d. 3.6. 2006, og Margrét Bjarnadóttir húsmóðir, f. 26.6. 1914, d. 25.12. 2003. Systkini Ingveldar eru Ögmundur Ein- arsson, f. 1942, kvæntur Magda- lenu Jónsdóttur, Ingibjörg Ein- arsdóttir, f. 1946, gift Júlíusi Sigurbjörnssyni, Þórunn Ein- arsdóttir, f. 1956, gift Frank Jensen. Inga giftist 3. júlí 1971 eft- irlifandi eiginmanni sínum Trausta Sveinbjörnssyni raf- magnsiðnfræðingi, f. 22.1. 1946. Foreldrar hans eru Borghildur Þorláksdóttir frá Veiðileysu, f. 28.6. 1924, og Sveinbjörn Ólafs- son frá Syðra-Velli, f. 17.10. 1916, d. 30.5. 2012. Inga og Trausti eignuðust þrjá syni: 1) Björn, f. 13.2. 1971, kvæntur Helgu Halldórsdóttur, f. 22.4. 1963. Börn þeirra: Kristjana, f. 19.10. 1998, og Karl Trausti, f. 8.5. 2002. 2) Bjarni Þór, f. 24.12. 1974, kvæntur Sig- rúnu Ögn Sigurð- ardóttur, f. 3.8. 1974. Börn þeirra: Arnar Smári, f. 16.6. 2000, Davíð Freyr, f. 6.9. 2002, Brynjar Þór, f. 8.10. 2010, óskírð- ur, f. 29.9. 2012. 3) Ólafur Sveinn, f. 5.5. 1977, í sambúð með Eydísi Eyþórs- dóttur, f. 23.10. 1977. Sonur þeirra er Eyþór Ingi, f. 11.10. 2011. Inga ólst upp í Grímshaga í Reykjavík og stundaði nám við Melaskóla, Hagaskóla og Hér- aðsskólann á Reykjum í Hrúta- firði þar sem hún lauk gagn- fræðaprófi. Inga kynntist Trausta, eftirlifandi eiginmanni sínum, árið 1969 og hófu þau bú- skap í Hafnarfirði árið 1971 þar sem hún bjó til dauðadags. Inga vann ýmis störf yfir ævina, en þegar drengirnir voru litlir var hún heimavinnandi. Hún starf- aði á gæsluvöllum, í Sundhöll Hafnarfjarðar, á St. Jósepsspít- ala, Borgarspítalanum og síð- ustu árin vann hún á Hrafnistu í Hafnarfirði þar til hún veiktist. Útför Ingu fer fram frá Víði- staðakirkju í Hafnarfirði dag, 19. október 2012, og hefst at- höfnin kl. 13. Í huga mínum himinninn er fjarri og held ég fái að vera hér um sinn. Þó englar Guðs mér þrái að vera nærri þeir fá þó bara að svífa um huga minn. Þín návist Guð mér gefur allt svomikið og gakk þú með mér ævi minnar veg. Ég vildi þú gætir aldrei frá mér vikið og bið þú verndir mig meðan ég er. Það veit ei nokkur ævi sína alla og án þín Guð er lífið búið spil. Því á þig einhver engillinn mun kalla þá endar þetta líf ef rétt ég skil þá endar þetta líf ef rétt ég skil. Þú velja skalt þann veg sem virðist greiður þinn vilji mun þig leiða í rétta átt. Lof hjarta þínu að tala sértu leiður og lífi þínu tak í gleði og sátt. Svo vil ég minna á ljósið sem þér lýsir þá leið sem Guð þér fylgir alla tíð. Þú anda hans í hjarta þínu hýsir og heldur fast í hann um ár og síð. Það veit ei nokkur ævi sína alla og án þín Guð er lífið búið spil. Því á þig einhver engillinn mun kalla þá endar þetta líf ef rétt ég skil þá endar þetta líf ef rétt ég skil. (Ólafur Sveinn Traustason) Elsku Inga mín. Hvað þú varst dugleg í öllum þínum veikindum, kvartaðir ekki þótt þú hafir þurft að fara þrisvar sinnum í viku í skil- un og þrjá tíma í senn. Það var líka tekið vel á móti þér af starfsfólk- inu á skilunardeild Landspítalans og það létti þér lífið. Svo beiðst þú allaf eftir stelpunum þínum sem komu til þín; Elísabetu sem kom og setti þig í sturtu, blés hárið og snyrti neglur og Þorbjörgu sem fór með þig út að ganga. Það er erfitt fyrir mig að kveðja þig. Þú fórst allt of snemma, við sem vorum svo bjartsýn á að þú fengir nýja lifur og nýtt nýra og gætir hafið nýtt líf. En það er ekki alltaf sem hlutirnir ganga upp og ég veit að læknarnir okkar gerðu allt fyrir okkur sem hægt var að gera. Mig langar að þakka okkar bestu læknum, þeim Sigurði Ólafsssyni og Runólfi Pálssyni, sem hugsuðu um okkur frá fyrsta degi. Svo og starfsfólki á 13E fyrir mjög góða umönnun. Elsku Inga mín, takk fyrir allt og allt. Þinn eiginmaður og besti vinur, Trausti. Nú er hún mamma dáin langt fyrir aldur fram. Hún var ung þegar hún átti okkur bræðurna og stóð sig með prýði að koma okkur til manns. Eða það finnst okkur. Hún fæddist í Hólabrekku á Grímsstaðaholtinu og bjó í Gríms- haga sín uppvaxtarár. Hún kynnt- ist pabba fyrir tvítugt og var búin að eiga okkur alla 27 ára gömul. Þau keyptu fokhelda íbúð í Fög- rukinn í Hafnarfirði og fluttu inn í hana á brúðkaupsdaginn 3. júlí ár- ið 1971. Úr Fögrukinn eigum við bræð- urnir góðar minningar. Mamma vann heima á meðan við vorum litlir og þar sem pabbi vann lang- an vinnudag sá hún um allt sem fylgir því að ala upp þrjá pjakka. Hún stóð sig vel í því hlutverki og gekk bæinn þveran og endilang- an, mælti sér t.d. mót við trillu- karlana niður á höfn og fékk hjá þeim soðningu. Árið 1983 keyptu mamma og pabbi lóð í Álfabergi og fluttum við þangað inn þann 30. desember 1984. Nóg var um að vera meðan á húsbyggingunni stóð og var mamma ávallt mætt með kaffi og meðlæti fyrir þá sem voru á staðn- um. Þegar við fluttum inn bjuggu þau okkur bræðrum gott heimili í Álfabergi 14. Við bræður með föður okkar vorum virkir í íþróttastarfi með frjálsíþróttadeild FH og á mamma sinn þátt í að við áttum farsælan feril. Sama hvað æfing- arnar drógust á langinn fram eftir kvöldi þá var heitur matur á borð- um þó svo að enginn kæmi í mat á sama tíma. Mamma var félagi í Skíðadeild Hrannar í Skálafelli ásamt okkur feðgunum. Það voru ófá skiptin sem við fórum saman á skíði og sérstaklega minnisstæðar ferðirn- ar um páskana. Þá var mamma búin að elda hangikjöt með upp- stúf og kartöflum og uppskárum við öfund félaga okkar sem fengu aðeins samlokur með smjöri og osti. Einnig eru ferðirnar í Veiði- leysufjörð á Ströndum okkur bræðrunum mjög minnisstæðar. Þá voru vegirnir bágbornir og þurfti að stoppa oft á leiðinni. Þá var mamma tilbúin með nesti og heitt kakó til að gera okkur klára fyrir næsta hluta leiðarinnar. Mamma og pabbi keyptu sér felli- hýsi fyrir nokkrum árum sem þau notuðu mjög mikið á sumrin og var mamma mjög stolt af því. Jákvæðni, léttlyndi og húmor voru persónueinkenni mömmu. Var hláturmild, glöð og jákvæð sem var hennar mesti styrkur í veikindunum. Þar sem mamma beið eftir að komast í aðgerð í Gautaborg mátti hún ekki fara nema í hálftíma fjarlægð frá Reykjavíkurflugvelli. Þegar yngsta barnabarnið fæddist þann 29. september síðastliðinn stálust þau pabbi á fæðingardeildina á Akranesi til að sjá litla strákinn. Það var dýrmætt að hún skyldi ná að sjá öll barnabörnin sín. Mamma var afskaplega stolt af fjölskyldu sinni og voru barna- börnin henni allt. Þeirra missir er mikill. Móðir okkar sýndi ótrúlegan viljastyrk, æðruleysi og hetjulund á þessum erfiðu tímum. Þó að hvert áfallið ræki annað þá reis hún sterkari en áður upp. Síðustu dagana var hún einmitt mjög já- kvæð og tilbúin að fara í aðgerð- ina. Þess vegna var öllum brugðið þegar kallið kom. Mamma fór allt of fljótt frá okkur. Björn, Bjarni Þór og Ólafur Sveinn Traustasynir. Elsku amma Inga. Við söknum þín svo mikið og hugsum um allar skemmtilegu stundirnar okkar saman. Þegar þú komst í heimsókn með afa upp í Borgarnes til okkar varstu alltaf skellihlæjandi og auðvitað með fulla poka af bakkelsi úr bakarí- inu. Þú varst alltaf svo fín og glæsileg og oftast í nýjum fötum. Þegar við vorum hjá ykkur í Hafn- arfirði á gamlárskvöld þá áttum við öll svo skemmtilegar stundir. Þú varst búin að baka og hita súkkulaði þegar allir voru búnir að sprengja upp flugeldana. Þú hugsaðir alltaf svo vel um alla og þú kallaðir okkur alltaf „ljósið þitt“. Það var líka svo gaman þeg- ar þú hélst upp á síðustu jólin þín hér hjá okkur í Borgarnesi, við munum hugsa til þín og við vitum að þú munt vera hjá okkur. Við biðjum þig um að passa okkur og varðveita og vera engillinn okkar uppi á himninum. Við gleymum þér aldrei elsku amma, þú verður alltaf ljósið okkar. Ég sendi þér kæra kveðju nú komin er lífsins nótt, þig umvefji blessun og bænir ég bið að þú sofir rótt. Þó svíði sorg mitt hjarta þá sælt er að vita af því, þú laus ert úr veikinda viðjum þín veröld er björt á ný. Ég þakka þau ár sem ég átti þá auðnu að hafa þig hér, og það er svo margs að minnast svo margt sem um hug minn fer, þó þú sért horfinn úr heimi ég hitti þig ekki um hríð, þín minning er ljós sem lifir og lýsir um ókomna tíð. (Þórunn Sigurðardóttir) Arnar Smári, Davíð Freyr, Brynjar Þór og óskírður Bjarnason. Nú fegurð þín er fjarri þú farin ert okkur frá. Svo blíð er minningin af þér svo blíð það berast tár. Ein stjarna lýsir stjarna mest Stór með hlýjum bjarma. Þú ert á himni og í huga mér elsku duglega amma. (Ólafur Sveinn Traustason.) Það er erfitt að trúa því að þú sért farin frá okkur, þín verður ávallt sárt saknað. Þinn ömmustrákur, Eyþór Ingi, Ólafur Sveinn og Eydís. Ég minnist orða móður okkar þegar hún sagði stundum að Ingu hefði legið á í heiminn og nú hefur hún kvatt okkur alltof fljótt. Stundum tekur lífið einhverja þá stefnu sem okkur hefur ekki órað fyrir og örlagadísirnar spinna sína þræði. Minningarnar hrannast upp, ég man fyrst eftir Ingu í rimlarúminu sínu með vafið um fæturna því það átti að rétta með- fædda skekkju. Mér fannst vafn- ingarnir afar flottir og öfundaði hana af þessu en meðferðin náði tilætluðum árangri og fáir höfðu fallegri fætur en Inga. Inga var sem barn og ungling- ur viljug og fljót til sendiferða, stökk út í búðir á Fálkagötunni oft á dag og við sem eldri vorum skildum ekki hvað hún var létt á fæti. Hún sýndi fleiri tilburði í hreyf- ingum, lagði stund á ballett og reyndi að kenna mér sporin á kvöldin. Hún átti sérlega létt með að læra lög og texta og naut þess alla tíð að dansa og syngja. Sem unglingur var hún í hópi aðdáenda Bítlanna og fyllti herbergið sitt af myndum af dýrlingunum. Þetta gekk samt fulllangt því ég minnist margra kvölda þar sem hún stökk fram úr herberginu hálfsmeyk því þá fannst henni myndirnar lifna við svo henni varð ekki um sel. Á unglingsárunum fór hún í Reykjaskóla og þar kynntist hún góðu fólki og heimavistarlífið fannst henni skemmtilegt. Að sveitadvölinni lokinni vann hún m.a. í leikskólum og leið alla tíð vel meðal barna. Einn góðan veðurdag birtist ungur maður á tröppunum í Grímshaga og mamma hélt að hann væri að spyrja eftir mér en svo var nú aldeilis ekki. Þarna var Trausti mættur og frá þeim degi hefur hann staðið þétt við hlið Ingu, stutt hana til allra góðra verka og á nú um sárt að binda. Þau hafa arkað saman æviveginn í rúmlega fjörutíu ár, eignast sam- an þrjá yndislega drengi og barnabörnin eru orðin sjö. Þau hófu búskap í Hafnarfirði enda Trausti sannur Gaflari. Ingu leið alltaf vel í Hafnarfirði og fjölskylda Trausta var henni mjög kær. Heimilið var fallegt og vel um það hugsað, Inga var prinsessan á heimilinu og studdi sína menn í orði og verki og þau voru ófá íþróttamótin sem hún sótti til að hvetja drengina sína til dáða. Oft var mannmargt á heim- ilinu og allir velkomnir í mat eða jafnvel gistingu. Hver svo sem máttur örlaga- dísanna er þá er erfitt að sætta sig við að nú sé Inga horfin úr okkar lífi. Hún var aðeins yngri en ég og samt man ég svo margt úr okkar uppvexti sem mun svo sannarlega fylgja mér í framtíðinni. Myndirn- ar sem koma fram eru breytilegar eftir aldursskeiðum. Sem lítil stúlka var bjart yfir henni, hún var létt og kát, sem unglingur birtist hún með stríðsmálningu um augun og í mjög stuttum pils- um og sem fullorðin kona var hún alltaf vel upp færð og fram á síð- ustu stundu naut hún þess að kaupa sér falleg föt. Það leið vart sá dagur að við ræddum ekki saman í síma og þeirra stunda mun ég nú sakna. Hún tók veikindum sínum af æðruleysi og var staðföst í barátt- unni. Á þessari sorgarstundu sendi ég Trausta, Birni, Bjarna Þór, Ólafi og fjölskyldum þeirra innilegar samúðarkveðjur og bið þess að allar góðu minningarnar nái að ylja þeim í framtíðinni. Ingibjörg Einarsdóttir. Inga mágkona mín var einstök kona, hlý, umhyggjusöm, jákvæð, hress og skemmtileg. Hún hafði sérstakt lag á að sjá spaugilegu hliðarnar á lífinu, sagði skemmti- lega frá og gerði óspart grín að sjálfri sér. Við hlógum oft og mikið að einhverju fáránlegu sem hún hafði lenti í, skemmtisögum af strákunum hennar eða af gullmol- unum hennar sem hún sá ekki sól- ina fyrir, barnabörnunum. Í mörg ár hefur varla liðið sá dagur að við heyrðum ekki hvor í annarri og oftar en ekki hringdi hún. Bara til að heyra hvernig ég hefði það eða til að skamma mig ef ég svaraði heimasímanum á laug- ardagskvöldi. Við höfðum alltaf nóg að spjalla um og alltaf bar hún sig vel þrátt fyrir erfið veikindi. Inga bar mikla umhyggju fyrir fólki og nutum við mæðgur góðs af því. Það var ekki ósjaldan sem hún bauð okkur í mat, heita pottinn eða með þeim Trausta í fellihýsið þar sem við áttum góðar stundir saman. Stuðningur þeirra Ingu og Trausta við okkur mæðgur á erf- iðum tíma í okkar lífi var ómet- anlegur og verður seint þakkaður. Inga var ótrúlega dugleg að rækta samband sitt við vini sína og ættingja, bæði með innliti og hringingum. Hún hringdi oft þrisvar á dag í mömmu meðan mamma gat ennþá svarað í síma auk þess að kíkja inn til þeirra pabba á leið í vinnuna. Inga hafði oft á orði hvað hún saknaði þess að geta ekki lengur spjallað við mömmu í síma. Ég veit að það eiga margir eins og ég eftir að sakna þess að heyra ekki í Ingu. Hún var húmoristi fram í fingurgóma og fólk sem kynntist henni gleymir henni ekki. Elsku Trausti, Björn, Bjarni Þór, Ólafur Sveinn og fjölskyldur, ykkar missir er mikill og megi góður guð styrkja ykkur á þessum erfiða tíma. Elsku Inga, það er sárt að kveðja þig en minningin um þig lifir í hjarta mínu. Þín mágkona, Ólöf Þóra. Ég trúi ekki enn að kominn sé sá tími að ég þurfi að kveðja þig, elsku Inga mín. Ég er ennþá að venjast því að þú hringir ekki á kvöldin, það mun taka mig langan tíma. Síminn hringdi á hverju kvöldi og alltaf vissi ég að það varst þú. Þú varst bara að tékka á okkur, hvað væri að frétta og hvað við hefðum gert yfir daginn. Þú varst svo einstaklega hugulsöm, elsku Inga, hugsaðir svo vel um aðra. Takk fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig. Öll kvöldin sem þú leyfðir mér og Kristjönu að koma, fara í heita pottinn, horfa á mynd- ir og gista. Keyptir bakarísmat í morgunmat, bakaðir með okkur í kaffitímanum, keyptir nammi fyr- ir kvöldið og ég gæti endalaust tal- ið upp hvað þú dekraðir við okkur út í eitt. Takk fyrir allar ferðirnar í Fjöl- skyldu- og húsdýragarðinn, allar útilegurnar og ferðalögin sem við fórum í saman þar sem við spil- uðum og spjölluðum fram á nótt. Takk fyrir að hugsa til mín, bjóða mér í mat og hringja oft að tékka á mér þegar ég var ein heima. Ég verð þér ævinlega þakklát. Við stríddum hvor annarri endalaust, þú mér fyrir að tala of mikið og fyrir að vera frekja og ég þér fyrir að vera lítil. Svo rifumst við um það hvor væri meiri brussa. Það þurfti ekki mikið til að fá þig til að hlæja og gátum við hlegið saman endalaust. Ég sakna þess að sjá þig brosa og heyra hlátur þinn sem var svo sérstakur. Ég trúi því ekki enn að þú sért farin frá okkur, elsku Inga. Þú varst mér svo mikilvæg og mér þótti svo vænt um þig. Ég dáist að þér, Inga mín, hversu sterk þú varst gegnum veikindin. Þú varst einstök manneskja, hjarthlý og góð. Minning þín mun lifa í hjarta mínu að eilífu. Ásta Eygló. Látin er, langt um aldur fram, Ingveldur Einarsdóttir. Maður hennar er Trausti Sveinbjörns- son, bróðursonur minn. Sextíu og tvö ár eru ekki hár aldur. Það er enginn að hugsa um annað en lífið og starfið á þeim aldri, og þó hún hafi kennt sér meins á þessu ári héldu allir að úr myndi rætast. En svo er allt í einu slökkt á ljósinu sem lýst hefur upp lífið og fjöl- skylduna. Inga og Trausti höfðu það fyrir sið nokkur síðustu árin að kalla eldra fólkið í stórfjölskyldunni frá Syðra-Velli í kaffi þegar fór að lengja daginn á vorin, á sitt fallega heimili í Álfaberginu í Hafnarfirði. Þetta framtak þeirra hjóna lýsir hugulsemi og rausn, að leggja heimili sitt undir svona fagnað og að koma saman og hittast. Við sem nutum þess búum að því og þökk- um af alhug framtak þeirra hjóna og geymum þessar stundir í minn- ingasjóði okkar. Ég minnist fleiri samverustunda á síðustu árum, t.d. ættarmótanna í Félagslundi, sem þau tóku alltaf þátt í. Ég sendi fjölskyldunni, eigin- manni, sonum, tengdadætrum og sonarbörnum mínar innilegustu samúðarkveðjur og bið þess að ár- in sem framundan eru megi verða þeim hlý. Jón Ólafsson. Inga vinkona er dáin. Harmur og söknuður leitar á hugann. Við í skíðadeild Hrannar drúpum höfði og hugsum með söknuði til Ingu. Að starfa í íþróttafélagi og jafn- vel keppa finnst manni ekki passa við fyrstu sýn, þegar maður hugsar til Ingu vinkonu. Ef betur er að gáð er það þó ósköp eðlilegt þegar maður hugs- ar um Ingu og Tausta og aukin- heldur þegar synirnir koma inn í myndina. Heildarmyndin er jú að keppn- ismenn ná ekki árangri, verða ekki góðir, ef enginn hugsar um matinn, já og sokkana. Fá orð segja oft mikið. Við þökkum áratuga samfylgd og öll brosin. Þökkum fyrir öll áramótaboðin á heimili þeirra, þar sem við héld- um aðalfundi skíðadeildarinnar. Biðjum Trausta, Birni, Bjarna og Ólafi og fjölskyldum þeirra guðsblessunar í harmi þeirra. Torfi og Margrét. Ég vil gjarnan lítið ljóð láta af hendi rakna. Eftir kynni afargóð ég alltaf mun þín sakna. (Guðrún V. Gísladóttir) Enn er höggvið skarð í okkar litla klúbb. Eftir baráttu við mikil veikindi hefur Inga vinkona okkar nú kvatt þennan heim. Í rúm þrjátíu ár hafa leiðir okk- ar legið saman. Í fyrstu var það í gegnum börnin okkar sem við kynntumst og sá kunningsskapur þróaðist í vináttu sem hefur varað alla tíð síðan. Ýmislegt var brallað á þessum árum til viðbótar við að hittast reglulega og þykjast sauma og prjóna. Farið var t.d. í útilegur, sumarbústaði, kaffihús o.fl. en efst er þó í minningunni ferðin í Veiðileysu með þeim hjón- um fyrir tveimur árum. Mikið eigum við eftir að sakna hennar úr hópnum og hennar hnyttnu tilsvara og dillandi hlát- urs því alltaf var stutt í húmorinn. Hún var manneskja sem bar hag annarra fyrir brjósti og hefur reynst okkur vel þegar eitthvað hefur bjátað á í lífi okkar. Hún var ákaflega stolt af drengjunum sín- um og ekki síður öllum barna- börnunum. Viku áður en hún lést var hún með okkur og lék þá við hvern sinn fingur og montaði sig af nýjasta barnabarninu sem hún var nýbúin að sjá. Kæra vinkona, hvíl í friði og takk fyrir samfylgdina. Elsku Trausti, synir, tengda- dætur og barnabörn, megi góður guð gefa ykkur styrk í sorginni. Minningin lifir. Kolbrún, Alma, Sigurbjörg og Ingibjörg. Fyrir hálfum mánuði áttu nokkrir vinir úr skíðadeild Hrann- ar notalega samverustund á veit- ingastað í miðborginni til að spjalla og njóta lífsins. Það var sérstaklega gleðilegt að Inga treysti sér til að koma og eiga þessa samverustund með okkur, glæsileg og vel tilhöfð að vanda þrátt fyrir áleitin veikindi. Fráfall hennar minnir á hvað sérhver stund lífsins er dýrmæt. Okkur þótti öllum vænt um að hitta hana. Ingveldur Einarsdóttir

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.