Morgunblaðið - Sunnudagur - 02.06.2013, Page 28
S
teinþór Jónsson er ekki fyrr sestur niður mér til samlætis en
hann sprettur á fætur aftur til að aðstoða eldri konu inn úr dyr-
unum á Björnsbakaríi á Dalbrautinni. Það eru framkvæmdir við
stéttina fyrir utan og ekki hlaupið að því að komast inn með
stóra kerru.
Konan gengur inn í flassið hjá Styrmi Kára og veit ekki hvaðan á sig
stendur veðrið. Ég flýti mér að upplýsa að Morgunblaðið sé í heimsókn
og henni sé með öllu óhætt. „Hamingjan góða,“ verður henni að orði.
Konan, Arnfríður Snorradóttir, er að koma í fyrsta skipti í þessa nýju
búð, sem opnuð var fyrir þremur vikum, og líst ljómandi vel á. „Ég
versla mikið við Björnsbakarí vestur í bæ og það er fínt að fá þessa búð
líka,“ segir hún.
Bakarí var í þessu sama rými í hálfan fjórða áratug, frá 1960 til 1995,
en síðustu árin var þar pitsugerð. Björnsbakarí festi kaup á húsnæðinu í
nóvember síðastliðnum og innréttaði allt frá grunni. „Hér inni er allt
nýtt,“ upplýsir Steinþór.
Hjördís Sóley Sigurðardóttir og Hildur Ýr Ottósdóttir hjá Ydda arki-
tektum sköpuðu útlitið og öll húsgögn voru smíðuð á Íslandi úr birki-
krossvið. Hægt er að tylla sér og njóta bakkelsisins við borð á bekkjum
og forláta stólkollum sem Steinþór hefur mikið dálæti á. Bendir á einn
eins og hann sé hluti af fjölskyldunni. „Þetta er Torfi!“
Ljómandi góð staðsetning
„Við erum alltaf að horfa eftir góðu plássi, sérstaklega í austurbænum,“
heldur Steinþór áfram en margir tengja Björnsbakarí við vesturbæinn
og framleiðslan sjálf fer fram á Seltjarnarnesi. „Þegar þetta húsnæði
losnaði ákváðum við að slá til. Þetta er ljómandi góð staðsetning og næg
bílastæði.“
Hann er ánægður með viðtökurnar. „Það hefur verið stígandi í þessu
frá því við opnuðum og framhaldið lofar góðu. Annars er flóð og fjara í
þessum rekstri eins og öðru.“
Auk hefðbundins bakkelsis býður Björnsbakarí upp á súpu allan dag-
inn. „Ég hef ekki verið með mat í hádeginu enda ekki kokkur,“ segir
Steinþór. Gott úrval er af brauðum í búðinni, fimmtán tegundir. Múslí-
brauð og súrdeigsbrauð þeirra vinsælust, að sögn Steinþórs. Þá standa
gamli góði snúðurinn, kleinuhringurinn og vínarbrauðið alltaf fyrir sínu.
Gott úrval er líka af smurðu brauði.
Spurður um uppáhaldsbakkelsi sitt er Steinþór fljótur til svars. „Það
jafnast ekkert á við glænýtt sérbakað vínarbrauð.“ Afgreiðslumaðurinn,
Aron Leó Jóhannsson, fær sömu spurningu. Hann skimar yfir borðið og
augun nema staðar fyrir miðju. „Það er kleinuhringur með karamellu,“
segir hann og sleikir út um í huganum.
Þriðji ættliður bakara
Steinþór er þriðji ættliður bakara í sinni fjölskyldu. Afi hans, Kristinn
Albertsson, stofnaði Álfheimabakarí árið 1959 og faðir hans er Jón Al-
bert Kristinsson. Fjölskylda Steinþórs stofnaði Brauð hf. sem síðar varð
Myllan og rak allt til ársins 2004.
„Blessaður vertu, ég ólst upp í bakaríi og byrjaði sjálfur að baka tólf
ára gamall. Ég hafði góða kennara,“ segir Steinþór.
Hann festi kaup á Björnsbakaríi fyrir áratug og hefur fjölgað búð-
unum úr þremur í fimm. Spurður hvort frekari útþensla sé á döfinni
hristir Steinþór höfuðið. „Ekki að svo stöddu. Þetta er orðið fínt.“
Spurður út í rekstrarumhverfið segir Steinþór Björnsbakarí hafa
fundið fyrir kreppunni strax haustið 2008. „Samt finnst mér eins og
þrengra sé í búi hjá fólki núna en þá. Samkeppnin er líka orðin harðari,
menn þurfa virkilega að vanda sig. Sem er auðvitað jákvætt. Það hafa
verið ótrúlegar sveiflur þessi tíu ár sem ég hef rekið þetta bakarí og
þetta hefur verið mikil vinna. Við erum í langhlaupi og þá reynir á út-
haldið.“
Hann segir augljóst að fólk kaupi öðruvísi inn en áður. Skipuleggi sig
betur og kaupi helst ekki meira en það þurfi.
Mætti vera ljósastaur
Og verðið. Það hefur hækkað. „Við höfum vissulega þurft að hækka verð
umfram það sem við hefðum viljað. Það er veruleiki. Stærstu útgjaldalið-
irnir í rekstri sem þessum eru laun og innkaup og hvort tveggja hefur
hækkað. Samt höfum við ekki hækkað verð á brauðum hjá okkur í tvö
ár. Ég tel einfaldlega ekki hægt að rukka meira fyrir vöruna í þessu
umhverfi. Ég er ekkert að auglýsa þetta en vona að fólk taki eftir því.“
35 manns vinna hjá Björnsbakaríi, við bakstur og í afgreiðslu, og ekki
hefur þurft að segja fólki upp í krepputíðinni. Með tilkomu nýju búð-
arinnar bættist meira að segja hálft annað stöðugildi við. „Það er mjög
lítil starfsmannavelta hjá okkur. Við erum til að mynda með fjórar kon-
ur yfir sextugu í afgreiðslu. Þær hafa verið lengi.“
Spurður hvort hann bindi vonir við vaktaskiptin í stjórnarráðinu svar-
ar Steinþór: „Mér er svo sem slétt sama hver er forsætisráðherra í
þessu landi, það mætti vera ljósastaur, svo lengi sem eitthvað er gert og
hjól atvinnulífsins fá að snúast. Við eigum einhvern sprett eftir í þessari
kreppu. Það eru að verða komin fimm ár, ætli við eigum ekki önnur
fimm eftir. Mér kæmi það ekki á óvart. Í mínum huga er það lykilatriði
að kaupmáttur fólks aukist, annars gerist ekki neitt. Það er ekki endi-
lega háð álverum. Vel má vera að það sé hægagangur í þessu í augna-
blikinu en Ísland mun rétta úr kútnum. Við hristum þetta bankahrun af
okkur.“
BJÖRNSBAKARÍ HASLAR SÉR VÖLL Í AUSTURBÆNUM
Bakað á flóði jafnt sem fjöru
BJÖRNSBAKARÍ OPNAÐI NÝVERIÐ SÍNA FIMMTU BÚÐ, Á DALBRAUT 1. EIGANDINN, STEINÞÓR JÓNSSON, HEFUR
EKKI HÆKKAÐ VERÐ Á BRAUÐUM Í TVÖ ÁR OG ER EKKI Í VAFA UM AÐ ÞJÓÐIN MUNI HRISTA KREPPUNA AF SÉR.
Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is
Aron Leó Jóhannsson afgreiðir bakkelsi
yfir borðið í nýju búðinni.
Morgunblaðið/Styrmir Kári
Steinþór Jónsson bakari í Björnsbakaríi.
Hurðarhúnninn á Dalbrautinni er í veglegri
kantinum. Fyrri eigendur festu kaup á hon-
um í Þýskalandi fyrir margt löngu.
*Matur og drykkir Kristín Þóra Harðardóttir fór með hóp vinkvenna á biblíuslóðir við matarborðið »32350 g púðursykur 350 g hveiti50 g kakó
10 g salt
10 g natron
200 g egg
200 g matarolía
200 g mjólk/súrmjólk
200 g súkkulaðibitar (má vera dökkt
suðusúkkulaði)
Aðferð:
Þurrefnin sett í hrærivél með spaða. Egg, mat-
arolía og súrmjólk sett hægt út í. Unnið vel
saman á hægum hraða og síðan hratt í tvær
mín. Súkkulaðibitar fara út í síðast. Deigið er
svo skammtað í muffinsform að eigin vali. Bak-
að við 180 gráður í 15-18 mín.
Múffur