Morgunblaðið - Sunnudagur - 02.06.2013, Page 50

Morgunblaðið - Sunnudagur - 02.06.2013, Page 50
T vær konur hafa hlotið athygli fyrir störf sín, hvor á sínu sviðinu. Önnur er Kristín Heimisdóttir, for- maður Tannlæknafélags Íslands, og hin Sigríður Heimisdóttir iðnhönnuður, jafnan nefnd Sigga Heimis. Færri hafa þó tengt þær saman sem syst- ur. Kristín var í forsvari fyrir tímamótasamninga þegar loks, eftir 21 árs bið, tókust samningar milli Tannlæknafélags Ís- lands og Sjúkratrygginga Íslands um endurgreiðslu tann- læknaþjónustu barna. Sigga hefur verið brautryðjandi í hönn- unarheiminum hérlendis, er meðal helstu stjarna IKEA og hefur hannað yfir 300 hluti fyrir fyrirtækið. Þá var hún hönn- unarstjóri Fritz Hansen og er þá fjöldi verkefna ótalinn. Þær systur eru þó ekki á því að það séu genin sem hafi leitt þær til forystu heldur uppeldi sem mótaði þær. „Við eigum foreldra sem hafa eindregið hvatt okkur áfram,“ segir Sigga en foreldrar þeirra eru Heimir Sindrason, tann- læknir og tónlistarmaður, og Anna Lovísa Tryggvadóttir meinatæknir. Þær ólust upp á Seltjarnarnesi og fjórtán mán- uðir skilja þær að; Kristín er fædd 1968 og Sigga 1970. Þær eru því nánar sem og allur systkinahópurinn, en bróðir þeirra Frosti fæddist árið 1975 og Guðrún systir þeirra 1981. Sigga: „Kristín er eldri og þar af leiðandi apaði ég allt eftir henni. Við vorum eins klæddar, ég í rauðu og Kristín í bláu. Þegar hún lærði að lesa og skrifa vildi ég líka. Svo var Kristín svo erfið, og ég er ekki að grínast, að hún var send í Landa- kotsskóla þar sem átti að vera meiri agi,“ segir Sigga og hlær en Kristín dregur þessar fullyrðingar systur sinnar ekkert í efa. „Og auðvitað fylgdi ég þá með og hafði ekkert um það að segja. Við vorum sem betur fer heppnar í Landakotsskóla með kennara og urðum ekki vitni að neinum misgjörðum en þótti þetta fólk sem stjórnaði skólanum vissulega stórskrýtið og maður fann að það stafaði ekki góðu frá því. Það fundu held ég allir fyrir einhverju, það var eitthvað skrýtið í gangi, án þess að festa hendur á hvað það var.“ Kristín: „Ég var 10 ára þegar ég eignaðist vinkonu sem var í Landakotsskóla. Foreldrar mínir voru afskaplega glaðir að ég hafði eignast svona „bestu“ vinkonu því ég átti fáa vini og þeim fannst því ráð að skrá mig í sama skóla og hún var í. En ég get ekki neitað því að ég hef líklega verið afskaplega stíf, þrjósk og þver sem barn. Ég var sjálfri mér næg og fannst bara fínt að vera ein og lesa bók, hafði enga sérstaka þörf fyr- ir félagsskap. En þetta hefðbundna skólakerfi átti heldur ekki vel við mig. Ég man að þegar ég var níu ára var ég látin stroka út úr vinnubók verkefni sem ég hafði þegar unnið, því skólastefnan var sú að allir skyldu fylgjast að óháð námsgetu. Þegar ég fór í 10 ára bekk í Landakotsskóla fór ég að blómstra, í fámennum bekk með frábæra kennara.“ Þær systur hafa þrætt líkar leiðir í lífinu á vissum sviðum en ólíkar á öðrum. Þær eiga báðar þrjú börn, Kristín eignaðist tvö börn meðan hún var í tannlæknanámi og hitti eiginmann sinn um tvítugt. Sigga eignaðist sitt fyrsta barn þegar hún var löngu búin í námi. Sigga: „Mamma segir stundum að það lýsi karakternum og muninum á okkur hvaða lönd við völdum fyrir framhaldsnám; Kristín Sviss og ég Ítalíu. Kristín er engin reglustika en finnst engu að síður mjög gott að hafa röð og reglu á lífinu.“ Kristín: „Ég verð líklega stoppuð upp á Þjóðminjasafninu eftir minn dag. Er búin að vera gift sama kallinum í tuttugu ár. Það má segja að við mamma séum líkar að því leyti að við þurfum ákveðna rútínu í lífinu. Mamma vann alltaf úti með barneignarhléum, þrátt fyrir að slíkt tíðkaðist ekki endilega hjá konum af hennar kynslóð. Sjálf hef ég aldrei eirt heima við.“ Sigga: „Og ég er mjög lík pabba, svolítið eldfjallaþema. Kristín er skipulögð og sem dæmi má nefna að ég get gleymt því að ætla að stinga upp á útilegu með skömmum fyrirvara. Hún er pottþétt búin að bóka allar helgar sumarsins. Ég verð hins vegar léttkvíðin ef ég veit nákvæmlega hvernig næsta vika á að vera. Ég ferðast mikið út af vinnunni, stundum detta inn risaverkefni, stundum er rólegra, og ég kann því vel að það séu göt í stundatöflunni fyrir það óvænta. Ég er örugglega með léttan athyglisbrest því ég á mjög auðvelt með að hlaupa úr einu í annað en þannig þrífst ég. Ég hitti mann um daginn sem fékk engan botn í það hvernig ég gæti verið að hanna líf- færi fyrir eitt þekktasta glerlistasafn í heimi og fjöldafram- leiðslu fyrir IKEA um leið. Svo á ég lítinn gaur, Baltasar sjö ára, sem er einhverfur og getur verið eins og sól í heiði og eld- fjall til skiptis og ég fór að hugsa um daginn að náttúran búi kannski þannig um hnútana að einstaklingar eins og ég fái þessar manneskjur í hendurnar. Mér reiðir vel af í verkefnum sem krefjast sveigjanleika. Þetta verkefni er það stærsta sem ég hef tekist á við. Ég á vinkonu sem á barn með Downs- heilkenni og ég hef séð hvernig hún er afar vel í stakk búin til að takast á við það verkefni. Ég er með ýmsar kenningar um þetta.“ Kristín: „Ítalinn í Siggu er þarna, svolítið kaótískur en samt gengur allt upp. Það er stundum erfitt fyrir mig að skilja það. Henni tækist eflaust að komast á mettíma milli a- og b-punkts í Róm meðan mér myndu fallast hendur. Ég fór í framhalds- nám til Sviss og þar er fólk skipulagt, sem er gott fyrir mann- eskju eins og mig sem er pínu ferköntuð. Hins vegar var ég á margan hátt of flippuð fyrir svissneskt samfélag. Til dæmis myndi fáum Svisslendingum detta það í hug að eignast börn fyrr en búið væri að afgreiða nám og kaupa hús. Þá er það hins vegar stundum of seint, konur þá jafnvel komnar úr barn- eign. Á Íslandi er gott velferðarkerfi sem hjálpar foreldrum að vinna utan heimilis. Þegar ég var rétt nýorðin ólétt að þriðja barninu sótti ég um pláss fyrir ófætt barnið á leikskóla í Sviss. Ég átti að fá pláss þegar barnið yrði þriggja ára og þá aðeins tvo daga í viku. Mánaðargjaldið var um 200 þúsund krónur. Það er gengið út frá því að nýbökuð móðir helgi sig heimilinu og fari ekki út á vinnumarkaðinn fyrr en að mörgum árum liðnum. Sem íslensk kona upplifði ég þetta sem innilokun í fal- legu fangelsi, enda náttúrufegurð óvíða meiri en í Sviss. Ég hef í gegnum tíðina fyllst endalausu þakklæti til þeirra kvenna sem barist hafa fyrir sjálfsögðum mannréttindum, eins og t.d. Kvennalistans. Þó vil ég með þessum orðum alls ekki dæma þær konur sem kjósa að vera heima hjá börnum sínum og dá- ist innst inni að þeim. Aðalmálið er að foreldrar hafi val.“ Sigga: „Ég fann fyrir þessu í náminu á Ítalíu. Í 25 manna bekk voru fimm stelpur og lokaverkefnið mitt var hjól sem hægt var að brjóta saman. Einhver spurði mig: „Ertu viss um að þú getir gert þetta?“ Það fauk svo í okkur stelpurnar í bekknum að við gerðum allar hjól. Síðan hefur orðið mikil breyting á kynjahlutföllum í faginu. Iðnhönnun var karlafag en í dag er meirihluti nýútskrifaðra iðnhönnuða konur.“ Kristín: „Hvað Tannlæknafélagið varðar er það að grunninum til hefðbundið karlafélag. Ég er fyrsta konan sem gegnir for- mennsku í Tannréttingafélaginu og önnur konan sem gegnir formennsku í Tannlæknafélaginu. Það hefur aldrei staðið mér fyrir þrifum að vera kona og ég held að ég jafnvel njóti þess stundum í starfi. Erlendis hef ég heyrt til karlkyns kollega minna í tannréttingum lýsa því að þeir séu oft smeykir við að vera einir með skjólstæðingum því þetta sé orðinn svo klikk- aður heimur. Þeir eru hræddir við að vera vinalegir meðan ég get óhikað faðmað mitt fólk. Hins vegar fær maður stöku sinn- um glósur, sérstaklega frá konum af eldri kynslóðinni sem finnst ég ekki hafa hugsað nægilega vel um heimilið. Einnig fékk ég athugasemd frá vini mínum fyrir nokkru þegar ég gaf kost á mér í að gegna formennsku í Tannlæknafélaginu. Hann sagði: „Af hverju ertu að þessu? Af hverju nýturðu þess ekki að vera með börnunum?“ Þetta var fjögurra barna faðir sem sjálfur á ung börn. Ég var ekki nógu fljót að hugsa og spyrja hann af hverju hann minnkaði ekki við sig vinnu og nyti þess sjálfur að vera með sínum börnum?“ Auðveldara að vinna með karlmönnum Það var mikil áskorun að ná samningum milli Tannlækna- félagsins og Sjúkratrygginga Íslands um endurgreiðslu tann- læknaþjónustu barna enda höfðu samningar verið lausir til fjölda ára. Kristín: „Á fundinum kom til mín maður sem sagði: „Veistu Kristín, ég er eiginlega alveg sannfærður um það að þessir samningar hafi tekist vegna þess að núna erum við með konur sem stjórna þessu.“ Ég held að það sé eitthvað til í því. Þótt ég vilji ekki alhæfa þá búa karlar og konur yfir mismunandi eiginleikum og það fer best á því að fólk vinni saman. Ég þoli ekki að standa í baráttu við karlmenn. Mér líkar vel að vinna með og vera í félagsskap þeirra. Ég var alltaf strákastelpa og ég er það svolítið ennþá. Sigga þarf meira að segja að setja á mig varalit og passa að ég sé vel tilhöfð.“ Sigga: „Ég er sammála Kristínu. Mér finnst gott að vinna með karlmönnum og oft einfaldara. Skýrari skilaboð og þeir taka hlutunum ekki eins persónulega. Ég var þátttakandi í vinnu- stofu í Svíþjóð og þar var það svo áberandi. Við vorum átta hönnuðir og meðan strákarnir sprautuðu út hugmyndum og voru ekki uppteknir af því að þeir væru að leggja í púkk fyrir alla að vinna með voru konurnar uppteknari af því í lokin þeg- ar skrifa átti alla hönnuðina fyrir afrakstrinum. Þá heyrðust línur eins og: „En ég gerði eiginlega þennan stól.““ Kristín: „Það eru til kellingar af báðum kynjum. Það eru til karlar sem eru verstu kellingar í neikvæðri merkingu og svo eru til konur sem eru svakalegir naglar. Við eigum til eintök af fólki þar sem kynið spilar enga aðalrullu. Og það verður þá bara að hengja mig fyrir að nota orðið kellingar. Mér finnst ömurlegt að það þurfi að biðjast afsökunar á því að nota hug- tök yfir ákveðna hegðun sem getur átt við bæði kyn sem hafa í raun ekkert með kyn að gera. Kelling er bara ákveðið hug- tak og margar kellingar sem ég þekki eru karlkyns.“ Hvernig mynduð þið lýsa sambandi ykkar? Sigga: „Samband okkar systkina allra er fallegt á þann hátt að það er enginn að þykjast, við segjum nákvæmlega það sem okkur finnst. Ef eitthvað bjátar á er gengið í það. Við hittumst Systra- samband KRISTÍN OG SIGRÍÐUR HEIMISDÆTUR SKARA FRAM ÚR Á SÍNUM SVIÐUM. ÖNNUR HANNAR HÚSBÚNAÐ Á HEIMSMÆLIKVARÐA EN HIN RÉTTIR TENNUR OG STÝRIR TANNLÆKNAFÉLAGINU. ÞÆR SEGJA UPPELDIÐ HAFA MÓTAÐ ÞÆR Í AÐ SEGJA SÍNAR SKOÐANIR. Júlía Margrét Alexandersdóttir julia@mbl.is Viðtal 50 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 2.6. 2013

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.