Morgunblaðið - 04.09.2013, Blaðsíða 30

Morgunblaðið - 04.09.2013, Blaðsíða 30
30 MENNING MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 4. SEPTEMBER 2013 AF LISTUM Agnes Bragadóttir agnes@mbl.is É g þarf að fara nokkuð marga áratugi aftur í tímann til þess að rifja upp mín fyrstu kynni af ljóðum írska stór- skáldsins Seamusar Heaneys, sem á sínum 74 æviárum var skreyttur fleiri viðurkenningum en honum þótti sjálfum þægilegt, svo hógvær var hann og lítillátur. Nægir þar að nefna Nóbelsverðlaun sænsku bók- menntaakademíunnar 1995 og svo þá staðreynd að Bretar gerðu hann að Lárviðarskáldi sínu. Kynnin hófust sem sé í enskudeild Háskóla Íslands árið 1977 þegar sá afburðakennari Martin Regal, sem var mikill aðdáandi Seamusar, kynnti okkur nemendur sína fyrir ljóðum skáldsins, sem mér hefur all- ar götur síðan þótt mjög vænt um. Skáldið hitti ég fyrst í eigin per- sónu haustið 1987 og nokkrum vik- um síðar vorum við Seamus orðin vinir. Þetta var þegar ég var við framhaldsnám við Nieman Found- ation við Harvard-háskóla, en Seam- us var um áraraðir Boylston- prófessor í mælsku- og ræðulist (Rhetoric and Oratory) við bók- menntadeild Harvard-háskólans. Hugljúfur með úfið hár Við sem vorum 20 Nieman Fel- lows, 12 bandarískir og hinir átta víðsvegar að úr heiminum, áttum því láni að fagna þetta haust að Seamus kom og eyddi með okkur heilum degi, þar sem hann ræddi við okkur um írska og breska ljóðagerð, sagnir og menningu. Ég heillaðist gjör- samlega af fyrirlestri Seamusar og svörum hans í umræðum á eftir og þegar þessi hugljúfi, hógværi mað- ur, með úfna hárið sitt og glettna augnaráðið, heyrði að ég kunni ein- hver skil á skáldskap hans, og gat m.a. farið með hluta úr ljóði hans A Postcard from Iceland varð til ein- hver þráður, sem hélt allan náms- tímann minn og raunar í mörg, mörg ár. Hann innritaði mig í námsáfanga hjá sér, sem nefndist British and Ir- ish Poetry since 1930. Seamus, stórskáld og vinur Morgunblaðið/ÞÖK Hógvær Seamus Heaney var alltaf jafn hógvær og lítillátur. Það var óviðjafnanleg skemmtun og fróðleikur að sitja hans vikulegu fyrirlestra og taka svo þátt í um- ræðum að þeim loknum. Hann var ólýsanlega fróður, skáldlegur, skemmtilegur og umfram allt alþýð- legur. Hann ræddi við okkur öll sem jafningja. Enda var það svo að við sem vorum Nieman Fellows á þess- um tíma, vorum einskonar dekur- börn í Harvard-háskóla og fengum að velja okkur hvaða námskeið eða áfanga sem við kærðum okkur um, en þurftum ekki að skrá okkur á bið- lista til þess að fá sæti í vinsælustu áföngunum. Áfangar Seamusar voru tvímælalaust með þeim vinsælustu ef ekki allra vinsælastir. Við vorum fjögur úr mínum hópi sem sátum áfanga Seamusar og höfum búið að því allar götur síðan. Skáldið og nemendurnir hans Fljótlega fórum við fjórmenning- arnir að venja komu okkar á sérdeil- is vinsæla krá við Harvard Square, The Wursthaus, síðdegis á fimmtu- dögum, að fyrirlestrum loknum, til þess að ræða saman um fyrirlestra Seamusar og brátt fór skáldið að slást í hópinn með okkur. Þar áttum við fjögur oft einstaklega líflegar og skemmtilegar viðræður við skáldið, þar sem hann var að sjálfsögðu í hlutverki lærimeistarans og við þáð- um með þökkum það sem hann vildi miðla til okkar og höfðum auk þess ómælda skemmtun af. Seamus var strax þá orðinn grá- hærður. Hann var rauðbirkinn og kannski svolítið þrútinn í framan, líklega vegna þess að honum þótti bæði bjór og írskt viskí vera hinir ágætustu drykkir. Við Fellowarnir höfum oft rifjað það upp þegar við hittum Seamus á The Wursthaus í annað eða þriðja skiptið og hann sagði, með írska glottið á vör: „Well, Distinguished Nieman Fellows. Now I have to introduce you to our irish national drink, the Boilermak- er!“ Og hvað var það svo, sem skáld- ið kallaði Boilermaker? Jú, það var óblandað írskt viskí í smáglasi og svo pinta af Guinnes-bjór. Þetta sagði hann að fengi maga manns til þess að sjóða, sló sér svo á lær og hló um leið og hann tæmdi staupið og kneyfaði síðan ölið. Okkur fannst eins og honum fyndist við hálfgerðar teprur, sem við kannski vorum, þeg- ar við áttum í einhverjum erfið- leikum með að fara að dæmi skálds- ins. Kynntist íslenskri ljóðlist Það urðu eiginlega kaflaskipti í vináttu okkar Seamusar, eftir að annað skáld og vinur minn, þá rit- stjóri hér á Morgunblaðinu, Matt- hías Johannessen, sendi mér tvær ljóðabækur til Cambridge, The Nak- ed Machine, sem eru valin ljóð eftir Matthías, í enskri þýðingu Mars- halls Brements heitins, fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, og ljóðabókina Three Modern Ice- landic Poets, með völdum ljóðum eftir Stein Steinarr, Jón úr Vör og Matthías Johannessen, einnig í þýð- ingu Marshalls. Þessar bækur færði ég Seamusi að gjöf, með kveðju frá Matthíasi og eftir það áttum við tvö a.m.k. mán- aðarlegan einkafund, að sjálfsögðu á The Wursthaus, þar sem við rædd- um ljóðlist, írska og íslenska menn- ingu og bara hvað sem var. Hann var óumræðilega vel að sér og sagði svo skemmtilega frá að hrein unun var á að hlýða. Hann var betur lesinn í Ís- lendingasögunum en ég, hann var vitanlega betur lesinn en ég á öllum sviðum. Í einni Wursthaus-heimsókn okk- ar Seamusar færði hann mér að gjöf ljóðabók sína The Haw Lantern, og á saurblaðið hafði hann ritað litlu vísuna til mín, sem birtist mynd af hér á síðunni. Það er einmitt í þess- ari bók sem ljóðið hans, A Postcard from Iceland, birtist, en það samdi hann þegar hann var á bókmennta- þingi hér í Norræna húsinu um miðj- an níunda áratuginn og sendi konu sinni á póstkorti, eftir að hafa heim- sótt Krísuvík, samkvæmt því sem hann sagði mér þetta síðdegi. Til þessara samræðna okkar má rekja línurnar: „And brought back The Norræna húsið“ Póstkort frá Íslandi er yndislegt ástarljóð Ljóðið A Postcard from Iceland er vitanlega ekkert annað en yndislegt ástarljóð Seamusar til konu hans: As I dipped to test the stream some yards away From a hot spring, I could hear nothing But the whole mud-slick muttering and boiling. And then my guide behind me saying, „Lukewarm. And then I think you’d want to know That luk was an old Icelandic word for hand.“ And you would want to know (but you know already) How usual that waft and pressure felt When the inner palm of water found my palm. Ég var svo lánsöm að hitta Sea- mus nokkrum sinnum eftir að dvöl minni í Boston lauk og gerðist það iðulega í kringum svokallaða endur- fundi hjá Nieman Foundation við Harvard. Síðast hitti ég hann á slík- um fundi árið 2002 og það voru að vanda fagnaðarfundir. En því miður missti ég af honum í Íslands- heimsóknum hans á árunum 2003 og 2004, því þá var ég á Srí Lanka. En það var ekki auðvelt að hafa samband við Seamus því hann og tæknin voru ekki beinlínis nánir vin- ir. Hann notaði aldrei tölvupóst, svo dæmi séu nefnd, og þegar ég reyndi að ná sambandi við hann í gegnum árin tókst það stundum, með aðstoð ritara hans við Harvard, eða ritara hans við Oxford. Ég verð ávallt þakklát fyrir að hafa fengið að kynn- ast Seamusi og að hafa átt hann að vin. Hann var dásamlegt ljóðskáld og nú ætla ég eina ferðina enn að rifja upp mín góðu kynni af ljóðum hans. » Og hvað var það svo, sem skáldið kallaði Boiler-maker? Jú, það var óblandað írskt viskí í smá- glasi og svo pinta af Guinnes-bjór. Þetta sagði hann að fengi maga manns til þess að sjóða, sló sér svo á lær og hló um leið og hann tæmdi staupið og kneyf- aði síðan ölið. Vísan Þessa vísu færði Seamus höfundi að gjöf á saurblaði Haw Lantern. bestalambid.isBeztu uppskriftirnar okkar Enn einn dagur í Paradís

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.