Morgunblaðið - 11.12.2013, Side 16
Innlent
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 11. DESEMBER 2013
Munið að
slökkva á
kertunum
Setjið kerti aldrei
nálægt tækjum sem
gefa frá sér hita s.s.
sjónvarpi. Hiti frá tæki
veldur aukinni hættu
á óhappi. Setjið aldrei
servéttu eða pappír
utan á kerti.
Slökkvilið
höfuborgasvæðisins
VIÐTAL
Stefán Gunnar Sveinsson
sgs@mbl.is
Hundrað ár eru liðin í ár frá því að
framkvæmdir hófust við gerð
Reykjavíkurhafnar. Af því tilefni er
nú komið út ritverkið Hér heilsast
skipin, eftir Guðjón Friðriksson,
sagnfræðing. Í verkinu, sem telur
tvö bindi, rekur Guðjón sögu hafn-
anna við Faxaflóa frá því að Ing-
ólfur nam land og til vorra daga.
„Ráðist var í verkið að tilhutan
Gísla Gíslasonar hafnarstjóra og
stjórn Faxaflóahafna,“ segir Guð-
jón, en hugmyndin um að rita sögu
Faxaflóahafna í tilefni af ald-
arafmæli hafnargerðarinnar kom
upp í samtölum hans og Gísla sem
Guðjón hafði unnið fyrir nokkuð áð-
ur.
Mikið af myndum frá höfninni
Verkið ber þess glögg merki að
mikil vinna höfundar liggi að baki.
„Ég sat mánuðum saman, bæði á
Borgarskjalasafni og í skjalasafni
Faxaflóahafna, auk þess sem ég
leitaði fanga upp á Akranes og víð-
ar,“ segir Guðjón, en einnig fékk
hann heimildir frá einkaaðilum sem
sem hafa starfað í tengslum við
hafnirnar.
Eitt af því sem prýðir ritverkið
eru margar stórglæsilegar og for-
vitnilegar ljósmyndir frá höfnunum
við Faxaflóa. Guðjón segir að ekki
hafi verið neitt vandamál að finna
myndir, en þeim mun meiri vandi
að velja þar úr. „Það virðast allir
ljósmyndarar hafa farið niður á
höfn til þess að taka mynd,“ segir
Guðjón og hlær. „Það er því til mik-
ið af góðum og skemmtilegum
myndum af höfnunum frá öllum
tímum. Auk þess notuðu listamenn
í Reykjavík höfnina oft í mál-
verkum sínum, hún varð nánast að
vinsælasta mótífinu.“
Guðjón segir að fátt hafi í raun
komið sér á óvart við gerð bók-
arinnar enda hafi hann haft nokk-
urt forskot í rannsóknum á hafn-
arsögunni, meðal annars þegar
hann vann að Sögu Reykjavíkur á
sínum tíma. „En auðvitað koma upp
mörg forvitnileg skjöl þegar farið
er að grannskoða sviðið. Segja má
að hafnirnar hafi verið grundvöllur
þéttbýlisins hér í Reykjavík og á
Akranesi og víðar. Þær eru lykill-
inn að því að þessir staðir eru til,“
segir Guðjón. „Nú til dags er
Reykjavíkurhöfn gríðarlega mik-
ilvægur þáttur í borgarlífinu,
kannski miklu mikilvægari en
margir Reykvíkingar almennt gera
sér grein fyrir.“ Guðjón segir að
það eigi ekki bara við um fragt og
fiskveiðar, heldur fylgi höfninni
mjög fjölbreytt afleidd starfsemi í
verslun, fiskverkun, landflutn-
ingum, iðnaði, þjónustu og ferða-
mennsku sem Reykvíkingar njóti
góðs af. „Faxaflóahafnir er líklega
eitt stærsta fyrirtæki landsins og
eru Reykjavíkurhöfn, sem er lang-
stærsta höfn landsins, og Grund-
artangahöfn, en um hana fara
næstmestir flutningar að magni til,
burðarásarnir í fyrirtækinu. Og
gerð Reykjavíkurhafnar fyrir 100
árum, þá mesta mannvirki Íslands-
sögunnar, hefur átt mikinn þátt í
þeim yfirburðum sem Reykjavík
hefur haft yfir aðra staði.“
Guðjón tekur fram að verkið sé
ekki bara saga hafnanna sem
slíkra, heldur sé það einnig víðtæk
saga atvinnustarfseminnar sem
þrífist við þær. „Þetta er um leið
saga skipafélaganna, fiskvinnslu,
eyrarvinnunnar, heildverslunar, ol-
íufyrirtækja og þjónustufyrirtækja
eins og vélsmiðja, slippa, veið-
arfæragerða og raftækni margs
konar. Meira að segja flughöfnin
Reykjavík á sinn kafla en segja má
að Reykjavíkurhöfn sé vagga flugs
á Íslandi. Einnig er greint frá sögu-
legum atburðum sem áttu sér stað
við höfnina.“
Tjörnin notuð sem lón?
En hafnargerðin í Reykjavík
1913-1917 var þó ekki upphafið að
mikilvægi sjávarins fyrir Reykja-
vík. Guðjón segir það skoðun sína
að aðstæður við sundin blá hafi ráð-
ið mestu um það að fyrstu land-
námsmennirnir tóku sér bólfestu í
Reykjavík. „Þeir vildu hafa sjáv-
arlón, þar sem hægt var að draga
skipin upp, því að þeir vildu síst af
öllu missa skipin. Þeir voru að
koma til nýs og ónumins lands og
það var mikilvægt að finna skip-
unum öruggt skjól yfir vetrartím-
ann en tapa þeim ekki svo þeir
ættu afturkvæmt ef þeim líkaði
ekki vistin,“ segir Guðjón, sem ger-
ir því skóna að þeir hafi dregið
skipin upp lækinn og inn í Reykja-
víkurtjörn þar sem þau gátu verið
yfir veturinn. „Yfirleitt eru að-
stæður þannig í þessum elstu höfn-
um að það er sandfjara- og kambur
og sjávarlón fyrir ofan sem hægt er
að nota þannig.“
Ljósmynd/Magnús Ólafsson
Steinbryggjan Hér sjást menn bera tunnur við gömlu steinbryggjuna á hafnarsvæði Reykjavíkur árið 1920.
Skipin heilsast enn
í Faxaflóahöfnunum
Guðjón Friðriksson hefur ritað sögu hafnanna
Morgunblaðið/Ómar
Við höfnina Guðjón Friðriksson
sagnfræðingur fjallar um Faxaflóa-
hafnir í nýjasta ritverki sínu.
Jarðbönn og snjór eru nú víða
um land og eiga fuglarnir erfitt.
Í sérstakri tilkynningu hvetur
Fuglaverndarfélag Íslands lands-
menn til að hugsa til þessara
smáu meðbræðra og ekki síst far-
fuglanna sem koma langt að og
þurfa orku og vatn til að lifa af.
Félagið nefnir nokkur dæmi
um gott fóður: Epli, fitu, kjötsag
og matarafganga handa þröstum,
störum og hröfnum. Sólblómafræ
eða páfagaukafræ handa auðnu-
tittlingum og kurlaðan maís og
hveitikorn handa snjótittling-
unum. Fita er það fóður sem
hentar flestum fuglum vel í kuld-
um og má blanda matarolíu, tólg
eða smjöri við afganga og korn.
Síðan þarf vatn að vera aðgengi-
legt, segir í tilkynningu félags-
ins.
Nánari upplýsingar um hvaða
matseðill hentar hvaða tegund
má finna á vef Fuglaverndar,
www.fuglavernd.is.
Munum eftir smáfuglunum
Ljósmynd/Axel Máni Guðríðarson
Smáfuglar Gráþröstur eins og þessi
myndi ekki fúlsa við góðu fóðri.