Morgunblaðið - 23.01.2014, Blaðsíða 6
6 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 23. JANÚAR 2014
SVIÐSLJÓS
Ómar Friðriksson
omfr@mbl.is
Mjög flókin staða er komin upp á
vinnumarkaði eftir að í ljós kom í
gær að tæpur helmingur launþega
innan vébanda ASÍ felldi nýgerða
kjarasamninga. Þau ASÍ-félög sem
samþykktu samningana eru hins
vegar með gildan kjarasamning út
þetta ár og fá umsamdar launahækk-
anir. Félögin sem felldu þurfa nú að
hefja viðræður á nýjan leik við at-
vinnurekendur hvert fyrir sig eða
sameiginlega um endurnýjun kjara-
samninga.
,,Það er alveg ljóst að þetta voru
mjög umdeildir samningar,“ segir
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
„Það vissum við þegar við lögðum af
stað.“
Niðurstaðan flækir óneitanlega
framhaldið í samningamálunum að
sögn hans og þurfa samninganefndir
félaganna sem felldu að eiga samtöl
við félagsmenn um hvað það er sem
þeir höfnuðu í atkvæðagreiðslunni.
Ástæður þess að svo mörg félög
felldu eru ekki einhlítar að mati
Gylfa. Þó að óánægja með launalið-
inn eigi þátt í þessu komi fleira til.
Starfsgreinasambandið hafi lagt af
stað með mjög hástemmda kröfu-
gerð í fyrstu sem litaði svolítið eft-
irleikinn að mati hans en framkoma
ríkisstjórnarinnar hafi haft neikvæð
áhrif þegar deilur stóðu um hvaða
leiðir ætti að fara í lækkun skatta.
Ríkisstjórnin hafi ekki lagt þessu lið
sem skyldi varðandi gjaldskrár-
hækkanir og ekki sýnt þessu meiri
áhuga en svo að það hafi verið fyrst í
fyrradag sem fjármálaráðherra
sendi bréf til stofnana um að halda
aftur af hækkunum.
Gylfi segir hins vegar óvissu um
framhaldið hjá félögum sem sam-
þykktu því þau eru með viðræðu-
áætlun um næstu samninga sem
byggi á hugmyndum um samstöðu
og stöðugleika. „Ég sé ekki að það sé
sérstaklega fær leið,“ segir hann.
Hann segir aðildarfélög ASÍ nú
þurfa tíma til að fara yfir þessa
stöðu. ,,Það er engin launung á að
það voru mikil vonbrigði í okkar röð-
um með aðkomu ríkisstjórnarinnar
að þessu. Er ekki rétt að næstu skref
verði bara að ríkið klári sína samn-
inga við sína starfsmenn? Þeir samn-
ingar renna út í lok næstu viku. Ég
hef heyrt að félagar mínir í opinberu
samtökunum hafi ekkert verið sáttir
við innihald þessa samnings. Það
verður tæplega hægt að halda því
fram af hálfu samninganefndar rík-
isins að þetta gefi tóninn. Því hlýtur
að vera mikilvægt að fá fram með
hvaða hætti ríkisstjórnin vill leggja
þessu lið,“ segir Gylfi.
Mjög knappt
„Þetta er mjög knappt og það
veldur vonbrigðum hversu lítil kosn-
ingaþátttakan er. Um 18% þeirra
sem atkvæðisrétt höfðu nýttu hann,“
segir Þorsteinn Víglundsson, fram-
kvæmdastjóri SA, spurður um nið-
urstöðurnar hjá launþegahreyfing-
unni.
,,Það var okkar megin-upplegg í
aðdraganda þessara samninga að við
værum að vinna í sameiningu að
breyttum vinnubrögðum við gerð
kjarasamninga, sem myndu stuðla
að auknum kaupmætti á grundvelli
aukins efnahagslegs stöðugleika.
Aukin verðmætasköpun legði grunn
að auknum kaupmætti og við sæjum
stöðugri kaupmáttaraukningu í takt
við það sem við höfum séð á öðrum
Norðurlöndum,“ segir Þorsteinn.
,,Þessi niðurstaða breytir engu
þar um. Við teljum þetta jafn mik-
ilvægt markmið og áður. Við viljum
vinna áfram út frá því meginmark-
miði að auka stöðugleikann. Það er
hins vegar komin upp flókin staða.
Við munum mjög fljótlega setjast
niður með viðsemjendum okkar sem
felldu kjarasamningana, fara yfir
stöðuna og hvaða leiðir við sjáum út
úr þessu,“ segir hann.
Þorsteinn segir að svigrúmið til
launabreytinga hafi ekki aukist við
þessa niðurstöðu. „Við töldum samn-
inginn í efri mörkum þess sem
ásættanlegt væri og það mat okkar
er óbreytt.“
Þorsteinn segir úrslitin hjá ASÍ
engu breyta um það sameiginlega
mat aðila að heildaráhrif kjarasamn-
ingsins til hækkunar á launavísitöl-
unni á komandi 12 mánuðum yrði
3,9%, ,, sem er alveg í efstu mörkum
þess sem Seðlabankinn hefur talið
geta samrýmst verðlagsstöðugleika.
Þessi niðurstaða breytir engu þar
um. Það skapast ekkert aukið svig-
rúm til launabreytinga þrátt fyrir
þetta. Við teljum afar mikilvægt að
við finnum leiðir sem tryggja að við
getum leyst úr þessum vanda en að
það sé innan ramma verðlagsstöðug-
leika og að við byggjum hér upp
kaupmátt til lengri tíma,“ segir
hann.
Flókin staða eftir óvænt úrslit
serty
Jafnt Félagsmenn félaganna skiptust nokkurn veginn í tvær jafnstórar fylkingar með og á móti samningunum.
„Mikil vonbrigði í okkar röðum með aðkomu ríkisstjórnarinnar
að þessu,“ segir forseti ASÍ „Það skapast ekkert aukið svigrúm
til launabreytinga þrátt fyrir þetta,“ segir framkvæmdastjóri SA
„Ég tel ástæðuna vera aðgerðarleysi ríkisstjórnar-
innar,“ segir Sigurður Bessason, formaður Eflingar,
um ástæður þess að félagsmenn hans hafi fellt samn-
inginn. Samningurinn hafi byggst á að stöðugleiki
næðist og menn næðu tökum á verðbólgu. Kallað hafi
verið eftir að ríkisstjórnin kæmi að þeim með því að
mæta lægri launahópum með skattabreytingum sem
hún gerði ekki.
„Í leiðinni gaf hún þær yfirlýsingar að hún myndi
ekki lækka sín gjöld nema kjarasamningar yrðu sam-
þykktir. Þar með var ljóst að hún lýsti ekki yfir trausti á hvernig ætti
að ná niður verðlagi hér á landi. Þetta átti að setja alfarið í hendur
launafólki. Það er mat félagsmanna að þetta dugar ekki til,“ segir
hann.
Sigurður gerir ráð fyrir að rætt verði við atvinnurekendur og ríkis-
stjórnina á næstu dögum. Ljóst sé að fleira vanti inn í samninga.
Aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar ástæðan
„Þetta er náttúrulega óheppilegt að því leyti að flestöll
félögin kölluðu eftir stöðugleika og kaupmáttaraukn-
ingu. Ég hef mikla trú á þessum nýju vinnubrögðum
sem kjarasamningurinn byggist meðal annars á. Það
hefur verið áhugavert að taka þátt í að auka stöðug-
leika á íslenskum vinnumarkaði. Miðað við heildarnið-
urstöðuna virðist fólk hins vegar ekki tilbúið að taka
þetta skref. Það er eitthvað sem menn þurfa að velta
fyrir sér,“ segir Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR, um
niðurstöðu atkvæðagreiðslna um kjarasamninginn.
Meirihluti félagsmanna VR samþykkti samninginn og tekur hann því
gildi til áramóta. Ólafía treystir sér ekki til þess að segja til um hvað
gerist á næstu dögum og vikum eftir að stór hluti vinnumarkaðarins
hafnaði samningnum. Aðspurð tekur hún undir að það grafi undan
markmiði samningsins í heild.
Fólk ekki tilbúið að taka skrefið
„Ég er mjög ánægður með þessa niðurstöðu að mörgu
leyti. Fjöldi félaga fellir samninginn. Ég var einn af
2-3 talsmönnum þess að hann yrði felldur þar sem
hann væri ekki boðlegur. Það kemur á daginn að það
reynist rétt því fjöldi félaga fellir og hin samþykkja
með naumum meirihluta eða vegna þess að það er
ekki næg þátttaka,“ segir Aðalsteinn Baldursson, for-
maður Framsýnar.
Hann segir framhaldið ráðast á næstu dögum en
sjálfur sé hann vongóður um að félögin sem felldu nái
að knýja fram betri samning. „Þetta eru skýr skilaboð um að það er
enginn friður í samfélaginu með þessa hungurlús sem var í boði. Það er
ekki okkar að vera með átök. Við þörfum bara að ná sáttum og kjara-
samningi. Ég hef fulla trú á að það sé hægt,“ segir hann.
Enginn friður í samfélaginu um hungurlús
Fimm fyrirtæki bættust í gær á svarta listann svo-
nefnda hjá ASÍ, yfir þau fyrirtæki sem hækkað hafa
verð. Þetta eru Sorpa, HS-veitur, Norðurorka, Faxa-
flóahafnir og DHL en fyrirtækin eru þá alls orðin 21.
Henný Hinz, hagfræðingur á hagdeild ASÍ, segist vona
að niðurstaða kjarasamninga verði ekki til þess að
draga úr vilja fyrirtækja og stofnana til að lækka verð
eða hætta við hækkanir. „Niðurstaðan er frekar brýn-
ing til að halda sig við efnið, það skiptir öllu máli að
halda áfram á þessari braut. Versta niðurstaðan væri
ef verðlag færi á skrið aftur. Sé horft á svarta listann vekur það hins
vegar athygli að helmingur fyrirtækjanna er í eigu ríkis og sveitarfél-
aga. Það hefði verið æskilegra að fá skýrari skilaboð úr þeirri átt,“ seg-
ir Henný. bjb@mbl.is
Hið opinbera með helming svarta listans
Ómar Friðriksson
Kjartan Kjartansson
Af þrjátíu aðildarfélögum Alþýðusambands Ís-
lands (ASÍ) felldu fimmtán þeirra kjarasamn-
inga. Tólf þeirra samþykktu hann en hjá þrem-
ur félögum samþykktu sumar deildir þeirra en
aðrar felldu.
Alls felldu ellefu af aðildarfélögum Starfs-
greinasambands Íslands kjarasamninginn en
félagið kemur fram fyrir hönd um 30.000 fé-
lagsmanna. Fimm þeirra samþykktu hann hins
vegar. Kosningaþátttakan í þessum sextán fé-
lögum var 28,2%. Félögin sem samþykktu
samninginn voru Afl starfsgreinafélag á Aust-
urlandi, Verkalýðsfélag Suðurlands, Verka-
lýðs- og sjómannafélag Sandgerðis og Verka-
lýðsfélag Vestfjarða. Auk þess var hann
samþykktur hjá Verkalýðs- og sjómannafélagi
Bolungarvíkur vegna ónógrar þátttöku.
Flóabandalagið semur fyrir hönd um 20.000
félagsmanna Eflingar, Hlífar og VSFK en 53%
félagsmanna þeirra höfnuðu kjarasamn-
ingnum í atkvæðagreiðslu. Á móti vildu 46%
þeirra samþykkja samninginn.
Félag vélstjóra og málmtæknimanna þar
sem um 1.750 manns voru á kjörskrá felldi
samninginn.
Á hinn bóginn greiddi meirihluti aðild-
arfélaga í Landssambandi íslenskra versl-
unarmanna atkvæði með samningnum en 95%
félagsmanna þess eru í þeim félögum sem sam-
þykktu. Stærst þeirra er VR sem hefur hátt í
25.000 félagsmenn. Þar kusu 55,26% með sam-
þykkt samningsins en 42,41% vildi fella hann.
Innan Samiðnar var samningurinn sam-
þykktur hjá öllum aðildarfélögunum nema iðn-
aðarmannadeild Verkalýðsfélags Akraness og
Þingiðn. Þá hafnaði Rafiðnaðarsamband Ís-
lands samningnum.
Hugsi yfir þátttökunni
Þátttakan í atkvæðagreiðslum félaganna var
almennt dræm og fór kjörsóknin hvergi yfir
44%. Þannig greiddu aðeins 13,62% af rúmlega
24.600 félagsmönnum VR sem voru á kjörskrá
atkvæði. Um fjórðungur félagsmanna Rafiðn-
aðarsambands Íslands og Einingar–Iðju nýttu
atkvæðisrétt sinn.
Mest var þátttakan hjá Drífandi í Vest-
mannaeyjum þar sem 44% greiddu atkvæði en
minnst hjá Félagi hársnyrtisveina þar sem hún
var aðeins 9%.
Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR, segist
hugsi yfir þátttökunni í atkvæðagreiðslunni.
„Maður er svolítið hugsi yfir þeim sem taka
ekki þátt. Árið 2004 var 9,8% þátttaka. Maður
þarf að velta fyrir sér af hverju fólk almennt
kýs ekki um kjarasamning,“ segir hún.
Fyrirtækin samþykktu
Aðildarfyrirtæki Samtaka atvinnulífsins
samþykktu kjarasamningana með 98,3%
greiddra atkvæða.
Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri
SA, segir að úrslitin um kjarasamningana sem
nú liggja fyrir á vinnumarkaðinum þýði að
kominn er á bindandi kjarasamningur til 12
mánaða hjá rúmlega helmingi launþega innan
ASÍ eða um 51%.
Alls er um 76 þúsund launþega að ræða og
var samningurinn samþykktur hjá félögum
með um 38.900 félagsmenn innan sinna vé-
banda en launþegafélög með tæplega 37 þús-
und félagsmenn stéttarfélaganna felldu samn-
inginn.
Meirihluti félaga felldi samninginn
Fjölmenn stéttarfélög samþykktu kjarasamninginn en önnur felldu Flóabandalagið hafnaði
samningi en VR samþykkti Kjörsóknin almennt dræm Afgerandi samþykki hjá aðilum SA