Morgunblaðið - 18.02.2014, Blaðsíða 22

Morgunblaðið - 18.02.2014, Blaðsíða 22
22 MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 18. FEBRÚAR 2014 ✝ HelgiGeorgsson fæddist í Vest- mannaeyjum 6. september 1962. Hann andaðist á heimili sínu í Kópavogi 5. febr- úar 2014. For- eldrar hans eru hjónin Georg Her- mannsson, f. 16.8. 1939, og Helga Helgadóttir, f. 12.1. 1943, bú- sett í Borgarnesi. Systir Helga er Hrafnhildur Georgsdóttir, f. 11.3. 1976, sem búsett er í Kópavogi. Hennar maður er Jón Óttar Birgisson, f. 9.4. 1974. Þeirra börn eru Ísak, f. 29.3. 2003, Ísabella, f. 11.5. 2005, og Georg, f. 1.12. 2009. 1989, og þeirra börn eru Kar- ítas Líf, f. 4.2. 2010, og Davíð Leó, f. 3.11. 2012. Sambýliskona Sveins er Súsanna Sif Jóns- dóttir, f. 5.11. 1991. Árið 1988 hóf Helgi sambúð með Erlu Guðmundsdóttur, f. 31.5. 1966, þau skildu. Dætur Helga og Erlu eru Brynhildur, f. 4.4. 1993, og Hulda, f. 14.10. 2001. Helgi lætur eftir sig unnustu, Evu Lilju Rúnarsdóttur, f. 12.7. 1976. Börn hennar eru Rúnar, Gabriel og Rakel. Helgi hefur unnið margvísleg störf um æv- ina en lengst af sem grafískur hönnuður. Helgi var tónlist- armaður og spilaði með ýmsum hljómsveitum, m.a. Url og Ten- derfoot. Einnig lék hann með tónlistarmönnum í Betel og Betaníu. Útför Helga verður gerð frá Lindakirkju í Kópavogi í dag, 18. febrúar 2014, kl.13. Jarðsett verður í Vestmannaeyjum. Helgi ólst upp í Borgarnesi til 1974, en fjölskyldan flutti til Vestmannaeyja þegar hann var 11 ára. Þar átti Helgi sín unglingsár og eignaðist marga vini. 1980 flutti fjöl- skyldan aftur í Borgarnes, Árið 1986 hóf Helgi sam- búð með Önnu Mar- gréti Sveinsdóttur, f. 15.9. 1968, þau skildu. Helgi og Anna eign- uðust 3 börn: Helgu, f. 10.12. 1986, hennar sonur er Daníel Helgi, f. 8.9. 2006, og tvíbura- bræðurna Bjarna Tómas og Svein Halldór, f. 8.10. 1988. Sambýliskona Bjarna er Petra Rán Jóhannsdóttir, f. 15.10. Svo leggur þú á höfin blá og breið á burt frá mér og óskalöndum þín- um og stjarna hver, sem lýsir þína leið er lítill gneisti, er hrökk af strengjum mínum. Þú skilur eftir minningar hjá mér um marga gleðistund frá liðnum ár- um, og alltaf mun ég fagna og þjást með þér, og þú skalt vera minn – í söng og tárum. Eitt orð, eitt ljóð, eitt kvein frá kvaldri sál er kveðja mín. Ég veit þú fyrirgefur. En seinna gef ég minningunum mál, á meðan allt á himni og jörðu sefur. Þá flýg ég yfir djúpin draumablá, í dimmum skógum sál mín spor þín rekur. Þú gafst mér alla gleði, sem ég á Þú gafst mér sorg, sem enginn frá mér tekur. Svo kveð ég þig. En er þú minnist mín, þá mundu, að ég þakka liðna daga. Við framtíð mína fléttast örlög þín. Að fótum þínum krýpur öll mín saga. Og legðu svo á höfin blá og breið, – þó blási kalt, og dagar verði að ár- um, þá veit ég, að þú villtist rétta leið og verður minn – í bæn, í söng og tárum. (Davíð Stefánsson frá Fagraskógi.) Guð gefi þér ljós og frið. Þín elskandi mamma. Til sonar Ríkur rán um sinn í reiða stormurinn. Á foldu fýkur allt, í fang er stundum kalt. Lægir loft og sjó, líf að fyrri ró. Allt þá aftur kyrrð, eilífð, nánd og firrð. Eigum alla tíð árin sár og blíð. Vænn er vinur minn, veit það pabbi þinn. (Brynleifur H. Steingrímsson) Mjög er um tregt tungu að hræra. Margs að minnast, margs að sakna. Guð geymi þig, sonur minn. Pabbi. Elsku besti pabbi, við hefð- um viljað meiri tíma með þér. Þú var mjög einstakur og sterkur karakter. Hér eru nokkrar minningar af ótal mörgum. Pabbi, þú varst mjög dugleg- ur og mjög metnaðarfullur. Þú hafðir alltaf mikla trú á því sem þú varst að gera og það var aldrei neitt hálfkák í því sem þú gerðir og það alltaf bara allt eða ekkert. Sem dæmi má nefna þegar þú fórst út að leika með okkur krökkunum að búa til snjóhús, þá bjóst þú ekki til snjóhús heldur snjóhöll með öllu tilheyrandi og þegar þú fékkst æði fyrir Kellogg’s special K borðaðir þú það í öll mál, alla daga. Það er alveg sama hvað þú tókst sér fyrir hendur, þér tókst það alltaf og þú gerðir hina ótrúlegustu hluti. Þú varst mikill braskari og hafðir mjög gaman af því. Sem dæmi má nefna þá státaðir þú þig af því að hafa náð að skipta þrisvar sinnum um bíl á einum og sam- an deginum. Með árunum öðl- aðist þú mikla reynslu og undir þín síðustu ár varst þú orðinn mjög fær og klár markaðsmað- ur og margir leituðu ráða hjá þér. Þú varst mjög skemmtilegur og fyndinn og þar sem margir voru komnir saman varst þú alltaf hrókur alls fagnaðar og fylltir herbergið af gleði. Þú varst mjög ráðagóður og kær- leiksríkur. Maður gat alltaf leit- að til þín og þú varst alltaf tilbúinn að hlusta og hjálpa og við vitum að þú gerðir alltaf þitt besta. Við vitum að þú varst mjög stoltur af okkur krökkunum og barnabörnum þínum og elskað- ir okkur öll út af lífinu. Þú varst ótrúlegur tónlistar- maður og áttir mjög fjölbreytt- an tónlistarferil og við krakk- arnir erum rosalega stolt af þér. Þú kunnir liggur við á öll hljóðfæri og ef þú kunnir ekki á þau nú þegar þá tók það mjög stuttan tíma fyrir þig að læra. Skemmtilegt dæmi um það hversu mikill tónlistarkarakter þú varst þá gafst þú kontra- bassanum þínum nafnið Súlli. Þú hafðir mjög gaman af því að ferðast og vera úti í nátt- úrunni. Það var líka rosa gott að eiga kósí stund heima með pabba og þú varst mikill kúrari. Þú hafðir svo góða nærveru og heima hjá pabba var alltaf gott að vera. Þú varst alltaf svo hug- myndaríkur og tókst þér ótrú- legustu hluti fyrir hendur. Sem dæmi má nefna þegar þú eydd- ir góðum hluta úr degi í að búa til hest í fullri stærð úr snjó og til eru myndir af okkur krökk- unum uppi á þessum hesti. Það eru margar fallegar og góðar minningar sem koma upp í hugann og við erum mjög þakklát fyrir þær allar og allt sem þú gerðir fyrir okkur. Við munum sakna þín alla tíð á meðan við lifum og erum ekki tilbúin að kveðja strax. En við vitum að þú ert kominn á betri stað. Vertu yfir og allt um kring með eilífri blessun þinni, sitji Guðs englar saman í hring sænginni yfir minni. (Sig. Jónsson frá Presthólum.) Elsku pabbi okkar, takk fyrir að vera þú. Við elskum þig. Helga, Sveinn, Bjarni, Brynhildur og Hulda. Hvernig get ég komið orðum að því að kveðja Helga í hinsta sinn? Ég sakna hans svo óend- anlega mikið. Við áttum sameiginlega vini en kynntumst ekki fyrr en fyrir rúmu ári á samkomu. Það fyrsta sem ég man eftir var hvernig augun í honum ljómuðu og hversu vel hann ilmaði. Það var eins og við hefðum fengið heila ævi á einu ári – og bara það besta. Við tengdumst strax svo sterkum böndum. Þrátt fyrir að við fengjum ekki meiri tíma saman fékk ég að kynnast Helga, draumum hans, löngunum og þrám. Hann gaf mér svo margt og var mér svo mikið. Helgi var hlýr, nærgætinn og ástríkur. Nákvæmur þar sem hann lagði sig fram við að kynnast mér sem best. Hann vildi skoða hluti í rólegheitun- um, ólíkt mér sem fannst stundum óþolandi hvað hann hafði oft rétt fyrir sér. Hann var gáfaður, hafði skoðun á öllu og fylgdist vel með málefnum líðandi stundar. Hann var vel máli farinn, elsk- aði íslenskt mál og málfar. Hann gat hlegið sig máttlausan þar til tísti í honum þegar ég kom með snilldar málshætti með gullkornum og nýyrðum sem ekki eru til í íslenskri tungu. Þá reyndi hann að leið- rétta mismæli mín með mis- jöfnum árangri. Hann kallaði mig blómið sitt eða trippi ef hann vildi stríða mér. Ég elsk- aði gráa hárið á honum.„Gráni minn“ hlýju augun og mjúkt faðmlag. Hann kom fram við mig eins og drottningu, bar virðingu fyr- ir mér, við vorum jafningjar. Hann skildi mig og vildi mér allt það besta. Hann var minn og ég var hans. Helgi hafði dýr- an smekk; eins og hann sagði oft það er bara einn sími; Ip- hone, ein tölva; Mac og einn bíll; Benz og ekkert dugði nema Hugo Boss. Hann var alltaf vel til fara og með fágaðan fata- smekk. Hann vildi njóta alls þess góða sem lífið hafði upp á að bjóða og langaði að sýna mér svo margt. Hann var enginn íþróttaálfur og vildi gera eitt- hvað allt annað en að hreyfa sig. Okkur leið svo vel saman. Þar sýndi hann sinn innri mann sem ég er svo þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast. Líf mitt er svo miklu ríkara vegna þess að ég fékk að vera partur af lífi hans. Börnin hans frá fyrri samböndum og börnin mín ná vel saman, sérstaklega Hulda dóttir hans og Gabríel sonur minn. Fjölskylda hans er heil- steypt og hjartahlý. Elsku Helgi minn. Mér hefði aldrei dottið í hug þegar við hittumst síðast að við myndum aldrei hittast aftur. Að það myndi vera í síðasta sinn sem ég myndi faðma þig og kyssa. Það er svo margt sem mig langar til að segja þér en þú veist það allt. Ég fékk að snerta hjartað þitt og þú mitt. Ég er svo þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast þér, elska þig og vera elskuð af þér. Þú verð- ur alltaf Gráni minn. Ég á eftir að sakna þín svo mikið. Það er svo margt sem er ósanngjarnt í þessu lífi að mig langar stundum til að stappa niður fótunum og frekjast í Guði. En það færir þig ekki aft- ur til mín, ástin mín eina. Ég hugga mig við það að þú ert kominn heim og að þetta líf er sem augnablik. Þangað til mun ég halda áfram og hafa orð þín í hjarta mínu sem þú hvattir mig með. Þú ert stóra ástin í lífinu mínu. Þín, Eva. Ég gleymi aldrei þeim degi þegar mér var sagt að hann Helgi bróðir minn væri dáinn. Þetta gat bara ekki verið rétt. Nú kveðjum við hann elsku Helga stóra bróður minn sem var mér alltaf svo góður og traustur. Helgi skilur eftir sig stórt skarð sem aldrei verður fyllt. Við vorum bara tvö systk- inin og mun ég sakna hans ólýsanlega mikið. Verndi þig englar, elskan mín, þá augun fögru lykjast þín; líði þeir kringum hvílu hljótt á hvítum vængjum um miðja nótt. Nei, nei það varla óhætt er englum að trúa fyrir þér; engill ert þú og englum þá of vel kann þig að lítast á. (Steingrímur Thorsteinsson) Elsku Helgi minn. Litla syst- ir situr eftir pínulítið ein. Þú verður hjá mér í hjartanu mínu og veit ég að þú ert þarna ein- hvers staðar og heldur áfram að passa upp á mig. Mér þykir óendanlega vænt um þig. Þín litla systir, Hrafnhildur. Við fráfall Helga vinar míns hefur stórt skarð myndast sem er vandfyllt. Við eigum marga kunningja, en fáa vini. Helgi var sannur vinur. Ég minnist fyrst þegar ég sá Helga, síð- hærðan poppara sitjandi í Hvítasunnukirkjunni í Vest- mannaeyjum. Ég fór að spjalla við þennan forvitnilega kappa og í stuttu máli þá myndaðist þarna vinskapur sem hefur ver- ið órofinn síðan. Fljótlega upp- götvaði ég hvílíkur afburðamað- ur Helgi var á mörgum sviðum. Fjölmargir menn með eigin- leika Helga eru miklir hugsuðir en litlir framkvæmdamenn. Helgi var einn af minnihlutan- um sem hafði ekki bara fram- kvæmdaviljann heldur fram- kvæmdagleðina. Eftir orðatiltækið hans „let’s do it“ var vaðið af stað með látum og hlutirnir kláraðir. Árið er 2006 og allt brjálað í Eyjum vegna samgöngumála. Á Kaffi Kró erum við Helgi ásamt útvöldum mannvitsbrekkum að ræða málin. Við sitjum saman eftir spjallið og Helgi kemur með hugmynd um að búa til heimasíðu, kröfur um bættar samgöngur með undirskrifta- söfnun á netinu. Hann skrapp heim og um kvöldið er Eyja- frelsi.net orðin til. Á þremur dögum safnast um 4.000 undir- skriftir. Prentað út og næsta vél tekin til Reykjavíkur. Þaðan var þrammað niður á Arnarhól og Geir Haarde, sem þá var forsætisráðherra, fær bunkann í hendur. Eftir fáa daga er Flugfélag Íslands byrjað að fljúga á 50 sæta flugvélum til Eyja. Þá kættumst við Helgi og prakkarabrosið breiddist út um andlitið á Helga. Um haustið berst beiðni frá Icelandair um að fá hóp frá Eyjum til að spila í Kaup- mannahöfn á ferðaráðstefnu. Tvær sekúndur og strax komið „let’s do it“. Mesta vandamálið var að drösla „Súlla“ í gegnum flutningakerfið. Fyrirbærið er risastór kontrabassi sem Helgi spilaði á. Fyrir nokkrum árum veiktist Helgi. Hann kom niður á kaffi Kró til mín og leit ekki vel út. Eftir að hafa heimsótt lækni kemur hann brosandi til baka og segir mér að þetta sé líklega ekkert alvarlegt. Lækn- isúrskurðurinn; „þú ert allt of feitur“. Að sjálfsögðu var málið tekið föstum tökum og ákveðið að leysa það á sem skemmstum tíma með fjallgöngum. Eitt fjall á hverjum laugardegi var ákveðið. Í stuttu máli var þetta, eins og annað, tekið með trompi og Helgi nær dauða en lífi eftir hverja ferð. Stuttu seinna fer Helgi til hjartasérfræðings sem tekur af honum hjartalínurit. Það kemur í ljós að drep hafði komist í hjartavöðva og gróið. Hjartað var með innan við 40% starfsgetu. Helgi kemur til mín og er að segja mér frá þessu og ég í hálfgerðu sjokki þegar stríðn- isglottið kemur á andlitið: „Simmi, þú ert líklega sá sem hefur komist næst því að drepa mig, með þessum fjallgöngum.“ Á síðasta starfsdegi Helga var hann að breyta heimasíðu Vík- ing Tours og það gert með þeirri elju sem einkenndi þenn- an frábæra vin. Þau eru þung síðustu sporin með Helga. En trúin sem við eigum á lifandi Guð og son hans Jesúm Krist léttir undir. Ég kveð þennan kæra vin með orð- um ritningarinnar úr Hebr. 12: „Beinum sjónum vorum til Jesú, höfundar og fullkomnara trúarinnar.“ Ég bið góðan Guð að hugga börn, barnabörn og ástvini í þeirra miklu sorg. Sigurmundur G. Einarsson. Sporin hafa verð þung síð- ustu daga eftir að mér barst sú harmafregn að minn kæri vinur og félagi, Helgi Georgsson væri allur. Þegar maður lítur aftur streyma minningabrotin fram. Kynni okkar Helga hófust í Vestmannaeyjum árið 1979 er við hófum störf í Vinnslustöð Vestmannaeyja. Unnum við þar saman á lyfturum. Það kom strax í ljós að við áttum skap saman. Fyrir utan vinnutíma var ýmislegt stundað, svo sem gönguferðir um Heimaey og var eyjan oft gengin enda á milli og hver toppur klifinn á fögru sumarkvöldi. Leyndar- dómar tónlistarinnar voru líka kannaðir á ýmsan máta, bæði á tónleikum og við hlustun og ef ekki var hlustað á aðra var tón- listin samin á staðnum í fé- lagskap við Óskar og Ævar Kjartanssyni, félaga okkar. Við vorum saman öllum stundum, félagarnir á þessum tíma. „Bónusgengið“ vorum við fé- lagarnir kallaðir. Eitt sinn fór- um við strákarnir til Reykjavík- ur í innkaup á hljóðfærum og var stefnan tekin á ónefnda hljóðfæraverslun. Þar var verslað grimmt og tóku eigend- ur sér frí það sem eftir var dags, enda höfðu þeir ekki fengið aðra eins sölu á einum degi, aldrei. Helgi var mikill músíkmaður og var jafnvígur á bassa og trommur. Má segja að Helgi hafi komið mér til að gutla á hljómborð og hef ég stundað það síðan. Eftir Eyjadvöl vor- um við báðir í Reykjavík við störf og leik. Enn var tónlistin stunduð og eru stefin ófá sem við höfum hnoðað saman. Þær upptökur eru allar til og munu verða geymdar vel. Lékum við meðal annars saman inn á hljómplötu með félaga okkar. Helgi hefur starfað með ýmsum tónlistarmönnum gegnum tíð- ina og gefið út sitthvora plöt- una með hljómsveitunum Ten- derfoot og Url. Ótaldar eru allar bíóferðirn- ar, bíltúrarnir og veiðitúrarnir sem farnir hafa verið í gegnum tíðina. Helgi stundaði ýmis störf á þessum árum, meðal annars rak hann veitingasölu á Akranesi og seinna veitingasölu í flugstöðinni í Vestmannaeyj- um, en hann hafði flutt aftur til Eyja með Erlu barnsmóður sinni. Bjuggu þau þar saman í all- mörg ár. Helgi fluttist nýlega aftur til Reykjavíkur og til nýrra starfa. Í mörg ár vann Helgi við heimasíðugerð fyrir ýmis fyrirtæki og auglýsinga- gerð ýmiskonar. Síðustu mán- uði var Helgi að byggja upp heildsölu ásamt félaga sínum og var mikill hugur í honum gagn- vart því verkefni. Þegar Helgi gerði eitthvað þá var það hundrað prósent, ekkert minna dugði honum. Það var alltaf gott að hitta Helga og snæddum við stund- um saman á mínum vinnustað. Ef einhver tími leið á milli hitt- inga, þá var hringt og spjallað. Það var alltaf gott að heyra í honum Helga mínum. Mun ég vissulega sakna þessara stunda sem við áttum saman. Stutt er síðan við snæddum hádegisverð saman og var þá gott hljóð í mínum manni. Ég kveð þig að sinni, kæri vinur, en minning um góðan dreng og félaga mun lifa í hjarta mínu um ókomin ár. Foreldrum Helga, Evu, börnum og öðrum ásvinum hans votta ég mína dýpstu samúð. Hvíl í friði, kæri vinur. Hvíl í friði. Karl Sesar Karlsson. Helgi Georgsson HINSTA KVEÐJA Við kveðjum Helga frænda okkar með þakk- læti fyrir ljúfa samfylgd í gegnum allt okkar líf. Við þökkum fyrir dýrmætar minningar, þar sem gleði og hjartahlýja Helga er eins og rauður þráður, allt- af stutt í prakkarabrosið, vonarblik í augum og dill- andi hláturinn. Börnunum og ástvinum öllum sendum við samúðarkveðjur. Hvíl í friði, elsku Helgi. Soffia og Björn. HINSTA KVEÐJA Við áttum tíma saman sem gaf okkur yndisleg börn. Minning þín mun lifa áfram í þeim. Ég er þakklát fyrir tímann sem við áttum saman og síðustu skiptin sem við hittumst sem voru miklar gleðistundir. Hvíl í friði. Anna Margrét Sveinsdóttir. Blómaverkstæði Binna | Skólavörðustíg 12 | Sími: 5613030 ALLAR SKREYTINGAR UNNAR AF FAGMÖNNUM

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.