Morgunblaðið - 14.03.2014, Blaðsíða 18
18 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 14. MARS 2014
Guðni Einarsson
gudni@mbl.is
Það er orðið löngu tímabært að
huga að flóðvörnum fyrir Kvosina í
Reykjavík og fleiri byggð svæði sem
liggja lágt að sjó, að mati verkfræð-
inganna Önnu Heiðar Eydísar-
dóttur og Reynis Sævarssonar hjá
verkfræðistofunni Eflu.
Þau skoðuðu leiðir til að verjast
sjávarflóði í Kvosinni. Verkefnið
unnu þau í samvinnu við arkítekta-
stofuna Studio Granda. Anna mun
fjalla um verkefnið á Vísindadegi
Orkuveitu Reykjavíkur (OR) og
Orku náttúrunnar (ON) sem haldinn
er í höfuðstöðvum OR og ON í dag.
Horft til ársins 2100
Anna sagði að þau hefðu skoðað
hvernig sjávarflóð á borð við Bás-
endaflóðið, sem varð 9. janúar 1799,
yrði kæmi það árið 2100. Bás-
endaflóðið var mikið sjávarflóð sem
olli gríðarlegum skemmdum á Suð-
vesturlandi. Það eykur á hættuna á
sjávarflóði að sjávarborð hækkar og
Reykjavík lækkar jafnt og þétt.
„Sjávarborðshækkunin til ársins
2100 er metin verða 0,6 til 1,2 metr-
ar,“ sagði Anna. Hún sagði ekki ljóst
hvort það hefðu verið veðurfars-
legar aðstæður sem ollu Básenda-
flóðinu eða hvort það varð af völdum
flóðbylgju. Anna sagði að ef kæmi
sambærilegt flóð við Básendaflóðið
árið 2100 gæti það náð 6,4 metra
hæð. Þá er reiknað með hækkun
sjávarborðsins og lækkun landsins.
Til samanburðar má nefna að meðal
stórstraumsflóð í Reykjavík er nú í
2,18 metra hæð.
Reynir sagði að ef atburður á
borð við þann sem olli Básendaflóð-
inu 1799 endurtæki sig á okkar tím-
um eða í framtíðinni yrði hann mun
stærri vegna hækkunar sjávarborðs
og lækkunar landsins.
„Það er mikilvægt að hafa í huga
að það getur komið flóð,“ sagði
Reynir. „Básendaflóðið kemur ekki
endilega aftur. Það var líklega ein-
stakur atburður. Allar mælingar á
sjávarhæð benda til þess að endur-
komutími slíks atburðar teljist í
milljónum ára. Þessi atburður var
úr takti við allar mælingar.“
Nokkrir kostir í boði
Reynir sagði það orðið nokkuð al-
gengt að sjór ylli skemmdum á göt-
um og göngustígum í Reykjavík.
Það yrði algengara með lækkun
landsins og hækkun sjávarborðs.
„Það er alveg ljóst að eitthvað
verður að gera. Við höfum skoðað
það verkfræðilega hvað sé skyn-
samlegast að gera,“ sagði Reynir. Í
skýrslu þeirra eru kynntir nokkrir
kostir. Sá ítarlegasti er að fara „hol-
lenska leið“ og byggja varnargarða
og hækka þá smátt og smátt. Jafnvel
að loka gömlu höfninni með flóð-
varnalokum. „Kvosin er illa staðsett
ef þetta verður ekki gert. Ef við lok-
um ekki gömlu höfninni verðum við
að verjast sjávarborðshækkuninni
innar í landinu,“ sagði Reynir. Þá
koma til greina ýmsar aðrar gerðir
hindrana til að varna því að sjór
flæði inn í Kvosina.
Þau Anna og Reynir sögðu að
þessi framtíðarmynd þyrfti ekki að
vera neikvæð gagnvart áformum um
byggð í Vatnsmýri. Svæðið stæði
nokkrum metrum hærra en Kvosin.
„Flestar þjóðir búa við flóða-
hættu,“ sagði Reynir. Hann sagði
flóðavanda ekki meiri hjá okkur en í
öðrum löndum og benti á hættu á
flóðum við ár og strendur víða í Evr-
ópu. Sé hætta á flóðum lítil og þau
fátíð, komi t.d. á 50 ára fresti, sé ekki
gripið til mikilla varna en íbúar þurfi
að flýja flóðasvæðin um tíma. Þetta
séu ekki atburðir sem ógni manns-
lífum og ákveðin takmörk fyrir því
hvað mikið eigi að fjárfesta í vörnum
gegn mjög ólíklegum atburðum.
Hærri hafnarbakka
„Það munu koma reglulega smá-
flóð sem verða til einhverra vand-
ræða. Það þarf að huga að því ekki
síðar en strax. Það er verið að sam-
þykkja deiliskipulag á mögulegum
framtíðarflóðasvæðum þar sem ekk-
ert tillit er tekið til þessarar hættu.
Það er óþarfi,“ sagði Reynir. Hann
benti á að landfyllingar, t.d. í Örfir-
isey og víðar, væru fulllágar.
„Okkur þótti áhugavert að stór
flóð núna eru í kringum 3 metra
hæð,“ sagði Anna. „Hafnarbakk-
arnir við Miðbakka og Austurbakka
í Reykjavík eru í 3,5 metra hæð.
Samkvæmt nýju skipulagi er rætt
um að byggja á hafnarbökkunum í
Vesturbugt, Miðbakka og Austur-
bakka. Það verður ekki auðvelt að
hækka hafnarbakkana eftir að búið
er að byggja mikið á þeim. Það ætti
að taka tillit til þessarar þróunar
sjávarborðs og huga að því að
hækka hafnarbakkana áður en farið
verður að byggja á þeim.“
Reynir sagði að yfirvöld víða um
heim séu að taka þessi mál föstum
tökum vegna fyrirsjáanlegrar hækk-
unar sjávarborðs. Upplýsingar um
þau viðbrögð eru meðal annars efnis
í skýrslunni.
Huga þarf að flóðvörnum
fyrir Kvosina í Reykjavík
Lækkun lands og hækkun sjávarborðs auka hættuna á sjávarflóðum
Reykjavík nú og 2100 Á loftmyndinni til vinstri sjást Reykjavíkurhöfn og Kvosin í dag. Á myndinni til hægri er
sýnt hvaða áhrif sex metra flóð myndi hafa í Kvosinni verði ekki gripið til flóðavarna. Mikilvægt er að huga að þeim.
Tölvgerð mynd/Efla og Studio Granda
Fulltrúar meirihlutans í borgar-
stjórn Reykjavíkur auk fulltrúa
Vinstri grænna í umhverfis- og
skipulagsráði hafa samþykkt að fela
skipulagsfulltrúa um að höfða til
samvisku verktaka sem reisa nýjan
turn í Skuggahverfi við Skúlagötu
um að breyta fyrirætlunum sínum.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðis-
flokksins lögðu í gær til á fundi
borgarráðs að reynt yrði að ná sam-
komulagi við lóðarhafana um breyt-
ingar á háhýsinu. Afgreiðslu þeirrar
tillögu var frestað.
Að sögn Sóleyjar Tómasdóttur,
borgarfulltrúar VG, hafa athuga-
semdir borist borgaryfirvöldum
vegna áforma um að reisa 18 hæða
turn við Skúlagötu 22.
„Það er voðalega lítið sem við get-
um gert. Hann hefur fengið öll til-
skilin leyfi og deiliskipulagið er sam-
þykkt. Það má efast um þessa
samþykkt vegna þess að það er svo
langt síðan og það hefur svo margt
breyst. Fólkið sem tók þessa
ákvörðun er ekki lengur með umboð
borgarbúa,“ segir Sóley en tekur
fram að það breyti þó ekki að skipu-
lagið sé í fullu gildi. Framkvæmd-
irnar byggjast á deiliskipulagi sem
var samþykkt árið 2006. Í bókun VG
og meirihlutans kemur fram að það
skipulag sé barn síns tíma. Hærri
turninn eigi eftir að hafa áhrif á veð-
urfar, útsýni, ásýnd borgarinnar og
skerða mikilvægan sjónás norður
Frakkastíg. Þá sé hann og reiturinn
allur á skjön við umhverfis- og
skipulagsáherslur.
Því skorar ráðið á Alþingi að setja
inn fyrningarákvæði í skipulagslög
þannig að hægt sé að endurskoða
skipulagsáætlanir ef framkvæmdir
hefjast ekki innan ákveðins tíma,
Sóley telur þetta eðlileg viðbrögð
borgaryfirvalda og að það ríki nokk-
uð þverpólitísk sátt um manneskju-
legri byggð í umhverfis- og skipu-
lagsráði. kjartan@mbl.is
Morgunblaðið/Ómar
Turn Framkvæmdir eru hafnar við
nýja turna í Skuggahverfi.
Höfða til
samvisku
verktaka
Ekki lengur um-
boð fyrir ákvörðun
Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
„Skipan hópsins í núverandi mynd
skapar þá hættu að sjónarmið not-
enda komi ekki vel fram. Notendur
hafa oft aðra nálgun en þeir sem vel-
ferðarþjónustu veita,“ segir Ragnar
Gunnar Þórhallsson. Hann situr í
starfshópi sem félagsmálaráðherra
skipaði á dögunum og á að endur-
skoða lög um málefni fatlaðs fólks og
félagsþjónustu sveitarfélaga.
Ragnar Gunnar, sem var formað-
ur Sjálfsbjargar, landssambands
fatlaðra, um árabil er í hópnum sem
fulltrúi Öryrkjabandalags Íslands.
Þar eru einnig fulltrúar ráðuneyta,
sveitarfélaga, RKÍ, Hjálparstarfs
kirkjunnar, Reykjavíkurborgar,
eldri borgara, Þroskahjálpar og
fleiri. Bergur Þorri Benjamínsson,
málefnafulltrúi Sjálfsbjargar, hefur
óskað eftir því við ráðherra að skip-
an hópsins verði endurskoðuð, þann-
ig að fólk með fötlun hafi meira vægi.
„Nálgun ráðuneytisins í skipan
hópsins er gamaldags. Í samningi
Sameinuðu þjóðanna um réttindi
fatlaðs fólks, sem til stendur að full-
gilda hér á landi, er gert ráð fyrir því
að sá hópur hafi meira um hags-
munamál sín að segja. Ég geri ekki
lítið úr starfi hjálparsamtaka en að
fulltrúar þeirra í starfshópnum séu
tveir en einn frá fötluðum er ekki í
takt við tímann. Réttindi eiga ekki að
vera góðverk eða ölmusa,“ segir
Ragnar Gunnar.
Willum Þór Þórsson alþingismað-
ur er formaður starfshópsins. „Við
viljum auðvitað heyra ólík sjónarmið
og ég vænti þess að ráðuneytið taki
tillit til þeirra sjónarmiða notenda
þjónustu sem fram hafa komið,“ seg-
ir Willum um starfshópinn sem á að
ljúka sínu verki og skila skýrslu fyrir
lok þessa árs.
Fatlað fólk telur sig af-
skipt í skipan starfshóps
Réttindi eru ekki ölmusa Viljum heyra ólík sjónarmið
Ragnar Gunnar
Þórhallsson
Willum Þór
Þórsson
Hæstiréttur hefur staðfest dóm
Héraðsdóms Reykjavíkur yfir 19 ára
gömlum karlmanni sem var dæmdur
í átta mánaða skilorðsbundið fang-
elsi fyrir sérstaklega hættulega lík-
amsárás í mars 2012 í miðborg
Reykjavíkur.
Maðurinn var sakfelldur fyrir að
hafa veist að manni með því að skalla
hann í höfuðið, slá hann tveimur
höggum og skera með blaði úr dúka-
hníf. Fram kemur í dómi Hæsta-
réttar að brot árásarmannsins hafi
verið talin varða við 218. grein al-
mennra hegningarlaga sem fjallar
um alvarlegar líkamsárásir.
Við ákvörðun refsingar var litið til
þess að maðurinn hafði tvisvar hlotið
ákærufrestun, árásin átti sér stað í
átökum og maðurinn hlaut sjálfur
mikla áverka í átökum við aðra þetta
sinn.
Auk fangelsisdómsins var mað-
urinn dæmdur til að greiða brota-
þola 1 milljón króna í miskabætur.
Dæmdur fyrir
líkamsárás
Sló mann ítrekað, skallaði hann í
höfuðið og skar með dúkahnífsblaði
Dómstóll Hús Hæstaréttar.