Morgunblaðið - Sunnudagur - 04.05.2014, Qupperneq 49
4.5. 2014 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 49
sem talaði íslensku, ensku og fleiri mál. Á
þessum tíma var vel fylgst með útlendingum
sem komu til landsins. Hún benti á mig, ég
vann þarna til 2005. Þá vildi ég komast í 100%
vinnu og fékk starf í heilsugæslunni í Hamra-
borg sem móttökuritari. Þar var mikið álag,
margir hringdu og vildu fá tíma. Ef þeir
fengu hann ekki urðu sumir alveg brjálaðir.
Svo sem mjög skiljanlegt – en þreytandi. Svo
frétti ég að það væri að losna starf í fjár-
reiðudeild heilsugæslunnar og fékk þá vinnu.
Eftir kreppu fækkaði fólki þar. Loks vorum
við tvær eftir, ég í innheimtu og svo gjaldkeri.
Við leystum hvor aðra af ef hin veiktist. Álag-
ið var óskaplegt. Þannig var ástandið þegar
ég byrjaði námið í Bifröst 2011.
Ég fór í fjarnám í alþjóðaviðskiptum. Ég
þurfti að vakna klukkan fjögur á morgnana til
að læra og hlusta á fyrirlestra áður en ég fór
að vinna. Og allar helgar varð ég að nota til
að gera verkefni. Jakob tók þessu af skilningi.
Ég sagði við hann: „Þegar ég er búin með
námið fáum við tíma fyrir okkur.“ Hann var
þá líka oft í ferðalögum erlendis vegna sinna
starfa. Dætur mínar voru leiðar yfir því hvað
ég hafði mikið að gera. Jú, þetta var mikið
álag og ég myndi nú ekki gera þetta aftur.
Í þremur vinnum eftir hrun
Ég skilaði mastersritgerð minni í desember sl.
Ég skrifaði sem fyrr um áhrif kreppunnar á
filippseyskt samfélag á Íslandi og fjölskyldur
þeirra í Filippseyjum. Fólk frá Filippseyjum,
sem sendi peninga frá Íslandi heim, þurfti eft-
ir kreppu að bæta við sig vinnu til að geta
sent samsvarandi upphæð til ættingja sinna
og það hafði gert. Ég ræddi við fjórtán manns
vegna ritgerðarinnar, nær eingöngu konur;
allar höfðu þær komið hingað til að vinna og
sumar skilið börn sín eftir heima. Ein sem ég
talaði við vann í umönnun á daginn, skúraði á
kvöldin og vann á veitingahúsi um helgar.
Hún átti ekkert líf sjálf.
Mikil vandræði urðu hjá filippseyska fólkinu
hér þegar gjaldeyrishöftin voru sett á og
krónan veiktist. Það leitaði allra leiða til þess
að koma greiðslum til ættingja sinna á Fil-
ippseyjum. En það var ákaflega erfitt og oft
ómögulegt fyrstu árin eftir hrun. Það var líka
kreppa á Filippseyjum þegar kreppan hófst
hér.
Meðan ég var að vinna ritgerðina fór ég til
Mariu Pricellu Zanoria, ræðismanns Filipps-
eyja, til að fá heildarmyndina. Filippseyingar
hér komu til hennar eftir kreppu til að reyna
að fá undanþágur frá gjaldeyrishöftunum, en
það gekk ekki. „Til hvers erum við að vinna
hérna og getum svo ekki sent peninga heim?“
sagði fólkið reitt. Gegnum Western Union í
Landsbankanum var stundum hægt að senda
peninga út, en þjónustugjöld voru há. Þetta er
enn gert, því enn er erfitt að senda gjaldeyri í
gegnum banka.
Samt hefur fólk það betra hér en ef það
væri á Filippseyjum. Mér finnst sóun fyrir ís-
lenskt samfélag að vel menntaðir útlendingar
skuli ekki fá nema láglaunastörf. En tungu-
málið gerir innflytjendum erfitt fyrir.
Flestir þeirra sem ég ræddi við komu úr
stórum fjölskyldum og framlag þeirra hjálpaði
til við að mennta börnin á Filippseyjum og
styðja við fjárhag ættingja. Þeir sem fara til
að vinna erlendis eru nánast skuldbundnir til
að senda framfærslueyri til foreldra sinna. Ís-
lendingar eiga kannski erfitt með að skilja
hvernig þetta er, en á Filippseyjum er fjöl-
skyldan alltaf í fyrsta sæti og fjölskyldan er
dæmd eftir því hvernig fólki gengur. Það er
mikið áfall ef einhver lendir í vandræðum en
upphefð ef einhverjum gengur vel. Ef einhver
í fjölskyldunni er til dæmis fyllibytta, þá segja
hinir í kring: „Uss, þetta er ómöguleg fjöl-
skylda.“ Þegar ég tók mastersprófið voru allir
himinlifandi í fjölskyldu minni, það var heiður
fyrir alla.
Sá sem fer frá Filippseyjum til að vinna og
senda heim peninga gerir það alla ævi. Kerfið
er svona. Einn fer út og vinnur, fólkið heima
fær peningana. Ég ræddi við filippseyska
konu, gifta Íslendingi, sem á fimm systkini og
sendir alla peninga út sem hún getur. Tveir
bræður hennar búa hjá mömmu hennar með
börn sín, hún sér um framfærslu þessa fólks.
Launin á Filippseyjum eru lág og atvinnuleysi
mikið.
Við systurnar styrkjum efnilega unglinga úr
fjölskyldunni til náms og sendum mömmu
mánaðarlega peninga. Ég hef bara þrisvar
farið til Filippseyja eftir að ég flutti hingað.
En 2008 voru við systurnar allar á Filipps-
eyjum. Þá létum við byggja hús. Húsbygg-
ingin var ekki svo dýr fyrir okkur þrjár þá.
Mamma býr í því núna. Þegar við komum var
tekið á móti okkur eins og drottningum. Þeir
sem fá peningasendingar taka óskaplega vel á
móti fyrirvinnunum þegar þær koma til Fil-
ippseyja. Vilja endurgjalda, halda veislur og
mikið fjör ríkir.
Nú vinn ég í Háskóla Íslands í reiknings-
haldi. Vinkona mín hvatti mig til að sækja um
og ég sendi umsókn kvöldið áður en umsókn-
artíminn rann út. Ég var kölluð í viðtal. Í nóv-
ember sl. byrjaði ég í þessu starfi. Það er af-
skaplega gott að vinna í háskólanum. Ég er
verkefnisstjóri í reikningshaldi.
Við Jakob eigum hús í Borgarfirði, Hamra
við Kleppjárnsreyki í Reykholtsdal. Jakob var
í sveit þar hjá afa sínum og ömmu sem barn.
Húsið gekk úr ættinni en við keyptum það
aftur. Í staðlotum í náminu í Bifröst bjó ég
þar.
Vissi ekki að hún hefði dúxað
Ég var í vinnunni þegar sviðsstjórinn í Bifröst
hringdi og spurði hvort ég ætlaði ekki að
halda ræðu við útskriftina fyrir meistaranema.
Ég var næstum búin að fá hjartaslag: „Æ,
nei, geturðu ekki beðið einhvern annan.“ Ég
vildi ekki vera stressuð við útskriftina.
Kona á sviði menningarstjórnunar hélt ræð-
una á útskriftardaginn í febrúar. Meðan við
stóðum í röðinni og biðum eftir að fara inn í
sal sagði einhver við mig: „Af hverju heldur
þú ekki ræðuna?“ Mér fannst þetta mjög
skrýtin spurning.
Í salnum var ég kölluð upp og mér afhent
verðlaun fyrir hæstu einkunn á meistaraprófi;
Íslensk samheitaorðabók. Þá fyrst frétti ég að
venja væri að sá sem dúxaði héldi ræðu fyrir
hönd meistaranema. En ég vissi ekki fyrr en
þá að ég hefði dúxað.
Jakob, dætur okkar og systur mínar voru
með mér við útskriftina. Svo fórum við á sýn-
ingu sem frænka Jakobs var með í Borg-
arnesi og keyptum eitt málverk í tilefni dags-
ins. Síðar var haldin veisla heima hjá okkur.
Stundum velti ég fyrir mér hvort ég eigi að
fara í doktorsnám. Ég veit það ekki. Núna
ætla ég bara að hvíla mig. Satt að segja
vakna ég enn á morgnana, eldsnemma, og fer
fram úr og horfi á tóman tölvuskjáinn; svo
mikið er spennufallið hjá mér. Hundurinn
minn, Bjartur Logi, er yfirleitt hjá mér. Í for-
mála ritgerðarinnar þakka ég þeim sem
studdu mig, einkum Goffrey Pettypiece – og
til gamans líka Bjarti Loga fyrir þolinmæðina,
að sitja hjá mér meðan ég var að gera verk-
efnin og læra.
Ég er ein örfárra Filippseyinga sem hafa
fengið góða vinnu hér. Ég hef líka oftast unn-
ið ein með Íslendingum, þannig lærði ég mál-
ið. Innflytjendur halda yfirleitt hópinn og læra
því minna í íslensku. Ég heimsótti einu sinni
frænda minn sem vann í fiskvinnslufyrirtæki
með fólki af ýmsu þjóðerni. Hann bauð mér
að borða með sér og ég spurði hvar ég ætti að
sitja. „Þú átt að sitja hérna, þetta er okkar
borð, Filippseyinga,“ sagði hann. Sérborð var
fyrir hverja þjóð. Mér fannst þetta mjög ein-
kennilegt. Oft heyrist að innflytjendur hér
ættu að læra betri íslensku, en námið er dýrt
og húsaleiga himinhá. Þeir þurfa líka oft að
vinna mikið til að geta sent peninga heim. Ís-
lendingar ættu ekki að dæma. Og mín staða
er önnur en flestra, ég er í góðu starfi og hef
haft tækifæri til að læra málið.
Filippseyjar og Ísland eru ólík samfélög.
Erfitt er að kynnast Íslendingum, en eftir
einn bjór kemur oft öll sagan. Filippseyingar
eru yfirleitt opinskátt fólk og glaðlynt. Rann-
sóknir hafa sýnt að fólk af asískum uppruna
er opið og félagslynt og býr gjarnan saman í
stórum fjölskyldum, á meðan Evrópubúar –
og þar með Íslendingar – eru fremur lokaðir
og vilja vera út af fyrir sig.“
Ég hef lítið fundið fyrir fordómum. Einu
sinni þó. Ég var nýútskrifuð úr ferðamála-
fræði og fór örugg með mig á stórt hótel til
að sækja um vinnu í móttöku eða á skrifstofu.
Móttökuritarinn leit ekki einu sinni á próf-
skírteinið mitt, sagði bara: „Það er laust starf
herbergisþernu.“ Ég fór út mjög reið og
hugsaði með mér: „Hvernig vogar hún sér að
bjóða mér þetta, bara af því ég er útlensk;
hún er örugglega miklu verr menntuð en ég.“
Núna myndi ég svara fyrir mig.“
Morgunblaðið/Ómar
„Mér finnst sóun fyrir ís-
lenskt samfélag að vel
menntaðir útlendingar skuli
ekki fá nema láglaunastörf,“
segir Violeta Tolo Torres.
Jakob Ólafsson eiginmaður Violetu og dæturnar Kristín Margrét og Karen Sif með Violetu við út-
skrift frá Bifröst. Lokaritgerðin hennar fjallar um áhrif hrunsins á filippseyskt samfélag á Íslandi.
Útskriftarmyndir með 25 ára millibili. BS í viðskiptafræði með áherslu á endurskoðun frá University
of San Carlos á Filippseyjum 1987 og MS í alþjóðaviðskiptum frá Háskólanum á Bifröst 2014.