Morgunblaðið - Sunnudagur - 09.11.2014, Side 48
„Ég var því fegin að vera lögð inn en um
leið upplifði ég sem ung stelpa mikið
óöryggi þar inni. Ég deildi herbergi með
öðrum sjúklingi, sem ég vissi ekkert
um. Ég vissi ekki við hverju var að bú-
ast,“ segir Silja Björk Björnsdóttir.
É
g hugsaði með mér að kannski
væri það sem ég gekk í gegnum
ekki til einskis. Kannski væri rík
ástæða fyrir því að tilraun mín til
að taka eigið líf misheppnaðist.
Ég vil að aðrir viti það sem ég vissi ekki,“
segir Silja Björk Björnsdóttir sem síðasta
eina og hálfa árið hefur haldið fyrirlestra í
mennta- og grunnskólum og sagt ungmennum
sögu sína.
Silja Björk er aðeins 22 ára gömul og veikt-
ist af alvarlegu þunglyndi þegar hún var í
menntaskóla. Þegar hún fór að fara yfir
grunn- og menntaskólaárin og sá að forvarnir
og fræðsla um geðsjúkdóma voru af afar
skornum skammti langaði hana til að gera
eitthvað í málunum. „Ég hringdi eitt símtal
og spurði hvort það væri einhver fræðsla í
grunn- og menntaskólum – hvort það kæmi
einhver og héldi tölu um þunglyndi fyrir nem-
endur og komst fljótt að því að svo var ekki.
Ég bauðst því að sjálfsögðu til að taka bara
verkið að mér,“ segir Silja brött.
Sjálf upplifði Silja skilningsleysi á hennar
eigin vanlíðan. „Ég var lengi svekkt yfir því
að hafa farið í gegnum menntaskólaárin án
þess að njóta þeirra. Ég vildi óska að einhver
hefði getað sagt mér að það hvernig mér leið
í menntaskóla var ekki mér að kenna heldur
sjúkdómi sem var ekki verið að meðhöndla.“
Áfallið talið of léttvægt
Silja er fædd og uppalin á Akureyri og átti
ljúfa æsku og umvefjandi fjölskyldu. „Það er
saga um þunglyndi í fjölskyldunni en það var
aldrei rætt neitt um það og ég hafði í raun
aldrei heyrt neitt um þunglyndi. Ég á frænda
sem tók eigið líf ungur og benti eitt sinn á
mynd af honum og spurði hver þetta væri og
hvað hefði komið fyrir en það var fátt um
svör. Það er svo margt kennt í skólum en
engu að síður er skautað framhjá þessu. Auð-
vitað kom manni á óvart að fullorðna fólkið,
kennarar og skólayfirvöld, og líka fjölskylda,
skyldu ekki átta sig á að ég væri einfaldlega
veik en ekki ómöguleg og erfið. En það er
bara staðreynd að þunglyndi og geðsjúkdóma
er svo oft reynt að skrifa á eitthvað annað, og
það má líka segja að ég hafi verið dugleg að
fela það eftir bestu getu.“
Þegar Silja var í öðrum bekk í menntaskóla
lenti hún í bílslysi sem hún telur hafa fært
undirliggjandi sjúkdóm upp á yfirborðið. „Ég
hafði aldrei lent í neinu, aldrei misst neinn,
ekkert komið fyrir mig, varla brotið bein. Það
sluppu allir lifandi úr þessu slysi en þung-
lyndið fór að láta á sér kræla þarna. Ég tók
ranga ákvörðun á miðvikudagskvöldi, fór upp
í bíl með strák sem ég var ógurlega skotin í
og vini hans en þeir voru undir áhrifum
áfengis. Við lentum á litlum Toyota Yaris ut-
an í pallbíl. Það næsta sem ég man er að
vakna á spítala. Ég skaddaðist á mjöðm og
baki og finn enn í dag fyrir doða í andliti og
hef farið í gegnum óteljandi tíma hjá sjúkra-
þjálfara. En miðað við andlega þáttinn er það
smávægilegt. Mörgum fannst afar skrýtið og
sumum næstum aumingjalegt að ég virtist
ekki geta gleymt slysinu, þar sem enginn
hefði dáið, en þetta snýst ekkert um stærð
áfalla og ég er alltaf að sjá það betur í kring-
um mig.“
Silja fór að finna fyrir skeytingar- og
áhugaleysi. Tilhugsunin um að fara fram úr
rúminu og bursta í sér tennurnar hljómaði
eins að fjallganga. „Ég fór til geðlæknis fljót-
lega eftir slysið sem sagði við mig að ég væri
svo flott og klár stelpa að ég ætti bara eftir
að jafna mig. En ég beið í mörg ár eftir því
að það gerðist en aldrei jafnaði þetta sig. Til-
finningarnar sem fóru að gera vart við sig
voru djúpstæðar og sterkar. Ég upplifði
sjálfshatur og vonbrigði yfir það heila með
allt og sjálfa mig líka. Á alla kanta fór mér að
finnast ég misheppnuð. Ég festist í hugsunum
– fór að hugsa það sama aftur og aftur og ef
fólk sagði eitthvað við mig sem heilbrigð
manneskja hefði ekkert spáð í tók ég því eins
og árás og smám saman missti ég tökin á
hugsunum mínum.“
Lítill skilningur
Verst þótti Silju að missa áhugann á hugð-
arefnum sínum. „Ég hafði verið fyrir-
myndarnemandi með toppeinkunnir og hefði
aldrei dottið í hug að skrópa í tíma. Auk þess
var ég allt í öllu, var í ræðuliðinu, var formað-
ur leikfélagsins, í árshátíðarnefndinni. Það var
eins og þessari manneskju væri skipt út fyrir
einhverja aðra sem gat ekki farið fram úr á
morgnana. Ég reyndi áfram að sinna þessum
verkefnum en var ekki að valda hlutverkinu.“
Þunglyndið braust fram í hálfgerðum per-
sónuleikabreytingum og Silja fór að rekast á
veggi. „Ég kenni engum persónulega um
þetta. Unglingar og þunglyndi er mál sem
einfaldlega þarf að vekja samfélagið til með-
vitundar um. En þegar ég sagði frá því að
mér liði illa fékk ég að heyra allt í kringum
mig að ég ætti að hætta þessu væli, ég hefði
ekkert að kvarta yfir. Viðkvæðið var; „Eru
ekki bara allir að fá einhverja greiningu?“
Eins og það væri slæmt að fólk væri að fá
lausn sinna vandamála. Kannski er innbyggt í
okkur Íslendinga að maður eigi að þrjóskast
við og harka allt af sér. Sem eftir á er svo
erfitt fyrir mig að skilja, í dag skil ég ekki af
hverju fólki fannst ég ekki eiga jafnmikið
heima undir höndum fagfólks og ef ég hefði
fótbrotnað í skólaferðalagi eða veikst af öðr-
um sjúkdómi.“
Þegar Silja var komin í þriðja bekk í
menntaskóla var hún kölluð á fund aðstoðar-
skólameistara. „Ég var farin að mæta illa,
einkunnir hríðféllu og þar að auki braust van-
líðan mín þannig út að ég var orðin hortug og
dónaleg við kennarana mína sem skildu ekk-
ert í mér. Ég hugsaði með mér að ég skyldi
segja aðstoðarskólameistaranum hvað mér liði
illa og að mér hefði lengi liðið illa og að ég
vissi hreinlega ekki hvað væri í gangi. Við-
kvæðið var að það væri ekkert að mér svo að
það sæist, ég gæti staðið upp á morgnana
virtist vera. Líkamlega gat ég það þótt það
væri mikið átak. Hann spurði mig líka hvort
ég ætlaði að kasta menntun minni á glæ. Ég
er viss um að viðmótið sé annað í dag og veit
það raunar, ég hef fengið bréf síðar frá kenn-
urum sem hafa sagt mér að þeir hefðu óskað
þess að þeir hefðu áttað sig á hvernig ástand-
ið var. En þetta viðmót er líka ástæðan fyrir
því að ég vil hafa kennara og skólayfirvöld
viðstödd þegar ég held fyrirlestra í skólum.
Það er ekki nóg að nemendurnir viti þetta.“
Heima fyrir tók Silja sömu breytingum,
hún hafði átt mjög gott samband við foreldra
sína en það snarbreyttist. Hún var líka dug-
leg að fela það hve illa hún mætti í skólann.
Hún vaknaði á sama tíma og foreldrarnir,
klæddi sig, borðaði morgunmat og fór út á
strætóstoppistöð. Þegar móðir hennar var far-
in í vinnuna gekk hún til baka og lagðist aftur
upp í rúm. Rétt áður en móðir hennar kom
heim úr vinnunni um eftirmiðdaginn dreifði
hún úr skólabókunum á borðstofuborðið eins
og hún hefði verið að læra. „Eitt sinn faldi ég
mig inni í skáp þegar yngri systir mín kom
óvænt heim úr skólanum í hádegishléi. Hún
var vön að kíkja inn í herbergið mitt og ég sá
hana út um gluggann vera að koma. Ég hljóp
fram í forstofu, sótti skóna mína og úlpu og
fór með þetta með mér inn í skáp þar sem ég
hékk allt hádegishléið hennar.“
Silja segist ekki skilja hvernig henni tókst
að útskrifast úr menntó. „Ég útskrifaðist, en
með lélegri einkunnir en ég hefði óskað og
búin að brenna brýr að baki mér. Foreldrar
mínir voru í fyrstu ekki að kveikja að ég
þyrfti hjálp þrátt fyrir að samskipti okkar
færu versnandi. Ég held hreinlega að for-
eldrar séu oft ekki viðbúnir því að svona geti
þunglyndi skollið skyndilega á og séu ráð-
þrota. Þegar það fóru að renna tvær grímur á
mömmu, að þetta væri eitthvað meira en afar
erfiður unglingur og hormónar eða hvað þetta
var, var ég orðin sjálfráða og lét það sem vind
um eyru þjóta. Svo kom þetta í tímabilum
líka. Vondu tímabilin stóðu í nokkrar vikur í
senn, stundum í nokkra mánuði.“
Skellur eftir árangursríka meðferð
Silja fékk að heyra það í fyrsta skipti þegar
hún var orðin tvítug að hún væri þunglynd.
Þá fór hún í fyrsta skipti til sálfræðings. Á
þeim tíma var hún farin að haga sér eins við
þáverandi kærasta sinn og foreldra hans sem
hún bjó hjá; gera ekkert á daginn meðan allir
aðrir fóru til vinnu og í skólann. „Ég var farin
að þekkja það að það komu góðir tímar eftir
þunglyndisköst. Ég hugsaði um það þegar ég
var langt niðri og þraukaði. Frestaði því
endalaust að leita mér hjálpar. Kærasti minn
þurfti að stilla mér upp við vegg og það
hljómar harkalega en ég er honum þakklát.
Hjá sálfræðingnum kom í ljós að vandamál
mitt snerist um miklu meira en að vinna úr
bílslysi. Þótt ýmis áföll, og jafnvel líka gleði-
legir atburðir, fæðingar og giftingar, geti
leyst undirliggjandi þunglyndissjúkdóm úr
læðingi, er ekki þar með sagt að þessir at-
burðir sem slíkir geri það að verkum að mað-
ur verði þunglyndur. Ef það hefði ekki verið
fyrir þetta bílslys þegar ég var 17 ára hefði
það bara verið eitthvað annað. Ég átti við
sjúkdóm að stríða, hann hefði getað komið
fram síðar á ævinni en það gerðist þarna.“
Silja fór í gegnum árangursríka meðferð
hjá sálfræðingi fyrir norðan. Hún lærði hug-
ræna atferlismeðferð sem reyndist henni afar
vel þar sem hún vann með hugsanir sínar og
að ráðast að ákveðinni hugsanaskekkju. Hún
fór í um 4 mánaða meðferð. „Þetta var mikill
léttir fyrir alla í kringum mig og mig sjálfa.
Mér leið vel og ég hugsaði með mér: „Já flott,
núna er þetta bara á bak og burt.“ En eins og
kom fljótt í ljós þá er þetta verkefni sem
verður ekki leyst á einni nóttu. Þunglyndi og
kvíði gerðu aftur vart við sig þegar ég hafði
flust til London og starfaði þar sem au pair.
Ég þekkti einkennin – ég vissi að þetta var
þunglyndi sem var að láta á sér kræla. Ég
flutti heim en var þá orðin mjög illa haldin.
Fljótlega eftir að ég flutti heim, í júní í fyrra,
náði ég ákveðnum botni. Ég hafði oft hangið í
neðstu þrepunum andlega en ekki á þessum
ógurlega svarta stað. Ég hafði að vísu komist
nærri einu sinni; þegar ég fékk bílinn hans
pabba míns lánaðan, keyrði út í fjörð þar sem
er þverhnípt niður og hugsaði hvað allt væri
auðvelt ef ég myndi bara láta bílinn renna
fram af. Ég hætti við því ég hugsaði um hvað
það væri leiðinlegt að pabbi þyrfti að kaupa
sér nýjan bíl – ekki að hann missti barnið
sitt! Og þetta var sama hugsun og lét á sér
kræla þennan dag í júní. Ég vorkenndi for-
eldrum mínum ekki að missa mig, ég var að
gera þeim greiða því ég vorkenndi mínum
nánustu frekar fyrir að eiga svona ömurlegt
barn, systur og vinkonu. Það er algengur mis-
skilningur að fólk sem tekur eigið líf geri það
af eigingjörnum hvötum; eins furðulega og
það hljómar, er það að hugsa um aðra.“
Silja Björk innbyrti öll þau lyf sem hún
fann í lyfjaskápnum í júní fyrir ári. Kvíðastill-
andi lyf, verkjalyf, steralyf sem faðir hennar
hafði fengið eftir aðgerð, allt sem hún fann.
Hún hafði þá einnig farið á netið og fundið út
hvernig útbúa ætti snöru til að hengja sig í og
útbjó eina slíka úr grænni þvottasnúru. Með
lyfjunum drakk hún sterkt áfengi úr vín-
skápnum.
„Meðan ég datt inn og út fannst mér hring-
urinn vera að lokast, þetta yrði frelsi. Ég sá
ekki fyrir mér að þessum sársauka myndi
linna nema með því að drepa mig. Ég man að
ég átti mjög erfitt með að anda og grét sáran.
Ég gat ekki ímyndað mér annað en að eftir
smávegis sorgarferli myndu mínir nánustu
öðlast betra líf; að þurfa ekki að hafa eilífar
áhyggjur af mér. Ég vildi að ég gæti sagt að
ástæðan fyrir því að ég hringdi á hjálp væri
sú að ég hafi séð foreldra mína fyrir mér
Hélt að ég væri að
gera þeim greiða
SILJA BJÖRK BJÖRNSDÓTTIR SEGIST EINSKIS ÓSKA FREMUR EN AÐ UNGLINGAR VITI AÐ ÞEIR GETI FENGIÐ HJÁLP
VIÐ ÞUNGLYNDI. SJÁLF ER HÚN Á BATAVEGI EFTIR ERFIÐ VEIKINDI SEM ENDUÐU MEÐ SJÁLFSVÍGSTILRAUN.
Júlía Margrét Alexandersdóttir julia@mbl.is
* Ég hafði verið fyrir-myndarnemandimeð toppeinkunnir og
hefði aldrei dottið í hug
að skrópa í tíma.
Viðtal
48 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 9.11. 2014