Fréttablaðið - 09.10.2014, Blaðsíða 28
9. október 2014 FIMMTUDAGUR| SKOÐUN | 28
Því verður ekki trúað að
nokkur sanngjarn maður
standi gegn því að jafna
þann mun sem er á milli
opinberra starfsmanna og
starfsmanna á almennum
markaði. Þetta á jafnt við
um almenn kjör og aðrar
aðstæður. Ég hef í mörg
ár talað fyrir því að jafn-
ræðisreglunni sé fylgt
enda liggja þar að baki
bæði skynsemis- og rétt-
lætisrök.
Ég verð að viðurkenna að ofsa-
fengin og heiftúðug viðbrögð
nokkurra aðila sem eru að vinna
að hagsmunabaráttu komu mér
mjög á óvart. Sérstaklega í ljósi
annarra viðbragða sem ég hef
fengið í kjölfar orða minna. En
nánar að því síðar.
Verndin hefur aukist
Ríkisendurskoðun skrifaði
skýrslu um umhverfi ríkis-
starfsmanna árið 2011 og bar
hún heitið „Mannauðsmál ríkis-
ins“. Í niðurstöðukaflanum segir
svohljóðandi: „Á undanförnum
árum hefur því verið haldið fram
að sú sérstaka vernd sem ríkis-
starfsmenn njóta að þessu leyti
geti komið niður á skilvirkni og
árangri starfseminnar. Nauð-
synlegt sé að auka sveigjanleika
í starfsmannahaldi ríkisins til
að stuðla að markvissri nýtingu
fjármuna og góðri þjónustu við
borgarana. Bent er á að reglur
starfsmanna um áminningar og
uppsagnir séu í meginatriðum frá
árinu 1954 þegar fyrst voru sett
lög um réttindi og skyldur starfs-
manna ríkisins. Síðan þá hafi
aðstæður gjörbreyst, verkefni
ríkisins séu orðin umfangsmeiri
og í mörgum tilfellum sambæri-
leg þeim sem eru á einkamark-
aði. Þá hafi stofnun embættis
umboðsmanns Alþingis og setn-
ing stjórnsýslulaganna
aukið enn starfsöryggi
ríkisstarfsmanna, m.a.
með reglum um máls-
meðferð, andmælarétt,
rökstuðning ákvarðana
og að þær verði að byggja
á málefnalegum stjórnar-
miðum.“
Vill endurskoða lögin
Síðar í sama kafla segir:
„Það er ekki einungis hér
á landi sem ríkisstarfsmenn njóta
verndar í starfi umfram launþega
á almennum vinnumarkaði því
svo er einnig í nágrannalöndum
okkar. Mismunandi er þó hversu
hátt hlutfall ríkisstarfsmanna í
aðildarríkjum Evrópusambands-
ins og Efnahags- og framafara-
stofnunarinnar nái til fleiri starfa
en rök standa til. Þróunin í þess-
um ríkjum hefur almennt verið á
þann veg að smám saman hefur
dregið úr sérstakri réttarvernd
ríkisstarfsmanna. Þetta á þó ekki
við um fámenna hópa embættis-
manna sem áfram er talin þörf
á að vernda sérstaklega í starfi.
Þessi sjónarmið hafa ekki enn
fengið hljómgrunn hér á landi
enda gilda reglur starfsmanna-
laganna um starfslok nánast um
alla starfsmenn ríkisins, án tillits
til þess hvaða stöðu þeir gegna.
Að mati Ríkisendurskoðunar er
full ástæða til að endurmeta út
frá almannahagsmunum sem og
reynslunni af áminningarreglun-
um og stjórnsýslulögunum hvort
ekki sé tímabært að breyta þeim.
Þau rök sem færð hafa verið fyrir
réttarverndinni eiga ekki við um
ýmis störf innan ríkisgeirans.“
Áminningum safnið
„Þá telur Ríkisendurskoðun
að það ferli sem reglur starfs-
mannalaganna mæla fyrir um
og varðar áminningar og starfs-
lok í tengslum við þær sé þung-
lamalegt og tímafrekt. Það leiði
á sinn hátt til þess að þeir starfs-
menn, sem gerst hafa brotlegir í
starfi eða reynast ekki hæfir til
að gegna því, öðlist ríkari vernd
en til var ætlast. Til að unnt sé
að segja starfsmanni upp þarf
hann að hafa brotið af sér tví-
vegis með sama eða líkum hætti.
Ekki má líða of langur tími milli
brotanna því þá er hætta á að
hið fyrra teljist fyrnt. Þá þarf að
áminna starfsmanninn upp á nýtt
og þannig koll af kolli. Hið sama
á við ef seinna brotið er ekki
sams konar og hið fyrra. Ekkert
kemur því fræðilega í veg fyrir
að starfsmaður geti ,,safnað“
áminningum án þess að unnt sé
að segja honum upp ef ný brot eru
óskyld þeim fyrri.“
Ríkisendurskoðun kom síðan
með eftirfarandi ábendingar til
fjármálaráðuneytis:
1 Einfalda á málsmeðferð við uppsagnir ríkisstarfsmanna.
2 Veita á lagaheimild til starfs-lokasamninga við ríkisstarfs-
menn.
3 Kanna á hvort rétt sé að færa ákvæði starfsmannalaga í
kjarasamninga.
4 Aðstoða þarf forstöðumenn betur í starfsmannamálum.
Auk þessa benti Ríkisendurskoð-
un ráðuneytum og forstöðumönn-
um ríkisstofnana á eftirfarandi:
1 Frammistaða sé metin reglu-lega með formlegum hætti.
2 Starfsmannasamtal fari fram fyrir lok reynslutíma og hann
verði lengdur í allt að eitt ár í
veigameiri störfum.
Skýrsla Ríkisendurskoðunar
er góður grunnur til að byggja á
ef vilji er fyrir því að bæta ríkis-
reksturinn. Í seinni grein minni
mun ég fara yfir viðbrögð við
orðum mínum um starfsumhverfi
opinberra starfsmanna.
Það verður að breyta starfs-
mannalögunum – Fyrri grein
Það kann að virðast
við fyrstu sýn frekar
sakleysisleg aðgerð að
hækka virðisaukaskatt
á bækur úr 7% í 12%.
Og það er nú akkúrat
það sem að stjórnvöld
reikna með að almenn-
ingur hugsi. Hvaða máli
skiptir 5% hækkun á
útsöluverði bóka og er
12% virðisaukaskattur á
bækur nokkuð svo hár?
Í aðeins fjórum lönd-
um Evrópu er virðis-
aukaskattur 12% eða
hærri, en í fimm löndum eru
bækur undanþegnar virðisauka-
skatti. Sé meðaltalið skoðað þá
er virðis aukaskattsprósentan
að meðaltali 7% eða sú sama og
hún er núna hér á landi. Það er
sem sagt skýr vilji stjórnvalda
að skattlagning á bókaútgáfu
hér á landi verði sú fjórða hæsta
í allri Evrópu.
Nýlega létu bókaútgefend-
ur í Noregi óháða hagfræði-
stofnun, Oslo Economics, vinna
fyrir sig skýrslu um hvaða áhrif
8% hækkun virðisaukaskatts
á bækur myndi hafa á bókaút-
gáfu þar í landi. En í Noregi eru
bækur undanþegnar virðisauka-
skatti. Niðurstaðan er skýr og
sláandi. Fjölbreytni yrði minni,
fækkun yrði á útgefnum titlum
og ekki síst myndi hækkunin
hafa mikil áhrif á útgáfu metn-
aðarfyllri verka sem hafa tak-
markaða sölumöguleika. Í heild-
ina myndi þetta svo þýða minni
skatttekjur í greininni en áætlað
er að virðisaukaskatturinn eigi
að skila. Sem sagt; ekki skila því
sem til er ætlast.
Ef við heimfærum þessar
niðurstöður yfir á íslenskar
aðstæður þá mun þessi fyrirhug-
aða hækkun á virðisaukaskatti
hitta útgáfu námsbóka
fyrir framhaldsskóla
einna verst og gæti þar
haft alvarlegar og óaft-
urkræfar afleiðingar.
Markaður útgáfu náms-
bóka fyrir framhalds-
skóla, sem var eitt sinn
virkur og blómlegur, er
nú hruninn. Eftir standa
aðeins örfáar útgáfur
sem gefa út afar tak-
markaðan fjölda nýrra
titla á hverju ári. Um
þetta eru allir hags-
munaaðilar, að mennta-
og menningarmálaráðuneyt-
inu meðtöldu, sammála og hafa
verið að leita leiða til að finna
lausn á þessu; meðal annars
með rafrænni útgáfu. Arðsemi
á þessum markaði er engin og
bókaútgáfur greiða niður þessa
útgáfu með hagnaði af annars-
konar útgáfustarfssemi.
Af hverju á að taka?
Sjálfur rek ég eina slíka útgáfu,
Iðnú útgáfu, sem er sjálfseign-
arstofnun sem ekki er rekin
af hagnaðarsjónarmiði held-
ur í þeim tilgangi að gefa út
kennslubækur fyrir framhalds-
skóla, sérstaklega fyrir iðn-,
verk- og tækninám. Tap hefur
verið af námsbókaútgáfuhluta
starfseminnar undanfarin ár, en
hagnaður af ferðakortaútgáfu
félagsins hefur verið notaður til
að greiða niður þann halla. Af
hverju á að taka?
Er það von að spurt sé, ef
arðsemi á þessum markaði er
neikvæð af hverju á þá hér að
taka? Er kannski möguleiki
á því að þessi hækkun muni
endanlega ganga af þessum
markaði dauðum? Og hvernig
stendur þá á því að fagráðherra
mennta- og menningarmála,
Illugi Gunnarsson, skuli vera
samþykkur þessari breytingu?
Ráðherra hefur að vísu lýst yfir
áhyggjum af útgáfu námsbóka
og bent á að ræða þurfi mótvæg-
isaðgerðir. Hálf kómískt fyrir
ráðherra Sjálfstæðisflokksins
að tala fyrir aukinni miðstýr-
ingu og eflingu styrkjakerfa. Sú
hugmynd að taka þessa tegund
útgáfu sér út fyrir sviga með
einhverjum hætti er líka ill-
framkvæmanleg enda skilin á
milli námsbóka, fræðibóka og
handbóka afar óljós. Auk þess
eru töluvert margar skáldsögur,
meðal annars Íslendingasög-
urnar, notaðar við kennslu en
munu þó seint verða skilgreind-
ar sem námsbækur. Erum við
þá kannski að tala um nýja
Bókaflokkunarmiðstöð ríkis-
ins þar sem námsbækur verða
aðgreindar frá handbókum og
fræðibókum með miðstýringu,
stöðlum og nýju flokkunarkerfi?
Allt ber þetta að sama
brunni. Gagnvart þessari teg-
und útgáfu, námsbókaútgáfu,
er þessi 5% virðisaukaskatts-
hækkun hvorki lítil eða sakleys-
isleg. Þvert á móti getur hún
verið hættulega óafturkræf og
valdið skaða sem erfitt yrði að
vinna upp. Auk þess vinnur hún
algjörlega gegn því sameigin-
lega markmiði allra hagsmuna-
aðila, þar á meðal mennta- og
menningarmálaráðuneyti, að
blása lífi í í þennan örmarkað
sem smám saman er að verða að
engu en gæti með þessu þurrk-
ast alveg út.
Bókafl okkunarmiðstöð ríkisins?
Jafnaðarkaup, stórhátíð-
arálag, uppsagnarfrestur,
launaseðill … Allt eru þetta
hugtök sem geta þvælst
fyrir fólki, ekki síst ungu
fólki sem er að stíga sín
fyrstu skref á vinnumark-
aði. Í tæpa tvo áratugi hafa
starfsmenn VR árlega
heimsótt flesta grunn-
skóla á félagssvæði VR
og fjölmarga framhalds-
skóla og farið yfir réttindi
og skyldur á vinnumarkaði
með útskriftarnemum. Við höfum
útskýrt fyrir þeim þessi hugtök
og mörg fleiri. Við höfum svarað
spurningum þeirra um hvað má og
hvað má ekki í vinnu. Og við höfum
bent þeim á hvert þau geta leitað
með sínar spurningar og vandamál.
Reynsla síðustu ára hefur sýnt
okkur hve þörf unga fólksins fyrir
fræðslu er mikil og vaxandi. Mörg
ungmenni vinna með skóla eða í
skólafríum. Fimmtungur félags-
manna VR er á aldrinum 16–24
ára. Á sumrin er þessi aldurshópur
enn fjölmennari, eða fjórðungur af
heildarfjölda félagsmanna. Þenn-
an aldurshóp þarf að fræða og var
hugmyndin með VR-Skóla lífsins
að svara því kalli. VR-Skóli lífsins
hefur því það mikilvæga markmið
að undirbúa unga fólkið okkar fyrir
vinnumarkaðinn.
Vinnumarkaðurinn á mannamáli
VR-Skóla lífsins var hleypt af
stokkunum í lok september og hafa
viðtökurnar verið framar vonum.
Efnið er sett fram á tungutaki unga
fólksins og á þeim vett-
vangi sem þeim er tamt að
nota. Hér er vinnumarkað-
urinn útskýrður á manna-
máli.
VR-Skóli lífsins er að
stærstum hluta netnám-
skeið og fylgja nemendur
ungri stúlku eftir þar sem
hún sækir um og fær sitt
fyrsta starf. Á þeirri veg-
ferð læra hún og nemendur
skólans hvað felst í því að
vera þátttakandi á vinnu-
markaði. Í lok námstímans hittast
nemendur, fara yfir hvað þeir hafa
lært og skerpa á samskiptamálun-
um. Þeir sem ljúka námi fá síðan
staðfestingu á námslokum sem
þeir geta sent með umsókn sinni
um starf.
Leikreglurnar í frumskóginum
Starfsmenntun og aukin fræðsla
á vinnumarkaði var ein helsta
áhersla VR í síðustu kjarasamn-
ingaviðræðum og verður áfram í
þeim viðræðum sem nú eru fram
undan. VR-Skóli lífsins er hluti
af þessari áherslu og mikilvægur
grunnur til að byggja á.
Vinnumarkaðurinn er kannski
frumskógur í augum unga fólksins.
En á vinnumarkaði gilda leikreglur
sem mikilvægt er að kunna skil á.
Við foreldrarnir munum vafalaust
flest eftir því þegar við mættum til
vinnu í fyrsta skipti, ung og óreynd.
Þá hefði nú verið gott að hafa lokið
námi í VR-Skóla lífsins!
Á barnið þitt ekki erindi í þenn-
an skóla?
Á barnið þitt
ekki erindi í
VR-Skóla lífsins?
Fyrir rúmum tveimur
árum, þegar ég var að
stíga mín fyrstu skref
innan læknadeildar, hafði
ég ekki hugmynd um hvað
biði mín. Ég vissi að það
væri verið að skera niður
á spítalanum en mig óraði
ekki fyrir því hversu
viðamikill og dýrkeypt-
ur sá niðurskurður væri.
Ég bjóst ekki við að innan
skamms fengi ég viðvar-
anir frá eldri nemendum
vegna ástandsins. Að mér
yrði ráðlagt að hætta í
náminu á meðan ég gæti. Nú væri
tækifærið, áður en ég hefði eytt of
miklum fjármunum, orku og tíma
í námið eins og þau.
Fyrst þegar ég heyrði slík-
ar viðvaranir var ég ekki sann-
færð, þetta gæti varla verið svo
slæmt. En eftir að hafa kynnt
mér ástand Landspítalans skil ég
betur afstöðu þessara nemenda.
Þeir horfa upp á lækna eyða gíf-
urlegum tíma og orku í sérnám
en geta ekki nýtt þekkingu sína
til fulls þegar heim er komið. Erf-
itt er að sætta sig við fornfálegar
aðferðir og biluð tæki eftir að hafa
lært að beita nútímatækni lækna-
vísindanna. Læknar horfa upp
á sjúklinga verða örkumla eða
deyja vitandi það að mögulegt
væri að bjarga þeim ef aðstaðan
væri betri. Þeir þurfa að sætta sig
við að starfa í byggingu sem er
heilsuspillandi fyrir bæði starfs-
fólk og sjúklinga sökum sveppa-
vaxtar. Læknar þurfa að lifa með
dómgreindarbresti og mistökum
af sinni hálfu sem beint má rekja
til þreytu og of mikils vinnuálags.
Fyrir þessa vinnu fá þeir greitt
aðeins brot af því sem tíðkast í
nágrannalöndum okkar. Þetta á
að sjálfsögðu við um allar starfs-
téttir spítalans, engin þeirra er
undanskilin.
Ekkert lát á niðurskurði
En af hverju hætti ég ekki?
Mig langar að verða lækn-
ir og ég vil ekki láta bágt
ástand heilbrigðiskerf-
is hérlendis standa í vegi
mínum. En umfram allt
hafði ég trú á að ástandið
myndi batna. Að stjórn-
völd myndu standa við lof-
orð sín um úrbætur og að
niðurskurðurinn væri bara
tímabundinn. Starfsfólk
spítalans hefur lagst á eitt
til að halda dampi gegnum
þessa erfiðu tíma, lagt á
sig ómælda vinnu og álag, en nú er
fólk orðið þreytt. Þó virðist ekkert
lát ætla að verða á hinum langvar-
andi niðurskurði sem er að murka
líftóruna úr einni mikilvægustu
stofnun landsins. Á hverju ári fara
stórar fjárhæðir til spillis vegna
óhagstæðs fyrirkomulags spítal-
ans (fjórir milljarðar fara í bráða-
viðhald í ár) og það sem verra er;
lífum er kastað á glæ vegna þessa.
Þegar íslenskt heilbrigðiskerfi
er að hruni komið er afar sárt að
heyra heilbrigðisráðherra draga
úr vandamálinu, segja ástandið
ekki svo slæmt miðað við aðrar
þjóðir í heiminum. Hvaða þjóð-
ir vill hann eiginlega bera okkur
saman við? Við sættum okkur
ekki við heilbrigðiskerfi sem veit-
ir starfsfólki sínu ekki tækifæri til
að nýta þekkingu sína til að bæta
lífsgæði og bjarga mannslífum.
Því miður er ekki nóg að starfs-
menn spítalans, háskólanemar og
almenningur átti sig á ástandinu
ef ráðamenn gera það ekki. Til
þess að úrbætur séu mögulegar
verða stjórnvöld að breyta for-
gangsröðun sinni og leggja meira
fé í heilbrigðiskerfið. Það er kom-
inn tími til að ráðamenn taki við
sér, það er þeirra skylda að gera
heilbrigðisstarfsfólki kleift að
gera sitt besta.
Fæ ég að gera
mitt besta?
VINNUMARK-
AÐUR
Ólafía B.
Rafnsdóttir
formaður VR
SKATTUR
Heiðar Ingi
Svansson
framkvæmdastjóri
IÐNÚ útgáfu og
varaformaður
Félags íslenskra
bókaútgefenda
STJÓRNSÝSLA
Guðlaugur Þór
Þórðarson
alþingismaður
HEILBRIGÐIS-
MÁL
Valgerður
Bjarnadóttir
læknanemi og
fulltrúi Röskvu
í Stúdentaráði
Háskóla Íslands
➜ Er kannski möguleiki á
því að þessi hækkun muni
endanlega ganga af þessum
markaði dauðum?