Skessuhorn - 02.07.2014, Side 12
12 MIÐVIKUDAGUR 2. JÚLÍ 2014
Líflegt hefur verið síðustu dag-
ana við höfnina á Akranesi sem
og væntanlega við aðrar bryggjur
í landinu þar sem smærri bátar eru
gerðir út til makrílveiða, en þeir
máttu einmitt byrja veiðar í gær
þriðjudaginn 1. júlí. Þegar blaða-
maður Skessuhorns lagði leið sína
á bryggjurnar á Akranesi í síðustu
viku var sama hvert litið var, alls
staðar voru menn að keppast við
að gera bátana klára fyrir makríl-
vertíðina. Mönnum bar saman um
að miklar væntingar væru fyrir ver-
tíðina núna enda fleiri bátar gerð-
ir út til veiðanna en áður. Greini-
lega væri mun meira af makrílnum
núna en var til dæmis síðasta sum-
ar. Fiskurinn líka mun stærri en
þá enda hitastig sjávarins nokkuð
hærra núna en fyrir ári. Upphafs-
kvótinn er helmingi hærri en í fyrra
og vonast menn til að veiðin gangi
vel og síðan yrði bætt við upphafs-
kvótann.
Makríllinn er út um allt
Þorsteinn Jóhannesson var að leysa
Ingunni Sveinsdóttur AK 91 og færa
bátinn milli bryggja eins og gjarnan
þarf að gera með bátana þegar þeir
eru gerðir klárir á ný veiðarfæri. „Jú,
það er mikill spenningur í mönn-
um núna fyrir vertíðinni. Ég held
það sé enginn vafi á því að það er
mikið af makríl. Hann virðist vera
út um allt. Við erum nýkomnir af
handfærum á Vestfjörðum þar sem
við vorum megnið af mánuðinum.
Þar var mikið af makríl út um all-
an sjó og við bindum vonir við að
þetta geti orðið góð vertíð,“ sagði
Þorsteinn. Aðspurður sagðist hann
hafa byrjað með Ingunni á makríl-
vertíðinni í fyrra og þá hafi gengið
þokkalega. Það er HB og Co félag
í eigu Sveins Sturlaugssonar sem á
og gerir út Ingunni Sveinsdóttur.
Dagarnir fljótir að líða
Böðvar Ingvason var önnum kaf-
inn við að gera bát sinn Emilíu AK
57 út á makrílveiðarnar. „Ég ætla
að verða tilbúinn fyrir þriðjudag-
inn, en dagarnir eru fljótir að líða,“
sagði Böðvar þar sem hann var að
bolta saman rennu aftan við skut.
„Það eru betri fregnir fyrir vertíð-
ina núna en í fyrra, stærri upphafs-
kvóti núna, 6000 tonn í stað 3000
tonna. Það er svo vonandi að verði
bætt við kvótann eins og var þá. Ég
ætla að prófa hérna á heimamiðun-
um fyrst áður en ég leita lengra,“
sagði Böðvar. Þetta er hans önn-
ur vertíð á makrílnum. Með hon-
um um borð verður 13 ára sonur
hans Jón Mýrdal sem líklega verður
sá yngsti sem veiðir makrílinn þetta
árið. Hann var að dorga með veiði-
stöng á hinum bryggjukantinum.
„Ég fékk aðeins að fara með í fyrra
og þetta verður spennandi að fara
núna. Ég hef gaman af veiðum,“
sagði Jón. Spurður um stangveið-
ina sagði hann: „Ég er bara búinn
að fá tvo litla þorska sem ég sleppti.
Það er betra að veiða af hafnar-
bryggjunni og Sementinu. Ég er
bara hérna núna af því að pabbi er
að vinna í bátnum,“ sagði Jón Mýr-
dal.
Stefnan sett á
Breiðafjörðinn
Næsti bátur þarna við flotbryggj-
una í höfninni, eina af þessum
flottu bryggjum frá Loforku í Borg-
arnesi, var Guðmundur Skúlason
með Björgu Hallvarðsdóttur AK
15. Blaðamaður rétt náði í skottið á
honum áður en hann færði sig með
bátinn milli bryggja. „Jú menn eru
að keppast við að gera bátana klára.
Við förum í Breiðafjörðinn strax og
opnað verður fyrir veiðarnar. Þeir
segja að þar sé makríllinn svo þétt-
ur að það megi ganga á honum nær
þurrum fótum,“ sagði Guðmund-
ur og hló. „Það er bara vonandi að
það verði bætt við kvótann, ef það
er svona mikið af honum núna eins
og sagt er veitir ekkert af því. Ég
ætla reyndar ekki að fara á mak-
rílinn núna. Það verða tveir strák-
ar frá mér á honum fyrir vestan,“
sagði Guðmundur eigandi og skip-
stjóri á Björgu Hallvarðsdóttur. þá
„Það er mjög gott útlit með ver-
tíðina. Mun meira af átu núna en
oft áður, sjórinn heitari og makríll-
inn kemur mun fyrr núna en í fyrra.
Væntanlega kemur hann saddur
og spakur. Hann er mun stærri og
holdbetri en í fyrra,“ segir Magn-
ús Emanúelsson sjómaður í Ólafs-
vík sem gerir út bátinn Manga á
Búðum SH 85 til makrílveiðanna
í ár. Blaðamaður Skessuhorns hitti
Magnús að máli í beitningarskúrn-
um þar sem hann var að hjálpa til
við að ganga frá netum sl. fimmtu-
dag. Ekki viðraði þennan daginn til
að sinna undirbúningi um borð í
bátunum við bryggjuna í Ólafsvík í
snörpum vindi og úrhellisrigningu
á köflum.
Magnús hefur átt og gert út
Manga frá Búðum í tíu ár. Hann
hefur alla tíð verið til sjós. „Ég held
ég hafi verið samtals þrjá mánuði
í landi á ævinni, fór á mína fyrstu
skakvertíð ellefu ára gamall. Ann-
ars er ég með kvótalausan bát og
þarf því að stóla á leigukvóta þenn-
an tíma sem ég geri bátinn út, oft
frá febrúar og fram í september. Í
vetur var ég með bát fyrir annan á
línunni. Oliver fyrir Fannar Bald-
ursson,“ segir Magnús.
Hausinn steiktur
í törnunum
Þetta verður þriðja vertíð Magn-
úsar á makrílnum en hann er einn
um borð, enda Mangi frá Búðum
ekki stór bátur. „Þetta hefur geng-
ið ágætlega sérstaklega þegar tekið
er tillit til þess að ég er ekki með
astik [fiskileitartæki]. Ég les bara í
sjóinn sjálfur. Gárungarnir segja
að ég sé með tamdar kríur til að
leita fyrir mig,“ segir Magnús og
hlær. „Stundum fæ ég nú ábend-
ingar frá öðrum bátum líka, en það
koma dagar þegar ég er mikið að
rýna í sjóinn eftir fiski að hausinn
verður alveg steiktur,“ segir Magn-
ús. Spurður hvort það sé gaman á
makrílnum svarar hann með brosi.
„Jú, það er virkilega gaman þeg-
ar vel gengur en oft ansi strembið
þegar aflagusurnar koma. Þá þarf
maður að hafa sig allan við,“ segir
Magnús. Hann segist stefna að því
að ná hundrað tonnum á vertíðinni
núna, sem myndi gera heldur betri
vertíð en í fyrra. „Ég náði þó níu-
tíu tonnum á vertíðinni í fyrra þótt
hún þætti ekkert sérstök, bæði verra
að ná fiskinum en sumarið áður og
minna af honum. Ég á von á því að
vertíðin núna verði ekki ósvipuð
og vertíðin í hitteðfyrra. Makrílinn
kemur á svipuðum tíma og er vænn
eins og þá.“
Gæti staðið fram
í september
Magnús var nýbúinn að ganga frá
samningi um hráefnisverð þegar
blaðamaður hitti hann í beitninga-
skúrnum. „Ég er bara sáttur,“ seg-
ir Magnús sem ætlar að selja aflann
til vinnslu í Hafnarfirði, þar sem
hann fer væntanlega í flökun og
frystingu. „Ég býst við að svo frysti
ég aðeins hérna fyrir sjálfan mig til
beitu.“ Spurður hvort að líklegt sé
að þetta verði stutt makrílvertíð í
ár, segist hann ekki búast við því.
„Nei, ég býst alveg við að hún muni
standa fram í september.“ Hann á
frekar von á því að bætt verði við
þann 6000 tonna pott sem gefinn
hefur verið út til smærri bátanna á
makrílnum. „Svo myndi ég vilja ef
ég má koma á framfæri áskorun til
sjávarútvegráðherra, að setja ekki
makrílinn í kvóta. Ef hann verður
kvótasettur þá selja menn hann frá
sér og það verður ekkert úr þessu.
Þá verður ekkert eftir handa okk-
ur þessum kvótalausu aumingjum,“
segir Magnús Emanúelsson.
þá
Makríllinn væntanlega saddur og spakur
Magnús Emanúelsson rær einn á Manga frá Búðum
Magnús greiðir úr netunum í beitningarskúrnum ásamt konu sinni Láru Hallveigu
Lárusdóttur til hægri og Bylgju Dröfn Jónsdóttur.
Mangi frá Búðum við bryggjuna í Ólafsvík. Þótt báturinn sé ekki stór, aðeins tíu
tonn, voru sótt á honum 90 tonn af makríl síðasta sumar.
Guðmundur Skúlason á Björgu Hall-
varðsdóttur.
Gert klárt á makrílveiðarnar
Lífleg var við bryggjurnar á Akranesi í síðustu viku.
Þorsteinn Jóhannesson að leysa Ingunni Sveinsdóttur.
Böðvar Ingvason að gera bát sinn Emilíu klára.
Jón Mýrdal að dorga eftir smáþorski.
Hann verður kannski sá yngsti á
makrílnum í sumar.