Læknablaðið - 15.07.2013, Síða 11
RANNSÓKN
Áhrif 6 mánaða fjölþættrar þjálfunar á hreyfi-
getu, vöðvakraft, þol og líkamsþyngdar-
stuðul eldri einstaklinga
- Eru áhrif þjálfunar sambærileg hjá konum og körlum?
Janus Guölaugsson íþróttafræðingur1, Thor Aspelund tölfræðingur2'3, Vilmundur Guðnason læknir2-3, Anna Sigríður Ólafsdóttirnæringarfræðingur1,
Pálmi V. Jónsson læknir34, Sigurbjörn Árni Arngrímsson þjálfunarlífeðlisfræðingur1, Erlingur Jóhannsson lífeðlisfræðingur1
ÁGRIP
Inngangur: Góð hreyfigeta hefur umtalsverð áhrif á sjálfstæði og vellíðan
eldra fólks. Slök hreyfigeta getur aftur á móti skert athafnir daglegs lífs.
Markmið þessarar rannsóknar var að skoða áhrif 6 mánaða þjálfunar og
íhlutunar á hreyfigetu karla og kvenna, hvort þjálfunin hefði ólík áhrif á
kynin og hver árangur þjálfunarinnar væri 6 og 12 mánuðum eftir að henni
lauk.
Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var gerð á 117 einstaklingum á aldrin-
um 71-90 ára sem höfðu tekið þátt i Öldrunarrannsókn Hjartaverndar.
Snið rannsóknarinnar var víxlað með handahófskenndu vali í tvo hópa.
Rannsóknin var gerð á þremur 6 mánaða timabilum að loknum grunn-
mælingum. Sex mánaða þjálfun var þreytt af þjálfunarhópi (hópi 1) á fyrsta
tímabili meðan seinni þjálfunarhópur (hópur 2) var til viðmiðunar. Hópur 2
tók síðan þátt í sams konar þjálfun á öðru tímabili en formleg þjálfun rann-
sóknaraðila var ekki lengur til staðar fyrir hóp 1. Sex mánuðum eftir að
þjálfun hjá hópi 2 var lokið voru mælingar endurteknar í fjórða skiptið.
Niðurstöður: Eftir 6 mánaða íhlutun varð 32% bæting á daglegri hreyf-
ingu karla (p<0,001) og 39% hjá konum (p<0,001). Á hreyfigetu karla varð
um 5% bæting (p<0,01) og 7% hjá konum (p<0,001). Fótkraftur karla
jókst um 8% (p<0,001) og kvenna um 13% (p<0,001). Bæði karlar og
konur bættu hreyfijafnvægi um 10% (p<0,001), gönguvegalengd jókst hjá
báðum kynjum um 5-6% (p<0,001) og líkamsþyngdarstuðull kynjanna
lækkaði um tæplega 2% (p<0,001). Enginn kynjamunur var af áhrifum
þjálfunar. Heildaráhrif þjálfunar á hreyfigetu og hreyfijafnvægi héldust i allt
að 12 mánuði eftir að íhlutun lauk.
Ályktun: Fjölþætt þjálfun hefur jákvæð áhrif á hreyfigetu eldri einstak-
linga, kynin bregðast á sambærilegan hátt við þjálfun og varðveita áunnar
breytingar í hreyfigetu í allt að 12 mánuði. Rannsóknin bendir eindregið til
þess að hófleg kerfisbundin þjálfun fyrir þennan aldurshóp ætti að vera
hluti af hefðbundinni heilsugæslu aldraðra.
'Rannsóknastofa í
íþrótta- og heilsufræði,
menntavísindasviði Háskóla
íslands, 2Hjartavernd,
3Læknadeild Háskóla
íslands, 4Landspítali
Háskólasjúkrahús,
Reykjavik
Fyrirspurnir:
Janus Guðlaugsson
janus@hi.is
Greinin barst
18. mars 2013,
samþykkt til birtingar
11.júní 2013.
Engin hagsmunatengsl
gefin upp.
Inngangur
Með hækkandi aldri hefur skert hreyfigeta áhrif á
slysatíðni, endurheimt bata eftir veikindi eða slys og
dánartíðni.1 í rannsókn Leveille og félaga1 kemur einnig
fram verulegur munur á daglegri hreyfingu eldri
karla og kvenna þar sem konur hreyfa sig minna. Þrátt
fyrir að konur nái hærri lífaldri en karlar er hreyfigeta
eldri kvenna minni en karla og þær búa oftar við meiri
fötlun.1-2 Lakari hreyfigeta eldri kvenna í samanburði
við karla er viðfangsefni sem rannsaka þarf betur.2
Að viðhalda hreyfigetu skiptir sköpum fyrir eldri
einstaklinga. Til að viðhalda hreyfigetu og góðri
heilsu er mikilvægt, jafnt fyrir hina eldri sem hina
yngri, að stunda skipulagða þjálfun þar sem tíðni,
ákefð og tímalengd æfinga eru lykilþættir.3'1 Einnig
má snúa skertri hreyfigetu á ákveðnu stigi til betri
vegar með markvissri þjálfun.12'5 Sýnt hefur verið
fram á að þátttaka í skipulagðri þol- og kraftþjálfun,
þar sem æskileg ákefð þjálfunar, þjálfunarmagn og
tíðni æfinga eru höfð að leiðarljósi, getur haft jákvæð
áhrif á öldrunarferlið og aukið lífsgæði.3-6 Á síðustu
áratugum hefur komið í ljós að lýðgrunduð inn-
grip (population-based strategies), þar sem inngrip eru
almenn, eru mun áhrifaríkari í lýðheilsulegu tilliti
en aðferðir sem byggja á áhættuskimun og sértækri
íhlutun.7 Flokka má þessa íhlutunarrannsókn undir
víðtækt lýðgrundað inngrip.
Vöðvaafl er skilgreint sem hæfileiki vöðva til að
mynda afl snögglega en vöðvakraftur er skilgreindur
sem magn af krafti sem vöðvi eða vöðvahópur getur
framleitt með einum hámarkssamdrætti.8 Minnkandi
vöðvaafl og vöðvakraftur í neðri útlimum líkamans
er oft skýringin á takmarkaðri hreyfigetu fólks í eldri
aldurshópum.'1 Aftur á móti hefur aukinn vöðvakraftur
í kjölfar kraftþjálfunar verið tengdur við aukna hreyfi-
getu, betra jafnvægi og minni fallhættu.4'9 Jafnvægi má
skilgreina sem ferli þar sem einstaklingur hefur stjórn á
líkama sínum í uppréttri stöðu eða á hreyfingu. Greina
má jafnvægi í stöðujafnvægi (static balance) og hreyfijafn-
vægi (dynamic balance) þar sem einstaklingur viðheldur
jafnvægi meðan hann færir sig úr stað.8
Markmið þessarar rannsóknar var að greina áhrif 6
mánaða fjölþættrar þjálfunar (6-MFÞ) á karla og konur
á aldrinum 71 til 90 ára og kanna hvort þjálfunaráhrif
á heilsufarsbreytur yrðu mismunandi milli kynja. Auk
þess var markmiðið að rannsaka hvort íhlutunaráhrifin
vöruðu jafn lengi hjá báðum kynjum eftir að þjálfunar-
tíma lauk. Grein úr sömu rannsókn hefur birst í tímarit-
inu International Journal of Behavioral Nutrition and Physi-
cal Activity10 þar sem fjallað var um áhrif þjálfunarinnar
án þess að gerð væri grein fyrir áhrifunum á kynjamun
sem er meginmarkmið þessarar greinar.
LÆKNAblaðið 2013/99 331