Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2004, Page 123
FÖLSUÐ FRÆÐI
hafa þekkt hana frá því áður en hún varð fræg, alveg síðan hún var að
stíga sín fyrstu skref sem rithöfundur og blaðamaður og datt ekki í hug
að hún ætti eftir að slá í gegn. En nú hefur hún semsagt slegið í gegn og
hún er komin tíl Islands til að heimsækja vinafólk sitt, njóta gestrisni þess
og kynnast landinu betur. Hún hefur alltaf verið dálítið hrifin af íslandi
en fram að þessu hefur hún að mestu upplifað það í gegnum frásagnir.
Skáldkonan dvelur hér á landi í nokkrar vikur. Hún býr ýmist heima
hjá vinafólkinu í Reykjavík eða í sumarbústað þess. Hún kynnist sam-
bandi þeirra (það er um par að ræða), fær innsýn í líf þeirra eins og við
er að búast þegar engu er leynt. Og skáldkonan fær góða hugmynd að
sögu. Ekki nóg með það, hún byrjar að punkta hjá sér, leggja á minnið
og veita athygli ýmsu sem hún tekur eftir. Hún heillast af sambandi pars-
ins, vinafólks síns, hvernig sem á því stendur.
Skáldkonan fer heim til sín aftur og hún skrifar sögu í sínum stíl og á
sinn hátt, verulega góða sögu sem birtist í smásagnasafni hennar. Sagan
fær frábærar viðtökur eins og bókin í heild sinni. En vinafólkið, sem í
fyrstu samgleðst vinkonu sinni, er ekki jafii ánægt þegar það les söguna.
Hún horfir öðruvísi við þeim. Þessi frábæra saga birtir öll einkenni skáld-
konunnar sem hafa gert hana mikilsmetna, en er þó í þeirra augum ekk-
ert annað en ósvífin og andstyggilega nákvæm lýsing á lífi þeirra. Þau átta
sig á því að þann tíma sem vinkona þeirra dvaldi hjá þeim hefur hún ver-
ið að leggja drög að sögunni. Þau geta ekki séð hana sem skáldskap held-
ur líður þeim eins og blaðamaður sorprits hafi fylgst með þeim og
njósnað um þau og svo skrifað langa grein þar sem allt er lagt út á versta
veg og allt túlkað á lágkúrulegasta hátt. Þeim finnst hún hafa gert sér mat
úr veikleikum þeirra og erfiðleikum og þannig gert lítið úr þeim.
Hvað eiga þau að gera og hvernig er hægt að lýsa því sem gerst hefur?
Hér er athyglisvert að velta því fyrir sér hvað það er nákvæmlega sem
marmi kann að finnast truflandi við slíka sögu. Er það ffamkoma skáld-
konunnar gagnvart vinafólki sínu, sem reyndar mætti líka saka um visst
sakleysi? Er það framkoma hennar gagnvart lesendum sínum? Eiga þeir
einhvern rétt á því að vita hvort um fyrirmyndir, jafnvel nákvæmar fyrir-
myndir sé að ræða að sögunni eða ekki? Eru það svik við lesandann að sá
veruleiki sem lýst er í sögunni sé ekki skáldaður veruleiki heldur að miklu
leyti lýsing og túlkun á veruleika raunverulegs fólks?
121