Listin að lifa - 01.06.2005, Page 18
Horft úr Sæbólsfjöru að Hrafnaskálanúpi.
Draumspeki, álfakór og ættarmóri
Guðmundur Hagalínsson gat lesið í náttúruna
á meðan hann bjó á Ingjaldssandi
„Guðmundur er svo margfróður maður
að hann gæti fyllt blaðið af sögum og
sögnum,“ segir Jón Fanndal. „Hann ætlar
með þig út í Ingjaldssand þar sem hann
var bóndi í 25 ár.“ Guðmundur og kona
hans, Guðrún Bjarnadóttir, búa næstum
á brimbrjótnum á Flateyri, með hið tign-
arlega fjall, Þorfmn, beint framundan.
Lengra út með firðinum má eygja fjöllin
við Ingjaldssand. Nú er logn, en sker
samt í báru. Oft hefur verið erfitt að ská-
skera fjörðinn í verslunarferðum, eins og
ábúendur gerðu áður á litlum bátskeljum.
Guðmundur og Guðrún bíða eftir mér
með tilbúið nesti. „Við fáum okkur kaffi-
sopa á Hrauni,“ segir Guðmundur.
Bæjarskiltið við lieimreiðina að Hrauni er
skemmtilega frumlegt.
Leiðin yfir á Ingjaldssand er ekki löng með
fróðleiksbrunninn Guðmund við stýrið.
Hann gæti verið frábær leiðsögumaður hér
um slóðir. Sonur hans, Birkir Þór, er búinn
að kaupa sérkort sem nær frá Gemlu
falli út Fjallaskaga og yfir í Ingjaldssand
- sögusvið Guðmundar Hagalínssonar!
„Við ætlum síðan að láta gamla manninn
skrifa örnefni inn á kortið,“ segir Birkir.
Við ökum framhjá lystigarði séra
Sigtryggs á Núpi uppi í fjallshlíðinni sem
vildi sýna að hægt væri að búa til skrúð-
garð á harðbala. A Núpshlaði er safn
um séra Sigtrygg, en myndarlegar skóla-
byggingar standa ónotaðar. „Mér hefur oft
dottið í hug að hér væri gott athvarf fýrir
unglinga sem eiga í vandræðum, svona
fallegt umhverfi er mikil heilsubót," segir
Guðrún.
Og framhjá Lækjarósi, fæðingarbæ
Guðmundar. „Oftar en ekki þurfti að hátta
mann ofan í rúm eftir sullið á leirunum.
Þar varð maður að dúsa þar til að fötin
þornuðu. Þetta heitir að vera það fátækur
að þurfa að dægra!“
Grét þegar hún flutti
frá Ingjaldssandi
Vegurinn yfir heiðina að Ingjaldssandi
er hálfgerður jeppavegur, en Guðmundur
segir hann með besta móti. Skyndilega
blasir við búsældarlegur dalur, inn á milli
hamrabrattra fjalla, með svellandi brim-
garðinn úti fyrir. Hér standa myndarleg
steinhús auð og yfirgefin, án upphitunar,
sem er ávísun á skemmdir. Hraun er hitað
allt árið sem kostar sitt, enda notalegt að
koma þar inn. Falleg kirkja stendur nálægt
sjávarkambinum. Hér var gott samfélag
áður fyrr og mikil kirkjusókn, 100 manns
þegar mest var upp úr aldamótunum 1800.
Nú býr hér aðeins ein kona með 6 ára son
sinn, hvílíkur kjarkur! Fróðlegt hefði verið
að heimsækja hana.
„Hér bjuggum við frá 1957-’95, oft
lokuð inni í 6-7 mánuði yfir veturinn," segir
Guðrún. „Man hvað ég var heilluð þegar
ég sá fýrst snjósleða æða upp brekkurnar
yfir heiðina, hvílík bylting í samgöngum!
Oft var barningur hjá Guðmundi að keyra
krakkana í skólann."
„Maður notaði snjósleða, dráttarvél
og bíl til að komast á Kíwanisfundi hálfs-
mánaðarlega og mætti betur en þeir sem
nær bjuggu,“ segir Guðmundur.
„A okkar búskaparárum voru hér 25
börn frá vöggu til fermingar þegar flest
var. Ég man sérstaklega eftir jólakörfunum
með sælgætinu á jólaballinu. Og alltaf
fórum við með krakkana í kirkju, þau sátu
með sálmabækur, þótt þau væri ekki læs,“
segir Guðrún sem saknar Ingjaldssands,
segist hafa grátið þegar þau fluttu alfarin
héðan.
„Hér var svo mikill friður. Yndislegt
á vorin þegar lóan var komin, hlusta á
lækjarniðinn og mófuglana í kyrrðinni.
Ógleymanlegt að sjá kvöldsólina fljóta
ofan á haffletinum í sumarstillunni. Eða
á veturna um jólaleytið þegar allt var
orðið hvítt og dauðalogn, stjörnubjart og
tunglsljós. Þá sátu stelpurnar okkar við
gluggann og biðu eftir að sjá jólin koma
niður Hraunsdalinn." Nafn árinnar í
dalnum hefur fagra merkingu, Ós-ómi eða
„ómurinn við ósinn“.
Nýárslagið — og
raddir álfakórsins
18
■B