Læknablaðið - 01.09.2014, Blaðsíða 31
LÆKNAblaðið 2014/100 463
Í T i l E F n i 1 0 0 Á R a Ó S l i T i n n a R Ú T G Á F U l æ k n a b l a ð S i n S
Styrkur þessa próteins í blóði var mældur í einstaklingum sem
höfðu fengið og lifað af eða dáið úr hjartaáfalli eftir að þeir komu
í Reykjavíkurrannsóknina ásamt viðmiðum sem höfðu enga sögu
um kransæðasjúkdóm. Einstaklingunum var skipt í þrjá hópa eft-
ir magni hsCRP í sermi. Þeir sem voru í hæsta þriðjungi reyndust
vera með 45% aukningu í áhættu á að fá hjartaáfall miðað við þá
sem voru í lægsta þriðjungi. Þrátt fyrir þetta kom í ljós að með því
að bæta þessari mælingu við hefðbundna áhættuþætti jókst for-
spárgildið harla lítið. Þessar niðurstöður voru birtar í New England
Journal of Medicine árið 2004 og vöktu mikla athygli.55 Þetta var ein
fyrsta vísindagreinin sem dró í efa þá miklu áherslu sem lögð hafði
verið á að mæla hsCRP sem mikilvæga viðbót við mat á áhættu að
fá kransæðastíflu. Margar rannsóknir hafa verið gerðar síðan sem
benda til þess sama en rannsókn ERFC-rannsóknarhópsins sem
birt var í Lancet árið 2010 var ein sú mikilvægasta.15 Í þeirri rann-
sókn sem gögn frá Reykjavíkurrannsókn Hjartaverndar voru not-
uð var sýnt sem fyrr að hsCRP er sjálfstæður áhættuþáttur fyrir
hjartaáföll en var vissulega háð öðrum áhættuþáttum og óljóst
hversu miklu það bætti við forspárgildi.15 Enn frekari rannsóknir
þessa sama vinnuhóps sýndi að hjá þeim sem væru í miðlungs
áhættu myndi það að mæla hsCRP og hefja statínmeðferð sam-
kvæmt niðurstöðu þeirrar mælingar koma í veg fyrir eitt áfall til
viðbótar á 10 ára tímabili fyrir hverja 400 til 500 einstaklinga sem
mældir væru.14 Sú rannsókn birtist einnig í New England Journal of
Medicine árið 201214 og staðfesti þar með þá upphaflegu ályktun úr
Reykjavíkurrannsókninni að mæling á hsCRP bætti litlu við for-
spárgildi fyrir hjartaáföll. Gögn úr rannsókn Hjartaverndar voru
einnig notuð til að sýna að hsCRP-sameindin sjálf er ekki orsaka-
valdur í kransæðasjúkdómum eða hjartaáföllum56 þó sannarlega
bendi allt til þess að bólga sé mikilvægur þáttur í tilurð og þróun
þessa sjúkdóms.
Mannan-bindilektín (MBL)
Sædís Sævarsdóttir og Helgi Valdimarsson sýndu fram á að hátt
mannan-bindilektín (MBL) sem örvar átfrumur til að hreinsa
hefur verndandi áhrif á kransæðastíflu.57 Þetta sást hjá þeim sem
voru með hátt kólesteról eða höfðu sykursýki þar sem mun færri
einstaklingar með hátt MBL höfðu fengið kransæðastíflu.
Menntun
Þórður Harðarson og samstarfsfólk kannaði tengsl menntunar
og kransæðasjúkdóma í nokkrum birtum greinum.58,59 Menntun
reyndist verndandi gagnvart dauðsföllum af völdum kransæða-
sjúkdóma og öðrum orsökum. Þessi tengsl reyndust að mestu
óháð öðrum áhættuþáttum og hafa ekki verið skýrð til fullnustu
ennþá. Áfram er unnið að því að finna skýringar á þessu innan
Hjartaverndar.
Nánara mat á æðakölkun
Áhættureiknir Hjartaverndar var tekinn í notkun árið 2007 og
hefur reynst mjög gagnlegur til mats á áhættu á hjartaáföllum á
næstu 10 árum. Rannsóknir á þátttakendum Reykjavíkurrann-
sóknarinnar hafa hins vegar sýnt að um 80% hjartaáfalla áttu sér
stað hjá fólki sem reiknaðist með lága eða miðlungsháa áhættu en
einungis lítill hluti hjartaáfallanna hjá þeim mikla minnihluta sem
reiknast í verulegri áhættu. Þetta er svokallaður Rose preventive
paradox sem var settur fram af Geoffrey Rose árið 1981.60 Vanda-
mál er að fæstir með lága eða miðlungsáhættu hafa áþreifanlega
áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma sem krefjast meðhöndlunar
og er því brýn þörf að finna leiðir til að bæta áhættugreiningu hjá
þeim. Til að svara þessu var Áhættuþáttakönnun Hjartaverndar
ýtt úr vör. Þar var tilviljunarkennt úrtak um 9000 einstaklinga á
aldrinum 25 til 70 ára notað. Rannsóknin stóð frá 2006 til 2011.
Tæplega 7000 komu til rannsóknar, eða um 79%. Auk hefðbund-
inna áhættuþátta hjarta- og æðasjúkdóma var gerð ómskoðun á
hálsslagæðum. Niðurstöður þessarar rannsóknar hafa verið not-
aðar til þess að útbúa áhættureikni til að reikna líkur á að hafa
æðaskellu (atherosclerotic plaque) í hálsslagæð. Þessi áhættureiknir
er til prófunar í heilsugæslunni og er þess vænst að þar verði unnt
að nota hann til að finna einstaklinga sem hafa miðlungs eða lága
áhættu samkvæmt hefðbundnum áhættureikni en eru samt með
staðfestan æðasjúkdóm samkvæmt ómskoðun af hálsslagæðum
án þess að þurfa að rannsaka ítarlega alla einstaklinga.
Niðurlag
Hér hafa verið taldir upp nokkrir þættir læknisfræðinnar þar
sem rannsóknir Hjartaverndar hafa nýst vel til að skapa meiri
þekkingu. Hundruð ritrýndra vísindagreina byggðar á gögnum
Hjartaverndar hafa birst í innlendum og alþjóðlegum vísinda-
tímaritum. Mikill hluti þeirra hefur verið skrifaður af innlendum
eða erlendum stúdentum sem nýtt hafa efniviðinn til að ljúka
meistara- eða doktorsnámi, jafnt við Háskóla Íslands sem erlenda
háskóla.
Rannsóknarstöð Hjartaverndar vill að lokum þakka öllum
landsmönnum þá hlýju, stuðning og traust sem þeir hafa sýnt
með því að taka þátt í rannsóknum stöðvarinnar síðustu 5 áratugi.
Án þessa mikilvæga framlags hefðum við ekki jafnmikla þekk-
ingu og við höfum í dag um ýmsa sjúkdóma. Hinir fjölmörgu
hæfu vísindamenn, ungir sem aldnir, fá einnig sérstakar þakkir
fyrir mikilvægt framlag sitt og ánægjulega samvinnu gegnum
árin, sem og frábært starfsfólk Hjartaverndar nú sem endranær.
Enginn vafi er á að framlag allra þessara aðila hefur þegar orðið
til hagsbóta fyrir íslenskt og erlend samfélög og á eftir að gagnast
komandi kynslóðum. Framtíð Rannsóknarstöðvar Hjartaverndar
er björt. Grunnurinn hefur verið lagður að mörgum nýjum stórum
rannsóknarverkefnum sem fjölmargir góðir vísindamenn starfa
við í tengslum við Hjartavernd, jafnt innanlands sem utan. Hafið
bestu þakkir fyrir.
Þakkir
Rannsóknir Hjartaverndar hafa verið styrktar af íslenska ríkinu,
National Institutes on Aging og National Institute of Health í
Bandaríkjunum, Rannsóknarsjóði Íslands og Evrópusambandinu.
Sérstakar þakkir fyrir aðstoð við vinnslu þessarar greinar fá
Kristín Siggeirsdóttir framkvæmdastjóri þróunar, Bylgja Valtýs-
dóttir upplýsingafulltrúi og Thor Aspelund tölfræðingur sem öll
starfa hjá Hjartavernd.