Tímarit Máls og menningar - 01.02.1984, Blaðsíða 34
Tímarit Máls og menningar
að útskýra kenningar í skáldskap tekur hann dæmi af Þórskenningunum
Hrungnis bani og Jarðar bur og segir (261): „Það er engu skáldlegra en
glettingarnöfn eins og kollubani eða fjólupabbi . . .“
Allt eru þetta mikilvæg einkenni samtíðarhyggju í sagnfræði. Eftir er samt
að greina frá meginatriði hennar, hvernig höfundur fer að því að skilja verk
persóna sinna og skýra þau.
Innlifun
Benda má á mörg dæmi þess í Islenskri menningu að höfundur hætti sér inn
í hugarheim sögupersóna sinna og sjáiþar stundum meira en vísindahyggju-
mönnum mundu þykja heimildir til. Ég tek dæmi af frásögninni um Sturlu
Sighvatsson og tilraun hans til að vinna landið undir konung (325—26):
Raunalegt er að hugsa til hlutverks Sturlu í þessum leik. Hann mundi hafa
verið sæmilegur höfðingi, ef metnaður hans hefði verið í hófi og sómatilfinn-
ing óröskuð. Fyrir utanförina hefur hann ekki ætlað sér meira en ráða mestu
við Breiðafjörð og eiga ítök um Vestfirði. Með því ríki gat hann haldið til
jafns við aðra höfðingja. En nú gerist breyting á þessu. Enginn kynborinn og
varla nokkur frjáls Islendingur hafði til þessa verið eins háðulega leikinn og
Sturla, er hann var teymdur frá einum kirkjudyrum til annarra og hýddur sem
prestlingur fyrir almannasjónum í Rómaborg. Ekki hefur honum verið svo í
ætt og þjóð skotið, að skömmin hafi ekki sviðið. Hann var talhlýðnari við
hinn slægvitra konung vegna þess, að um þetta mátti bezt bæta með meiri veg
og völdum.
Ennfremur mætti benda á hvernig höfundur túlkar hug Egils Skallagríms-
sonar (169—76) og Þorgeirs Ljósvetningagoða (231—32). Forvitnilegra er
samt að skoða dæmi af svolítið öðru tagi. Stundum virðast menn ganga út
frá því sent gefnu að innlifun einskorði sagnfræðinga við sögur stakra,
nafngreindra stórmenna. Sigurður birtir nóg dæmi um hið gagnstæða, til
dæmis í lýsingu þeirra sem sóttu Alþingi á Þingvelli (149):
Allar búsáhyggjur voru skildar eftir heima. Tíminn var drýgður með því að
leggja saman daga og bjartar nætur. Meiri svefn gat beðið betra tóms. Hver
flokkur manna kom á þingið með sinn skerf þekkingar og flutti nýjan skerf
heim aftur. Tíðindi voru borin frá einum gistingarstað til annars, allt til
útnesja og afdala. Einmitt þeim, sem afskekktastir voru aðra hluta ársins, voru
þingreiðirnar lengstar og viðburðaríkastar. I fásinninu var mest gaman að
segja frá ferðinni, er heim kom, atburðum á alþingi, fregnum úr öðrum
héruðum og útlöndum. Þar var mönnum tíðast að rifja þetta upp við og við.
Þótt vetur væru langir og býli einangruð, færðist fyrir þetta minni dofi á
fólkið. Þeir, sem höfðu riðið á Þingvöll á liðnu sumri og ætluðu þangað enn á
komanda vori, áttu margs að minnast og hlakka til. En allir nutu nokkurs
góðs af, þó að heima hefðu setið.
24