Tímarit Máls og menningar - 01.02.1984, Blaðsíða 39
Páll Skúlason:
Heimspekin og Sigurður Nordal
Var Sigurður Nordal heimspekingur? Og ef svo er, hver var heimspeki
hans, hverjar voru kenningar hans?
Svona freistast menn til að spyrja, og samstundis vakna aðrar spurningar:
Hvað er að vera heimspekingur? Hvað er heimspeki?
„I heimspeki er eg utanveltubesefi, hef aðeins stundað hana fyrir sjálfan
mig og að mestu tilsagnarlaust. Enda á það, sem eg ætla hér að tala um,
nauðalítið skylt við hina vísindalegu skólaheimspeki.“ Þetta segir Sigurður
Nordal í upphafi erindaflokksins Líf og dauði og ávarpar jafnframt hlust-
endur sína: „Þið eruð öll saman heimspekingar, hvort sem þið viljið það og
vitið eða ekki. Það er ein tegund heimspeki að brjóta heilann um, hvernig
þið eigið að lifa og það er önnur tegund heimspeki að afneita allri hugsun
um slík efni.“
Nú má segja að í fyrri tilvitnuninni eigi Sigurður við heimspeki sem
fræðigrein, en hinni síðari eigi hann við heimspeki sem afstöðu til lífsins,
kosta þess og gilda. En hvort heldur er þá felur heimspeki í sér yfirvegun
þess lífs sem við lifum. Slíka yfirvegun stundaði Sigurður látlaust og hún
beindist að einu efni öðrum fremur: íslenskri menningu. Trúlega hefur eng-
inn fræðimaður lagt jafnríka áherslu og Sigurður á sérstöðu íslenskrar
menningar og sérkenni þeirra hefða sem hún hefur fóstrað. Um leið brýnir
hann fyrir okkur mikilvægi þess að gera okkur sem ljósasta grein fyrir sögu
og séreðli menningar okkar með hliðsjón af framandi menningarhefðum og
í samanburði við þær.
Þessi áhersla á íslenska menningu — sem finna má hvarvetna í ritum Sig-
urðar — er ekki aðeins tengd hinum norrænu eða íslensku fræðum sem hann
lagði mesta stund á; hún er ekki heldur eingöngu sprottin af einlægri
þjóðerniskennd eða ættjarðarást. Þessi áhersla er kjarninn í því sem ég vil
leyfa mér að kalla heimspeki Sigurðar Nordal. Heimspeki hans er réttnefnd
heimspeki íslenskrar menningar.
En hvað er hér átt við með heimspeki? Hvernig tengist heimspeki menn-
ingu manna almennt og hvað ber að hafa í huga þegar rætt er um heimspeki í
sambandi við tiltekna menningu?
29