Tímarit Máls og menningar - 01.03.1996, Page 84
Margrét Lóa Jónsdóttir
Bréf frá GangesfLjóti
Fílabeinsturnar eru fallegir, laufskógurinn, mandarínutrén og
norðurljósaborgin... Nei annars! Þú veist að á endanum verða
það hin hversdagslegu orð sem munu hreyfa við þér.
í nótt dó hérna sjúklingur, krabbi hafði konan sagt við mig,
ekkert nema skinnið og beinin. Og í nótt missti vinkona mín
manninn sinn. Þetta var undarleg nótt elskan mín .. . Sextán
börn dóu í skotárás og kona ein skar tittlinginn undan kettinum
sínum. Hús brunnu til kaldra kola og kvenfólki var nauðgað
hér og hvar. Morð svifu yfir morðvötnum en við fórum bara í
bíó, við fórum í tívolí og í sund og loks á kaffihús.
í kvikmyndinni sáum við kolsvartan þræl bera kol og sund-
laugarvörð hrinda feitri stúlku á sundlaugarbakka. Strákur á
kaffihúsinu okkar var einmana og að laumast til að semja ljóð
til stelpu sem sat úti í horni. Hún tók ekki eftir neinu, þar sem
hún drakk sitt heita súkkulaði og las heimspeki Kants. Æi já,
við sáum nú ýmislegt þennan dag. Við keyptum okkur íbúð í
hvítu borginni okkar en fluttum svo seinna til Hawai. Á end-
anum giftum við okkur og vorum bæði í hvítu og eignuðumst
með tímanum fullt hús af krökkum.
Vertu nú sæll. Kannski skrifa ég þér einhverntíma skemmti-
legri og fegurri bréf en nú þarf ég yfir til hennar vinkonu
minnar sem missti manninn sinn í nótt. Gleymdu ekki að það
var einmitt þessa ákveðnu nótt, sem börnin sextán dóu í skot-
árásinni. Gleymdu því ekki meðan þú lifir ástin mín, og reynir
að njóta lífsins á meðal mannanna.
74
TMM 1996:1