Tímarit Máls og menningar - 01.03.1996, Blaðsíða 95
framúrstefnumaður sem var orðinn handgenginn borgarastéttinni,
hafði álpast til að svara í símann þegar hann hringdi. Framúrstefnu-
maðurinn sá þann kost vænstan að kaupa sér frið með því að útvega
Haraldi hljómleikasal. Haraldur bauð vinum sínum úr Stúdentakjall-
aranum á tónleikana; endurgjaldslaust ætlaði hann að leyfa þeim að
heyra einleiksverk þar sem hann fléttaði saman óhamdri frumorku
íslenskrar náttúru og hughrifum sem hann hafði orðið fyrir á
kvöldnámskeiði um zen-búddisma. Haraldur setti auglýsingu í Morg-
unblaðið og leigði sér smókingföt, frekar við vöxt. Til að komast í
réttan ham snæddi hann kvöldverð á Hótel Loftleiðum og drakk
rauðvín með. Þvínæst pantaði hann stöðvarbíl og hélt upp á Kjarvals-
staði að spila.
Það kom enginn á tónleikana. Vinur hans, fræðimaðurinn með
óskiljanlegu kenninguna, lá heima og gat ekki hreyft sig fyrir gigt.
En Haraldur spilaði heilan konsert. Og þrátt fyrir að kaldir sem-
entsveggirnir drykkju í sig tónaflóðið, þrátt fyrir að tónlistin rynni út
í sandinn líkt og ónefnt stórfljót langt austur í Síberíu, getur maður
varla komist hjá þeirri tilhugsun að þarna hafi Haraldur Clayton
nálgast að vera tragísk hetja af umtalsverðri stærð; hann spilaði af lífs
og sálar kröftum þrátt fyrir að enginn vildi hlusta og hann vissi að á
endanum yrði sér alls staðar úthýst og allir menn í heiminum myndu
daufheyrast. Og hver veit nema þetta hafi einmitt verið stundin þegar
list Haralds reis hæst; þegar hann var best klæddur og hafði bundið á
sig óaðfinnanlega slaufu, þegar hann var fullkomnastur og heilsteypt-
astur og fallegastur í list sinni, einmitt þetta kvöld þegar enginn heyrði
neitt.
En á meðan sátu hinir væntanlegu tónleikagestir í Stúdentakjallar-
anum og drukku rósavín í óbrotinni rósemd. Menn sögðu fátt, flest
úr samhengi, og við ungu mennirnir vorum frekar á móti öllu, hvað
lítið sagt var. Einhvers staðar einhvern tíma aftur, söng hátalarinn,
allsendis metnaðarlaust. Lífið hafði aftur sinn ótruflaða vanagang.
Nokkrum dögum síðar hitti ég Harald aftur. Hann stóð þarna í
Bankastrætinu, mitt á milli almenningssalernanna, og gerði hvorki að
ganga upp götuna né niður hana, hvað þá að heilsa eða taka undir
TMM 1996:1 85
L