Tímarit Máls og menningar - 01.03.1996, Blaðsíða 90
Sjaldan hefur neinum manni legið jafn mikið á hjarta og Haraldi
Clayton. Og þótt hann væri tæpast nema einn og hálfur metri á hæð
hefur varla neinn maður átt stærri tálsýn en Haraldur Clayton
* * *
Veturinn 1979 var rétt að byrja og sumarið hafði verið svo stutt að í
úthverfunum snjóaði í skaflana frá vetrinum áður. í blöðunum stóð
að innan tíu ára yrðu allir íslendingar komnir í vinnu í skipasmíðastöð
í Svíþjóð. Ef fannst hundur í Reykjavík var honum skutlað yfir borg-
armörkin eða hann skotinn án málalenginga. Erlend blöð birtu stund-
um skoplegar smáfréttir af verðbólgu á íslandi. Einfeldningslæti
hippatímans heyrðu nánast sögunni til; hafi verið til einhver tíska sem
orð er á gerandi, fólst hún helst í því að vera full og svartklæddur. En
samt fundu menn frísklegan andblæ breytinga; svokölluð léttvínsbylt-
ing var gengin í garð.
Ég kynntist Haraldi Clayton í Stúdentakjallaranum sem á þessum
tíma var prýðilegt athvarf fyrir drykkfellda gáfumenn og unglinga sem
voru að stíga sín fyrstu skref á menningar- og drykkjubrautinni. Það
var skrítinn en þægilegur félagsskapur sem þarna hittist flest kvöld:
Sífullur óbóleikari sem hafði áhyggjur af því að hann væri að verða
náttúrulaus en taldi ólíklegt að það stafaði af ofdrykkju, heldur líklega
af því að hann hefði byrjað of ungur að vera með konum; Olav hinn
norski, hlédrægur Norðmaður sem starfaði við að tálga trébrúður á
heimili sínu, háalofti Farfúglaheimilisins við Laufásveg, drakk sig
rænulausan öll kvöld og var óskiljanlegur eins og krossgáta sem
enginn vildi gefa sér tíma til að ráða; Mario, launmontinn ítali sem
sagðist kunna öll heimsins tungumál nema íslensku sem honum
veittist fjarskalega örðugt að læra á námskeiði fyrir erlenda stúdenta
við Háskólann; andlega sinnaður og með eindæmum kurteis heim-
spekinemi að norðan sem var kallaður Hómer og var í framan eins og
Biblíumynd; miðaldra bítskáld sem var búið að yrkja sig út á ystu nöf
tungumálsins þar sem engin orð voru lengur nothæf og allt var
hálfgert bull, og var núorðið handgengnari málaralistinni en bók-
menntum; og svo við, ungu gáfnaljósin og bóhemarnir, rétt nýskriðnir
úr menntaskóla, og höfðum enga afstöðu í lífinu nema hvað við
vorum staðráðnir í að vera á móti öllu.
80
TMM 1996:1