Ský - 01.02.2008, Qupperneq 33
1. tbl. 2008 | ský 33
Þ
eir sem til þekkja segja þau bæði ákaflega samviskusöm
og dugleg að stunda dansinn, enda fátt annað sem
kemst að hjá þeim en æfingar og aftur æfingar. Því
liggur beinast við að spyrja hvernig þetta byrjaði allt
saman hjá þeim.
„Ég byrjaði þegar ég var sex ára gamall. Aðalástæðan fyrir
því að ég byrjaði er sú að stjúpmóðir mín, Auður Haraldsdóttir,
er danskennari og hún vildi að ég prófaði dansíþróttina og sæi
hvernig mér fyndist og ég hef bara æft dans síðan,“ útskýrir
Sigurður Már og Sara Rós segir jafnframt;
„Þegar ég var sex ára gömul byrjaði ég að æfa ballett og gerði það
í eitt ár. Síðan fannst mömmu kennslugjöldin vera orðin of há svo
hún fann eitthvað annað handa mér og það var samkvæmisdans.
Fyndið að segja frá því vegna þess að kostnaðurinn núna er
margfalt hærri en kennslugjöldin í ballettinum voru!“
Vináttan skiptir meginmáli
Þau Sigurður Már og Sara Rós fundu fljótlega að dansinn átti vel
við þau en í kjölfar þess að dansfélagi Sigurðar Más forfallaðist eitt
sinn fóru þau tvö að dansa saman og þá varð ekki aftur snúið.
„Það mætti vel segja að við náum mjög vel saman. Við
höfum dansað saman í átta ár svo við erum einnig orðin mjög
góðir vinir. Það er allavega ekki algengt að danspör endist svona
lengi,“ segir Sara Rós brosandi og Sigurður Már bætir við; „Við
vorum sjö og átta ára gömul þegar við byrjuðum að dansa
saman og það er mjög sjaldgæft í dansheiminum að dansa svo
lengi við sama einstaklinginn. Ég held að vináttan skipti hér
meginmáli.“
Sigurður Már og Sara Rós dansa alla tíu samkvæmisdansana
sem samanstendur af fimm Ballroom-dönsum; enskum vals,
tangó, vínarvals, foxtrot og quickstep, og fimm Latin-dönsum;
sömbu, cha cha cha, rúmbu, paso doble og jive.
„Við dönsum alla þessa tíu dansa sem flokkast undir Standard
og Latin en sumir kjósa að einbeita sér einungis að öðrum
flokknum. Yfirleitt höfum við verið sterkari í Latin-dönsunum en
Standard-dansarnir eru orðnir betri en áður hjá okkur,“ útskýrir
Sara Rós.
Sætir sigrar
Sem fyrr sagði hefur dansparið unnið til fjölda verðlauna fyrir
frammistöðu sína á dansgólfinu. Í byrjendaflokki voru þau
yfirleitt í úrslitum en náðu aldrei hærra en 5. og 6. sæti. Fyrsta
gullið þeirra var síðan í höfn eftir Lottó-keppnina svokölluðu í
nóvember árið 2002 í Latin-dönsum.
„Eftir Lottó-keppnina fór þetta allt upp á við og það má segja að
við höfum unnið mest allt eftir það. Í framhaldinu náðum við 2.
sæti á London Open árið 2003 sem var mjög skemmtilegt og fyrsti
sigurinn okkar í útlöndum. Það sem stendur þó upp úr hingað til
er þegar við náðum 1. sæti í Latin-dönsum á Copenhagen Open
árið 2007 og 2. sæti í tíu samkvæmisdönsum á sama móti,“ segir
Sigurður Már og Sara Rós samsinnir félaga sínum yfir mikilvægi
þessara glæstu sigra en bætir við: „Einn af eftirminnilegustu
sigrunum að mínu mati var samt á bikarmeistaramótinu árið
2005 þegar við unnum Standard-dansana eftir bráðabana milli
tveggja para. Þá var orðið frekar langt síðan við fengum fyrsta
sætið og því var sigurinn sætur.“
Mikilvægt að hafa gott sjálfstraust
Sem fyrr sagði á dansinn hug þeirra allan en að sögn Söru Rósar
fer allur peningur, áhugi og metnaður þeirra í dansiðkunina.
Snerpa, úthald og
útgeislun á dansgólfinu
Það geislar af dansparinu Sigurði Má Atlasyni og Söru Rós Jakobsdóttur en þrátt fyrir
ungan aldur hafa þau náð mjög góðum árangri í danskeppnum hér heima og erlendis. Það
var fyrir einskæra tilviljun að þau byrjuðu að dansa saman fyrir átta árum.
Texti: Erla Gunnarsdóttir • Myndir: Geir Ólafsson
Dans
Ungir dansarar