Ský - 01.02.2008, Page 37
1. tbl. 2008 | ský 37
frá Bandaríkjunum, landi þar sem skák naut takmarkaðra
vinsælda svo vægt sé orðað. Mætti einn með kunnáttu
sína og hæfileika gegn allri skákmenningu Sovétríkjanna.
Í Reykjavík 1972 var augljóst hve mikla virðingu sovéskir
stórmeistarar báru fyrir þessum einstæða snillingi.
Meistarar, atvinnumenn í skák, sem þekktu og skildu
kjarna listarinnar, gengu aftur á bak og voru með stjörnur
í augunum þegar þeir horfðu á Fischer.
Ferill og lífshlaup hans voru með sérstökum
hætti. Fæddur 1943, alinn upp hjá einstæðri móður,
skákmeistari Bandaríkjanna 14 ára gamall, ótrúlegir
sigrar í skákmótum og einvígum, heimsmeistari 1972,
tefldi eftir það ekki eina einustu skák opinberlega í 20
ár en hvarf inn í sjálfskipaða útlegð. Árið 1992 tókst að
draga Fischer að skákborðinu aftur og þá sigraði hann
í einvígi við fyrrverandi heimsmeistara, Boris Spassky.
Þetta einvígi dró hins vegar dilk á eftir sér. Hann var
talinn hafa brotið viðskiptabann Bandaríkjanna við
Júgóslavíu með því að tefla þar. Ákæra var lögð fram á
hann hjá öllum lögreglustjóraembættum Bandaríkjanna.
Hann var eini maðurinn í heiminum sem var ákærður
fyrir brot á þessari reglugerð, færði trémenn af hvítum
reitum á svarta. Eftir það var hann landflótta, kom aldrei
aftur til Bandaríkjanna, bjó í ýmsum löndum fjarri
ættingjum og vinum, einn. Gat hvorki verið við jarðarför
móður sinnar né systur, nánustu ættingja sinna. Árið
2005 var hann stöðvaður á flugvelli í Tókýó og talinn
með ógilt vegabréf sem reyndar orkar mjög tvímælis.
Hann var lokaður inni í sérstöku fangelsi í níu mánuði
vegna þessa og ráðgert að senda hann til Bandaríkjanna.
Íslendingum tókst að ná honum út úr fangelsinu með því
að veita honum íslenskan ríkisborgararétt. Á Íslandi átti
Snillingur, einfari
og sérvitringur
Það fer ekki mikið fyrir gröf Fischers í Laugardælakirkju í Flóa.
Skák