Ský - 01.02.2008, Síða 39
1. tbl. 2008 | ský 3
stóð þar yfir alþjóðlegt skákmót. Fischer kom þar við,
gekk inn í salinn og kastaði augum á sýningarborðin.
Á einu borðinu tefldu sovéski stórmeistarinn Leonid
Stein og enski stórmeistarinn Raymond Keene. Fischer
leit á borðið í nokkrar sekúndur og sagði síðan: Stein er
með tapaða stöðu. Rétt í því kom upp skilti, samið um
jafntefli. Fischer stormaði út og sagði að þannig hefðu
sovésku stórmeistararnir það, byðu jafntefli í töpuðum
stöðum og hinir þyrðu ekki að tefla áfram. Daginn eftir
var Fischer spurður um þessa skák. Hann tók þá upp
vasatafl og stillti stöðunni upp og rakti nokkrar leiðir og
sýndi að staða Steins var töpuð. Þetta er eitt dæmið um
hve fljótur hann var að átta sig á stöðu sem jafnvel aðrir
stórmeistarar töldu jafntefli.
Um Bobby Fischer og keppnir hans hafa verið ritaðar
um 150 bækur, líklega 50 sjónvarpsþættir gerðir um
manninn og BBC valdi einvígi hans við Boris Spassky í
Reykjavík 1972 sem einn af 20 athyglisverðustu atburðum
síðustu aldar og gerði sérstakan þátt um einvígið. Nú
berast fréttir frá Hollywood um að til standi að gera
kvikmynd um einvígið 1972 og meistarann mikla.
Síðustu árin á Íslandi stundaði hann mikið
fornbókaverslanir, einkum verslunina á Hverfisgötu.
Þetta þótti svo merkilegt að bóksalinn kom nokkrum
sinnum fram í fjölmiðlum og sagði frá kynnum sínum
af Fischer. Þegar Fischer var sagt frá því brosti hann og
sagði: „He is becoming a celebrity.“
Fischer hafði mikinn áhuga á mannkynssögu og
virtist mikið lesa um menn sem af einhverjum ástæðum
höfðu lent upp á kant við Bandaríkjastjórn eins og hann
sjálfur. Ofarlega var honum í huga að hann hafði glatað
þeim eigum sínum sem honum var annt um. Hann
hafði geymt þær í geymslu sem hann tók á leigu en á
útlegðarárum hans var geymslan brotin upp og eigurnar
seldar á uppboði, þar á meðal verðlaunapeningur hans
frá 1972. Borið var við að leiga hefði ekki verið greidd
en Fischer bar það til baka. Hann hafði mikinn áhuga á
að ræða um geimverur og velti mikið fyrir sér hugsanlegri
heimsókn vera frá öðrum hnöttum til jarðarinnar og las
heilmikið um þau efni.
Fischer forðaðist mjög fjölmiðlamenn og ljósmyndara.
Skáksamband Íslands hélt málþing í tengslum við 70 ára
afmæli Friðriks Ólafssonar. Spassky kom þá til landsins
ásamt eiginkonu sinni og hélt erindi ásamt fleirum
um feril Friðriks. Fischer var þá á Íslandi en kom ekki
á málþingið. Þeir Friðrik og Spassky ákváðu að hitta
Fischer ásamt eiginkonum sínum og borða með honum
hádegisverð. Helgi Ólafsson stórmeistari, sem var í góðum
tengslum við Fischer, hafði samband við hann. Ákveðið
var að borða á Skólabrú, en þar sem um hádegisverð var
að ræða á sunnudegi var veitingahúsið lokað og eigandinn
opnaði sérstaklega til þess að þessir fornu vinir gætu hist
og borðað á stað þar sem þeir væru ekki ónáðaðir. Helgi
kom þó einn til málsverðarins þar sem Fischer féllst ekki
á að koma, taldi að þarna gæti verið um gildru að ræða
og ljósmyndarar og fjölmiðlamenn væru á staðnum.
Þeir Helgi og Spassky fóru því heim til Fischers og
Spassky tókst að fá Fischer til þess að borða með þeim.
Þegar þeir félagar komu í Skólabrú opnaði Spassky inn
í hin ýmsu salarkynni og sagði: „Þú sérð Bobby, hér eru
engir.“ Fischer gekk úr skugga um það en vildi fá dregið
fyrir alla glugga því ljósmyndarar gætu verið í trjám eða
nærliggjandi húsum og séð inn um gluggana. Að þessum
undirbúningi loknum var sest að snæðingi en Fischer
hafði með sér í málsverðinn útvarp og hlustaði á það
framan af. Síðan fór allt í eðlilegan farveg og þau áttu öll
þarna góða stund, en svo langan tíma tók allt þetta að
hádegisverðinum lauk um klukkan 16.30.
Á síðasta ári tók heilsu hans að hraka. Erfitt var
að fá hann til þess að fara til læknis en hann hafði þá
skoðun að líkaminn ætti að lækna sig sjálfur. Hann
hafði mjög ákveðnar skoðanir um mataræði og vildi
borða hollan mat. Hann sótti lítið hinar ágætu íslensku
sundlaugar þar sem hann taldi að klórblöndun í vatnið
væri ekki heilsusamleg. Lyktnæmi hans var mikið, sem
og heyrnarnæmi. Hann var mjög ákveðinn varðandi val
á íverustað að þar væri ekki hávaði. Sú saga er sögð að
íslenskir vinir hans höfðu fundið honum næturstað, en
hann taldi sig ekki geta sofið vegna hávaða. Enginn heyrði
neitt en eftir talsverða eftirgrennslan kom í ljós að klukka
gekk í nærliggjandi herbergi og ónáðaði meistarann.
Sem fyrr segir var Robert J. Fischer einfari og forðaðist
fjölmiðla og fjölmenni. Síðasti leikur meistarans í lífi
hans eða dauða kom ekki síður á óvart en fyrra lífshlaup
hans. Hann var jarðaður í kyrrþey í kirkjugarði við litla
sveitakirkju, Laugardælakirkju í Flóa. Aðeins um fimm
manns munu hafa verið viðstaddir og sóknarprestur
kirkjunnar vissi ekki einu sinni um athöfnina. Margir
vinir hans og aðdáendur sem vildu votta meistaranum
virðingu fréttu aðeins af jarðarförinni eftir að allt var um
garð gengið. Enn er enginn legsteinn eða minnisvarði við
gröfina. Ekkert sem minnir á eða segir til um meistarann
sem þarna liggur. Óneitanlega kallar þetta fram í hugann
ótrúlega útlegð áratugum saman og einveru þessa mikla
meistara hins sextíu og fjögurra reita borðs.
Þó er eins og þytur vindsins í kirkjuburstinni þylji orð
guðs yfir moldum þessa einstæða manns. sky,
Skák