Morgunblaðið - 09.02.2015, Blaðsíða 25

Morgunblaðið - 09.02.2015, Blaðsíða 25
MINNINGAR 25 MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 9. FEBRÚAR 2015 Dagurinn fölnaði þegar fréttin barst um að Egill Ólafsson væri látinn í blóma lífsins. Egill gat skrifað um hvað sem er. Alltaf skilaði hann frá sér fyrsta flokks efni. Í blaðamennsku er mik- ilvægt að vera fyrstur með fréttina, en fyrst þarf fréttin að vera rétt. Egill hafði ávallt hvort tveggja í huga, vann hratt og örugglega og var um leið vandvirkur og nákvæmur. Það átti jafnt við um fréttaskrif og fréttastjórn. Ef velja ætti frummynd blaðamannsins kemur Egill upp í hugann, sanngjarn, traustur, vandvirkur og áreiðanlegur. Hjá Agli var umfjöllunarefnið, fréttin alltaf í forgrunni, aldrei hann sjálfur. Viðmælendur Egils gátu treyst því að málflutningur þeirra kæmist óbrenglaður til skila í hendur lesandans og yrði jafnvel heillegri í hans meðförum, þótt ekki gæti hann gert vondan málstað góðan. Egill tranaði sér ekki fram í fréttaskrifum, en hann var ekki skoðanalaus. Hann skrifaði pistla í blaðið þar sem hann nýtti sér sagnfræðina. Þegar hann skrifaði pistil um Evrópusam- bandið og þjóðaratkvæði hófst lesturinn á vísun í að umræður um aðild hefðu hafist í tíð Viðreisnarstjórnarinnar, sem sat 1959 til 1971. Í þessum skrifum sáust einnig rætur hans í sveit- inni og gagnrýndi hann á einum stað þá stjórnmálamenn, sem vildu ráða hvað bú væru stór og hvernig kýr væru í fjósum. Þeir mæltu ekki aðeins fyrir „gamla kotbúskapnum“ heldur eyði- legðu „fyrir framtíðarmöguleikum landbúnaðarins“. Egill var frábær félagi, fróður og ráðagóður; fyndinn og skemmtilegur. Það er hægt að raða upp orðum, en þau verða alltaf of fátækleg til að gera Agli skil. Egill kom til starfa á Morgunblaðinu 1993 og hafði áður verið á Tímanum. Hann var sagnfræðingur, hafði góða þekkingu á ís- lensku samfélagi og var vel heima í heimsmálum. Hann hafði því góða undirstöðu, sama hvar borið var niður. Staðgóð þekk- ing hans kom honum vel í starfi og var ekki síður akkur fyrir Morgunblaðið. Egill var einn af burðarásunum á ritstjórn Morgunblaðsins og mbl.is. Í erfiðum málum er fréttaflutningur undir smásjá, hvort sem hamfarir eru af völdum náttúru eða í pólitík. Það var gott að vita að Egill var með málið á sinni könnu þegar mikið lá við. Sagt er að í dagblöðunum sé fyrsta uppkastið að sögunni skráð. Þegar farið er í gegnum fréttaflutning Morgunblaðsins og mbl.is af atgangi undanfarinna ára er nafn Egils eins og rauður þráður. Fyrsta uppkastið gat ekki verið í betri höndum. Það er erfitt að sjá á eftir Agli Ólafssyni. Þegar hann féll frá var hann í leyfi og vann við ritun sögu Borgarness. Það verk var langt komið og hillti undir að blaðið fengi að njóta óspilltra krafta hans á ný. Fráfall Egils er áfall fyrir félaga hans og sam- starfsmenn á Morgunblaðinu og verður hans sárt saknað. Morgunblaðið þakkar Agli traust og farsælt samstarf og vin- áttu og sendir fjölskyldu hans innilegar samúðarkveðjur. Karl Blöndal, aðstoðarritstjóri. Morgunblaðið/Heiddi Egill Ólafsson var fréttastjóri Morgunblaðsins á árunum 2008-2009. Hér má sjá hann sýna nýjum eiganda og útgefanda, Óskari Magnússyni, hvernig vinnsla Morgunblaðsins gengur fyrir sig. Ingólfur K. Þorsteinsson og Sunna Ósk Logadóttir fylgjast með. Fréttin alltaf í forgrunni eins og klettur með hljóðlátri nærveru þinni. Þú varst alltaf svo góður við mömmu og pabba og óendanlega rausnarlegur á tímann þinn. Þú tókst þátt í lífinu af fullum krafti, varst hógvær og falleg manneskja. Þú munt veita mér innblástur um ókomna tíð. Ég mun setja svolítið meiri Egil inn í mitt daglegt líf. Guð veiti Unni, Ólafi, Urði, mömmu, pabba, systkinum og öllum sem elskuðu Egil styrk. Elsku Egill, hvíl þú í friði. Hanna systir. Að skrifa minningargrein um Egil er erfitt og skrýtið. Tilhugs- unin um að sjá hann ekki aftur er ólýsanlega sár. Maður skilur ekki guð að hafa tekið hann frá okkur. Hann sem var í blóma lífs- ins og við vissum ekki betur en hann væri frískur. Hann sofnaði að kvöldi heima hjá foreldrum okkar og vaknaði ekki aftur. Egill var óeigingjarn og hjálp- samur. Hann hjálpaði foreldrum okkar oft við heyskap og annað sem þurfti að gera í búskapnum. Í mörg ár sá hann um að bera skít á túnin, kappið var stundum svo mikið að þegar rennslið var orðið minna úr haughúsinu fór hann ofan í það og mokaði upp úr, ofan í skítadreifarann. Hann hjálpaði okkur mikið í haust þeg- ar við fluttum á Akranes. Hann kom og málaði með okkur og hjálpaði við að flytja búslóðina. Við hjónin skruppum eina viku utan í vetur, hann kom heim til okkar og passaði börnin. Hann hringdi oft í mig bara til að spjalla, ég á eftir að sakna þess. Hann var metnaðargjarn, hann hvatti alla til að ganga menntaveginn. Enska var ekki mín sterkasta hlið. Ég fór 16 ára í enskuskóla til Bretlands. Hann fór með mér út svo að litla systir hans myndi ekki týnast á leið- inni. Mikinn stuðning fékk ég frá honum í framhaldsskóla. Ég lenti í kennaraverkfalli, þegar það leystist þurfti ég að skila verk- efni í sagnfræði. Má segja að Eg- ill hafi gert verkefnið fyrir mig og fékk ég mjög góða einkunn. Hann sagði mér seinna að hann hefði hitt kennarann minn og hún hefði hrósað mér fyrir vel unnið verkefni. Egill var sparsamur og nægjusamur, fannst mjög óskyn- samlegt að taka lán fyrir hlutum. Hann var nýtinn. Þegar Ólafur var nýfæddur man ég eftir hon- um sitjandi með hann í fanginu og segja „þú átt alltaf að byrja á að borða endana á brauðinu“. Fyrir ferðalagið þeirra Urðar til Asíu í fyrra hreykti hann sér af að hafa fengið farmiða á góðu verði með Malaysia Airlines og glotti, en það var eftir að flugvél frá þeim týndist. Ég hitti hann í London þegar þau voru að leggja af stað í þessa ævintýraför. Þeg- ar ég kvaddi þau fékk ég pínu hnút í magann því hann Egill átti það til að taka sénsa. Ég man að okkur systrum fannst að hann hefði átt að fá sér t.d. lyf við mal- aríu. Allt gekk vel hjá þeim, kannski voru þetta óþarfa áhyggjur hjá mér. Hann tók saman sögu forfeðra okkar sem gaman var að heyra hann segja frá. Fyrir sex árum kom hann að skipulagningu ætt- armóts, farið var í hópferð um æskustöðvar ömmu og afa þar sem hann veitti leiðsögn. Síðasta ár var hann að skrifa bók um sögu Borgarness og átti það verkefni hug hans allan. Hann þurfti oft að fara í Borgarnes til að finna heimildir fyrir bókina. Þá gisti hann hjá foreldrum okk- ar, ég veit að það gaf þeim mikið, það stytti stundirnar fyrir þau, svo fengu þau að fylgjast með verkinu. Elsku Egill, ég á eftir að sakna þín. Þú varst góð fyrir- mynd. Þú varst úrræðagóður og gott var að leita til þín. Ég er svo þakklát fyrir að hafa átt þig sem bróður, þakklát fyrir allar stund- irnar sem við áttum saman, þakklát fyrir alla hjálpina og stuðninginn. Hvíldu í friði. Hrafnhildur. Yndislegur tengdasonur okk- ar, Egill Ólafsson, hefur kvatt þessa jarðvist langt um aldur fram, aðeins 52ja ára. Hann kom inn í líf okkar árið 1988 þegar eldri dóttir okkar kom með hann í matarboð til okkar í fyrsta sinn. Frá þeirri stundu hefur hann verið sem einn af fjölskyldunni, öllum afar kær, jafnt ungum sem öldnum. Greiðviknari maður var vandfundinn, ávallt reiðubúinn þar sem þörf var á og alltaf sama hlýjan sem stafaði frá honum. Við eigum margar frábærar minningar frá samverustundum okkar öll þessi ár, sem við mun- um varðveita sem dýrmætan fjársjóð sem aldrei fyrnist. Far þú í friði, friður Guðs þig blessi, hafðu þökk fyrir allt og allt. (V.Briem) Þínir tengdaforeldrar, Aðalbjörg og Lárus. Ekki sá ég fyrir að símtal sem ég fékk miðvikudagsmorguninn 28. janúar síðastliðinn yrði þess efnis að Egill frændi minn frá Hundastapa væri látinn. Fregnin var reiðarslag, þruma úr heið- skíru lofti, enda frændi í blóma lífsins. Enn og aftur er maður minntur á hve tilveran er fallvölt. Egill var afskaplega vel gerð- ur og góður maður. Erfitt er því að sjá á eftir honum. Egill kom mér fyrir sjónir sem hógvær og rólynd manneskja. Hann var bráðskarpur og vinnusamur og einnig, þegar sá gállinn var á honum, hinn mesti húmoristi. Ég vona að sem flestir hafi fengið að sjá og kynnast þeirri hlið á hon- um. Egill hafði einlægan áhuga á þjóðmálum og sem slíkur var hann réttur maður á réttum stað sem blaðamaður. Hann hafði yndi af sagnfræði og skiptumst við frændurnir oft á skoðunum um alls kyns sagnfræðileg álita- efni þegar fundum okkar bar saman. Þeir urðu nokkrir í seinni tíð, sérstaklega eftir að Egill tók að sér að skrifa sögu Borgarness í upphafi síðasta árs. Hittumst við oftar en ekki í eldhúskrókn- um á heimili foreldra hans, þeirra Óla og Lóu, eða í hádeg- ismat í höfuðborginni. Leyfði hann mér að fylgjast með fram- vindu mála í sögurituninni og var ekki annað að sjá en að þar væri í byggingu sannkölluð völundar- smíð sem Borgnesingar og nær- sveitarmenn yrðu stoltir af. Egill var næstelstur af okkur barnabörnum þeirra sómahjóna Egils Pálssonar og Jóhönnu Lind í Borgarnesi. Ég veit að Agli þótti afar vænt um ömmu sína og afa og reyndust þau hon- um miklar fyrirmyndir. Egill lagði aðdáunarverða ræktarsemi í að safna upplýsingum um ævi og uppruna ömmu og afa en þeim fróðleik miðlaði hann eftirminni- lega á ættarmótinu góða sumarið 2009 og sömuleiðis þegar aldar- afmælis afa var minnst með sýn- ingu og dagskrá í Safnahúsi Borgarfjarðar haustið 2012. Framtakið gerir það að verkum að ættmenni hans öll þekkja upp- runa sinn betur og fyrir það ber að þakka Agli. Minningin um Egil frænda er björt. Hún mun lifa með okkur sem fengum að kynnast þessum sómamanni. Blessuð sé minning Egils. Heiðar Lind Hansson. Minning þín er mér ei gleymd; mína sál þú gladdir; innst í hjarta hún er geymd, þú heilsaðir mér og kvaddir. (Káinn) Kær vinur er fallinn frá. Ég kynntist Agli fyrir 27 árum þeg- ar hann og Unnur Björk, frænka mín og vinkona, voru að draga sig saman. Það var auðvelt að láta sér líka við Egil, hann hafði góða nærveru og gat talað við alla um allt. Hann var skemmti- legur, viskubrunnur, framtaks- samur, fjölskyldumaður fram í fingurgóma, liðtækur við heim- ilisstörfin og alltaf boðinn og bú- inn ef einhver þarfnaðist hjálpar. Fjölskyldur okkar hafa verið nánar í gegnum tíðina og margar heimsóknir, matarboð og ferða- lög að baki. Alltaf í uppáhaldi hjá börnun- um mínum að ferðast með þeim þar sem margt var framkvæmt og ekki ónýtt að fá fróðleiksmola frá þeim hjónum um hitt og þetta sem tengdist ferðaleiðum og áfangastöðum. Það er fráleitt að hugsa til þess að þau detti ekki saman inn um dyrnar hjá mér, þiggi kaffibolla og spjalli um alla heima og geima og Borgarnes að sjálfsögðu. Og að eiga ekki eftir að taka eins og eitt skrafl með honum, Öllu og Urði. Lífið tekur stund- um óvænta stefnu fyrirvaralaust. Ég er þakklát fyrir að hafa kynnst Agli og átt hann að vini. Það er mannbætandi að umgang- ast hans líka. Ingunn Steingrímsdóttir. Nokkrum sinnum á lífsleiðinni hef ég kynnst fólki sem er allt í senn: Ljúft, gefandi, hvetjandi, traust og heiðarlegt. Hann Egill minn var sannar- lega í þessum hópi. Og svo ótal margt annað. Við sátum hlið við hlið mán- uðum saman er við vorum frétta- stjórar Morgunblaðsins. Mörg- um sinnum á dag þurfti ég að leita ráða hjá honum og alltaf hlustaði hann og aðstoðaði mig, af sinni miklu yfirvegun, réttsýni og útsjónarsemi. Hann var því einstakur samstarfsmaður en einnig áreiðanlegur vinur. Á ög- urstundu, þegar ég þurfti á því að halda, stóð hann eins og klett- ur mér við hlið og stappaði í mig stálinu. Egill var framúrskarandi blaðamaður. Hann hafði yfir- gripsmikla þekkingu á ótrúleg- ustu málum og naut þess að miðla af henni til lesenda og sam- starfsmanna. Hann var því læri- faðir margra yngri blaðamanna og er ég ein af þeim heppnu sem nutu leiðsagnar hans. Af honum lærði ég því mikið. Hann Egill var líka svo skemmtilegur. Hann átti það til að byrja að hristast úr hlátri, stundum að því er virtist upp úr þurru. Þá loguðu augu hans af glettni og kátínu. „Ætli maður þurfi ekki að byrja á Facebook,“ sagði Egill eitt sinn við mig, íbygginn á svip. Það var að minn- ir mig í lok árs 2013. Og þegar Egill fór loks á Facebook varð ekki aftur snúið. Í hverri færsl- unni eftir aðra skein húmorinn í gegn. Það var nokkur sárabót fyrir okkur samstarfsfélagana á mbl.is að fylgjast með Agli á Facebook því hann var þá byrj- aður að skrifa sögu Borgarness og í leyfi frá störfum. En hann lofaði að koma aftur til okkar. Hjartans Egill minn. Kæri vinur. Takk fyrir allt. Ég sendi mínar dýpstu og innilegustu samúðarkveðjur til Unnar, Ólafs, Urðar og annarra ástvina. Sunna Ósk Logadóttir. Traustur, réttsýnn, heiðarleg- ur, víðlesinn og umfram allt góð- ur félagi. Þetta eru orð sem komu upp í hugann við fráfall góðs félaga, Egils Ólafssonar. Við vorum samstarfsmenn í rúm átján ár á Morgunblaðinu og mbl.is og aldrei bar þar skugga á. Það var alltaf gott að leita til Egils varðandi hin ýmsu mál og ef efi kom upp hjá manni varð- andi frétt og orðalag sem unnið var að þá var hann alltaf boðinn og búinn til þess að gefa góð ráð og hikaði ekki við að gagnrýna það sem betur mátti fara. Eftir að breytingar voru gerð- ar á ritstjórn mbl.is fyrir þremur árum varð samstarf okkar nán- ara enda ekki stór hópur á rit- stjórn mbl.is en á sama tíma samheldinn hópur. Egill var reynsluboltinn í hópnum og í raun sama hvert viðfangsefnið var – hann leysti það. Þar skipti engu hvort það var að skrifa fréttir úr Landsdómi, erfiðar kjaraviðræður, gena- mengi Ríkharðs III eða heimilis- ofbeldi. Alltaf sinnti Egill starfi sínu af ástríðu og heiðarleika. Egill fór allt of fljótt frá okkur og hans er sárt saknað. Söknuð- urinn er þó mestur hjá Unni, eig- inkonu hans, og börnum þeirra, Ólafi og Urði. Ég kveð góðan vinnufélaga og vin og votta fjöl- skyldu hans samúð mína. Guðrún Hálfdánardóttir. Í febrúar árið 2012 var stofnað sérstakt fréttamannateymi fyrir mbl.is. Egill var frá upphafi liðs- maður þess. Við vissum öll að hann væri mikill reynslubolti, hugmyndaríkur og vel að sér í mörgum málum og reiddum okk- ur á ráðleggingar hans um hvernig best væri að taka á hlut- SJÁ SÍÐU 26

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.