Morgunblaðið - Sunnudagur - 08.02.2015, Qupperneq 50
H
ún hefur ferðast mikið um
landið og hefur brennandi
áhuga á íslenskri náttúru
og umgengni við hana. Þess
vegna lá beint við að
Magnea Magnúsdóttir ritaði sig inn í land-
græðslufræði í Landbúnaðarháskóla Ís-
lands. Nám sem hún lauk með meistara-
gráðu árið 2013.
Landgræðslufræði er tiltölulega ný
fræðigrein í heiminum þrátt fyrir að Ís-
lendingar hafi stundað landgræðslu með
góðum árangri um áraraðir m.a. til að
hefta jarðvegseyðingu og græða upp beit-
arhaga og búi yfir mikilli þekkingu á
þessu sviði. Menntaðir landgræðslufræð-
ingar hér á landi eru teljandi á fingrum
annarrar handar, að sögn Magneu. Hún
spáir því þó að þeim muni fjölga jafnt og
þétt á næstu árum enda verkefnin ærin og
áhuginn greinilega að aukast.
Landgræðslufræði snúast um aðferðir við
að endurheimta fyrri landgæði, það er að
segja gróður sem horfið hefur vegna rasks
af einhverjum sökum, svo sem vegna fram-
kvæmda. Á heiðum er það til dæmis mosi,
lyng, birkikjarr eða hvaða gróður sem var
þar fyrir. „Aðferðirnar sem notaðar eru
nýtast líka vel í þéttbýlinu, vilji menn lág-
marka umhirðu á svæðum. Vera þá með
gróður sem ekki þarf að sinna mikið, svo
sem mosa sem ekki þarf að klippa,“ segir
Magnea.
Skógfræðingur hafði umsjón með land-
græðslumálum hjá Orkuveitu Reykjavíkur
áður en Magnea kom til starfa fyrir þrem-
ur árum. „Hún var að gera mjög góða
hluti en þegar hún réði sig í aðra vinnu
var hringt í mig. Ég var þá að vinna að
mastersverkefninu mínu uppi á Hellisheiði,
í kringum virkjunina, og Orkuveitan vissi
af mér. Aðstoðaði mig raunar og styrkti
verkefnið. Segja má að ég hafi verið grip-
in á heiðinni.“
Hún hlær.
Bæði áhugi og vilji
Magnea segir Orkuveituna lengi hafa haft
mikinn áhuga á landgræðslu; það er að
laga til eftir sig, og segir fleiri fyrirtæki
geta tekið hana sér til fyrirmyndar. „Hér
er ekki bara áhugi, heldur líka vilji til að
gera vel í þessum efnum og það var al-
gjör draumur fyrir mig að fá starf þar
sem menntun mín nýtist svona vel. Hér er
ég með stóran leikvöll til að þróa mínar
aðferðir. Það er þörf fyrir fólk með þessa
menntun og þekkingu enda er Ísland mjög
raskað land. Bæði eftir beitarálag, fram-
kvæmdir og ferðamenn. Það er mikilvægt
fyrir okkur Íslendinga að gera okkur grein
fyrir því að við eigum ekki endalausa villta
náttúru. Við þurfum að passa upp á hana.“
Eftir að Orka náttúrunnar, ON, var sett
á laggirnar í fyrra færðist Magnea þangað
og ber nú starfstitilinn landgræðslustjóri
ON. Hún segir þetta rökrétt enda rík
áhersla á umhverfismál hjá ON. „Áhuginn
á landgræðslu er samt mjög almennur inn-
an samstæðunnar. Veituhluti Orkuveitunnar
er til dæmis í allskonar verkefnum sem
tengjast landgræðslu og ég hef verið að
ráðleggja þeim. Landgræðsla tengist að
sjálfsögðu vatnsbúskap mjög náið enda
allra hagur að hann sé sem heilbrigð-
astur.“
Mikið á vettvangi
Auk landgræðslu er Magnea með umhverf-
is og öryggismál virkjana ON á sinni
könnu. Hún er mikið á vettvangi að gera
tilraunir og fylgjast með framgangi mála.
Hún er bæði með starfsaðstöðu í höf-
uðstöðvum ON á Bæjarhálsi og í Hellis-
heiðarvirkjun. Á sumrin bætist henni góð-
ur liðsauki sumarstarfsmanna sem sinna
ýmsum verkefnum undir handleiðslu Magn-
eu.
Áhuginn er víðar en á Bæjarhálsinum.
Magnea hélt fyrirlestur um árangurinn af
sínu starfi á vorfundi Samorku í fyrra og
fékk mikil viðbrögð. Var spurð spjörunum
úr. „Fólk sýndi þessu ósvikinn áhuga sem
er mjög ánægjulegt.“
Spurð um brýn verkefni segir hún að
breyta þurfi nálguninni við uppgræðslu og
frágang gróðurs vegna framkvæmda.
Grasfræ hafi langmest verið notuð til
þessa. „Aðallega hafa verið notaðar fræ-
blöndur erlendra grasfræja sem dreift hef-
ur verið. Það þýðir aðnáttúrulegur gróður
svæðanna er ekki alltaf endurheimtur.
Möguleikarnir eru mun fleiri og þekkingin
stöðugt að aukast. Dæmi um aðferðir til
að endurheimta náttúrlegan gróður eru
fræslægja, mosadreifing og flutningur á
gróðurtorfum. Þegar byrjað er á fram-
kvæmdum er allur gróðurinn til staðar,
þetta er bara spurning um að halda upp á
hann. Taka hann til hliðar og geyma svo
hægt sé að setja hann aftur yfir þegar
framkvæmdum er lokið. Orka náttúrunnar
hefur verið dugleg við þetta og á allskyns
gróður og undirlag á lager. Eins og hraun
og mosa.“
Mikilvægt að búa sér í haginn
Þess má til gamans geta að á síðasta ári
greiddi Orka náttúrunnar björgunarsveitum
fyrir að tína mosa ofan af svæði sem fara
átti undir framkvæmdir og koma honum
fyrir í frystigámi, þar sem um tvö hundr-
uð fermetrar af mosa bíða átekta til vors-
ins. Munu þá koma í góðar þarfir. „Það er
mikilvægt að búa sér í haginn. Afganginn,
sem ekki komst í gáminn, lögðum við í
gjallhól sem útbúinn var á einu af bor-
plönum okkar. Vonandi verður kominn þar
fallegur hraunhóll eftir nokkur ár,“ segir
Magnea.
Stærsta verkefnið sem hún vinnur að
um þessar mundir tengist framkvæmdum
við svonefnda Hverahlíðarlögn. „Orka nátt-
urunnar er að leggja lögn frá holum í
Hverahlíð, sem boraðar voru fyrir nokkr-
um árum, og er ætlunin að nýta gufuna í
Hellisheiðarvirkjun. Þetta verkefni er í
miðjum klíðum og ég sé um bæði um-
hverfis- og öryggismálin enda leggjum við
árherslu á að lágmarka sýnileika lagn-
arinnar og ganga vel frá umhverfi.“
Eitt af hlutverkum hennar er að taka
alla verktaka, sem koma að jarðvinnu á
svæðinu, í umhverfisfræðslu. Kenna þeim
að taka upp gróðurinn og þar fram eftir
götunum. „Það er nýtt verklag hjá Orku
náttúrunnar og Orkuveitunni og við setjum
það sem skilyrði að allur gróður sé tekinn
upp og hann nýttur í frágang. Verktakar
hafa tekið þessu mjög vel og sýnt málinu
áhuga. Sumir hafa meira að segja gert
eitthvað svipað við sumarbústaðina sína.
Öll reynsla nýtist í þessum verkefnum.“
Kunna á gröfurnar sínar
Árstíminn skiptir vitaskuld máli í þessum
efnum og Magnea viðurkennir að erfiðara
sé að varðveita gróður sem fjarlægður er
um miðjan vetur eins og í sumum tilfellum
í Hverahlíðarverkefninu. „Það segir sig
sjálft að auðveldara er að gera þetta að
sumri en menn gera samt sem áður sitt
besta. Þeir eru ótrúlega seigir þessi verk-
takar. Kunna á gröfurnar sínar.“
Mesta furða er, að sögn Magneu, hversu
vel hefur gengið að ná mosanum upp í
frostinu og snjónum.
Meðfram framkvæmdum vinnur Magnea
að rannsóknum og gerir tilraunir. Lengi
má nefnilega gott bæta. „Það er skilningur
fyrir því að við þurfum að fikra okkur
áfram með þessi fræði og þróa aðferðir.
Þess vegna gef ég mér tíma til að sinna
rannsóknum.“
Gripin á heiðinni
ORKA NÁTTÚRUNNAR, DÓTTURFYRIRTÆKI ORKUVEITU REYKJAVÍKUR, LEGGUR METNAÐ Í AÐ ENDURHEIMTA
GRÓÐUR Á FRAMKVÆMDASVÆÐUM MEÐ GÓÐUM ÁRANGRI, SVO SEM SJÁ MÁ Á LJÓSMYNDUM HÉR Á OPN-
UNNI. VERKEFNINU ER STÝRT AF MAGNEU MAGNÚSDÓTTUR, EINUM AF SÁRAFÁUM LANDGRÆÐSLUFRÆÐ-
INGUM Á ÍSLANDI. UM ER AÐ RÆÐA NÝJA FRÆÐIGREIN SEM NÝTUR VAXANDI HYLLI Í HEIMINUM.
Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is
Raskað svæði við Hellisheiðarvirkjun sumarið 2012. Sama svæði sumarið 2014 tveimur árum eftir að fræslægju af Hellisheiði var dreift yfir.
Landgræðsla
50 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 8.2. 2015