Húnavaka - 01.05.1967, Blaðsíða 46
44
HÚNAVAKA
um í dalnum, Bakkaseli. Þar var ég kunnugur og vissi að ég fengi
sannar fréttir að heiman. Mér hafði hitnað í hamsi við að heyra
skógarhöggsmanninn segja hin válegu tíðindi svo gleiðgosalega. Það
var sem við rynnum á hröðum flótta undan svæsnum óvinum niður
brekkurnar heim að Bakkaseli. Þar var okkur vel fagnað og þar fékk
ég sannar fregnir af ástandinu heima. Bræður mínir höfðu veikzt af
kíghósta, sem þá var að ganga, og orðið allmikið veikir, en ekki tald-
ir í lífshættu lengur. Þessir bræður mínir voru yngri en ég, annar
á sextánda ári, en hinn á tíunda, báðir mjög efnilegir.
Þegar ég kom loks alla leið heim á hlaðið í Brekku, var heldur
kuldalegt um að litast, mannhæðardjúp snjógöng voru frá bæjar-
dyrum upp á fanndyngjuna og hvergi sást á dökkan díl, nema kletta-
rið í hlíðum fjallanna. Út í göngin heyrði ég hóstahrynurnar og sog-
íð í eldri bróður mínum. Á eftir var bölvað hressilega og síðan
hlegið. Varð mér þá strax hugarhægra og fannst ekkert dauðahljóð
í drengnum. Enda reyndist það svo, — og hinn orðhvati fréttamaður
frá Kirkjubóli hafði lítið vitað hvað hann var að segja. Bræðurnir
voru ekki í neinni lífshættu, þó að hóstakviðurnar væru slæmar enn
þá. Þeim fór dagbatnandi þegar fram á vorið kom, en kenndu þó
hóstans af og til fram undir göngur um haustið.
Margt benti til að ]:>essi harði vetur og vor hefði sorfið fast að
fólkinu heima og bar faðir minn, blessaður, þess glögg merki. Hann
hafði staðið yfir fénu upp á síðkastið, langt frá bæ, handan við háls,
á svo nefndum Vatnadal, en það er í Laugabóls- og Arngerðareyrar-
landi. Þarna hafði verið nokkur beit fyrir kindurnar. Allir hrædd-
ust heyleysi, sem ekki var að ástæðulausu, í slíku árferði, — og kom-
ið nokkuð fram í maí. Það bjargaðist þó allt betur en á horfði.
Daginn eftir, 9. maí, fylgdi ég skólabróður mínum niður að Arn-
gerðareyri, en þá átti Djúpbáturinn að fara þaðan til Isafjarðar.
Þetta var áttundi dagurinn frá því við lögðum upp frá Hvanneyri.
Leiðin milli Brekku og Arngerðareyrar er um klukkustundar gang-
ur. Þar er landið óslétt og klettótt og því sjaldan hægt að koma sleða
við, en þennan vetur og vor var sleðafæri alltaf hið ákjósanlegasta
og hélzt það í hálfan mánuð eftir þetta, eða fram yfir 20. maí.
Svona var það vorið 1920. Ferðasagan er ekki lengri. Báðir þessir
skólabræður mínir, sem gengu þessa leið með mér, hafa nú safnazt
til feðra sinna fyrir alllöngu. Blessuð sé minning þeirra.