Húnavaka - 01.05.1967, Blaðsíða 77
HÚNAVAKA
75
í stormi og töluverðum sjógangi, að ég var smeikur um að sundið
mundi orðið ót'ært, svo að ég spurði einn hásetann, roskinn mann,
sem var mér næstur, hvort hann héldi sundið orðið ófært skipum.
Hann leit ekki upp frá verki sínu, hefir sjálfsagt getið sér til, að
kjarkur minn þá væri í minna lagi, og svaraði: „Meðan Þorbjörn
hverfur ekki alveg, þegar við förum ofán í öldudalina, er öllu óhætt,
drengur minn.“ Þorbjörn er fjall ofan við Grindavík.
Eitt sinn var ég sendur vestur í Járngerðarstaðahverfi og átti að
sækja vörur í verzlun Einars Einarssonar kaupmanns. Þegar vestur í
hverfið kom, mætti ég rnanni, er ég spurði að hvar verzlunarhús
Einars kaupmanns væri. Hann svaraði um leið og hann spyrnti
vinstra fæti aftur fyrir sig: ,,Þarna taka þeir nú sína peninga." Mér
lannst þetta vera sérkennilega sagt til vegar, en ég lét mér samt að
kenningu verða og fór í þá átt, sem maðurinn spyrnti fæti, og fann
brátt verzlunarhúsið. Grindvíkingar áttu það til að vera gaman-
samir.
Það voru gerð 24 skip út frá Grindavík, þessa vertíð. Minnst var
útgerðin í Staðarhverfinu, sem er vestast. En mest í miðhverfinu,
Járngerðastaða, en Þórkötlustaðahverfið austast. Nú leið að loka-
degi, 11. maí, og virtist mér hann öllum kærkominn. Aðkomumenn
þrá að komast heim, og það ég vissi til var gæfan svo hliðholl, að
sjómönnunum auðnaðist að ljúka vertíðinni, með lífi og heilsu.
Tókum við saman farangur okkar, lcigðum helsingjapokana á
herðar, eftir að hafa fengið kaupið okkar, náðum til Reykjavíkur
um kvöldið. Eftir sólarhrings dvöl í Reykjavík stigum við um borð í
Ingólf. Veður var ágætt, sléttur sjór. Allir virtust í léttu skapi og
sungið var: Sjá roðann á hnjúkunum háu, Bára blá, o. s. frv. Eftir
nokkra klukkutíma stigum við á land í Borgarnesi og gengum upp
að Galtarholti um kvöldið. Næsta dag að Sveinatungu. Daginn eftir
yfir Holtavörðuheiði, — var hún nú greiðfærari en á suðurleið, og
út að Reykjum í Hrútafirði. Næsta dag að Lækjamóti. Fórum það-
an snemma morgun, sem var 17. maí og náðum heim að kvöldi þess
dags.
Þegar ég gekk heim túnið á Vindhæli, og þessu ferðalagi var að
Ijúka, minnist ég orða móður minnar, sem að hún kvaddi mig með,
þegar ég lagði af stað í þetta ferðalag. — Þessara orða: „Guð styðji
þig og styrki.“ Þá fann ég það glöggt að bæn hennar hafði verið
lieyrð. — Ég var kominn heim heill og glaður.