Bókasafnið - 01.05.2012, Page 51
51
Eigendur fágætra handrita og bóka hafa frá örófi alda gætt
þeirra sem sjáaldurs augna sinna. Það sætir því engri furðu
að snemma hafi menn reynt að merkja sér þessi djásn, og
má nefna að í virtum söfnum á borð við British Museum,
Louvre og Yale University Gallery er að finna smágerðar
glerungshúðaðar plötur af egypskum uppruna, frá því um
1400 fyrir Krist, sem festar voru við papírushandrit, og er ritað
á þær að þær tilheyri bókasafni faraóans Amenhóteps III.
Segja má að um sé að ræða elstu bókamerki sögunnar, eða Ex
libris. Allar götur síðan eru þekkt dæmi um að höfðingjar hafi
látið mála skjaldarmerki sín inn í dýrmæt handrit í von um að
fyrirbyggja þjófnað.
Upphaf bókamerkja í nútímaskilningi má hins vegar rekja
til fyrri hluta fram að miðbiki 15. aldar, og hefur tímabilið 1440-
1450 verið nefnt í því sambandi. Er þá horft til þess að um það
leyti litu dagsins ljós nokkur bókamerki í norðanverðri Evrópu,
sum handmáluð en önnur skorin í tré. Í síðarnefnda flokkinn
fellur elsta bókamerkið sem vitað er um, merki Þjóðverjans
Johannesar Knabensberg, einkaprests Schönstett-ættarinnar.
Knabensberg var kallaður Igler, sem þýðir broddgöltur á þýsku,
og lét hann gera sér bókamerki er sýnir broddgölt í lágu grasi
og þar fyrir ofan er áletrun: „Hans Igler að broddgölturinn megi
kyssa þig.“ Má að líkindum lesa úr þessu einhverja hótun til
handa fingralöngum, enda broddarnir hvassir. Er bókamerkið
talið frá því um 1450.
Aðrir telja að eitt fyrsta bókamerkið hafi tilheyrt munkinum
Hildibrandi (eða Hilprand) Brandenburg, kenndum við
Sindri Freysson
EX LIBRIS
„Hver sá er stelur þessari bók lokar hliðum Himnaríkis“
Biberach, sem gaf klaustri karþúsareglunnar í Buxheim í
Bæjaralandi bókasafn sitt og þar á meðal bókamerki, skorin
í tré og handmáluð eftir þrykkingu, er talin eru frá 1470-
1480. Bókamerki Brandenburgs er af ætt skjaldarmerkja.
Meðfylgjandi var ritað eigin hendi staðfesting þess að
hann gæfi bókasafninu bækurnar og bað hann lesandann
um að biðja fyrir sálu hans og þeim sem stóluðu á hann.
Einnig má nefna bókamerki eignað Wilhelm von Zell frá
svipuðum tíma, og merki eignuð kirkjunnar manni að nafni
Jakob Hainrichmann, en það er handmáluð tréstunga með
stöfunum S.M.C, eða Spes Mea Christus; Von mín Kristur. Af
þessum dæmum má sjá að lítill vafi leikur á að ex libris-merki
eigi rætur að rekja til Þýskalands.
Gutenberg hóf tilraunir með laust prentletur á fjórða áratug
15. aldar og á árunum 1455-1456 varð fyrsta Gutenberg-
biblían að veruleika, kölluð svo þótt hún væri tæknilega séð
úr smiðju lánadrottins Gutenbergs, Johanns Fust að nafni, og
leturhönnuðar hans, Peters Schoeffer. Eftir það fór prentverk
eins og eldur í sinu um lönd Evrópu með tilheyrandi fjölgun
bókverka. Eigendur sístækkandi bókasafna vildu að vonum
sýna eignarrétt sinn á verkunum og þar eð óheyrilegur
kostnaður var samfara því að láta handmála ex libris merki
inn í hvert eintak, var gripið til þess ráðs að fá listamenn til
að rista mynd – oftast skjaldarmerki ættarinnar – á málm-
eða tréplötu til þrykkingar. Þessi myndmót voru síðan þrykkt
á bækur og handrit. Notkun bókamerkja fékk byr undir
báða vængi þegar lærisveinn Michail Wohgemut (er gerði
sjálfur nokkur merki), hinn hæfileikaríki listamaður Albrecht
Dürer (1471-1528), útbjó tréskurðamyndir í þessu skyni, alls
um tuttugu talsins. Má segja að Dürer hafi lagt línuna fyrir
þróunina í þessum efnum alla tíð síðan. Auk hans má nefna
hóp listamanna er gjarnan var nefndur „Kleinmeistern“, eða
litlu meistararnir, vegna smæðar verka þeirra. Eldri aðferðir
voru hins vegar seinlegar og kostnaðarsamar og síðar meir,
eða á 18. öld, urðu koparstungur allsráðandi og svokallaðar
raderingar, en með aukinni tækniþróun margvíslegar aðrar
aðferðir, svo sem grafík, steinþrykk og prentun og fleiri. Með