Læknablaðið

Volume

Læknablaðið - 01.11.2015, Page 36

Læknablaðið - 01.11.2015, Page 36
536 LÆKNAblaðið 2015/101 U M F J Ö L L U N O G G R E I N A R „Greining lifrarbólgu C hófst hér á Ís- landi árið 1993, en veiran var fyrst greind árið 1989 og skilgreind sem C til aðgreiningar frá A og B lifrarbólguveir- unum sem menn þekktu,“ segir Þórarinn Tyrfingsson yfirlæknir á sjúkrahúsinu Vogi. „Við hjá SÁÁ áttum talsvert magn blóðsýna á Rannsóknarstofu Háskólans í veirufræði þar sem við höfðum haldið uppi reglubundinni skimun fyrir HIV hjá sjúklingum okkar í allmörg ár. Í samvinnu við smitsjúkdómalækna og veirufræðinga Landspítala voru þessi eldri sýni skoðuð til að kortleggja útbreiðslu smits lifrar- bólgu C. Bjarni Þjóðleifsson meltingarsér- fræðingur var sérstakur áhugamaður um þetta mál, einnig Sigurður B. Þorsteinsson smitsjúkdómalæknir og Arhur Löve veiru- fræðingur. Það kom snemma í ljós að þeir sem voru fyrst og fremst smitaðir höfðu sprautað sig í æð með fíkniefnum. Aðrar smitleiðir eru fremur fátíðar, smit með blóðgjöfum er vel þekkt erlendis en sjaldgæft hér og hættan á að smitast vegna nálarstunguslyss er í rauninni mjög lítil þó mikið sé gjarnan gert úr þeirri hættu. En þarna stóðum við frammi fyrir því að það er töluverður hópur fólks í þjóð- félaginu sem hefur sprautað sig innan við 10 sinnum á ævinni og er í rauninni allt öðruvísi samsettur hópur en sá sem skilgreindur er sem sprautufíklar. Úti í samfélaginu var sem sagt stór hópur af ungu fólki sem hafði smitast af lifrarbólgu C en enginn leit á sem sprautufíkla, þó það hefði stundað þann hættulega leik að sprauta sig með fíkniefni í hita leiksins í fáein skipti. Við hjá sjúkra- húsinu Vogi höfum frá árinu 1983 haldið skrá yfir blóðskimun allra sem hér hafa komið til meðferðar og sprautað sig í æð einu sinni eða oftar. Þetta er sambærilegur grunnur og krabbameinsskrá Krabbameinsfélagsins og algjör forsenda þess að hægt sé að ná til fíklanna sem hafa sýkst af veirunni. Tölu- vert margir losa sig við veiruna af sjálfs- dáðum með tímanum en það er mikilvægt að átta sig á því að líkaminn byggir ekki upp ónæmi fyrir lifrarbólgu C, það er því hægt að sýkjast aftur. Ef við ætlum að ná því markmiði að meðhöndla alla sem hafa greinst með smit verðum við að fara í gagnagrunninn okkar og finna þessa ein- staklinga.“ Þórarinn lýsir því að engin lyf hafi verið til sem gerðu læknavísindunum kleift að stöðva útbreiðslu smitsins, heldur hafi meðferð miðast við að koma í veg fyrir alvarlega fylgikvilla. „Þetta var löng og erfið lyfjameðferð og árangurinn var um 70% þegar best lét. Með nýju lyfj- unum er nálgun okkar að sjúkdómnum allt önnur. Nú gefst tækifæri til að ráðast að veirunni í blóðinu og stöðva með því veirusýkinguna og koma í veg fyrir að sjúklingur smiti útfrá sér. Þetta er allt önn- ur hugsun. Menn eru ekki búnir að full- móta hugmyndir sínar um þetta enda er málið vandmeðfarið, nýju lyfin eru mjög dýr og þá kviknar umræðan um hverjir eigi að fá lyfin og svo framvegis. Við erum svo heppin að þurfa ekki að fara í þessa umræðu þar sem lyfjafyrirtækið sem um ræðir leggur til lyfin öllum að kostnaðar- lausu og því getum við meðhöndlað alla sem eru smitaðir.“ Spyrja má hvað lyfjafyrirtækinu gangi til að gefa lyf að andvirði 10 milljarða króna í þetta verkefni en Þórarinn segir það mjög skiljanlegt. „Ef þetta tekst hjá okkur opnast gríðarlega stórir markaðir fyrir þessi lyf í öðrum löndum. Upp- hæðin sem lyfið kostar hér eru smámunir í samanburði við hvað myndi kosta að fjár- magna lyfjagjöf í stærri samfélögum. Með því opnast möguleikinn að meðhöndla smitsjúkdóminn áður en fylgikvillar koma fram og uppræta smitið en það sparar samfélaginu mun hærri fjárhæðir en lyfin kosta. Þetta er því hreinn og klár biss- ness fyrir lyfjafyrirtækið, sem kemur sér afskaplega vel fyrir okkur og það er alveg raunhæft að gera ráð fyrir að okkur takist að uppræta sjúkdóminn í samfélaginu okkar á tveimur til þremur árum og það væri sannarlega árangur til að vera stolt af.“ „Raunhæft að uppræta lifrarbólgu C“ – segir Þórarinn Tyrfingsson yfirlæknir SÁÁ

x

Læknablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.