Dagblaðið Vísir - DV - 03.02.2012, Page 28

Dagblaðið Vísir - DV - 03.02.2012, Page 28
28 Viðtal 3.–5. febrúar 2012 Helgarblað Í tveggja hæða reisulegu bárujárns- húsi við Grandaveginn í Reykja- vík tekur Guðrún brosandi á móti blaðamanni. Heimilið er hlýlegt, fallegar myndir og minningar um alla veggi. Guðrún hefur búið hér í yfir þrjátíu ár. Húsið er frekar stórt og þannig vill hún hafa það. „Eftir því sem maður eldist því meira pláss þarf maður,“ segir hún brosandi. „Það er gott að hafa nóg pláss þegar fólk kemur til manns,“ segir hún og býður til sætis. Hún segir frá því að Rakel Mjöll, sonardóttir sín, búi um þessar mundir hjá henni og það gerir líka óperusöngkonan Alexandra sem er góð vinkona Guðrúnar. Hún er bú- sett í Skagafirði en er í skóla í bænum og fær að dvelja hér á virkum dögum. Barnabörnin sem búa í Hafnarfirði fá líka að gista hjá ömmu þegar þau eiga erindi í bæinn og ná ekki síðasta strætisvagni heim. Reyndar hefur fjöldinn allur af fólki fengið inni á Grandaveginum og Guðrún segir það vera mikla bless- un. Það munaði litlu að hún þyrfti að flytja eftir að slitnaði upp úr öðru hjónabandi hennar en Guðrún er þrí- gift. „Ég var alveg viss um að ég myndi missa húsið þá. En það kom í ljós að ég átti rétt á því þar sem ég hafði átt hús þegar við byrjuðum saman. Ég var svo ánægð að ég gaf guði tvö her- bergi hérna uppi hjá mér. Það hefur líka verið mikil blessun því hann hef- ur fært mér mikið af góðum gestum.“ Reyndi að fela gamla pabbann Guðrún ber á borð alls kyns bakkelsi og inn gengur Rakel Mjöll. „Fáðu þér kaffi með okkur,“ segir Guðrún við hana og hún sest niður. Rakel hefur búið hjá ömmu sinni í um það bil ár en flytur bráðum til Berlínar. Frúin skenkir kaffi í bollana og við byrjum að spjalla. Barnæska Guð- rúnar ber fyrst á góma. Æska henn- ar var harla ólík æsku margra. Hún var aðeins þriggja ára þegar móðir hennar lést. Næstu árin bjuggu hún og bróðir hennar hjá hjónum í Graf- arholti. Þau fluttu svo til föður síns á Laugavegi 2 þegar Guðrún var 9 ára og bróðir hennar 11 ára. Faðir þeirra var kominn yfir sextugt þegar systkinin fæddust og því mun eldri en feður flestra annarra barna. „Hann var 63 ára þegar hann átti mig. Þarna er nú mynd af þeim þessum elskum,“ segir Guðrún og bendir á stóra mynd í stofunni, myndin er svarthvít og lík- lega tekin snemma á síðustu öld. „Ég var 9 ára þegar við fluttum til pabba og það var það allra besta. Pabbi var kannski ekki eins og aðrir pabb- ar. Hann var eldri og ég eyddi mik- illi orku í að fela það hvað hann væri gamall,“ segir hún og skellir upp úr. „Við fengum kannski ekkert voðalega fínt að borða. Hann sauð allan mat. Við vorum alltaf að reyna að segja honum að fólk fengi steikur og svona en hann hlustaði ekkert á okkur og vildi bara sjóða allt,“ segir hún hlæj- andi og sýpur á kaffinu. „Það var eitt sem pabbi gerði sem mér fannst vera algjör hryll- ingur. Hann lagði sig alltaf eftir há- degið. Það fór öll orkan hjá mér í að reyna að leyna því fyrir krökkunum að ég ætti pabba sem væri svo gamall að hann legði sig eftir matinn. Hann var nú ekki mikið að pæla í þessu, hélt bara áfram að leggja sig.“ Henni var mikið í mun að pabbi sinn fyndi sér konu. Allt til þess að verða eins og hinir krakkarnir. „Það var nátt- úrulega mesti skandallinn þegar ég fór og eyddi aleigunni minni í miða á gömlu dansana fyrir hann og ráðs- konu sem var hjá okkur þá. Ég þoldi reyndar ekki ráðskonuna en mér var það mikið í mun að hann gifti sig svo ég keypti tvo miða. Ég tilkynnti þetta svo yfir hádegismatnum einn daginn. Pabba svelgdist á rabarbaragrautnum og kellingin skellti hurðum,“ segir hún skellihlæjandi að minningunni. Laug sig inn í leiklistarskóla „Eftir á þegar ég hugsa um alla orkuna sem fór í það að vera eins og hinir krakkarnir, þá átti ég æsku sem var miklu dýrmætari. Hann var nátt- úrulega kominn á eftirlaun og hafði alltaf tíma fyrir mann. Ég man eftir honum sitjandi við píanóið spilandi með mig í fanginu. Svo stækkaði ég svo hratt að hann farinn að kvarta yfir því að hafa mig í fanginu,“ segir hún hlæjandi og bætir við í léttum tón: „Mér fannst það mjög ósanngjarnt. Síðan vorum við stundum að rífast út af því að ég var alltaf að reyna að gifta hann. Svo sættumst við og þá áttum við þessar stundir sem voru alveg ótrúlegar. Hann gekk alltaf í jakka- fötum og ég settist í fangið í honum og setti handleggina utan um hann og lagði vangann að hjarta hans og þannig gátum við setið tímunum saman. Hann var ekkert að flýta sér og ég mátti bara sitja eins lengi og ég vildi. Ég hef oft hugsað það seinna að það eru líklega ekki mörg börn sem hafa upplifað þetta.“ Þegar Guðrún komst á unglings- árin hafði leiklistarbakterían gert vart við sig. Fyrst lá leiðin í leiklistar- skóla Lárusar Pálssonar. „Ég svindl- aði mér inn í leiklistarskólann hjá Lárusi þegar ég var 15 ára gömul, ég laug því að ég væri 19 ára. Hann vildi ekki svona unga nemendur. Ég var þar í fjögur ár, síðan fór ég í Þjóð- leikhússkólann og síðan til Englands. Besti leiklistarskóli sem hægt var að fara í var hjá honum Lárusi,“ segir hún og horfir brosandi á barnabarn- ið, Rakel Mjöll, sem stendur upp og gengur frá eftir sig og fer upp. Kemur svo eftir smá stund og kyssir ömmu sína bless. „Má ég sjá þig?“ segir hún og horfir á Rakel. „Þú ert fín,“ segir hún hlæjandi og Rakel kveður og fer sína leið í fallegri rauðri kápu. Ekki til meiri sársauki en hjónaskilnaður Guðrún er eins og áður sagði þrí- gift. Hún á þrjú börn Sigrúnu Eddu, Leif og Ragnar. „Ég er núna gift þeim þriðja og þeim allra besta, honum Birgi mínum,“ segir hún og brosir einlægt. „Hinir voru fínir og barns- feður mínir báðir, miklir ágætis- menn, en það bara gekk ekki upp. Ég sé það þegar ég horfi yfir líf mitt að hjónaböndin hafa verið blessun þó þau hafi ekki gengið upp. Þessi yndislegu börn, það er ekkert smá- ræði.“ Hún viðurkennir þó að skiln- aður taki á. „Ég held því fram að það sé ekki til meiri sársauki en hjóna- skilnaður. Við verðum fyrir ýmsu í lífinu en hjónaskilnaður, hann er hræðilegur.“ Gróðursetti ástina Þegar hún var nýskilin við annan eiginmann sinn bjóst hún ekki við að finna ástina á ný.En þá kynntist hún núverandi eiginmanni sínum, Birgi, í heimsókn til gamallar vin- konu. „Einn daginn hringdi gömul og góð vinkona mín í mig og spurði hvort það væri ekki allt í lagi með mig. Ég sagði að það væri allt í lagi hjá mér, en þarna var ég nýskilin við bónda númer tvö. Þá sagði hún að sig hefði dreymt að hún horfði á mig og fyrrverandi eiginmann minn og hann hefði legið á öxlinni á mér. Hún sagðist alveg skilja ef ég væri byrjuð með honum aftur, við hefðum nú verið saman í 18 ár. Ég sagði að svo væri ekki en kannski hafi hana bara dreymt hvernig mér liði, mér leið nefnilega eins og það væri eitthvað þungt á öxlunum á mér. Hún vildi endilega fá mig í heimsókn, ég sagð- ist nú ekki hafa tíma því það væri svo mikið að gera hjá mér en fór á end- anum. Það var ofsalega gaman, við borðuðum silung sem hún hafði veitt og fórum í reiðtúr. Síðan sagði hún að nú skyldum við fara til hans Birgis, hann gæti örugglega gefið mér tré í garðinn. Hún náði í pönnu- kökupönnu og tók hana með sér því Birgir byggi einn og ef við ætluðum að fá eitthvað þá yrðum við að taka það með,“ segir Guðrún. Þegar þær komu að bænum hans Birgis þá var enginn heima en vinkonan hófst handa við að baka pönnukökur. „Síðan kom Birgir og sagði okkur að það hafi fæðst folald um nóttina. Við fórum út í haga og sáum folald- ið. Seinna gaf Birgir mér það og ég skírði það Kyrrð. Hann valdi svo tré fyrir mig og vildi endilega koma með það sjálfur til mín. Hann sagði mér seinna að hann hefði ekki leyft mér að taka tréð því hann var svo viss um að þá myndi hann aldrei sjá mig aft- ur. Svo kom hann hérna og gróður- setti þetta tré og gróðursetti ástina í hjarta mér í leiðinni,“ segir hún með ástarglampa í augum. Stuttu seinna giftu þau sig með mikilli veislu í sveitinni. Trúin dýrmætasta perlan Guðrún er mjög trúuð og hefur lengi ræktað samband sitt við guð. Guði al- máttugum kynntist hún við óvenju- legar aðstæður. „Þegar ég var í leik- listarskólanum úti í Englandi þá var stelpa í bekknum mínum sem hér Johanna. Hún var sætasta stelpan í bekknum og flott leikkona. Ég frétti það svo þegar ég var komin heim til Íslands að hún væri hætt í leiklistinni og komin í biblíuskóla í Oxford. Ég hugsaði með mér; það er best ég tali við stelpuna. Ég hélt hún væri orðin galin. Ég fór út til hennar og þá bara gerðist það að ég fann trúna þar sjálf. Ég sem ætlaði að bjarga vinkonu minni frá því að hætta í leiklist,“ segir Guðrún skellihlæjandi. Guðrún er þakklát fyrir að hafa fundið trúna. „Þetta er dýrmætasta perlan sem ég hef eignast í lífinu. Þetta gerðist ekkert svona allt í einu heldur hægt og hægt en ég kynntist þessu fyrst þarna úti. Ég fór til prests hérna heima eftir að ég hafði orðið full af þessari upplifun og var svolítið leitandi. Ég bað hann um að kenna mér. Hann sagðist nú ekki alveg vita hvort það væri rétt að hann kenndi mér vegna þess að trú væri svo djúp. Hann sagðist eiga vinkonu sem væri að læra guðfræði og sagðist myndu biðja hana að koma til mín.“ Guðrún vissi það ekki þá en guðfræðinem- inn sem kom til hennar átti eftir að verða ein hennar nánasta vinkona. Umdeild kona í seinni tíð, fyrsti kvenkyns prestur á Íslandi, Auður Eir Vilhjálmsdóttir. Styður Auði Eir „Dyrabjallan hringdi hjá mér og þar stóð Auður Eir með vettlinga, ég man mér fannst hún hryllilega púkó með þessa vettlinga,“ segir hún hlæjandi. „Hún sagðist hafa átt að koma til mín. Ég sagði bara já, veist þú hvort hjónabandssæla á að hefa sig? Ég var akkúrat með eina í ofninum. Auður var svo hrifin að einhver skyldi halda að hún vissi eitthvað um hjóna- bandssælu svo hún sagði: „Við skul- um bara líta á hana.“ Auður horfði á þetta og sagði: „Veistu, ég held hún eigi bara ekkert að hefast“ og það var alveg rétt. Svoleiðis að fyrstu guðlegu spekúlasjónirnar snerust um hjóna- bandssælu,“ segir Guðrún brosandi að minningunni. Vinátta þeirra hefur haldið allt frá þessum degi þó að vissulega hafi ýmislegt gengið á í lífi þeirra beggja. „Vináttan hefur algjörlega dýpkað eftir því sem árin hafa liðið og ég hef Guðrún Ásmundsdóttir leikkona er ekki sest í helgan stein þrátt fyrir að vera á áttræðisaldri. Hún hefur nóg að gera og nýtur þess að hafa frelsi til þess að gera það sem hún vill. Viktoría Hermannsdóttir kíkti í heimsókn til Guðrúnar og fékk að heyra af gamla pabbanum sem sauð allan mat, blessuninni að vera þrígift, trúnni, leiklistinni og ókunnuga manninum sem Guðrún bjargaði frá því að svipta sig lífi. Hjónaböndin eru blessun „Ég var svo ánægð að ég gaf guði tvö herbergi hérna uppi hjá mér Viktoría Hermannsdóttir viktoria@dv.is Viðtal Trúin dýrmæt Guðrún er þakklát fyrir að hafa kynnst trúnni og segir það vera sína dýr- mætustu perlu. mynd EyþóR áRnASon

x

Dagblaðið Vísir - DV

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.