Dagblaðið Vísir - DV - 12.04.2013, Blaðsíða 19
Fréttir 19Helgarblað 12.–14. apríl 2013
Eins og ein stór fjölskylda
n Íbúar í Árneshreppi á Ströndum standa saman n Allur hreppurinn mætti í afmæli n Átökin í kringum kirkjuna n Óttast að mæta ísbirni á dimmum vetrarmorgni
Innilokuð
Talandi um drauma. Stærsti draumur
inn væri þó að samgöngurnar væru
í lagi. Í bréfi sem oddvitinn sendi Al
þingi á síðasta ári kemur fram að
ástand samgöngumála sé verulegt
áhyggjuefni. Á haustin og á meðan
snjólétt er má vegagerðin moka tvo
daga í viku. Eftir 1. nóvember má að
eins moka einu sinni í viku á kostnað
Vegagerðarinnar fram til 5. janúar. Þá
tekur við tímabil er varir fram til 20.
mars þar sem ekki er mokað nema að
beiðni og gegn helmingsgreiðslu frá
sveitarfélagi. „Það er náttúrulega rugl.
Þetta geta verið háar upphæðir og við
gerum ekki ráð fyrir mokstri í fjárhags
áætlun.“
Íbúar í Árneshreppi eru því inn
ilokaðir frá 5. janúar til 20. mars.
Bændurnir þurfa að kaupa allar
byggingarvörur og fóður sem þeir
þurfa á að halda fyrir veturinn á
haustin áður en vegurinn lokast fyrir
þungaflutninga og áburð fá þeir stund
um ekki fyrr en í júní.
Að vísu er hér flugvöllur og þegar
veður leyfir er flogið til Reykjavíkur
tvisvar í viku. „En þá þarftu að vera fyrir
sunnan í að minnsta kosti þrjá daga.
Stundum finnur maður auðvitað fyrir
því hvað það er langt að fara héðan og
saknar þess að geta ekki skotist burt.
Þú skýst ekkert ef þú ert hér.“
Læknirinn kemur á skíðum
Einangrunin leggst þó ekki eins þungt
á Oddnýju og marga aðra. „Um leið og
vegurinn lokast verða alltaf einhverjir
órólegir. Það snýst ekkert endilega um
að fólk ætli sér að fara héðan heldur
finnur það bara fyrir þessari einangrun
og ergir sig yfir henni. Þá er það alltaf
að tala um þennan snjómokstur svo
hér skapast leiðinlegur mórall.
Auðvitað er ekki rétt að eitt lítið
sveitarfélag þurfi að berjast fyrir því að
fá veg í sveitina og viðunandi þjónustu.
Það ætti bara að vera vegur hingað.“
Enda er læknirinn á Hólmavík
– og ruslabíllinn, presturinn og
sýslumaðurinn, félagsmálastjórinn og
svona eitt og annað sem íbúar Árnes
hrepps þurfa á að halda. Ruslabíllinn
kemur ekki nema þegar vegurinn er
opinn en í gegnum tíðina hefur lækn
irinn stundum komið á skíðum eða
sleða yfir heiðina. Í neyðartilvikum er
fólk flutt burt með flugi. Sem betur fer
hefur sú staða ekki komið upp á síð
ustu árum að fólk hafi nauðsynlega
þurft á læknisaðstoð að halda þegar
vegurinn er lokaður og veður eru svo
slæm að ekki er hægt að fljúga en sú
hætta er alltaf fyrir hendi. „Við erum
eins og eyja. Auðvitað er það ergilegt
þegar það ætti að vera hægt að fara
veginn en það er þó skárra hér en á
Djúpavík þar sem vegurinn lokast í
báðar áttir og fólk hefur ekki aðgang
að fluginu. Þar geta þau hjónin verið
innilokuð í margar vikur og það er ekki
gott að vita af þeim þar. Það hefur áhrif
á okkur öll.“
Á Djúpavík er íbúarnir aðeins tveir,
hjón sem reka heilsárshótel þótt það
sé upp og ofan hvort gestir komist þar
að. Þau eru háð velvilja Vegagerðar
innar og Árneshrepps með mokstur til
að komast í flug og sækja póst og vörur
norður í sveit.
Erfitt að senda börnin burt
Aðspurð um sameiningu sveitarfé
laga segir Oddný það nærtækast að
sameinast Reykjavík því þangað er
auðveldast að komast. Þangað fara
börnin yfirleitt í skóla þegar þau þurfa
að fara héðan til þess að ljúka skóla
skyldunni. Tíundi bekkur er nefnilega
ekki kenndur hér.
Það eru svo fáir krakkar í skólanum
að það þykir ágætt að undirbúa þau
félagslega fyrir framhaldsskóla með
því að senda þau í stærri skóla fyrir
sunnan. Þar geta þau einnig tekið val
fög sem er ekki hægt að bjóða upp á í
Finnbogastaðaskóla sökum fámennis.
Eins og ein stelpan sem er nú fyrir
sunnan að ljúka skólaskyldunni og er
í spænsku. „Hún gæti það ekki hér. Á
móti kemur að í Finnbogastaðaskóla
fá krakkarnir einstaklingsþjónustu
sem skilar sér svo þau standa sig mjög
vel í skóla og verða nýtir þjóðfélags
þegnar.“
Flest fara til vina og vandamanna
í bænum, einhverra sem eru tilbúnir
til þess að taka þau að sér. „Það er ekki
alveg einfalt að finna út úr því,“ segir
Oddný, „og ekkert sjálfgefið heldur.“
Hún á sjálf tvo syni. Eldri sonur
inn er á fertugsaldri en sá yngri er 26
ára. Þeir fóru til Reykjavíkur þar sem
Oddný átti bæði íbúð og mömmu.
„Auðvitað var erfitt að senda barnið frá
sér en þetta var eitthvað sem ég þurfti
að sætta mig við. Kennurunum sem
tóku við strákunum fannst það alveg
hræðilegt að þeir væru einir í bænum.
Það var meira sjokk fyrir þá en okkur
sem þekktum þessar aðstæður.“
Hér hefur þetta alltaf verið svona.
Maðurinn hennar Oddnýjar ólst upp
hér í sveitinni og þurfti að fara strax
eftir fermingu í heimavist í Hrútafirði.
Í þá daga var farið á milli með skipum
og börnin komu ekki heim nema um
jól og páska.
Húsin eru aldrei seld
Margt hefur breyst síðan þá og sem
betur fer til batnaðar. Fyrir liggur þó
að það þarf að byggja upp veginn sem
hingað liggur. Oddný vill gera það að
forgangsverkefni og segir að vegurinn
frá Veiðileysukleif norður á Gjögur hafi
verið ruddur með jarðýtum á árunum
1960–1965 og síðan hafi ekkert verið
gert. Að mati Vegagerðarinnar er þessi
vegarkafli ekki talinn þjónustufær yfir
veturinn. „Það þarf að færa veginn á
snjóléttari staði,“ enda er þetta afar
óþægilegt ástand fyrir íbúana í Árnes
hreppi.
Alls eiga 52 lögheimili í hreppn
um en að staðaldri eru 36 einstak
lingar þar yfir vetrarmánuðina. Þeir
eru flestir komnir yfir miðjan ald
ur og Oddný myndi gjarna vilja fá
fleiri barnafjölskyldur hingað. Yngsta
barnið í hreppnum er þriggja ára og
elsti íbúinn varð áttræður í desem
ber. Sá er fyrrverandi oddviti og kaup
félagsstjóri og rekur núna gistiheimili í
Norðurfirði.
Á sumrin fyllist svo allt af fólki. Flest
húsin hér eru heilsárshús sem eru í
eigu brottfluttra og í mörgum tilfellum
standa stórar fjölskyldur að þeim. „Þeir
sem flytja burt vilja aldrei selja eignirn
ar sínar. Þeir vilja eiga þær áfram til að
geta komið aftur,“ útskýrir Oddný sem
þarf núna að fara að drífa sig.
Gæti endað í skáldsögu
Enda er nóg að gera. Þegar störfum
lýkur á skrifstofunni bíða verkefnin
heima þar sem heimilisstörfin eru al
farið á hennar könnu. „Bóndinn er dá
lítið gamaldags að þessu leyti,“ segir
hún sem eldar, þrífur og bakar. Djöfla
kökur eru í sérstöku uppáhaldi og
heimareyktar rúllupylsurnar hennar
þykja sérlega góðar.
Þegar tími gefst til þá reynir hún
að prjóna eða sauma líka. Síðasta
vetur sótti hún svo námskeið í skap
andi skrifum sem rithöfundurinn Vig
dís Grímsdóttir stóð fyrir. Hún heldur
mikið til hér í hreppnum ásamt vin
konu sinni Maríu Guðmundsdóttur.
„Það er mikið líf í kringum þær. Í vetur
höfum við konurnar í hreppnum alltaf
hist á fimmtudagskvöldum heima hjá
þeim til þess að mála og skrafa.
Í fyrra bauðst Vigdís til þess að
kenna krökkunum skapandi skrif og
þá spurðum við, fullorðna fólkið, hvort
við mættum ekki mæta líka. Það kveikti
í mér,“ segir hún og glottir óræðu brosi,
„en það er ekkert alvarlegt.“
Hún stefnir ekki á skáldsögu en á
allt eins von á því að enda sem einhver
karakter í skáldsögu eftir Vigdísi. „Eru
þessir rithöfundar ekki alltaf að skrifa
um eitthvað sem þeir þekkja?“
Henni er sama.
Henni stendur líka á sama þótt
það sé útilokað að vera fullkomin
hús móðir og oddviti sveitarfélags í
senn. Það lætur alltaf eitthvað undan
og þannig er það bara, en nú er þetta
orðið gott. Oddný er búin að vera odd
viti í sjö ár og er farin að vilja meiri tíma
fyrir sjálfa sig. „Maðurinn er orðinn
verri í skrokknum og þá verð ég að fara
að draga mig meira heim.“
Ekki fyrir alla
Þau hjálpast að. Eins og fólkið hérna
gerir. Hér hjálpast allir að. „Við erum
eins og ein stór fjölskylda. Þess vegna
held ég að þrátt fyrir allt getir þú verið
einangraðri í blokk í Reykjavík. Hér eru
sterk tengsl á milli allra og það hjálpast
allir að. Mér hefur alltaf fundist eins
og fólkið hérna sé eins og mín nánasta
fjölskylda.“
Þegar boðið er til veislu kemur
til dæmis aldrei annað til greina en
að bjóða öllum í hreppnum. „Þetta
virkar þannig. Það er mikil samhjálp
hérna og ef það þarf að gera eitthvað
þá hjálpast allir að. Þetta er ekki hægt
öðruvísi.“
Það er oft erfitt að lifa svona á hjara
veraldar. Það krefst mikillar vinnu og
sjálfsbjargarviðleitni. „Þetta er ekki
fyrir alla. Fólk þarf að vera duglegt til
þess að geta þetta. En sem betur fer
telja menn það ekkert eftir sér að að
stoða náungann.“
Átök og afmæli
Og þá sjaldan sem fólk verður pirrað
eða lendir í átökum endist það aldrei
lengi. Ekki síðan nýja kirkjan var byggð
allavega. Kirkjan sem átti að taka mið
af Reykjarneshyrnunni og sumir segja
að snúi öfugt miðað við hefðina og
aðrir segja að hafi mislukkast þegar
hún lenti neðar en vegurinn sem liggur
að henni. „Það verður alltaf allt brjálað
þegar það á að eiga eitthvað við kirkjur,
ég held að það sé almennt þannig í
öllum samfélögum. Gamla kirkjan var
orðin ónothæf en um leið og byrjað var
á nýrri kirkju þá reis upp einhver hóp
ur sem fór að gera við gömlu kirkjuna.“
Þarna voru tveir bræður að takast á.
Úr varð stríð sem færðist yfir á fleiri at
riði og fólk dróst í dilka. „Það tók tíma
að jafna sig en það er sem betur fer
gengið yfir núna.“
Í afmælisveislunni er allavega
ekkert nema gleðin. Þangað koma
ungir sem aldnir saman, allur hreppur
inn mætir sem einn og konurnar
koma með kökur sem þær hafa bak
að fyrir bóndann sem er einstæðingur
og færa honum í stað gjafa. Svo raðar
fólk sér upp í hring í stofunni og syng
ur við undirspil gítarleikarans sem var
sóttur sérstaklega til Hólmavíkur fyr
ir þetta tilefni. Þar sem fæstir kunna
textana við vinsæl dægurlög eru það
gömlu góðu skólalögin sem eiga hug
og hjarta afmælisgesta sem syngja af
innlifun, klappa með og hlæja. Af og til
stendur einhver upp og heldur ræðu
til heiðurs afmælisbarninu en síðan
brestur fólkið aftur í söng og gleði sem
stendur fram á nótt. n
Giftist í hreppinn Oddvitinn Oddný Þórðar-
dóttir kom hingað í sveit í æsku og síðan á hverju
sumri þar til hún giftist bóndanum á Krossnesi.
Krossneslaug Eitt það fyrsta sem ferðamenn gera er að skella sér í laugina.
Stríðið um kirkjuna Einu hörðu átökin í manna minnum hér í hreppnum snerust um það
hvort gera ætti upp gömlu kirkjuna eða byggja þá nýju.
„Það verður alltaf
allt brjálað þegar
það á að eiga eitthvað
við kirkjur.