Dagblaðið Vísir - DV - 12.04.2013, Síða 26
26 Umræða 12.–14. apríl 2013 Helgarblað
Ingi Hauksson Hefur andstaðan þín
gagnvart Evrópusambandinu mildast
nú síðustu mánuði/ár?
Pétur Gunnlaugsson Nei. Hún hefur ekki
mildast. Ég er andvígur aðild Íslands að
Evrópusambandinu.
Ágúst Guðmundsson Hvernig ætlar
Flokkur heimilanna að tækla
íbúðarkaup ungs fólks í dag? Þar sem
það er nánast ómögulegt að safna sér fé þegar
maður er á leigumarkaðnum.
Pétur Gunnlaugsson Flokkur heimilanna
ætlar að afnema verðtrygginguna á nýjum
húsnæðislánum.
Jóhanna Guðmundsdóttir Hver eru þín
fyrri störf?
Pétur Gunnlaugsson Ég vann
áður hjá tryggingafélagi, rak á sínum tíma
fasteignasölu, hef starfað sem lögmaður,
hef starfað á Útvarpi Sögu og er þar stjórnar-
formaður. Ég var einnig í stjórnlagaráði.
Baldur Kristjánsson Ég skoðaði
stefnuskrár flokkanna og mér sýnist þið
vera eini flokkurinn sem ætlar ekki
eingöngu að lækka höfuðstól verðtryggðra
húsnæðislána heldur allra verðtryggðra lána,
þ.m.t. námslána. Er þetta rétt skilið hjá mér, þ.e.
að þið lítið svo á að forsendubrestur og
stökkbreyting hafi átt sér stað með öll
verðtryggð lán?
Pétur Gunnlaugsson Já. Við teljum að það
eigi að gera það. Við eigum að búa við svipuð
lánakjör og tíðkast í nágrannalöndum okkar.
Lélega hagstjórn á Íslandi eiga kjósendur
ekki að sætta sig við, sem er höfuðástæðan
fyrir stökkbreyttum höfuðstól verðtryggðra
lána.
Kolbeinn Reginsson Með inngöngu
Íslands í ESB myndu tollar á unnum
fiskafurðum (sem eru nú 25–40%) falla
niður og leiða til gríðarlegrar tekjuaukningar á ári
fyrir þjóðarbúið auk þess að skapa 500–1.500
fiskvinnslustörf hérlendis. Væri ekki nær að
ganga í ESB í stað þess að gefa öðrum þjóðum
auðlindir okkar í gegnum ferskt hráefni?
Íslendingar verða af miklum tekjum vegna þessa
og því er spurningin sú hvort Flokkur heimilanna
sé á móti ESB inngöngu?
Pétur Gunnlaugsson Ég er andvígur
aðild að Evrópusambandinu af pólitískum
ástæðum. Ég er hins vegar mjög hlynntur
frjálsum viðskiptum, ekki eingöngu í gegnum
Evrópusambandið heldur einnig aðrar þjóðir.
Ef við göngum í Evrópusambandið þá getum
við ekki gert viðskiptasamninga við ríki utan
Evrópusambandsins. Brussel-valdið myndi
gera slíka samninga fyrir okkar hönd ef við
værum í Evrópusambandinu. Til lengri tíma
myndi þetta veikja stöðu okkar til fríverslun-
ar.
Jókka Páls Hvar ætlið þið af fá peninga
til þess að redda öryrkjum og öldruðum?
Pétur Gunnlaugsson Við ætlum
að hækka skattleysismörk. Við ætlum ekki
að gera það með því að minnka tekjur ríkis-
ins. Við viljum að þeir sem hafi nýtingarrétt
á auðlindunum greiði fyrir það fullt gjald,
markaðsverð. Tekjurnar af slíku nýtingar-
gjaldi eiga að fara í að hækka skattleysis-
mörk. Við viljum einnig afnema skerðingar á
tekjum eldri borgara og öryrkja frá júlímánuði
2009 og afturkalla þessar skerðingar eins og
embættismenn og ýmsir aðrir hafa fengið.
Eldri borgarar og öryrkjar bera ekki ábyrgð á
efnahagshruninu.
Viktoría Hermannsdóttir Fer það
saman að standa í kosningabaráttu og
starfa á fjölmiðli?
Pétur Gunnlaugsson Já, það fer alveg
saman. Þeir sem starfa á fjölmiðlum eiga
fullan rétt á því að taka þátt í þjóðmála-
umræðunni og stofna og vera aðilar að
stjórnmálaflokki.
Árni Heimir Til hvaða landa hefur þú
ferðast til? Einhver lönd sem standa
upp úr?
Pétur Gunnlaugsson Þegar ég var ungur
maður bjó ég í New York, London og París.
Og þótt að ég sé andvígur aðild Íslands
að Evrópusambandinu þá legg ég þunga
áherslu á góð menningarleg samskipti
við Evrópu. Íslendingar eru Evrópubúar og
íslensk menning er hluti af evrópskri menn-
ingu.
Skúli Kristinsson Sæll Pétur. Hvaða
afstöðu tekur Flokkur heimilanna í deilu
Kóreuríkjanna og hvaða áhrif telur þú að
möguleg kjarnorkustyrjöld muni hafa á heimilin í
landinu?
Pétur Gunnlaugsson Ég tek afstöðu gegn
öfgastefnu Norður-Kóreu og tel alþjóðasam-
félagið verða að reyna að hafa áhrif á stjórn-
völd í Norður-Kóreu, en auðvitað verður þessi
ríkisstjórn í Norður-Kóreu og stjórnarfarið þar
að breytast. Enda tel ég að það muni verða
í framtíðinni. Auðvitað mun kjarnorkustríð
hafa skelfileg áhrif. Það er ekki hægt að spá
um afleiðingarnar.
Sigurður Sólmundarson Hver er
afstaða Flokks heimilanna í
gjaldmiðilsmálum Íslands?
Pétur Gunnlaugsson Við komum til með
að halda krónunni á næstu árum og aðgerðir
stjórnvalda verða að taka mið af því. Það
er hægt að skoða það að taka upp annan
gjaldmiðil en það er ljóst að forsendan fyrir
því að við fáum evru er að ganga í Evrópu-
sambandið og það er of mikill fórnarkostn-
aður. Það kæmi til greina að skoða hvort við
ættum að taka upp dollar eða einhvers konar
fastgengisstefnu hér.
Jóhanna Guðmundsdóttir Eru þið með
ófrávíkjanlega kröfu við þátttöku í
ríkisstjórn?
Pétur Gunnlaugsson Nei.
Jóhanna Guðmundsdóttir Ætlar
Flokkur heimilanna að nota
rannsóknarskýrslu Alþingis sem
stefnumótandi plagg ef þið komið þingmanni að
í kosningunum?
Pétur Gunnlaugsson Á sínum tíma sam-
þykkti þingið að hefja aðgerðir á grundvelli
rannsóknarskýrslu Alþingis. Allir þing-
mennirnir 63 samþykktu þessar aðgerðir. Því
miður hafa þeir ekki staðið við þetta nema
að litlu leyti. Til dæmis hafa lífeyrissjóðirnir
ekki verið rannsakaðir og auðvitað munum
við hafa hliðsjón af rannsóknarskýrslu
Alþingis við stefnumótun á þingi.
Haraldur Haraldsson Hvaða
sendiráðum viltu loka?
Pétur Gunnlaugsson Við þurfum
að fækka sendiráðum. Það er óþarfi að hafa
sendiráð í Austurríki, Finnlandi og það ætti
að vera eitt sendiráð fyrir Norðurlöndin. Það
er rétt að benda á það að ef við gerumst
aðilar að Evrópusambandinu þurfum við að
hafa sendiráð í öllum löndum sambandsins,
28 löndum, og það vil ég alls ekki.
Lommi Lomm Ertu uggandi yfir stöðu
ljóðsins?
Pétur Gunnlaugsson Þetta er
athyglisverð spurning. Ég held að í nútíma-
samfélagi og við þær menningaraðstæður
sem við búum við þá sé ljóðagerð á undan-
haldi. Ég vona að í framtíðinni verði ljóðagerð
ekki jafn sjaldgæf starfsemi og fálkaveiði.
Gísli Ásgeirsson Ertu femínisti?
Pétur Gunnlaugsson Nei. Ég legg
hins vegar þunga áherslu á jafnrétti
allra. Allir eiga að standa jafnfætis í lagalegu
tilliti. Öfgafemínismi kyndir undir kynjastríði
og aðskilnaðarhyggju.
Daníel Jónsson Kom aldrei til greina að
fá Ingva Hrafn til liðs við Flokk
heimilanna, og þá mögulega Hall
Hallsson í kjölfarið?
Pétur Gunnlaugsson Nei, það kom aldrei til
greina. Enda eru þeir í Sjálfstæðisflokknum.
Hafsteinn Árnason Hver er munurinn á
Lýðræðisvaktinni og Flokki heimilanna
hvað stefnumál varðar?
Pétur Gunnlaugsson Ég lýsti því nú einu
sinni yfir að ástæðan fyrir því að ég hætti að
vera innan vébanda Lýðræðisvaktarinnar
væri sú að Lýðræðisvaktin væri femínískur
Evrópuflokkur. Mér fannst hann ekki eiga
að vera það en smám saman breyttust
áherslurnar. Flokkurinn breyttist frá því að
við fjórmenningarnir úr stjórnlagaráði áttum
frumkvæðið að því að stofna þennan flokk.
Gísli Ásgeirsson Hefurðu orðið var við
öfgafemínisma á Íslandi og hvert er þá
birtingarform hans? Vinsamlegast
útskýrðu þetta með kynjastríð og aðskilnaðar-
hyggju!
Pétur Gunnlaugsson Það hafa ýmsir aðilar
haft áhyggjur af öfgafemínisma, jafnvel
fyrrverandi forseti lýðveldisins, Vigdís
Finnbogadóttir. Karlar og konur eiga að vinna
saman.
Hallur Guðmundsson Hver er skoðun
þín á því að þjóðkirkjan fái á fjárlögum
nokkra milljarða umfram sóknargjöld – í
því eru m.a. laun presta, viðgerðar- og
byggingasjóðir kirkna o.fl. – en önnur trúfélög
verða að reiða sig eingöngu á sóknargjöld og
fjárframlög meðlima, sér í lagi ef trúfélagið vill
byggja sér trúarbyggingu?
Pétur Gunnlaugsson Í þjóðaratkvæða-
greiðslunni 20. október síðastliðinn um
nýja stjórnarskrá kom fram að meirihluti
þjóðarinnar vill halda stöðu þjóðkirkjunnar
og ég virði þá niðurstöðu. Í stjórnlagaráðinu
studdi ég hugmynd um aðskilnað ríkis og
kirkju. Trúfélög og kirkjudeildir eiga sjálfar að
fjármagna starfsemi sína en ég endurtek: ef
meirihluti þjóðarinnar er á annarri skoðun þá
virði ég það.
Trausti Björgvinsson Er Flokkur
heimilanna á móti aðild að Evrópusam-
bandinu eða ertu að lýsa þinni skoðun
þegar þú talar um að þú sért á móti því?
Pétur Gunnlaugsson Ég er að lýsa minni
skoðun en félagar mínir í Flokki heimilanna
eru sammála því að við eigum ekki að ganga í
Evrópusambandið.
Erlingur Már Karlsson Hvernig á að
taka á vogunarsjóðunum?
Pétur Gunnlaugsson Það vekur
athygli að þingið skuli ekki hafa gert tilraun
til þess að samþykkja lög um starfsemi
vogunarsjóða. Vogunarsjóðir starfa á Íslandi
án starfsleyfis, án þess að Fjármálaeftirlitið
hafi eftirlit með þeim. Flokkur heimilanna
mun beita sér fyrir því að sett verði lög um
vogunarsjóðina og gerð sú krafa að þeir upp-
lýsi um eignarhald sitt og gefi út uppruna-
vottorð um fjármagnið sem þeir notuðu til
að kaupa kröfur. Ég tel að ef þetta verði gert
þá muni vogunarsjóðirnir ekki verða við þeirri
kröfu og selja kröfur sínar. Og þar sem hér
eru gjaldeyrishöft myndu kröfurnar lækka
verulega. Ísland væri af þeim sökum í miklu
betri aðstöðu til að semja við hrægammana.
Ég undrast það að fjórflokkurinn og þeir sem
sitja á þingi hafi ekki áhyggjur af því að vog-
unarsjóðirnir geti starfað utan lagaramma
þar sem aðrir fjárfestingarsjóðir eru bundnir
skilyrðum laga frá 2005. Andvaraleysi
þessara flokka er óskiljanlegt.
Árni Heimir Hver er fyrirmynd þín af
erlendum stjórnmálamönnum og hver
er mögulegur systurflokkur Flokks
heimilanna?
Pétur Gunnlaugsson Því miður þá hafa þeir
stjórnmálaleiðtogar sem stýra þjóðríkjum
í vestrænum ríkjum fyrst og fremst slegið
skjaldborg um fjármálaveldið og banka-
kerfin, eins og gert hefur verið á Íslandi. Ég
sæki enga fyrirmynd í þennan hóp.
Heiða Heiðars Hvað með leigumarkað-
inn? Hafið þið einhverjar lausnir á því
hvernig hægt er að gefa fólki
fjölbreyttara val þegar kemur að búsetu? Varla
hvetjið þið allt ungt fólk til að kaupa sér
húsnæði?
Pétur Gunnlaugsson Það væri gott ef ungt
fólk sem vildi gæti keypt sér húsnæði en eins
og staðan er núna er það erfitt. Á sínum tíma
var félagslega kerfið lagt af og það var mjög
slæmt fyrir þá sem voru með lágar tekjur.
Við ætlum að afnema verðtrygginguna
og breyta lánakjörunum. Vextir á Íslandi
eru alltof háir og stýrivextir eru ákveðnir
af Seðlabankanum. Ég tel að það verði að
endurskoða lög um Seðlabankann, færa
vaxtavaldið frá honum, enda illskiljanlegt
hvernig Ísland, sem hefur þurft að þola
þennan samdrátt, skuli vera með hæstu
vexti á Vesturlöndum. Stýrivextir hafa verið
hér háir þegar vextir í útlöndum hafa farið
niður í allt að núlli. Víða erlendis eru rótgróin
fasteignafélög sem leigja fólki, og þar með
ungu fólki, á opnum markaði en slík félög
hafa ekki þróast hér vegna óstöðugleikans
sem hér ríkir. Ein leið við þessar aðstæður
væri sú að ríkisvaldið tæki til sín íbúðir frá
bönkunum og semdi við þá um setja þessar
eignir á markað og þannig að hægt væri að
nokkru leyti að endurreisa félagslega kerfið.
Á hinn bóginn, þeir sem hafa góðar tekjur og
vilja leigja, eru engir fjármunir af hálfu hins
opinbera til að greiða niður leigu þeirra. Við
höfum húsaleigubætur sem eru almennt
19 þúsund krónur á mánuði. En það er hægt
að fá hækkun, sem fáir virðast vita um. Mér
skilst allt upp í 42 þúsund, ef skilyrðum er
fullnægt.
Arinbjörn Árnason Sæll Pétur, þú
segist leggja þunga áherslu á jafnrétti
allra, og allir eigi að standa jafnfætis í
lagalegu tilliti. Hvaða skoðun hefur þú á rétti
samkynhneigðra um að standa jafnir öðrum að
lögum, þá í sambandi við ættleiðingar og
erfðalög? Þar sem þú og Arnþrúður hafið oft
verið harðorð í garð samkynhneigðra á Útvarpi
Sögu, t.d. þá í sambandi við ættleiðingar og
gleðigöngu.
Pétur Gunnlaugsson Ég kannast ekki
við að ég hafi verið harðorður í garð þessa
hóps. Hins vegar hafa sumir hlustendur verið
andvígir hjónaböndum samkynhneigðra. En
ólíkar skoðanir og hugmyndir koma fram í
þáttum á Útvarpi Sögu. Ég endurtek það sem
ég sagði áðan: Allir eiga að standa jafnfætis í
lagalegu tilliti, einnig samkynhneigðir.
Jóhann Kristjánsson Hvernig telur þú
best að styðja við bakið á löggæslu í
landinu í ljósi aukinnar glæpatíðni?
Pétur Gunnlaugsson Í fyrsta lagi er
óhjákvæmilegt að leggja meiri fjármuni
til löggæslu. Í öðru lagi ber að skoða hvort
endurskoða eigi aðild okkar að Schengen-
samkomulaginu en margir löggæslumenn
telja að aðild okkar að Schengen hafi orðið
til þess að hleypa hér inn óæskilegu fólki og
leitt af sér meiri glæpi.
Jóhann Jóhannsson Hvernig ætlar
Flokkur heimilanna að leysa mál þeirra
sem nú þegar hafa misst eignir sínar,
eða eru að missa eignir sínar, vegna stökk-
breyttra lána eða verðtryggingar? Verða
nauðungarsölur eða yfirtökur afturkallaðar?
Pétur Gunnlaugsson Við höfum það á
stefnuskrá okkar að stöðva nauðungarsölur.
Ég er mjög hissa á því að þingið hafi ekki
samþykkt lög um stöðvun nauðungarsölu.
Sérstaklega með tilliti til þess að mál eru til
meðferðar og úrlausnar hjá dómstólum um
lögmæti verðtryggingarinnar.
Hallur Guðmundsson Hvernig vill
Flokkur heimilanna koma í veg fyrir
gegndarlausar hækkanir á neysluvísi-
tölu?
Pétur Gunnlaugsson Verðbólgan sem
við höfum búið við á Íslandi stafar af lélegri
hagstjórn og að sumu leyti af einhæfri
atvinnustarfsemi. Ég tel ekki rétt að ríkið
geti stýrt verðlagi með einhverjum hætti
nema með almennum reglum. Við teljum
að verðtryggingin kyndi undir verðbólgu.
Verðtryggðum lánum fyrirtækjanna er velt
út í verðlagið og skapa vítahring sem erfitt er
að rjúfa. Baráttan við verðbólguna ætti að
vera í forgangi hjá öllum stjórnmálaflokkum.
Kristín Jónsdóttir Nú er launamunur
kynjanna 123.000 krónur á mánuði þrátt
fyrir lög um launajafnrétti. Femínistar
geta ekki hætt að berjast meðan staðan er
svona, til dæmis. Ert þú bara sáttur af því lögin
eru til?
Pétur Gunnlaugsson Ég tel í fyrsta lagi að
opinberir aðilar sem eru að greiða konum
lægri laun séu að brjóta lög. Ef við komumst
til áhrifa þá munum við ekki sætta okkur
við það. Varðandi markaðinn þá velur at-
vinnurekandinn, eða reynir að velja hæfasta
umsækjandann af starfi. Skynsamur at-
vinnurekandi greiðir konu sem stendur sig vel
jafn há eða betri laun en karlmanni, tala nú
ekki um ef hann stendur sig illa. Þannig að ég
get ekki séð hvernig það þjónar hagsmunum
atvinnulífsins að greiða konum lægri laun.
Jóhann Kristjánsson Hvaða leiðir telur
þú bestar til þess að spara í ríkisrekstri?
Pétur Gunnlaugsson Það eru
margar leiðir til. Það verður að taka á
menntamálunum, það verður að stytta
námstíma, bæði í grunnskóla og framhalds-
skóla. Það verður að taka á eftirlitskerfinu,
sem er alltof dýrt og skilar litlum árangri. Við
eigum að hætta að reisa stór mannvirki sem
við höfum ekki efni á, eins og stóra spítalann
sem á að reisa við Hringbraut, nýtt fangelsi,
gangagerð, við höfum ekki efni á þessu. Við
eigum að endurskoða stefnu okkar varðandi
svokallað þróunaraðstoð sem er alls óvíst
að skili nokkurri þróun, en nýlega samþykkti
Alþingi að greiða 24 milljarða næstu fjögur
árin í svokallaða þróunaraðstoð. Í nýlegri
rannsókn frá Kanada kom í ljós að aðeins
18 prósent þróunaraðstoðar skilar sér til fá-
tækra. Það þýðir að af þessum 24 milljörðum
skila fjórir milljarðar sér, ef við berum okkur
saman við þessa úttekt frá Kanada. Besta
leiðin til þess að styðja við þróunarríki er að
eiga viðskipti við þau, opna markaði, eins og
gert hefur verið í Asíu þar sem Asíuríkin hafa
fengið að selja bandarískum og evrópskum
markaði vörur sínar og bætt lífskjörin með
þeim hætti.
Unnur Bergsveinsdóttir Ég myndi
sömuleiðis gjarnan vilja fá að heyra hvar
þú sérð kynjastríð og aðskilnaðarhyggju
byggða á öfgafemínisma. Það er ekki nógu gott
svar, eftir að hafa heyrt að femínískar áherslur
hafi hrakið þig af fyrri pólitískum vettvangi, að
heyra að eitthvað fólk úti í bæ hafi áhyggjur af
einhverju sem þú sleppir því að skilgreina. Með
fullri virðingu þá skiptir þetta svar mig sem
kjósanda máli.
Pétur Gunnlaugsson Í ritum og viðhorfum
öfgafemínista er sett fram röng og
öfgafull skýring á vanda kvenna. Þar er því
haldið fram að karlmenn almennt reyni og
vilji kúga konur en vandamálið er fyrst og
fremst að konur margar, og flestar konur
vinna úti, og sinna margar heimilisstörf-
um, þannig að álagið á nútímakonum
er mjög mikið. Þessar ásakanir um
kúgunarvilja karla sem birtist í þessum
ritum gefa ranga og villandi mynd og ýta
undir og kynda undir kynjastríði. Ýmsar
stjórnmálstefnur á 20. öld börðust fyrir
aðskilnaði og aðskilnaðarhyggju. Þar
má í fyrsta lagi nefna kommúnista, sem
boðuðu stéttastríð, fasista, sem boðuðu
kynþáttastríð, og öfgafemínista, sem
boða kynjastríð. Kynin og ólíkar stéttir
eiga að vinna saman að sameiginlegum
hagsmunum Íslands.
Hrafnhildur Helgadóttir Hvernig líst
þér á að að setja bann á útburð fólks úr
húsnæði að kröfu banka sem standi þrjú
ár? Eða að sekta banka og fasteignafélög, sem
láta íbúðarhúsnæði standa ónotað, eins og er
verið að gera í Andalúsíu?
Pétur Gunnlaugsson Eins og ég sagði áðan
þá viljum við stöðva nauðungarsölur. Það
kemur vel til greina að skoða þessa hugmynd
sem þú varpar fram.
Almar Kristjánsson Hver er afstaða
Flokks heimilanna til varnarmála?
Kæmi e.t.v. til greina að stofna innlenda
hersveit?
Pétur Gunnlaugsson Við viljum halda
áfram aðild okkar að Atlantshafsbanda-
laginu en við viljum ekki stofna íslenskan her.
Grétar Pétur Geirsson Ef þið komist á
þing verður þá forgangverk ykkar að að
leiðrétta kjör öryrkja? Þetta þurfum við
öryrkjar og ellilífeyrisþegar að vita.
Pétur Gunnlaugsson Já. Það verður eitt af
forgangsmálum okkar. Eins og ég sagði áðan
á að afnema þær skerðingar sem ríkisstjórnin
lagði á í júlímánuði 2009. Við viljum hækka
skattleysismörkin og fjármagna skattleysis-
mörkin með nýtingargjaldi af auðlindum sem
eiga að vera í eigu þjóðarinnar.
Árni Heimir Hvernig er best að vinna
bug á skipulagðri glæpastarfsemi?
Pétur Gunnlaugsson Ég minntist
á það áðan að það þyrfti að leggja meiri fjár-
muni til löggæslu og hugsanlega endurskoða
aðild okkar að Schengen.
Jóhann Benediktsson Ég skil ekki
alveg svar þitt við leigumarkaðsspurn-
ingu Heiðu B. Heiðars. Telur þú að ég,
háskólanemi, sem hef ekki efni á því að leggja út
fyrir útborgun í íbúð og vel mér þess vegna
leigumarkað, hafi of miklar tekjur til þess að fara
út á leigumarkað? Þar með fái ég ekkert
niðurgreitt af ríkinu?
Pétur Gunnlaugsson Ég veit ekki hvaða
tekjur þú hefur. Ef þær eru litlar þá þyrftum
við að hafa félagslegan íbúðamarkað til þess
að sinna þörfum þess hóps. En ég vil leggja
áherslu á það að ríkið er í þeirri stöðu núna
að ekki er hægt að verða við öllum kröfum á
þessu sviði frekar en öðrum. En það kæmi þá
til greina að endurskoða reglur sveitarfélag-
anna um húsaleigubætur þannig að fátækir
námsmenn nytu góðs af slíkri breytingu.
Páll Einarsson Ertu í þjóðkirkjunni? Ef
ekki, ertu þá í einhverjum öðrum
söfnuði?
Pétur Gunnlaugsson Ég er ekki í þjóðkirkj-
unni. Ég er í kaþólsku kirkjunni. En ég er ekki
kirkjurækinn maður og legg áherslu á að
aðskilja eigi trúmál og stjórnmál.
Hallur Guðmundsson Hver er afstaða
Flokks heimilanna til listamannalauna?
Pétur Gunnlaugsson Þetta eru
auðvitað lágar upphæðir og skipta ekki miklu
máli í hinu stóra samhengi. Ég held að það
komi alveg til greina af hálfu hins opinbera
að styðja listamenn en það á að gera með
skynsamlegum hætti, til dæmis ekki með því
að reisa steinsteypuhallir undir menningar-
starfsemi.
Óskiljanlegt andvaraleysi
Flokkur heimilanna er andvígur ESB. Pétur Gunnlaugsson segir vogunarsjóði starfa án leyfis á Íslandi. Hann sat fyrir svörum á Beinni línu
Nafn: Pétur Gunnlaugsson
Aldur: 64 ára
Staða: Sjálfstætt starfandi
lögmaður og frambjóðandi
Flokks heimilanna
Menntun: Embættispróf í
lögfræði
M
y
N
D
IR
SIG
TR
y
G
G
U
R
A
R
I