Dagblaðið Vísir - DV - 17.05.2013, Side 14

Dagblaðið Vísir - DV - 17.05.2013, Side 14
14 Fréttir 17.–21. maí 2013 Helgarblað M óttökurnar voru hlýjar þegar blaðamaður og ljós­ myndari heimsóttu hælis­ leitandann Osahon Okoro að heimili hans í Efstaleiti en þar dvelur hann í lítilli blokkar­ íbúð ásamt fleiri hælisleitendum. Okoro fæddist í Nígeríu og hefur átt viðburðaríka ævi. Í tæp tvö ár hefur hann dúsað á Íslandi og velkst um í kerfinu í fullkominni óvissu um örlög sín. Heilsu hans hefur hrakað og á hann sækja sársaukafullar minningar úr fortíðinni. Okoro rakti ævisögu sína fyrir DV og sagði frá upplifun sinni af Íslandi og meðferð hælisleit­ enda. Hann er á meðal þeirra millj­ óna flóttamanna sem leita hælis í ríkj­ um sem kenna sig við frelsi, jafnrétti og mannúð, en verða fyrir sárum von­ brigðum. Skipulagði mótmælaaðgerðir Osahon Okoro fæddist í Nígeríu árið 1981 og ólst upp í fátæku þorpi. Ung­ um að aldri sveið honum sú mis­ skipting og kúgun er ríkir í landinu. „Við borum og borum eftir olíu en almenningur fær ekkert fyrir sinn snúð. Allur hagnaðurinn rennur í hendur fámennrar valdaelítu í norð­ urhluta landsins,“ segir Okoro. „Við ættum að vera eitt ríkasta land í heimi þökk sé þeim auðlindum sem okkur voru gefnar, en í staðinn erum við í hópi fátækustu ríkjanna.“ Árið 2008 tók Okoro þátt í skipulagningu stór­ tækra mótmælaaðgerða í heima­ byggð sinni. Tíu dögum síðar réðst skuggaher, handgenginn stjórnvöld­ um, inn í þorpið og leitaði logandi ljósi að höfuð paurunum á bak við aðgerðirnar. „Þeir skutu fólk til bana og brenndu hús, grímuklæddir menn sem sýndu enga miskunn.“ Okoro segir mennina hafa ráðist inn til fjöl­ skyldu hans í leit að honum og stjakað við heilsuveilum föður hans. „Heilsu hans hrakaði í kjölfarið og hann dó skömmu síðar,“ segir Okoro og sjá má að frásögnin tekur mikið á hann. Með titrandi röddu lýsir hann því hvernig fjölskylda hans hafnaði honum og kenndi honum um dauða föður síns. „Á tímabili fannst mér eins og ég væri einn í heiminum.“ Hræðileg höfnunartilfinning Þegar hér var komið sögu flúði Okoro til Líbíu og þaðan til Ítalíu. Þar dvaldi hann frá 2008 til 2011 við hörmulegar aðstæður. „Kerfið á Ítalíu er ömurlegt. Ef manni er synjað um hæli þarf maður að kaupa sér lögfræðiþjón­ ustu fyrir morð fjár og áfrýja málinu til dómstóla. Á meðan á þessu stendur hefur maður ekki rétt til eins né neins og það er komið fram við mann eins og búfénað,“ segir Okoro sem var synj­ að um hæli á Ítalíu. Í kjölfarið sneri hann aftur til Nígeríu þar sem hann fór huldu höfði næstu mánuðina. „Ég fann fyrir hræðilegri höfnunartilfinn­ ingu og átti engan að. En það var þá sem ég kynntist manni sem bað mig um að taka að mér ýmis verkefni fyrir sig.“ Okoro segir að í grunninn hafi verk­ efnin snúist um tölvupóstsendingar og annað. Fljótlega hafi hann hins vegar áttað sig á að hann var að vinna fyrir herská samtök, MEND, sem heyja vopnaða baráttu gegn valdaelítunni í Nígeríu. Aðgerðir samtakanna beinast ekki aðeins gegn nígerískum stjórn­ völdum heldur einnig erlendum auð­ hringjum og olíufyrirtækjum á borð við Shell, Chevron og Exxon Mobil. „Rotnandi í fangaklefa“ Skömmu eftir að Okoro komst í kynni við samtökin var innanbúðarupplýs­ ingum um þau lekið til lögreglunnar. Sem nýgræðingi í MEND féll grunur­ inn á hann og tók hann strax að ótt­ ast um líf sitt. „Ég rændi fé frá samtök­ unum og notaði það til að kaupa mér falsað vegabréf. Svo flúði ég til Frakk­ lands og þaðan til Danmerkur.“ Loks ákvað hann að leita hælis á Íslandi. „Ég gaf mig fram á flugvellinum um leið og ég kom hingað,“ segir Okoro sem var handtekinn og yfirheyrður. „Ég gaf þeim upp nafn mitt og þjóð­ erni, sagði frá fortíð minni og benti lögreglunni á að ég hefði sótt um hæli á Ítalíu. Þar ættu þeir að geta nálgast upplýsingar um mig.“ Þremur dögum síðar ræddi hann við lögmann sem sagði honum að málið færi fyrir dómstóla vegna þess að hann hefði komið ólöglega til landsins. Hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald í tvær vikur, en að þeim liðnum var honum sagt að lögreglan þyrfti að ræða við Interpol. „Ég var búinn að sitja rotnandi í fangaklefa í tvær vikur, hafði sagt lögreglunni alla mína sögu og komið hreint fram. Eftir þetta sat ég í gæsluvarðhaldi í viku til viðbótar,“ segir Okoro sem tók nú að þjást af þunglyndi. Glímir við veikindi Í umsögn frá sálfræðingi kemur fram að Okoro taki lyf til að geta sofnað og fái reglulega martraðir. Þar kemur jafnframt fram að sársaukafullar minningar ásæki hann auk þess sem hann glími stöðugt við höfuðverk. Hann kennir fangelsisvistinni sérstak­ lega um heilsuleysi sitt. „Í fangelsinu var ég sviptur einu því dýrmætasta sem nokkur maður á, heilsunni. Ég er 32 ára, andskotinn hafi það, og háður alls konar lyfjum.“ Samkvæmt sjúkdómsgreiningu sem DV hefur undir höndunum er Okoro með of háan blóðþrýsting auk þess sem óm­ skoðun sýndi þykknaðan vinstri slegil í hjarta. Við þessu tekur hann lyf sem hafa ýmsar hliðarverkanir og að sögn Okoro hefur hann glímt við öndunar­ erfiðleika og alls kyns verki síðustu mánuði. Útlit er fyrir að hann þurfi að taka lyf við háum blóðþrýstingi það sem eftir er ævinnar. „Fit er fangelsi“ Eftir að Okoro losnaði úr gæsluvarð­ haldi var hann sendur á gistiheimilið Fit á Reykjanesi þar sem honum var gert að bíða ásamt öðrum hælisleit­ endum eftir að Útlendingastofnun afgreiddi umsókn hans. „Fit er fang­ elsi fyrir mér,“ segir hann. „Þar situr fólk með hendur í skauti og bíð­ ur milli vonar og ótta, hrætt um að verða sent út í rauðan dauðann. All­ ir verða þreyttir og ruglaðir. Stund­ um brjótast út slagsmál því fólki líð­ ur skelfilega.“ Eins og venjan er synjaði Útlendingastofnun Okoro um hæli á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, en hún heimilar ríkjum að endur­ senda flóttamenn til þess lands þar sem þeir sóttu fyrst um hæli. Því ákvæði hefur Útlendingastofnun beitt ótal sinnum undanfarin ár og jafnvel sent hælisleitendur til Grikk­ lands, Ítalíu eða Möltu þar sem að­ stæður flóttamanna eru hörmulegar. Því skal haldið til haga að Dyflinnar­ reglugerðin skuldbindur ekki ríki til að endursenda flóttamenn. Björg Thorarensen lagaprófessor hefur deilt á notkun íslenskra yfirvalda á reglu­ gerðinni og fullyrt að sjálfvirk endur­ sending hælisleitenda til annarra að­ ildarríkja sé óásættanleg. Okoro er á sömu skoðun: „Ísland er óralangt frá heimkynnum flestra flóttamanna svo stjórnvöld geta alltaf notað Dyflinnar­ reglugerðina til að hrekja fólk burt. Alltaf.“ „Ekki misskilja mig, Ísland er að mörgu leyti gott. En þegar kemur að því að rétta aðkomu- fólki hjálparhönd þá mættu þið gera svo miklu miklu betur. Kastað burt eins og hverju öðru rusli Jóhann Páll Jóhannsson blaðamaður skrifar johannp@dv.is n Aðgerðasinna synjað um hæli n Barðist gegn olíufyrirtækjum og spilltum stjórnvöldum „Fit er fangelsi“ „Þar situr fólk með hendur í skauti og bíður milli vonar og ótta, hrætt um að verða sent út í rauðan dauðann,“ segir Okoro um gistiheimilið Fit á Reykjanesi. Með háan blóðþrýsting Osahon Okoro er há ður ýmsum lyfjum. Hann er með of háan blóðþrýsting, hjartveikur og þjáist af þunglyndi.

x

Dagblaðið Vísir - DV

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.