Dagblaðið Vísir - DV - 31.03.2010, Side 53
Þetta er ákveðin spennufíkn. Að vilja tak-ast á við eitthvað sem maður hefur ekki alveg próf á. Ég hef alltaf verið þannig séð tilbúinn til að taka áhættu,“ segir
Andri Snær Magnason rithöfundur þegar blaða-
maður spyr hvers vegna ferill hans sé svona fjöl-
breyttur. Kannski orðið undarlegur eigi betur við.
Eða ætli það séu margir rithöfundar sem á
þrítugasta og sjöunda aldursári áttu fimmtán ára
ritferil að baki sem samanstendur af einni skáld-
sögu, tveimur ljóðabókum þar sem önnur var
gefin út af matvöruverslun, einu smásagnasafni,
einni barnabók, einu fræðiriti, fjórum leikritum,
einu útvarpsleikriti, ritstjórn bókar sem ekki var til
sölu og mátti stela? Þá er ónefnd leikstjórn einn-
ar heimildamyndar, geisladiskur sem Andri gerði
með hljómsveitinni múm, geisladiskur með upp-
tökum á íslenskum þjóðlögum, öll þau leikrit sem
gerð hafa verið eftir bókum hans og örugglega eitt-
hvað fleira sem blaðamaður hefur farið á mis við.
„Mér hefur fundist jafnvel erfiðara að fylgja eft-
ir einhverju sem hefur gengið vel, að endurtaka
það. Maður svíkur lesendur sína sem er kannski
eina leiðin til þess að halda í þá. Gera ekki það sem
þeir ætlast til af manni. En maður getur svo sem
ekki farið endalaust í allar áttir þannig að ég hef
þetta kannski einhvern fimmtán ára hring og fer
því að byrja aftur á honum,“ segir Andri. Hann sit-
ur við borð úti í horni á Kaffivagninum, þessu sem
er næst höfninni, með gráa fartölvu fyrir framan
sig. Sjóararnir sem sækja staðinn að staðaldri eru
ekki margir sem stendur þennan mánudagsmorg-
un. Kannski kuldinn úti hafi þar áhrif. Eða tíma-
setningin. Það er ekki árla morguns og það er ekki
hádegi. Morgunhanarnir kannski farnir og hádeg-
isspjallararnir ekki mættir.
„Svo sagði mér einhver fyrir ekki löngu að
þetta væri að verða gott, maður mætti ekki vera að
dreifa kröftunum svona og vera síðan líka aktívisti
og eiga fjögur börn. Þá komu þessi Kairos-verð-
laun sem voru verðlaun fyrir að hafa gert akkúrat
þetta,“ heldur Andri áfram og hlær.
GAFST UPP OG SKRIFAÐI METSÖLUBÓK
Kairos-verðlaunin fékk Andri afhent í Hamborg
nýverið frá stofnun sem kennd er við Alfred
Toepfer og hefur styrkt og verðlaunað listamenn
í Þýskalandi frá árinu 1931. Meðal styrkþega eru
Nóbelsverðlaunahafar á borð við Imre Kertesz
og Harold Pinter, myndlistarmennirnir Ólafur
Elíasson og David Hockney og danshöfundur-
inn Pinu Bausch. Með Kairos-verðlaununum var
fjölmörgum flokkum verðlauna steypt saman í
ein stór verðlaun sem eru nú með þeim stærstu
sem listamönnum hlotnast. Verðlaunaféð nemur
75 þúsund evrum, eða þrettán milljónum króna.
Athöfnin fór fram í fullum 1200 manna sal
þar sem dagskráin, sem tók einn og hálfan tíma,
snerist öll um Andra og hans verk. „Þá reyndi
á hæfileikann til að halda sér á jörðinni,“ segir
hann og hlær.
Verðlaunin segir hann hugsanlega hjálpa sér
upp á tengsl og sambönd að gera í listaheimin-
um. „Þessi heimur er oft þannig að menn horfa
til svona viðurkenninga þegar kemur að stóru sí-
unni. Ég á eftir að sjá hvaða dyr þetta opnar, en
peningurinn hjálpar manni auðvitað til að ein-
beita sér að verkum og til að hafa efni á því að
velja sér stífar það sem maður vill gera. En pen-
ingurinn skrifar samt ekki verkin.“
En hvernig fer þetta saman, að hoppa úr einu
verkefni í annað sem er yfirleitt nokkuð eða al-
gjörlega ólíkt því síðasta?
„Bara ágætlega. En þegar ég var að skrifa
Draumalandið þurfti ég að þvinga mig til að
gera það sem mér fannst að ég ætti að gera. Mér
fannst að maður ætti að skrifa skáldsögu, það
ætti að vera kominn tími á það samkvæmt ferl-
inu. Núna kæmi maður með Höll minninganna,“
segir Andri og skellir upp úr.
„En svo var eins og eitthvað sækti svo fast á
mann, til dæmis stóriðjumál og fleira í samfélag-
inu. Ég var alltaf að svíkjast um, að hafa áhuga á
og fylgjast grannt með þeim málum, og reyna um
leið að klessast einhvern veginn í skáldsagna-
skrifum. Svo ákvað ég bara að gefast upp. Ég verð
líka að vera samferða því sem ég er að hugsa. Ef
maður hefur mikinn áhuga á einhverju, og hefur
einhvern hæfileika til að miðla hlutum, þá hlýtur
maður að geta verið samferða því sem maður er
að hugsa. Ég hef leyft mér hliðarspor og að fljóta
dálítið, og ég hef komist upp með það hingað til.“
ÞRÁIR ALLTAF EINSEMDINA AFTUR
Nýjasta afurð Andra er leikritið Eilíf óhamingja
sem frumsýnt var í Borgarleikhúsinu um síðustu
helgi. Verkið skrifaði hann með Þorleifi Arnars-
syni sem leikstýrir jafnframt uppfærslunni en þeir
unnu einnig saman að uppsetningu leikritsins Ei-
líf hamingja á sama stað fyrir þremur árum.
„Upphaflega hugmyndin var að þetta væru
sömu persónur og voru í hinu leikritinu, að þær
væru núna farnar að vinna hjá gráu ríkisfyrirtæki,
en við fundum enga löngun til að skrifa það. Þá
fórum við að velta fyrir okkur öllum þessum gríð-
arlegu tilfinningum í samfélaginu og hvernig hægt
væri að miðla þessu inn á svið. Svo fékk maður
líka líkamleg höfnunareinkenni af því að fjalla um
samtímann af því að hann er svo þrúgandi, það er
svo mikið fjallað um hann alls staðar og svo mik-
il læti.
Við enduðum á að skapa karakterinn dr. Matt-
hildi sem hefur í raun réttlætið sín megin og er
með fjórar persónur í meðferð sem hún telur vera
fulltrúa fyrir það sem gerðist. Og hún álítur að hið
innra endurspegli hið ytra, persónulegir brestir
verði brestir fyrirtækja og þjóðar sem endurspegli
síðan bresti heimsins og hún reynir því að leysa úr
þeim alla brestina. Þannig má segja að dr. Matt-
hildur sé með jafnmikið mikilmennskubrjálæði í
því að reyna að finna lausn fyrir heiminn og útrás-
arvíkingarnir voru með í að reyna að sigra heim-
inn.“
Andri segir verkið því kannski vera stúdíu um
réttlæti og pælingu um hvort við Íslendingar vilj-
um réttlæti. „Og ef við viljum réttlæti, viljum við
þá réttlæti og hefnd? Eða réttlæti, hefnd og niður-
lægingu? Eða réttlæti, hefnd, niðurlægingu og út-
skúfun? Hvað er það sem við viljum fá út úr þessu?
Þetta er allt leikið á gráa svæðinu, það eru all-
ir einhvern veginn sekir og saklausir og svo snýst
þetta sitt á hvað. Svo höfum við náttúrlega horft
upp á það í samfélaginu að réttlætið er alltaf að
bregðast okkur. 95 prósent nauðgunarmála fara
ekki í gegn og verða í raun bara enn þá meiri nið-
urlæging fyrir fórnarlambið. Eins virðast 95 pró-
sent þess sem okkur finnst blasa við að séu efna-
hagsbrotamál vera lögleg.“
Andri skýrir þessa ásókn sína í að setja upp
leiksýningu með hópi fólks, vinna að kvikmynda-
gerð og fleiri verkefnum sem yfirleitt teljast óhefð-
bundin fyrir rithöfund á frekar einfaldan hátt.
„Þetta er ákveðinn flótti frá einsemd höfundarins.
Þess vegna er ég opinn fyrir samstarfi eins og með
Þorleifi og Þorfinni [Guðnasyni, meðleikstjóra
Draumalandsins].
Á einsemdin sem fylgir rithöfundarstarfinu illa
við þig?
„Nei, því síðan fer ég að þrá hana aftur. Þá læsi
ég dyrunum og eyði kannski tveimur árum algjör-
lega á kafi sjálfur. Það er eiginlega sá tími sem er
kominn núna. En það er þetta jafnvægi sem mað-
ur þarf að ná.“
PLATAÐI JÓN ÁSGEIR
Fyrsta bók Andra var ljóðabókin Ljóðasmygl og
skáldarán sem kom út árið 1995 undir merkjum
sjálfsútgáfuforlagsins Nykurs og féll vel í kramið
hjá ljóðaunnendum. Árið eftir gaf verslanakeðjan
Bónus svo út bókina Bónusljóð sem seldist í miklu
magni í verslununum. Að vissu leyti má því segja
að Andri hafi byrjað ferilinn með hjálp Jóhannes-
ar í Bónus árið 1996.
„Já, og hann gíraði milljónirnar sem hann
græddi á því og þandi út veldið,“ segir Andri og
hlær. „Nei, ég veit nú ekki hvort hann hafi grætt
mikið á því. En það verða allir að bera ábyrgð og
viðurkenna sinn þátt í öllu ruglinu,“ bætir Andri
við og brosir glettinn.
Hvernig tilfinning er það að hafa nánast haf-
ið sinn feril undir verndarvæng þess sem seinna
varð Baugsveldið?
„Ég gerði samninginn við Jón Ásgeir [Jóhann-
esson, fyrrverandi forstjóra Baugs] og þetta var
sami samningur og gerður var við framleiðanda
Bónusdjússins. Þar stóð að ef neytandi yrði fyrir
skaða af völdum vörunnar væri framleiðandinn
ábyrgur. En hann hafði aldrei gefið út bók áður og
spurði mig hvað höfundur fengi mörg prósent af
ágóðanum. Ég sagði fimmtíu prósent,“ segir Andri
og hlær en eðlilegt er að höfundar fái 20 til 25 pró-
sent af söluandvirði bóka, að minnsta kosti þegar
um fyrstu bækur þeirra er að ræða.
Gleypti hann við því?
„Já, já,“ segir Andri og hlær enn. „Hann var líka
í símanum þegar við vorum að ganga frá samn-
ingnum og leyfði mér að heyra í „speaker“ þeg-
ar maðurinn á hinum endanum byrjaði að hlæja
þegar hann sagði honum að hann væri að fara að
gefa út ljóðabók.“
BJÓ TIL AFMÆLISGJAFIR ÚR DJÚSFERNUM
Andri segir uppátækið auðvitað fyrst og fremst
gjörning. „Þetta var smekklaus gjörningur sem
snerist um það að selja sig. Að brjóta allar óskráðu
reglurnar um það hvernig ljóðskáld eigi að haga
sér. Mér finnst þessi gjörningur hafa lifað mjög
vel. En Bónus hefur náttúrlega allt aðra merkingu
en ´96. Þá var verslunin bjargvættur alþýðunnar
en það er aldeilis breytt í dag.“
Hvernig kom það til að þú fórst í þetta samstarf
með Bónusfeðgum?
„Þetta var í rauninni brandari, bara hugmynd
sem ég fékk þegar ég var námsmaður að borða
Bónusbrauð og drekka Bónusdjús og Bónus Kóla.
Ísskápurinn minn var fullur af ódýrustu, útþynntu
Bónusvörunum. Svo þegar vinir mínir áttu afmæli
klippti ég niður Bónusdjúsfernur, skrifaði ljóð á
þær og gaf vinum mínum í afmælisgjafir. Ljóðin
komu því eftir að ég var búinn að gera kápuna eins
og öll góð ljóð gera,“ segir Andri hlæjandi.
„Þegar ég var búinn að gera nokkrar prótó-
týpur og lesa ljóðin upp fyrir vini mína ákvað ég
bara að taka slaginn og sjá hvort ekki væri hægt
að framleiða þetta eins og Bónusvörurnar og selja
svo í Bónusbúðunum. Og merkilegt nokk þá tóku
þeir vel í þetta. Ef ég væri myndlistarmaður þá
væri þetta í raun konseptlistaverk.
Á þessum tíma voru allir að selja sig, íþrótta-
mennirnir voru með Pepsi-merkið á bringunni
og Carlsberg á rassinum, og eru kannski enn. En
ljóðskáld átti að vera heilagt. Viðbrögðin voru
mjög merkileg af því að þetta hafði margar merk-
ingar. Annars vegar var ljóðið að stíga af stallin-
um og koma til alþýðunnar, en um leið var það að
koma til markaðarins.“
LJÓÐ FYRIR STARFSFÓLK FM 957
Og bókin seldist vel.
„Já, hún seldist mjög vel, plammaði sér í efsta sæti
metsölulista og féll vel í kramið. En ég var þræl-
stressaður yfir að hún færi öfugt ofan í fólk og ég
væri þar með að stimpla mig út úr bókmennta-
heiminum. Sama ár kom smásagnasafnið mitt út
hjá Máli og menningu [Engar smá sögur] og vöktu
enga athygli. Þannig var gaman að átta sig á hvern-
ig markaðurinn virkar því smásögurnar voru list-
rænt séð betri, en Bónusljóðin voru ekta fóður fyr-
ir vélina. Umsjónarmenn morgunútvarpsins á FM
957 gátu lesið Bónusljóð á milli laga en þeir gátu
ekki einu sinni sagt frá því að Gyrðir Elíasson eða
Þorsteinn frá Hamri hefðu gefið út mjög góða bók
á sama tíma. Þetta er því dálítið merkilegt hvernig
þú hlammar þér upp fyrir í athyglinni með svona
bók. Hún varpaði bæði skugga á bestu bækurnar
þetta ár og hina bókina mína.“
Komst Jón Ásgeir að því hvaða prósentu af
söluhagnaði venjan er að höfundar fái og fór í hart
við þig?
„Nei, nei. Þetta var líka samningur og þú mátt
gera hvaða samning sem þú vilt. Bókin kostaði
líka bara 399 krónur og ég græddi því mikið minna
á henni en hefði verið hægt. Það var hluti af fagur-
fræðinni að hafa hana svona ódýra. En með því að
gera grín að markaðnum græddi Jón Ásgeir samt
á henni og fékk heilmikla athygli út á þetta fyrir
Bónus.“
FÉKK 80 PÓSTA Á DAG
Önnur gríðarlega vinsæl bók eftir þig, Drauma-
landið, kom út fyrir réttum fjórum árum, í mars
2006. Fyrir utan skipsfarmana sem hún seldist í
sögðu sumir málsmetandi menn og konur þetta
vera eina merkilegustu og áhrifamestu bók sem
komið hefði út hér á landi í langan tíma, ef ekki
frá upphafi bókútgáfu hér á landi. Hvernig upp-
lifðirðu fyrstu dagana og vikurnar eftir að hún
kom út?
„Þetta er eins og að lenda í smá stormsveip.
Bara að fá áttatíu tölvupósta á dag, skilurðu ...“
Andri þagnar í andartak og segir svo: „Ef þú eyð-
ir þremur mínútum í að lesa hvern póst þá fara
fjórar klukkustundir á dag bara í að lesa póstana
sem þú færð senda vegna bókarinnar. Ég sagði
við konuna mína vikuna áður en hún kom út að
nú væri líf okkar fyrir Draumalandið. Og núna
erum við í lífinu eftir hana.
Auðvitað er það ofsalega jákvætt að hún skyldi
fá svona mikið smit af því að það hefði verið mjög
leiðinlegt ef þjóðin hefði ekki haft neinn áhuga á
henni og hún hefði ekki hreyfst. Að fólk taki við
svona verki og lesi það, pæli í því og skrifi um það
er mjög jákvætt. Ég held samt að ég hafi náð að
halda mér nokkurn veginn á jörðinni.“
Þú keyptir þér í það minnsta ekki einkaþotu
eða hélst upp á afmælið þitt á Tortola.
„Nei, ég gerði það ekki. Og ég veit reyndar
ekki fyrir víst hvort mér hafi tekist að halda al-
gjörlega sjó, ég ímynda mér það alla vega. En
maður reyndi að halda ákveðinni fjarlægð, að
vera aðeins kaldur. En í rauninni var þetta mjög
skemmtilegt. Í smá tíma á eftir var maður líka fyr-
irlesari og fór um allt land með einhvers konar
fyrirlestra sem var mjög gaman.“
HLEGIÐ AÐ GEIMFERÐAMIÐSTÖÐ
Þú varst með alls kyns hugmyndir og skarp-
ar pælingar um ýmislegt í íslensku þjóðfélagi í
Draumalandinu, en ekki aðeins gagnrýni á stór-
iðju eins og stundum mátti ætla af umræðunni.
Þar á meðal varstu með uppástungur og ábend-
ingar um sóknarfæri í íslensku atvinnulífi, til
dæmis markaðssetingu á landbúnaðarvörum í
tilteknum landshlutum á sértækan og söluvæn-
legan hátt ef ég man rétt. Hefurðu séð eitthvað
af þessu verða að veruleika? Og urðu þessar hug-
myndir jafnvel til þess að einhverjir sem hittu þig
á fyrirlestraferð þinni um landið vonuðust eftir
lausnum frá þér við hinum ótrúlegustu hlutum?
„Það kom alveg fyrir að fólk hélt að maður
gæti svarað einhverju absúrd. En í rauninni var
það frekar þannig að fólk tæki minni ádeilu og
hugmyndum þannig að það segði: „Já, já, hann
vill að við stofnum bara Geimferðamiðstöð Ís-
lands,“ og hló svo,“ segir Andri.
„Eða ef það var vandamál einhvers stað-
ar af því tagi að það var ekki á einn einstakling
leggjandi að koma með svörin, og þá kom upp
umræðan sem hljómar oft, þetta „já já, ekki er
hann með svar við þessu“. Fólk misskildi þannig
grunnpælinguna í þeirri heimspeki sem maður
var að reyna að leggja fram. Og bókin er í raun
um að maður hefur aldrei öll svörin. Þau liggja
einhvers staðar, en það er ekki hægt að stilla ein-
hverjum upp við vegg og segja: „Ertu ekki með
svarið?“
Maður sér samt í þessari kreppu núna að
margt sem maður var skrifa um í bókinni hef-
ur sannað sig. Mér finnst hún hafa orðið hluti af
þeirri flóru ákveðinnar menningar sem við sjá-
um til dæmis í Hugmyndahúsi háskólanna að
fólk tekur þátt í, það gengst alveg inn í þessa hug-
myndafræði, án þess að ég sé að segja að hún sé
frá mér komin. Margt af þessu bjó í grasrótinni og
ég held að þetta hafi linað kreppuna mjög mik-
ið. Þýskur blaðamaður sagði til dæmis við mig
nýlega að honum fyndist merkilegt hvernig við
brugðumst við ástandinu, að við hefðum ekki
bara farið heim og verið þar heldur væri mikil fé-
lagsleg virkni sem ég held að hafi minnkað áfall-
ið margfalt.“
„ÓTRÚLEGUR TRYLLINGUR Í GANGI“
Varðandi hinn hluta spurningarinnar segist
Andri vita að Draumalandið hafi haft bein áhrif
á fólk og ýtt því út í eitthvað gott sem annars
hefði kannski ekki orðið. „Ég veit af hlutum sem
eru framleiddir á Íslandi vegna þess að einhver
las bókina. Sá sem framleiðir þá hefur sagt mér
það berum orðum, án þess að ég sé að krefjast
heiðurs af einu eða neinu. Mér finnst það mjög
merkilegt, að maður geti skrifað einhvern texta
sem hafi svona bein áhrif á veruleika fólks.“
Ein vísbending þess að Draumalandið hafði
raunveruleg áhrif var að allir stjórnmálaflokkarn-
ir, kannski fyrir utan einn, sem voru í framboði
fyrir kosningarnar rúmu ári eftir útkomu hennar
voru með umhverfismál ofarlega á stefnuskránni,
töluðu ekki jafndigurbarkalega um stóriðju sem
stóru lausnina í atvinnumálum landsbyggðar-
innar og reyndu þannig í það minnsta að sýn-
ast grænir á yfirborðinu í aðdraganda kosning-
anna. Blaðamanni leikur forvitni á að vita hvort
Andra finnist ekki allt vera komið í sama farið
núna eftir að kreppan skall á. Hvort kunnuglegur
málflutningur hafi
ekki náð yfirhönd-
inni á ný í þá veru
að tafir á stóriðju-
VIÐTAL 31. mars 2010 MIÐVIKUDAGUR 53
FRAMHALD
Á NÆSTU
SÍÐU
VÆRI FRÁSKILINN
Maður svíkur les-endur sína sem er kannski eina leiðin til
þess að halda í þá.