Gripla - 01.01.2001, Page 10
8
GRIPLA
Lykilatriði í útleggingum Ágústínusar var að í öndverðu hefðu Adam og
Eva haft milliliðalaust samband við guð í krafti orðs eða sýnar sem innra með
þeim bjó. Þá sýn hefðu þau hins vegar misst er þau bitu í eplið og fyrirgerðu
sinni paradísarvist.3 Fyrir vikið hefðu þau, og síðar mannkyn allt, þurft að
reiða sig einvörðungu á tungumá\ og önnur efnisleg tákn sem skilningarvit
þeirra gátu numið. Syndafallið hefði þar með ekki aðeins haft í för með sér að
maðurinn var sendur í útlegð úr paradís heldur og að hann var útlægur ger frá
upprunalegu máli sínu og áskapaðri þekkingu á hinu heilaga orði (Augustinus
1998:2. XXI, 32; 2. IV, 5).
Skilgreiningar á táknum setti Ágústínus fram í ýmsum rita sinna en einna
markverðastar eru þær í verki hans De doctrina Christiam eða Um kristm kenn-
ingu. „Tákn er hlutur sem fær okkur til að hugsa um eitthvað handan áhrifanna
sem hluturinn sjálfur hefur á skilningarvitin ...“4 (Augustinus 1962a:2. 1,1,
þýð. höf.) segir hann þar og eykur síðar við þá hugsun svofelldum orðum:
Það er ... engin ástæða fyrir okkur til að tákna eða láta frá okkur tákn
nema til að leiða í ljós og yfirfæra í huga annars það sem gerist í þeim
huga sem miðlar tákninu5 (Augustinus 1962a:2. II, 3, þýð. höf.).
Tákn Ágústínusar eru m.ö.o. tvíþætt — þau eru annars vegar úr efni og hins
vegar skiljanleg — og þau eru liðir í boðmiðlun: Þau skulu flytja merkingu frá
einum huga til annars. Fyrir syndafallið voru tengsl hinna tveggja þátta tákns-
ins slík að efnið var gagnsær miðill merkingarinnar. En eftir að Adam og Eva
höfðu gætt sér á eplinu, komst Ios á táknþættina tvo; þegar manninum var
byrgð hin innri sýn og táknin urðu einvörðungu háð hinum synduga líkama,
tóku þau svip af margræðni og ógegnsæi efnisheimsins er þau birtust skiln-
ingarvitunum. Og við það sat þar til Kristur kom til sögu en hann er „einstakt
tákn þar sem bæði sonur, sem táknmynd, og faðir, sem táknmið" mynda sam-
an „eilífan sannleika" (Vance 1986:190). Ágústínus var þeirrar skoðunar að
3 í umfjöllun um kenningar Ágústínusar er — auk rita hans — einkum sótt til eftirfarandi verka:
Dawson 1995:130-131; Jager 1993:52-54, 57-58 og 76-77 t.d.; Vance 1986:190-191. —
Vakin skal athygli á að Ágústínus gerir yfirleitt ráð fyrir, líkt og aðrir kirkjufeður, að karlmað-
urinn/Adam hafi staðið nær guði en konan/Eva og með málinu hafi þeim frá öndverðu verið
skipað í hlutverk gerandans og viðfangsins; Adarn gefur t.d. dýrunum og seinna Evu nafn.
4 Á latínu hljóðar textinn svo: „Signum est enim res praeter speciem, quant ingerit sensibus,
aliud, aliquid ex se faciens in cogitationem uenire ..." — Um táknskilning Ágústínusar og
breytingar á honum, sjá t.d. Todorov 1995:36-59.
5 Á latínu hljóðar textinn svo: „Nec ulla causa est nobis significandi, id est signi dandi, nisi ad
depromendum et traiciendum in alterius animum id, quod animo gerit, qui signum dat.“